Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1078  —  478. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga (sveitarfélög og kórónuveirufaraldur).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Sæmundsson, Björn Inga Óskarsson og Eirík Benónýsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Guðjón Bragason og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldóru Káradóttur og Helgu Benediktsdóttur frá Reykjavíkurborg, Önnu Hrefnu Ingimundardóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Baldur Sigmundsson og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Kristófer Oliversson frá Fyrirtækjum í hótel- og gistiþjónustu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Fyrirtækjum í hótel- og gistiþjónustu og Vestmannaeyjabæ.
    Með frumvarpinu eru lagðar til heimildir fyrir sveitarfélög til að víkja frá fjármálareglum sveitarfélaga til lengri tíma en nú er gert, rýmri heimildir Lánasjóðs sveitarfélaga til lánveitingar til að mæta rekstrarhalla sveitarfélaga vegna kórónuveirufaraldursins og aukið svigrúm sveitarfélaga við innheimtu fasteignagjalda. Þá eru lagðar til breytingar á sveitarstjórnarlögum sem veita sveitarfélögum svigrúm til að takast á við óvenjulegar aðstæður, svo sem vegna farsóttar eða náttúruhamfara.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndinni bárust athugasemdir og ábendingar vegna b-liðar 3. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til heimild fyrir sveitarfélög að lækka eða fella niður dráttarvexti á kröfur vegna fasteignaskatta sem lagðir eru á atvinnuhúsnæði á árunum 2020-2022 hjá gjaldendum sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins eða gjaldendum sem leigja húsnæði til rekstraraðila sem sömu skilyrði eiga við, á grundvelli reglna sem sveitarfélög setja sér. Komu þar m.a. fram áhyggjur af þeirri umsýslu sem kann að felast í því að meta hvort gjaldendur hafi orðið fyrir verulegum rekstrarörðugleikum vegna kórónuveirufaraldursins. Þá bárust nefndinni ábendingar um að þörf væri á að sveitarfélögum væri skylt að setja sér reglur um framangreinda heimild til lækkunar eða niðurfellingar dráttarvaxta auk þess sem nauðsynlegt væri að þær væru sameiginlegar fyrir öll sveitarfélög. Jafnframt barst nefndinni tillaga Sambands íslenskra sveitarfélaga að útfærslu á nefndu ákvæði frumvarpsins þar sem bætt yrði við nýjum málslið sem kvæði á um að sveitarfélögum væri heimilt að fara fram á að umsækjendur um lækkun eða niðurfellingu dráttarvaxta á kröfur vegna fasteignaskatta legðu fram vottorð frá Skattinum þar sem fram kæmi útreikningur á tekjufalli í samræmi við lög um tekjufallsstyrki, nr. 118/2020.
    Ljóst er að sú heimild sem sveitarfélögum er veitt í frumvarpinu til að lækka eða fella niður dráttarvexti á kröfur vegna fasteignaskatta er almenns eðlis og veitir sveitarfélögum verulegt svigrúm til að útfæra reglur, skilyrði og viðmið vegna slíkrar framkvæmdar. Nefndin telur þó nauðsynlegt að ítreka að eingöngu er um að ræða heimild til setningar slíkra reglna og ber sveitarfélögum því ekki skylda til þess.
    Nefndin er meðvituð um þau sjónarmið að seinkun á innheimtu fasteignaskatta og ákvarðanir um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta kunna að hafa áhrif á rekstur sveitarfélaga, til að mynda vegna aukinnar lántökuþarfar, en hafa þarf í huga að markmið slíkrar aðgerðar er að aðstoða lífvænleg fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tímabundnu tekjufalli til að halda sjó og tryggja þannig skatttekjur sveitarfélaga til lengri tíma. Er því mikilvægt að árétta að það er hlutverk sveitarstjórna að marka sér stefnu og taka ákvörðun um hvort rétt sé að setja slíkar reglur á grundvelli þess lýðræðislega umboðs sem þeim er veitt til að taka ákvarðanir um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga, sbr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga.
    Nefndin leggur áherslu á að ákveði sveitarstjórn að veita umræddar ívilnanir er jafnframt gert ráð fyrir, í ljósi þess svigrúms sem sveitarfélögum er veitt til setningar slíkra reglna, að hvert sveitarfélag leiti leiða til að framkvæmdin verði sem skilvirkust. Sem dæmi má nefna að sveitarfélag gæti tengt skilyrði þess að hljóta niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta við þau viðmið sem kveðið er á um í lögum um tekjufallsstyrki, nr. 118/2020, eins og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á. Sveitarfélag gæti þannig útfært reglur sínar með þeim hætti að umsækjandi um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta skuli afhenda sveitarfélagi staðfestingu þess efnis að hann hafi hlotið tekjufallsstyrk á grundvelli laga nr. 118/2020 til að sanna að hann eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins. Vegna tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga, um að mælt verði sérstaklega fyrir um að sveitarfélögum sé heimilt að kalla eftir gögnum frá Skattinum, er rétt að taka fram að nefndin hefur verið upplýst um að Skatturinn tilkynni ekki sérstaklega um tekjufallshlutfall fyrirtækja heldur munu eingöngu liggja fyrir upplýsingar um hvort gjaldandi uppfylli skilyrði um tekjufallsstyrk eða ekki. Að mati nefndarinnar er ekki þörf á að mæla sérstaklega fyrir um það í lagatexta að sveitarfélögum sé heimilt að kalla eftir gögnum frá Skattinum vegna tekjufallsstyrkja, enda geta sveitarfélög á grundvelli ákvæðisins kallað eftir öllum þeim gögnum sem þau telja nauðsynleg til að meta hvort umsækjandi eigi við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins.
    Þó að algengast sé að sveitarfélög setji sér sérstakar reglur um lækkun eða niðurfellingu skatta, svo sem á grundvelli 4. og 5. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og 5. og 6. gr. laga um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, þá telur nefndin rétt að taka fram að ekkert er því til fyrirstöðu að sveitarfélög myndu setja sér sameiginlegar reglur um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta, t.d. með tilstuðlan og aðstoð Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar sem aðstæður í hverju sveitarfélagi eru misjafnar telur nefndin þó mikilvægt að sveitarfélögum verði veitt endanlegt ákvörðunarvald á útfærslu þeirra reglna sem skulu gilda í hverju sveitarfélagi.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu tæknilegs eðlis. Fyrri breytingin varðar vísun til 2. mgr. 40. gr. í 1. gr. frumvarpsins. Í útskýringum í greinargerð eru talin upp þau ákvæði sveitarstjórnarlaga sem sveitarstjórn verði heimilt að víkja frá vegna neyðarástands og er í þeirri upptalningu að finna 1. og 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 1. gr. frumvarpsins er hins vegar einungis vísað til 1. mgr. 40. gr. Leggur nefndin til breytingu þessu til lagfæringar. Síðari breytingin lýtur að 4. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur til að efni hennar verði fært í bráðabirgðaákvæði við lög um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga. Breytingunni er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað „1. mgr. 40. gr.“ í a-lið 1. gr. komi: 1. og 2. mgr. 40. gr.
     2.      4. gr. orðist svo:
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. mgr. 3. gr. skal Lánasjóði sveitarfélaga heimilt að veita lán til að mæta rekstrarhalla sveitarfélaga, auk rekstrarhalla stofnana og fyrirtækja þeirra sem sinna lögmæltum verkefnum og ekki eru í samkeppnisrekstri, á reikningsárunum 2020–2022.

    Bergþór Ólason og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og skrifa undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Hanna Katrín Friðriksson skrifar undir álitið með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 18. mars 2021.

Bergþór Ólason,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson,
með fyrirvara.
Jón Gunnarsson.
Karl Gauti Hjaltason. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Vilhjálmur Árnason.