Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1408  —  540. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um ásættanlegan biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu.


     1.      Hversu margir þeirra sem leituðu til heilsugæslustöðva hvert ár frá 2016 til 2021 náðu sambandi samdægurs líkt og viðmiðunarmörk embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu miðast við? Hversu margir þeirra sem leituðu til heilsugæslustöðva á sama bili náðu ekki sambandi samdægurs?
    Á opnunartíma heilsugæslustöðva hafa allir landsmenn aðgang samdægurs að heilsugæslu með ýmsum leiðum svo sem með netspjalli, símtali, samskiptum innan Heilsuveru, komu á skyndimóttöku, síðdegisvakt og með tímabókunum. Eftir lokun heilsugæslustöðva er áfram hægt að hafa samband með símtali í síma 1700 allan sólarhringinn og með samskiptum innan Heilsuveru. Á höfuðborgarsvæðinu tekur Læknavaktin við utan dagvinnutíma og um helgar. Utan höfuðborgarsvæðisins er starfrækt vaktþjónusta lækna sem er opin allan sólarhringinn en sinnir fyrst og fremst bráðatilfellum og slysum. Þjónustuþættir heilsugæslu eru margvíslegir og fjölbreyttar stéttir heilbrigðisstarfsmanna sinna þeim. Í viðmiðunum embættis landlæknis er samband samdægurs ekki skilgreint nánar, þ.e. hvort það feli í sér eingöngu samband eða veitta þjónustu.
    Landinu er skipt upp í sjö heilbrigðisumdæmi og er heilsugæsluþjónusta á ábyrgð heilbrigðisstofnana í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir utan umdæmi höfuðborgarsvæðisins en þar eru fjórar heilsugæslustöðvar einkareknar samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands auk þess sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins rekur 15 stöðvar. Fyrirliggjandi upplýsingar um þjónustu hvers heilbrigðisumdæmis geta verið mjög mismunandi, bæði út frá því hvaða upplýsingum er safnað, hversu oft það er gert á hverjum stað og hver stendur að upplýsingasöfnuninni. Ráðuneytið kallaði því eftir upplýsingum frá heilbrigðisstofnunum um samdægursþjónustu sem finna má hér fyrir neðan. Á öllum heilsugæslustöðvum er lögð áhersla á að forgangsraða erindum sem eru mjög brýn eða brýn.
    Í könnun sem Sjúkratryggingar Íslands standa fyrir um ánægju og traust meðal notenda heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu kom fram árið 2021 að 66,3% þeirra sem töldu sig hafa verið með mjög brýnt erindi höfðu fengið tíma eða þjónustu strax eða samdægurs. Til samanburðar ef litið er á svör frá árinu 2019 þá sögðust 73,2% þeirra sem töldu sig hafa verið með mjög brýnt erindi hafa fengið tíma eða þjónustu strax eða samdægurs.
    Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands var hlutfall þeirra sem fengu samband (símtal eða viðtal) við lækni eða hjúkrunarfræðing innan sólarhrings 66% árið 2016, 64% árið 2017, 62% árið 2018, 63% árið 2019, 66% árið 2020 og 65% árið 2021.
    Á Heilbrigðisstofnun Austurlands var fjöldi þeirra sem fengu þjónustu ýmissa heilbrigðisstétta innan sólarhrings samtals 12.335 árið 2016, 12.484 árið 2017, 14.563 árið 2018, 16.677 árið 2019, 15.117 árið 2020 og 15.279 árið 2021. Fjöldi þeirra sem fengu þjónustu ýmissa heilbrigðisstétta á stofnuninni eftir tveggja daga bið eða meira var samtals 25.562 árið 2016, 24.210 árið 2017, 27.335 árið 2018, 31.489 árið 2019, 30.375 árið 2020 og 35.399 árið 2021.
    Hlutfall þeirra sem leituðu til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og fengu aðstoð læknis innan sólarhrings sýnir ekki hvort viðkomandi einstaklingar hafi sérstaklega óskað eftir tíma innan sólarhrings eða ekki. Því er ekki hægt að áætla hversu margir fengu tíma innan sólarhrings samkvæmt ósk sinni og hversu margir ekki. Í talningu og vinnslu gagna um biðtíma innan sólarhrings eru öll samskipti talin nema þau samskipti sem féllu undir flokkinn „annað“ en hlutfallið var 46,2% árið 2016, 42,80% árið 2017, 40,80% árið 2018, 51,90% árið 2019, 48,3% árið 2020 og 43,4% árið 2021.
    Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er ávallt hægt að ná sambandi samdægurs þar sem stofnunin rekur slysa- og bráðamóttöku allan sólarhringinn sé erindi brýnt. Allir sem leita á læknavakt eða á slysa- og bráðamóttöku fá samband innan sólarhrings. Biðin getur verið lengri fyrir aðra þjónustu, líkt og ungbarnavernd, móttöku sérfræðilækna, sykursýkismóttöku, blóðrannsóknir og þess háttar.
    Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða geta allir fengið samband við hjúkrunarfræðing samdægurs og öllum brýnum erindum er svarað af lækni samdægurs.
    Upplýsingar frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands liggja ekki fyrir.

     2.      Hversu margir þeirra sem leituðu til heilsugæslustöðva hvert ár frá 2016 til 2021 fengu viðtal innan fimm daga líkt og viðmiðunarmörk embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu miðast við? Hversu margir þeirra sem leituðu til heilsugæslustöðva á sama bili fengu ekki viðtal innan fimm daga?
    Í könnun Sjúkratrygginga Íslands um ánægju og traust meðal notenda heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að 80,9% þeirra sem töldu sig hafa verið með mjög brýnt erindi höfðu fengið tíma eða þjónustu innan viku á árinu 2021. Til samanburðar ef litið er á svör frá árinu 2019 þá sögðust 90,1% þeirra sem töldu sig hafa verið með mjög brýnt erindi hafa fengið tíma eða þjónustu innan viku.
    Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er með opna móttöku fyrir bráðaerindi frá kl. 8 til 17 og þar er erindum sinnt samdægurs. Tæplega 70% þeirra sem leita til heilsugæslunnar fá tíma innan fimm daga. Þjónustan er ekki einungis tilfallandi heldur í ýmsum tilvikum fyrirséð og því má gera ráð fyrir að stór hluti þeirra 30% sem ekki fá þjónustu innan fimm daga sé í reglubundnu eftirliti sem bókað er með einhverjum fyrirvara. Hlutfall þeirra sem fengu tíma í almennri móttöku innan fimm daga á árabilinu 2016 til 2021 var 68,9% árið 2016, 68,6% árið 2017, 67,8% árið 2018, 67,5% árið 2019, 69,9% árið 2020 og 66,7% árið 2021.
    Úr gögnum um biðtíma Heilbrigðisstofnunar Vesturlands er ekki hægt að sjá hvort viðkomandi notandi þjónustunnar kaus að fá þjónustutíma á umræddum degi eða hvort ekki fékkst tími fyrr. Hlutfall þeirra sem fengu viðtal innan fimm daga hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi var 76% árið 2016, 75% árið 2017, 74% árið 2018, 71% árið 2019, 72% árið 2020 og 71% árið 2021.
    Á Heilbrigðisstofnun Austurlands var hlutfall þeirra einstaklinga sem biðu fimm daga eða skemur eftir viðtalsþjónustu ýmissa heilbrigðisstétta 81% árið 2016, 83% árið 2017, 82% árið 2018, 77% árið 2019, 79% árið 2020 og 75% árið 2021.
    Allir sem þurfa þjónustu læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurlands innan fimm sólarhringa frá því óskað er eftir þjónustu fá þjónustu læknis. Ef einstaklingur óskar eftir viðtali við heimilislækni er biðin alla jafna lengri. Í talningu og vinnslu gagna um biðtíma innan fimm daga eru talin viðtöl, vitjanir, myndsamtöl og vaktþjónusta. Ekki er hægt að sjá út frá fyrirliggjandi gögnum hvort viðkomandi hafi óskað eftir þjónustu fyrr. Samkvæmt framangreindu var hlutfall þeirra sem leituðu til stofnunarinnar og biðu skemur en fimm daga 57,8% árið 2016, 53,8% árið 2017, 53,1% árið 2018, 54,8% árið 2019, 53,7% árið 2020 og 51,1% árið 2021.
    Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) var hlutfall þeirra sem fengu viðtal hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi innan fimm daga 83% árið 2016, 66% árið 2017, 65% árið 2018, 64% árið 2019, 69% árið 2020 og 71% árið 2021.
    Biðtíminn á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er mjög breytilegur og nákvæmar upplýsingar um hann liggja ekki fyrir. Þjónustukannanir hafa þó sýnt að bið eftir tíma hjá lækni er stærsta umkvörtunarefni skjólstæðinga stofnunarinnar.
    Upplýsingar frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands liggja ekki fyrir.

     3.      Hversu margir þeirra sem leituðu til sérfræðinga hvert ár frá 2016 til 2021 hlutu skoðun innan 30 daga líkt og viðmiðunarmörk embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu miðast við? Hversu margir þeirra sem leituðu til sérfræðinga á sama bili hlutu ekki skoðun innan 30 daga?
    Embætti landlæknis hefur ekki heildstæðar upplýsingar um bið eftir tíma hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Á Landspítala er verið að vinna í tilvísanaferlinu innan sjúkrahúskerfisins, þannig að hægt verði að greina tímann frá beiðni til bókaðs tíma innan hverrar sérgreinar.

     4.      Hversu margir gengust undir aðgerð eða hlutu meðferð hjá sérfræðingi hvert ár frá 2016 til 2021 innan 90 daga frá greiningu líkt og viðmiðunarmörk embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu miðast við? Hversu margir gengust ekki undir aðgerð eða hlutu meðferð hjá sérfræðingi á sama bili innan 90 daga frá greiningu?
    Bið er afar mismunandi eftir tegund aðgerðar og meðferðar. Embætti landlæknis kallar reglulega eftir upplýsingum um bið eftir völdum skurðaðgerðum. Upplýsingar um fjölda á biðlista og hlutfall fólks sem hafði verið á biðlista lengur en í 90 daga er að finna í yfirlitsskjölum á vefsíðu embættis landlæknis 1 . Hlutfallið sýnir ekki raunverulegan biðtíma heldur punktstöðu þeirra sem voru á biðlista þann dag sem innköllun miðar við. Miðgildi biðtíma þeirra sem gengust undir aðgerð á tilteknu tímabili er birt þar sem þær upplýsingar bárust frá aðgerðastöðum. Hjá embætti landlæknis er unnið að því að gera biðlista miðlæga fyrir ákveðna aðgerðaflokka. Þegar því markmiði verður náð verður hægt að gefa út raunbiðtíma einstaklinga sem hafa gengist undir ákveðnar aðgerðir.
1     www.landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/tolfraedi/heilbrigdisthjonusta/bidlistar/