Ferill 762. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1442  —  762. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku.


     1.      Hver er stefna ráðuneytisins er varðar ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Liggur sú stefna fyrir opinberlega og ef svo er ekki, hvaða ástæður liggja þar að baki?
    Í mannauðsstefnu Stjórnarráðsins segir m.a. að allt starfsfólk eigi að hafa sömu möguleika á að geta nýtt hæfileika sína í starfi og ekki að sæta mismunun af nokkrum toga. Á það m.a. við um starfsfólk með skerta starfsgetu. Þá er kveðið á um bann við mismunun á vinnumarkaði vegna skertrar starfsgetu og viðeigandi ráðstafanir atvinnurekenda vegna hennar í lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Ráðuneytið er ekki með sérstaka stefnu um ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku en fylgir framangreindri mannauðsstefnu og meginreglum laga um jafna meðferð á vinnumarkaði við ráðningar í störf, þ.m.t. að mismuna ekki umsækjendum um starf vegna skertrar starfsgetu. Þá er í skoðun að samræma stefnu ráðuneyta á þessu sviði og er ráðgert að niðurstaða þeirrar vinnu liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2023.
    Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er það m.a. stefna þeirra að auðvelda þátttöku og endurkomu einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkað þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þess sé ógnað, sem og að auka þjónustu við þessa einstaklinga. Í samræmi við framangreint var Vinnumálastofnun veittur styrkur á síðasta ári í því skyni að efla þjónustu við einstaklinga með skerta starfsgetu og bjóða upp á víðtækari stuðning við þá einstaklinga sem þurfa sveigjanleika eða stuðning í starfi og vilja taka virkan þátt á vinnumarkaði.

     2.      Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að undirstofnanir þess móti skýra stefnu við ráðningu starfsfólks með skerta starfsorku? Ef ekki, hvers vegna ekki? Hvaða undirstofnanir hafa mótað stefnu og hverjar ekki?
     3.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér tölusett markmið varðandi fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri stefnumótun?
    Ráðuneytið og stofnanir á málefnasviði þess hafa hvorki mótað sér sérstaka stefnu um ráðningu starfsfólks né sett sér tölusett markmið um fjölda starfa sem henta einstaklingum með skerta starfsorku. Þá hefur ráðuneytið ekki beitt sér sérstaklega fyrir því að stofnanir ráðist í slíka stefnumótun. Í svari Jafnréttisstofu kemur fram að stefna stofnunarinnar sé í samræmi við 8. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði en samkvæmt henni er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna m.a. skertrar starfsgetu. Ráðuneytið hefur ekki ástæðu til að ætla annað en að stofnanir á málefnasviði þess fylgi þeirri stefnu almennt við ráðningar í störf en hafa má í huga að fjórar stofnanir af sex á málefnasviði ráðuneytisins eru með 14 eða færri starfsmenn, þar af ein með þrjá starfsmenn og önnur með fimm.

     4.      Hversu margt starfsfólk með skerta starfsorku er í hlutastarfi eða fullu starfi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Í dag er enginn starfsmaður ráðuneytisins með skerta starfsorku í hlutastarfi eða fullu starfi. Ráðuneytið hefur þó síðastliðin ár verið með starfsfólk með skerta starfsgetu sem ráðið hefur verið í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar. Enginn starfsmaður með skerta starfsgetu er starfandi hjá embætti ríkislögmanns, óbyggðanefnd og umboðsmanni barna. Í svörum Seðlabanka Íslands kemur fram að hjá bankanum starfi fólk með bæði tímabundna og varanlega skerta starfsorku en bankinn hafi þó ekki gert vinnusamninga byggða á fyrrnefndum vinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar. Þá kemur fram í svörum Hagstofunnar að einn starfsmaður í hlutastarfi hjá stofnuninni sé með skerta starfsgetu og hafi verið ráðinn inn á þeim forsendum. Annað starfsfólk Hagstofunnar, sem hafi skerta starfsorku, í flestum tilfellum tímabundið ráðið starfsfólk, hafi ekki verið ráðið inn á þeim forsendum. Loks kemur fram í svari Jafnréttisstofu að einn starfsmaður með skerta starfsorku sé þar starfandi í fullu starfi.

     5.      Liggur fyrir mat á því hversu mörg störf eða hlutastörf, sem henta einstaklingum með skerta starfsorku, geti verið hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum.
    Hjá ráðuneytinu og stofnunum á málefnasviði þess liggur ekki fyrir greining á því hversu mörg störf eða hlutastörf henti einstaklingum með skerta starfsorku.