Ferill 987. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1872  —  987. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 (hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Kára Árnason og Ester Petru Gunnarsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Hrannar Má Gunnarsson frá BSRB, Steinunni Bergmann og Sveindísi Önnu Jóhannsdóttur frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Steinunni Þórðardóttur og Dögg Pálsdóttur frá Læknafélagi Íslands, Söndru B. Franks og Ágúst Ólaf Ágústsson frá Sjúkraliðafélagi Íslands, Friðrik Jónsson og Ingvar Sverrisson frá Bandalagi háskólamanna, Þóreyju S. Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Völu Rebekku Þorsteinsdóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Umsagnir bárust frá Bandalagi háskólamanna, BSRB, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands og Sjúkraliðafélagi Íslands.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að við lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um það að heimilt verði frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2028 að ráða heilbrigðisstarfsmann sem náð hefur 70 ára aldri til starfa við heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir. Skilyrði fyrir undanþágunni er að starfið felist í beinum samskiptum við sjúklinga, stoðþjónustu eða rannsóknum í tengslum við þjónustu við sjúklinga, eða handleiðslu yngra heilbrigðisstarfsfólks eða nema.
    Lagt er til að ráðning samkvæmt ákvæðinu skuli vera tímabundin og að jafnaði vara í eitt ár í senn og aldrei lengur en í tvö ár í senn. Heimilt verði að endurnýja tímabundna ráðningu þar til heilbrigðisstarfsmaður hefur náð 75 ára aldri.
    Þá er kveðið á um undanþágu frá auglýsingaskyldu skv. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, enda hafi heilbrigðisstarfsmanni sem ráða skal áður verið sagt upp starfi á sömu heilbrigðisstofnun sökum aldurs á grundvelli 2. mgr. 43. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Umfjöllun.
Hækkun hámarksstarfsaldurs.
    Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er kveðið á um hámarksaldur ríkisstarfsmanna. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna skal jafnan segja starfsmanni upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Í frumvarpinu er lögð til tímabundin undanþága frá þeirri meginreglu sem tekur til heilbrigðisstarfsmanna. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram almenn sátt um þá tillögu að hækka hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna, m.a. í ljósi þess að sambærileg regla gildir ekki um þá heilbrigðisstarfsmenn sem reka eigin starfsstöðvar. Hins vegar kom fram að tilefni væri til að endurskoða reglur um hámarksstarfsaldur almennt, m.a. í ljósi hækkandi lífaldurs og til að tryggja jafna stöðu og á almennum vinnumarkaði.
    Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um þau sjónarmið sem bjuggu að baki reglunni um 70 ára hámarksstarfsaldur og bent á að þau eigi að einhverju leyti ekki við lengur. Meðal annars er bent á að rökin fyrir þeirri reglu hafi verið að veita yngra fólki tækifæri til að komast í vinnu hjá ríkinu með því að tryggja að eldra starfsfólk hætti störfum við tiltekinn aldur. Þau rök eigi ekki við í heilbrigðiskerfinu þar sem skortur sé á starfsfólki.
    Meiri hlutinn bendir á að umfjöllun um hækkun hámarksstarfsaldurs í greinargerð með frumvarpinu er að miklu leyti almenn og einskorðast ekki við heilbrigðisstarfsfólk. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé áhersla lögð á að gera eldra fólki kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði, m.a. með auknum sveigjanleika að því er snertir starfslok og að horft verði til aukins sveigjanleika varðandi starfslok hjá hinu opinbera. Gildissvið frumvarpsins takmarkast þó við heilbrigðisstarfsfólk og er hluti af viðbrögðum hins opinbera við brýnum mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu. Með hliðsjón af því telur meiri hlutinn eðlilegt að horft sé til hækkunar hámarksstarfsaldurs heilbrigðisstarfsmanna sérstaklega en áréttar að einnig þurfi að horfa til sveigjanlegra starfsloka starfsmanna ríkisins almennt.

Greiðslur í lífeyrissjóði.
    Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, er öllum launamönnum og þeim sem stunda sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Lagaskylda til greiðslu iðgjalds til skyldutryggingar lífeyrisréttinda fellur þannig niður við 70 ára aldur. Iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda skal ákveðið í sérlögum, kjarasamningum, ráðningarsamningum eða með öðrum sambærilegum hætti. Þá skal lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs vera a.m.k. 15,5% af iðgjaldsstofni, sbr. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef við á, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.
    Í frumvarpinu er ekki sérstaklega kveðið á um meðferð iðgjalds til skyldutryggingar lífeyrisréttinda þeirra heilbrigðisstarfsmanna ríkisins sem starfa áfram eftir 70 ára aldur. Fram kemur í greinargerð að frá 70 ára aldri falli skyldubundið lífeyrisiðgjald launagreiðanda vegna launþega niður, en launþegi geti kosið að greiða enn iðgjald til viðbótarlífeyrissparnaðar. Er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um slíkar greiðslur og mótframlag launagreiðanda þó að starfsmaður hafi náð 70 ára aldri. Með þessu gefist heilbrigðisstarfsfólki sem náð hefur 70 ára aldri tækifæri til að starfa áfram, fresta lífeyristöku og safna auknum viðbótarlífeyrisréttindum í séreignarsjóð með tilheyrandi mótframlagi.
    Í umsögnum sem bárust nefndinni kom fram að í ljósi þess að skyldubundið lífeyrisiðgjald launagreiðanda fellurniður við 70 ára aldur njóta þeir sem kjósa að vinna fram yfir þann aldur lakari kjara en þeir sem yngri eru. Í greinargerð kemur fram að flestir þeir sem frumvarpið varðar greiði skylduiðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en samkvæmt samþykktum sjóðsins er framlag launagreiðanda að lágmarki 11,5% af gjaldstofni. Meiri hlutinn bendir á að jafnan er kveðið á um iðgjaldshluta launamanna og mótframlag launagreiðanda í kjarasamningum og eftir atvikum í samþykktum lífeyrissjóða og um meðferð lífeyrissjóðs á mótteknu iðgjaldi eftir 70 ára aldur í samþykktum lífeyrissjóða. Þannig virðast nokkuð ólíkar reglur gilda um meðferð iðgjaldagreiðslna eftir að sjóðfélagi hefur náð 70 ára aldri. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn ekki forsendur fyrir því að kveða sérstaklega á um meðferð iðgjalda vegna heilbrigðisstarfsmanna sem starfa við heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir eftir 70 ára aldur í lögum. Meiri hlutinn telur þó nauðsynlegt að beina því til stjórnvalda að vinna með aðilum vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðum að lausn á þeim álitamálum sem kunna að skapast við meðferð og ráðstöfun mótframlags launagreiðanda þegar starfsmenn vinna fram yfir 70 ára aldur. Brýnt er að niðurstaða fáist í þeim álitamálum sem fyrst enda er það liður í að tryggja aukinn sveigjanleika að því er snertir starfslok hjá hinu opinbera.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðrún Hafsteinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 26. maí 2023.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðrún Hafsteinsdóttir. Óli Björn Kárason. Jódís Skúladóttir.