Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 190  —  166. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2022.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2022 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 8. og 9. desember 2021.
    Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2022. Í honum er gert ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2022. Íslenskum skipum eru heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl innan færeyskrar lögsögu á árinu 2022. Efni samningsins er samhljóða þeim samningi sem gilti fyrir árið 2021.
    Samningurinn öðlast endanlega gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Gísli Rafn Ólafsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og styður álitið.

Alþingi, 14. desember 2021.

Bjarni Jónsson,
form.
Birgir Þórarinsson,
frsm.
Njáll Trausti Friðbertsson.
Diljá Mist Einarsdóttir. Logi Einarsson. Jakob Frímann Magnússon.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.