Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 220  —  218. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.


Frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 frá 30. apríl 2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn:
     a.      reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 frá 26. nóvember 2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIP),
     b.      reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2340 frá 14. desember 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta að því er varðar gildistökudag hennar,
     c.      framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1904 frá 14. júlí 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 að því er varðar afurðaíhlutun,
     d.      framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/653 frá 8. mars 2017 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIP) með því að mæla fyrir um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykilupplýsingaskjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té,
     e.      framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1866 frá 3. júlí 2019 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2017/653 til að laga umbreytingarfyrirkomulag framleiðenda pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (PRIIP), sem bjóða hlutdeildarskírteini í sjóðum eins og um getur í 32. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sem undirliggjandi fjárfestingarmöguleika, að framlengdu undanþágutímabilinu sem um getur í þeirri grein.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 frá 30. apríl 2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I) og fella inn í samninginn:
     a.      reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 frá 26. nóvember 2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIP) (sbr. fskj. II),
     b.      reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2340 frá 14. desember 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta að því er varðar gildistökudag hennar (sbr. fskj. III),
     c.      framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1904 frá 14. júlí 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 að því er varðar afurðaíhlutun (sbr. fskj. IV),
     d.      framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/653 frá 8. mars 2017 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIP) með því að mæla fyrir um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykilupplýsingaskjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té (sbr. fskj. V),
     e.      framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1866 frá 3. júlí 2019 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2017/653 til að laga umbreytingarfyrirkomulag framleiðenda pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (PRIIP), sem bjóða hlutdeildarskírteini í sjóðum eins og um getur í 32. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sem undirliggjandi fjárfestingarmöguleika, að framlengdu undanþágutímabilinu sem um getur í þeirri grein (sbr. fskj. VI).
    Þar sem innleiðing fyrrnefndrar gerðar krefst breytinga á lögum var ákvörðun nr. 67/2020 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, „Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins“, kemur fram að frá árinu 1994 til ársloka 2016 hafi Ísland tekið upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Efnistök þeirra gerða sem lagt er til að verði felldar inn í EES-samninginn.
    Með reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 er lögð sú skylda á herðar þeirra sem veita ráðgjöf um eða selja pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta að semja og gera almennum fjárfestum tiltækt lykilupplýsingaskjal (e. Key Information Document). Markmiðið er að auðvelda almennum fjárfestum að bera saman lykilupplýsingar ólíkra vara og skilja séreinkenni þeirra, meðfylgjandi áhættu og kostnað. Í lykilupplýsingaskjali skal draga fram meginatriði útboðslýsingar um viðkomandi fjárfestingarvöru, svo sem heiti hennar og auðkenni framleiðanda, lýsingu á áhættu á móti ávinningi, kostnað sem tengist fjárfestingu í vörunni og upplýsingar um hvernig og við hvern almennur fjárfestir getur kvartað yfir vörunni eða framleiðanda hennar. Þá ber framleiðanda vörunnar að kynna lykilupplýsingaskjalið fyrir almennum fjárfesti áður en ákvörðun er tekin um viðskipti. Með reglugerðinni er Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni (EIOPA) veittar heimildir til að banna eða takmarka við vissar aðstæður markaðssetningu, dreifingu og sölu tiltekinna fjárfestingarafurða eða tiltekna vátryggingastarfsemi. Í tilviki Íslands fer eftirlitsstofnun EFTA með það vald, í samræmi við þá lausn sem ákveðin var í tengslum við upptöku stofnreglugerðar EIOPA í EES-samninginn.
    Reglugerð (ESB) 2016/2340 er breytingarreglugerð við reglugerð (ESB) 1286/2014 sem frestaði gildistöku reglugerðarinnar innan ESB til 1. janúar 2018.
    Framseld reglugerð (ESB) 2016/1904 varðar nánari útfærslu á heimildum eftirlitsstofnana til afurðainngripa samkvæmt reglugerð (ESB) 1286/2014, framseld reglugerð (ESB) 2017/653 varðar tæknistaðla við ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 1286/2014, framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1866 felur svo í sér breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2017/653 er varðar tæknistaðla í tengslum við ákvæði reglugerðar (ESB) 1286/2014.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Áformað er leggja fram frumvarp á haustþingi til innleiðingar reglugerðar (ESB) 1286/2014 í íslenskan rétt með tilvísunaraðferð. Í frumvarpinu verður að finna beinar eftirlits- og rannsóknarheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA gagnvart framleiðendum pakkaðra og vátryggingatendra fjárfestingarafurða, í samræmi við þá lausn sem ákveðin var í tengslum við upptöku stofnreglugerða evrópsks eftirlitskerfis á fjármálamarkaði, sbr. þingsályktun nr. 64/145 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (evrópskar reglur um fjármálaeftirlit). Þá mun frumvarpið fela í sér heimild ráðherra og Seðlabanka Íslands til að setja reglugerðir og reglur sem innleiða munu ákvæði framseldra reglugerða (ESB) 2016/1904, (ESB) 2017/653 og (ESB) 2019/1866.

5. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en taka ekki gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 frá 26. nóvember 2014 var send utanríkismálanefnd til samræmis við framangreindar reglur. Í bréfi frá utanríkismálanefnd Alþingis, dags. 4. desember 2019, kemur fram að nefndin hafi fjallað um gerðina og ekki hafi verið gerðar athugasemdir við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.

Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 frá 30. apríl 2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0220-f_I.pdf


Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 frá 26. nóvember 2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIP).


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0220-f_II.pdf


Fylgiskjal III.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2340 frá 14. desember 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta að því er varðar gildistökudag hennar.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0220-f_III.pdf


Fylgiskjal IV.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1904 frá 14. júlí 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 að því er varðar afurðaíhlutun.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0220-f_IV.pdf


Fylgiskjal V.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/653 frá 8. mars 2017 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (PRIIP) með því að mæla fyrir um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykilupplýsingaskjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0220-f_V.pdf


Fylgiskjal VI.


Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1866 frá 3. júlí 2019 um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2017/653 til að laga umbreytingarfyrirkomulag framleiðenda pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta (PRIIP), sem bjóða hlutdeildarskírteini í sjóðum eins og um getur í 32. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1286/2014, sem undirliggjandi fjárfestingarmöguleika, að framlengdu undanþágutímabilinu sem um getur í þeirri grein.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0220-f_VI.pdf