Ferill 592. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1293  —  592. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áshildi Linnet og Jónu Guðnýju Eyjólfsdóttur frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Guðnýju Margréti Guðmundsdóttur og Sögu Kjartansdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Dagnýju Aradóttur Pind frá BSRB, Ölmu Ýri Ingólfsdóttur, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Hildi Betty Kristjánsdóttur og Fjólu Maríu Lárusdóttur frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Ínu Dögg Eyþórsdóttur frá ENIC/NARIC Íslandi, Friðriku Þóru Harðardóttur frá Háskóla Íslands, Eddu Jóhannesdóttur og Hildi Elínu Vignir frá Iðunni fræðslusetri, Ingu Dóru Halldórsdóttur, Sólveigu Hildi Björnsdóttur og Valgeir B. Magnússon frá Kvasi – samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, Renötu Emilsson Pesková frá Móðurmáli – samtökum um tvítyngi, Jónínu Kárdal og Ragnar Friðrik Ólafsson frá Félagi náms- og starfsráðgjafa, Önnu Láru Steindal frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Önnu Lúðvíksdóttur og Þórunni Pálínu Jónsdóttur frá Íslandsdeild Amnesty International, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jón Fannar Kolbeinsson frá Jafnréttisstofu, Nínu Helgadóttur frá Rauða krossinum á Íslandi, Einar Eyjólfsson, Jón Aðalstein Bergsveinsson og Ragnheiði Sigurðardóttur frá Ungmennafélagi Íslands, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Katrínu Friðriksdóttur, Sigurgrím Skúlason, Thelmu Clausen Þórðardóttur og Þorbjörgu Halldórsdóttur frá Menntamálastofnun og Hlín Sæþórsdóttur og Tryggva Þór Jóhannsson frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, ENIC/NARIC Íslandi, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf., Háskóla Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Iðunni fræðslusetri, Jafnréttisstofu, Kvasi – samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Móðurmáli – samtökum um tvítyngi, Öryrkjabandalagi Íslands, Ragnari Friðrik Ólafssyni, Rauða krossinum á Íslandi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Ungmennafélagi Íslands.
    Með tillögunni eru lagðar til aðgerðir um málefni innflytjenda sem samræmast meginmarkmiðum laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, um að stuðla að samfélagi þar sem allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni er í 7. gr. framangreindra laga kveðið á um að ráðherra skuli leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára í senn. Áætlunin tekur mið af áherslum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og því að árið 2022 fluttist þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd yfir á ábyrgðarsvið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir gagnvart tillögunni og fagna því að nú skuli stefnt að gerð langtímastefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og fjölmenningar. Þá komu í umsögnum fram ýmsar hugleiðingar sem meiri hlutinn telur jákvæðar og beinir til ráðuneytisins að hafa til hliðsjónar við innleiðingu aðgerða.

Ráðgjafarstofa fyrir innflytjendur.
    Í nokkrum umsögnum er komið inn á mikilvægi Ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur. Reynslan af þessu þjónustuúrræði hafi sýnt að slíkt úrræði sé nauðsynlegt og löngu tímabært. Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að aðgengi að upplýsingum og þjónustu á mörgum tungumálum sé meginforsenda jafnréttis í fjölbreyttu samfélagi og nauðsynlegt sé að tryggja gott aðgengi að þjónustunni, ekki síður rafrænt en á staðnum. Í umsögn Kvasis – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva er hvatt til þess að við endurskoðun á núverandi umgjörð ráðgjafarstofunnar verði horft til þess að hún geti veitt innflytjendum þjónustu óháð búsetu þeirra. Þá benda samtökin á að nýta megi þétt net símenntunarmiðstöðva í þessu samhengi. Af umsögnum að dæma hefur reynslan verið góð af þessu úrræði, sem komið var á í kjölfar samþykktar þingsályktunar nr. 34/149. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í umsögnum um mikilvægi góðs aðgengis að ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingum.

Íslenskukennsla.
    Í umsögn Kvasis – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva er bent á mikilvægi þess að íslenskukennarar sem kenna innflytjendum íslensku uppfylli ákveðnar gæðakröfur. Þá þurfi átak í starfsþróun kennara á öllum skólastigum að ná til kennara í íslenskukennslu fyrir útlendinga hjá símenntunarmiðstöðvunum. Samtökin benda á nauðsyn þess að endurskoða námskrár og námsefni í íslensku fyrir útlendinga. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur m.a. fram að löggjöf um framhaldsfræðslu verði endurskoðuð og að sú vinna er að hefjast. Gera verður ráð fyrir að í þeirri vinnu verði m.a. fjallað um gæði og umgjörð íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

Hugtakanotkun.
    Í umsögn Alþýðusambands Íslands er gerð athugasemd við að orðið aðlögun sé notað í umfjöllun tillögunnar um samfélagsstoð í stað hugtaksins inngilding. Bendir sambandið á að munurinn á aðlögun og inngildingu sé talsverður þar sem aðlögun megi skilgreina sem tilraun til að breyta því sem er öðruvísi í það sem fyrir er og inngildingu megi skilgreina þannig að einstaklingar fái að njóta sín til fulls og að samfélagið sé þannig uppbyggt að það geri fólki það kleift.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að í tillögunni er hugtakið aðlögun notað yfir það sem í tungumálum annarra Norðurlanda sem og á ensku er kallað integration en nýyrðið inngilding er hins vegar notað um hugtakið inclusion. Bendir meiri hlutinn á að orðanotkun á málefnasviðinu er í stöðugri þróun.

Aldrað fólk.
    Í umsögn Rauða krossins á Íslandi kemur fram að staða aldraðra sem koma á grundvelli fjölskyldusameiningar við flóttafólk sé óljós. Meiri hlutinn deilir þeim áhyggjum sem fram koma í umsögninni að hætta sé á fátækt og félagslegri einangrun þessara einstaklinga. Meiri hlutinn áréttar að fjölskyldusameining við flóttafólk á almennt við um maka og börn viðkomandi yngri en 18 ára. Aðrir fjölskyldumeðlimir koma á grundvelli almennrar fjölskyldusameiningar og eru því ekki með stöðu flóttafólks heldur sækja þeir um almennt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Rauða krossins um stöðu aldraðra í huga við innleiðingu áætlunarinnar.

Samfélagstúlkun.
    Alþýðusamband Íslands gerir athugasemd við að aðgerð 1.7 um samfélagstúlkun sé ekki fjármögnuð. Meiri hlutinn bendir á að umrædd aðgerð snýr að gæðaviðmiðum sem og því að skýra og skerpa á reglum varðandi réttindi til túlkaþjónustu. Meiri hlutinn tekur þó undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn sambandsins, að góð og fagleg túlkun sé forsenda aðgengis að samfélaginu og tryggja þurfi umgjörð fyrir starfandi túlka svo að hér verði til öflug starfsstétt túlka. Meiri hlutinn telur aðgerðina miða að þessum markmiðum. Þá bendir meiri hlutinn í þessu samhengi á að Alþingi samþykkti þingsályktun nr. 31/151 hinn 12. júní 2021, um að efla stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld.

Húsnæðismál.
    Í umsögn Alþýðusambands Íslands er bent á að innflytjendur séu sérstaklega berskjaldaðir á húsnæðismarkaði þar sem þeir t.d. eiga síður bakland hér á landi. Þeir séu líklegri til að búa í húsnæði á vegum atvinnurekanda og eiga þannig bæði atvinnu og húsnæði undir sama aðilanum. Bendir sambandið á að mikilvægt sé að koma upplýsingum til innflytjenda um rétt þeirra og telur það löngu tímabært að setja á leigubremsu sem tryggi öryggi og stöðugleika fyrir fólk á leigumarkaði, sérstaklega innflytjendur.
    Meiri hlutinn deilir áhyggjum sambandsins hvað varðar stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði. Meiri hlutinn bendir á að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sé ætlað að fjalla um aðgerðir sem snúa að stöðu innflytjenda í samfélaginu. Meiri hlutinn telur því að aðgerðir sem ná til allra í samfélaginu, þar á meðal innflytjenda, eigi ekki að vera hluti af framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Flóttafólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
    Í umsögn Rauða krossins, þar sem áherslu á móttöku og þjónustu við flóttafólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu er fagnað, bendir félagið á stöðu fólks sem ekki hefur notið menntunar. Leggur félagið til að það verði sérstaklega tiltekið í aðgerð 5.8 að hún nái til þessara einstaklinga, þ.e. fullorðins fólks sem ekki er læst og skrifandi, sem og barna og unglinga á skólaaldri sem hlotið hafa litla eða enga skólagöngu í fyrri heimkynnum. Meiri hlutinn deilir áhyggjum af einstaklingum sem svo háttar til um en lítur svo á að aðgerðin nái til þeirra.

Vinnuvernd og réttindi á vinnumarkaði.
    Í umsögnum BSRB og Alþýðusambands Íslands, þar sem samböndin fagna áformum um aukna upplýsingagjöf til innflytjenda um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, eins og aðgerð 4.4 kveður á um, koma fram áhyggjur af brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Alþýðusamband Íslands bendir á að samfara fjölgun innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði, sem nú er um fimmtungur launafólks á landinu, hafi verkalýðshreyfingin orðið vitni að og þurft að bregðast við sívaxandi brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði, sem birtist í launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum. Brotin beinast að þeim sem þekki síður réttindi sín og er erlent launafólk í þeim hópi. Meiri hlutinn tekur undir þá afstöðu að sporna þurfi gegn þessu með öllum tiltækum ráðum og telur markmið aðgerðarinnar stuðla að aukinni vernd á íslenskum vinnumarkaði því að með góðum upplýsingum um réttindi og skyldur megi sporna gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði sem er meinsemd í íslensku samfélagi.

Aukin þátttaka innflytjenda í kosningum.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er lögð áhersla á mikilvægi þess að stuðla að samfélagi þar sem allir íbúar landsins geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Sem dæmi um slíka virkni innflytjenda er þátttaka í kosningum, bæði sem frambjóðendur og kjósendur. Bendir sambandið á að í nýjum kosningalögum hafi kosningaréttur innflytjenda í sveitarstjórnarkosningum verið aukinn.
    Meiri hlutinn tekur undir ábendingar sambandsins, sérstaklega í ljósi þess að kosningaþátttaka innflytjenda hér á landi er lítil. Meiri hlutinn bendir á að tillagan var unnin áður en breyting á réttindum innflytjenda til kosningaþátttöku tók gildi og tekur undir mikilvægi þess að vinna að aukinni þátttöku innflytjenda í kosningum og samfélagslegri virkni að öðru leyti. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að það leggi sitt af mörkum, í samstarfi við hlutaðeigandi ráðuneyti, til þess að auka þátttöku innflytjenda í kosningum og samfélagslegri virkni.

Fjármögnun.
    Kostnaðarmat við tillöguna var unnið af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og er það mat meiri hlutans að ætla verði að þær aðgerðir sem tilgreindar eru í tillögunni séu því að fullu fjármagnaðar. Þá telur meiri hlutinn rétt að geta þess að starfræktur er þróunarsjóður innflytjendamála og hafa áherslur sjóðsins m.a. snúið að því að styðja við verkefni sem tilgreind eru í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Breytingartillögur.
Samstarfsaðilar.
    Nokkrir umsagnaraðilar fjalla um upptalningu samstarfsaðila í tillögunni og gerir meiri hlutinn tillögu um nokkrar breytingar á henni í einstökum aðgerðum. Meiri hlutinn vill þó benda á að upptalning samstarfsaðila er ekki tæmandi þar sem einungis er um að ræða dæmi um samstarfsaðila og því ekkert því til fyrirstöðu að fleiri séu kallaðir til samstarfs við innleiðingu einstakra aðgerða.

Háskólastig.
    Í aðgerð 3.6 er fjallað um raunfærnimat fyrir innflytjendur. Í umsögn ENIC/NARIC Íslandi er gagnrýnt að einvörðungu sé nefnt raunfærnimat tengt framhaldsskólanámi en ekki námi á háskólastigi. Í þessu samhengi bendir upplýsingaskrifstofan á mikilvægi þess að sett sé reglugerð um raunfærnimat á háskólastigi eins og á við um raunfærnimat á framhaldsskólastigi. Þá bendir upplýsingaskrifstofan á að flóttafólk geti oft á tíðum átt erfitt með að nálgast gögn og upplýsingar um fyrra nám sitt sem hamli matinu.
    Meiri hlutinn tekur undir þessa ábendingu og fellst á að til bóta væri að orðalag aðgerðarinnar væri með þeim hætti að það næði einnig til raunfærnimats tengt námi á háskólastigi og leggur til breytingu á aðgerð 3.6 þess efnis.

Samræmd móttaka flóttafólks.
    Þá bendir meiri hlutinn á að unnið er að gerð nýrra samninga um samræmda móttöku flóttafólks, m.a. með hliðsjón af afleiðingum stríðsins í Úkraínu. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á orðalagi aðgerðar 5.1.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins ,,námsráðgjafar“ í lið 2.2.4 komi: náms- og starfsráðgjafar.
     2.      Við lið 2.6.
                  a.      B-liður 2.6.2 orðist svo: Haldin verði námskeið fyrir starfsfólk í framlínu þjónustustofnana og sérfræðinga í nærþjónustu, svo sem félagsráðgjafa, náms- og starfsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga, kennara og lögreglu, um flóknar birtingarmyndir ofbeldis. Áhersla verði lögð á norræna samvinnu og að fá til landsins sérfræðinga frá öðrum Norðurlandaþjóðum til þess að miðla þekkingu sinni og reynslu.
                  b.      Við upptalningu í lið 2.6.4 bætist: Rauði krossinn á Íslandi.
     3.      Við upptalningu í lið 3.2.4 bætist: Iðan – fræðslusetur, Rafmennt.
     4.      Við upptalningu í lið 3.4.4 bætist: símenntunarmiðstöðvar, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, fulltrúar fræðsluaðila og skólakerfis.
     5.      Við lið 3.6.
                  a.      Í stað orðsins „framhaldsskólastigi“ í lið 3.6.1 komi: framhalds- og háskólastigi.
                  b.      Við upptalningu í lið 3.6.4 bætist: háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, símenntunarmiðstöðvar.
     6.      Við upptalningu í lið 4.3.4 bætist: símenntunarmiðstöðvar, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
     7.      Við lið 5.1.
                  a.      Liður 5.1.2 orðist svo: Framkvæmd/lýsing: Verkefni um samræmda móttöku flóttafólks verði innleitt og mat lagt á frekari þróun verkefnisins í samstarfi við framkvæmdaaðila á samningstíma verkefnisins.
                  b.      Liður 5.1.7 orðist svo: Kostnaður: Kostnaðarmat verði unnið á grundvelli áætlunar um fjölda þátttakenda.

    Guðný Birna Guðmundsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara um að innflytjendaráð hafi ekki enn verið skipað þrátt fyrir að í 4. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, sé kveðið á um að innflytjendaráð hafi víðtækt hlutverk, samkvæmt heimild í 2. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykka álitinu.

Alþingi, 13. júní 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðný Birna Guðmundsdóttir,
með fyrirvara.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Orri Páll Jóhannsson. Óli Björn Kárason.