Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1327  —  266. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Bjarnadóttur og Tönju Ýri Jóhannsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Þorstein Gunnarsson frá Útlendingastofnun, Védísi Evu Guðmundsdóttur frá laganefnd Lögmannafélags Íslands, Sigurgeir Sigmundsson og Úlfar Lúðvíksson frá lögreglunni á Suðurnesjum, Ólaf Þ. Hauksson héraðssaksóknara og Karl Steinar Valsson, Sólberg Svan Bjarnason, Hildi Eddu Einarsdóttur og Birgi Sigurðsson frá ríkislögreglustjóra.
    Nefndin fékk umsagnir frá Lögmannafélagi Íslands, Persónuvernd og Útlendingastofnun.
Með frumvarpinu er lagt til að innleiða þrjár gerðir Evrópusambandsins: reglugerð (ESB) 2018/1860, (ESB) 2018/1861 og (ESB) 2018/1862 um Schengen-upplýsingakerfið. Innleiðing gerðanna þriggja er liður í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands sem þátttakanda í Schengen-samstarfinu. Í þeim eru lagðar til breytingar á upplýsingakerfinu sem ætlað er að efla samvinnu lögreglu og dómsyfirvalda aðildarríkjanna í sakamálum, efla notkun upplýsingakerfisins á landamærum við landamæraeftirlit og styrkja stefnu Evrópusambandsins um endursendingu ríkisborgara þriðju ríkja sem dvelja ólöglega á Schengen-svæðinu.

Umfjöllun nefndarinnar.
SIRENE-skrifstofa.
    Við meðferð málsins var nokkuð rætt um starfrækslu SIRENE-skrifstofu sem er miðlæg upplýsinga- og þjónustumiðstöð, sbr. 5. gr. frumvarpsins, og einkum fyrirkomulagið við sólarhringsvöktun, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.
    Meiri hlutinn telur þetta fyrirkomulag tryggja starfsemi skrifstofunnar allan sólarhringinn, alla daga vikunnar. Það liggur hins vegar fyrir að með tilkomu nýrra upplýsingakerfa sem nú eru í þróun aukast uppflettingar einnig í Schengen-upplýsingakerfinu. Þau fela óhjákvæmilega í sér fleiri smelli og aðgerðir í kjölfarið en umfang þeirra verkefna getur mögulega leitt til breytinga á núgildandi fyrirkomulagi alþjóðadeildar og fjarskiptamiðstöðvar.

Brottvísun og brottför af frjálsum vilja.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að ákvörðun um brottvísun og frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, væri ekki í fullu samræmi við regluverk Schengen-samstarfsins, þá sérstaklega tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB um sameiginlega staðla og málsmeðferð í aðildarríkjunum varðandi endursendingu ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelja þar ólöglega. Samkvæmt regluverkinu er gert ráð fyrir að frestur brottfarar af frjálsum vilja sé veittur eftir að ákvörðun um brottvísun hefur verið tekin og þannig fái viðkomandi tækifæri til þess að yfirgefa Schengen-svæðið án þess að fá endurkomubann. Samkvæmt lögum um útlendinga þarf hins vegar að veita þennan frest áður en ákvörðun um brottvísun er tekin.
    Meiri hlutinn er sammála því að þörf er á að samræma framangreint og í þeim efnum tekur meiri hlutinn fram að fyrirhugað er að bregðast við framangreindu með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (alþjóðleg vernd, brottvísanir, dvalar- og atvinnuleyfi) (602. mál á yfirstandandi löggjafarþingi), sbr. 30. gr. þess frumvarps.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Sjálfviljug brottför (14. tölul. 2. gr.).
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að skilgreining á sjálfviljugri brottför skv. 14. tölul. 2. gr. frumvarpsins væri þrengri en tíðkaðist í framkvæmd. Í skilgreiningu frumvarpsins er gert ráð fyrir að sjálfviljug heimför sé án aðkomu lögreglu og Útlendingastofnunar en í framkvæmd geta umsækjendur um alþjóðlega vernd sótt um aðstoð Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM) til Útlendingastofnunar og auk þess hefur Landamærastofnun Evrópu (FRONTEX) lagt aukna áherslu á brottför af frjálsum vilja sem valkost við þvingaða brottför. Æskilegra væri að skilgreiningin væri orðuð í samræmi við skilgreiningu 8. tölul. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB um sameiginlega staðla og málsmeðferð í aðildarríkjunum varðandi endursendingu ríkisborgara þriðja ríkis sem dvelja þar ólöglega. Meiri hlutinn tekur undir framangreint og leggur til breytingar þess efnis. Þá hefur hugtakið „sjálfviljug brottför“ verið notað nokkuð í orðræðu en einnig „sjálfviljug heimför“ en hins vegar leggur meiri hlutinn til að í stað þess verði notað hugtakið „brottför af frjálsum vilja“ (e. voluntary return) sem er í samræmi við íslenska þýðingu á framangreindri tilskipun. Þá eru lagðar til breytingar á hugtakanotkun í öðrum ákvæðum til samræmis við framangreint.

Aðrar breytingar.
    Þá leggur meiri hlutinn til að fella brott reglugerðarheimildir í 4. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 36. gr. frumvarpsins þar sem finna má nú þegar reglugerðarheimild í 57. gr. frumvarpsins. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til breytingar á 57. gr. frumvarpsins til að samræma orðalag.
    Auk þess leggur meiri hlutinn til breytingar sem eru annars vegar tæknilegs eðlis og hins vegar til leiðréttingar og lagfæringar og er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Að öllu framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. apríl 2021.

Páll Magnússon,
form.
Birgir Ármannsson,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson.