Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 828  —  579. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, fjöldatakmörk vistvænna ökutækja o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (GHaf, ÁBG, DME, HHH, OPJ).


I. KAFLI
Breyting á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009.
1. gr.

    Í stað orðanna „og 2023“ í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum kemur: 2023, 2024 og 2025.

2. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2024 og 2025 vera samtals 1.100.000.000 kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögunum:
     a.      Í stað ártalsins „2022“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2023.
     b.      Í stað orðanna „árinu 2022“ í 2. mgr. kemur: árunum 2022–2023.

III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögunum:
     a.      1. og 2. tölul. 7. mgr. falla brott.
     b.      1. málsl. 1. tölul. 10. mgr. orðast svo: Af rafmagns- eða vetnisbifhjóli að hámarki 1.440.000 kr. frá 1. janúar 2020 til og með 30. júní 2020, að hámarki 1.560.000 kr. frá 1. júlí 2020 til og með 31. desember 2022 og að hámarki 1.320.000 kr. frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023.
     c.      1. málsl. 1. tölul. 11. mgr. orðast svo: Af rafmagns- eða vetnisbifhjóli að hámarki 6.000.000 kr. frá 1. janúar 2020 til og með 30. júní 2020, að hámarki 6.500.000 kr. frá 1. júlí 2020 til og með 31. desember 2022 og að hámarki 5.500.000 kr. frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023.
     d.      Á eftir orðunum „Létt bifhjól“ í 3. málsl. 2. tölul. 11. mgr. kemur: í flokki II.

IV. KAFLI
Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993.
5. gr.

    Í stað orðanna „árið 2022“ í 1. málsl. ákvæðis til bráðabirgða EE kemur: árin 2022 og 2023.

V. KAFLI
Breyting á lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005.
6. gr.

    Í stað ártalsins „2022“ í 2. málsl. 9. gr. laganna kemur: 2023.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um verðbréfasjóði, nr. 116/2021.
7. gr.

    Á eftir 2. mgr. 56. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef rekstrarfélag útbýr eða útvegar lykilupplýsingaskjal fyrir verðbréfasjóð sem það rekur, sem uppfyllir skilyrði laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021, skal það teljast uppfylla kröfur sem gerðar eru til lykilupplýsinga samkvæmt lögum þessum. Í slíkum tilvikum þarf rekstrarfélag ekki að útbúa lykilupplýsingar í samræmi við lög þessi.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.
8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 86. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ef rekstraraðili útbýr eða útvegar lykilupplýsingaskjal fyrir sérhæfðan sjóð fyrir almenna fjárfesta sem hann rekur, sem uppfyllir skilyrði laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021, skal það teljast uppfylla kröfur sem gerðar eru til lykilupplýsinga samkvæmt lögum þessum. Í slíkum tilvikum þarf rekstraraðili ekki að útbúa lykilupplýsingar í samræmi við lög þessi.
     b.      Í stað „4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 5. mgr.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 1., 2. og 6. gr. þegar gildi.

Greinargerð.

    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur á haustþingi 2022 haft til umfjöllunar tvö aðskilin frumvörp, annars vegar 432. mál, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (kaupréttur, mútubrot o.fl.), og hins vegar 328. mál, frumvarp til laga um peningamarkaðssjóði. Vegna umfangs málanna telur nefndin ljóst að ekki muni nást að ljúka efnislegri umfjöllun um þau fyrr en eftir áramót. Í ljósi þeirrar nauðsynjar að nokkur ákvæði frumvarpanna öðlist gildi um áramót telur meiri hluti nefndarinnar æskilegt að leggja fram sérstakt frumvarp þar sem kveðið verði á um nauðsynlegar breytingar. Þannig gefist nefndinni ráðrúm til að ljúka umfjöllun um önnur atriði frumvarpanna á fyrstu vikum vetrarþings 2023.
    Lögð eru til ákvæði sem eru samhljóða 16., 17., 18., 21., 23. og 24. gr. frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (kaupréttur, mútubrot o.fl.) (432. mál) og a-lið 1. tölul. og 2. tölul. 17. gr. frumvarps til laga um peningamarkaðssjóði (328. mál).

Athugasemdir við einstakar greinar.

Um 1. og 2. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, verði framlengd um tvö ár með þeim hætti að þau nái til frádráttar frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2024 og 2025 vegna rekstraráranna 2023 og 2024. Þar með eiga nýsköpunarfyrirtæki, sem eru eigendur að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu Rannís, rétt á frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur allt að 35 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja en allt að 25 hundraðshlutum í tilviki stórra fyrirtækja enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þá verður hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki jafnframt hækkað úr samtals 1.000.000.000 kr. í samtals 1.100.000.000 kr. á árunum 2024 og 2025 en þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar eða þróunarvinnu skv. 6. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XVIII laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., verði framlengt um eitt ár til viðbótar og gildi því út árið 2023.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lagt til að 1. og 2. tölul. 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt falli brott. Með breytingunni er felld brott 20.000 bifreiða fjöldatakmörkun fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar. Eftir breytinguna mun virðisaukaskattsívilnun samkvæmt ákvæðinu gilda áfram út árið 2023 óháð fjölda bifreiða sem njóta ívilnunarinnar.
    Í b-lið er lagt til að gerð verði breyting á 1. málsl. 1. tölul. 10. mgr. sama ákvæðis þess efnis að frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 verði fjárhæðarmörk heimildar til niðurfellingar virðisaukaskatts að hámarki 1.320.000 kr. við innflutning á rafmagns- og vetnisbifhjólum.
    Til samræmis við breytingu skv. a-lið er í b-lið lagt til að gerð verði breyting á 1. málsl. 1. tölul. 11. mgr. sama ákvæðis þess efnis að fjárhæðarmörk heimildar til undanþágu frá skattskyldri veltu við sölu á rafmagns- og vetnisbifhjólum innan lands verði 5.500.000 kr. frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023.
    Þá er í c-lið lagt til að gerð verði breyting á 3. málsl. 2. tölul. 11. mgr. sama ákvæðis til samræmis við breytingu sem gerð var á 3. málsl. 2. tölul. 10. mgr. ákvæðisins með lögum nr. 33/2022. Tillagan felur í sér að fellt er brott skilyrðið um að létt bifhjól í flokki I sé skráð í ökutækjaskrá. Skilyrðið um skráningu í ökutækjaskrá nær þá eingöngu til léttra bifhjóla í flokki II.

Um 5. gr.

    Gert er ráð fyrir eins árs framlengingu á gildistíma ákvæðis til bráðabirgða EE laganna þannig að það gildi út árið 2023. Í ákvæðinu er kveðið á um tímabil sem afmarka lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis. Með framlengingunni er tryggt nægjanlegt framboð til hagsbóta fyrir neytendur, auk þess sem komið er í veg fyrir skortstöðu og dregið úr líkum á tímabundnum verðhækkunum vegna álagningar tolla í þeim tilvikum þegar innlent vöruframboð er ekki nægjanlegt.

Um 6. gr.

    Lögð er til framlenging á gildistíma laga um fjarskiptasjóð út árið 2023.

Um 7. og 8. gr.

    Lagðar eru til breytingar á lögum um verðbréfasjóði og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Í 7. gr. er lögð til innleiðing á 1. gr. tilskipunar (ESB) 2021/2261 Evrópuþingsins og ráðsins frá 15. desember 2021 sem breytir tilskipun 2009/65/EB að því er varðar notkun rekstrarfélaga á lykilupplýsingaskjölum. Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrir áramót. Sambærileg breyting er lögð til á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða að því er varðar lykilupplýsingar fyrir sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta. Í gildi er undanþága fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðila sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta frá gildissviði laga um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, nr. 55/2021, sem rennur út 31. desember 2022. Í undanþágunni felst að þessir rekstraraðilar og rekstrarfélög þurfa ekki að útbúa lykilupplýsingaskjöl samkvæmt þeirri löggjöf, enda eru þeir undir lagaskyldu til að útbúa lykilupplýsingar skv. 1. mgr. 56. gr. laga um verðbréfasjóði og 1. mgr. 86. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Tilgangur undanþágunnar er að tryggja að aðilarnir þurfi ekki bæði að útbúa lykilupplýsingaskjöl samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða annars vegar og hins vegar lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta og að fjárfestarnir þurfi ekki að kynna sér bæði skjölin áður en fjárfestingarákvörðun er tekin.
    Reglur tilskipunar 2009/65/EB um verðbréfasjóði (hér eftir UCITS-tilskipunin) hvað varðar lykilupplýsingar gilda um alla fjárfesta í verðbréfasjóðum, ekki aðeins almenna fjárfesta. Reglur reglugerðar (ESB) 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta (hér eftir PRIIPs-reglugerðin) hvað varðar lykilupplýsingaskjöl gilda aðeins um almenna fjárfesta. Tilskipun (ESB) 2021/2261 um breytingu á UCITS-tilskipuninni varðandi notkun rekstrarfélaga verðbréfasjóða á lykilupplýsingaskjölum kveður á um að rekstrarfélag sem útbýr lykilupplýsingaskjal samkvæmt PRIIPs-reglugerðinni þarf ekki einnig að útbúa lykilupplýsingar samkvæmt UCITS-tilskipuninni, enda teljist lykilupplýsingaskjöl samkvæmt PRIIPs-reglugerðinni uppfylla skilyrði UCITS-tilskipunarinnar um lykilupplýsingar. Þegar um aðra fjárfesta en almenna fjárfesta er að ræða er ekki lagaskylda til að útbúa lykilupplýsingaskjöl samkvæmt PRIIPs-reglugerðinni. Með tilskipun (ESB) 2021/2261 kemur inn ákvæði um að ef rekstrarfélag ákveður að útbúa lykilupplýsingaskjal samkvæmt PRIIPs-reglugerðinni fyrir aðra fjárfesta en almenna fjárfesta skuli ekki gera kröfu um að lykilupplýsingar samkvæmt UCITS-tilskipuninni skuli einnig útbúnar.
    Rétt þykir að leggja til að sömu reglur skuli gilda um rekstraraðila sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta, sbr. 8. gr.
    Í ákvæðunum er vísað til þess að rekstrarfélag eða rekstraraðili útbúi eða útvegi lykilupplýsingaskjal og fellur þar undir að taka saman, útvega, endurskoða og þýða lykilupplýsingaskjöl.