Ferill 1000. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2166  —  1000. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um fjármögnun og framkvæmd aðgerðaáætlunar gegn matarsóun.


     1.      Hefur nauðsynlegt fjármagn vegna þeirra 24 aðgerða sem aðgerðaáætlun gegn matarsóun frá 2021 kveður á um verið tryggt?
    Í aðdragandanum að útgáfu aðgerðaáætlunarinnar Minni matarsóun lagði ráðuneytið áherslu á að kostnaðarmeta aðgerðirnar að því marki sem mögulegt var og á að tryggja fjármagn til að koma öllum aðgerðunum til framkvæmda. Af 24 aðgerðum í áætluninni er gert ráð fyrir að ríkissjóður komi að fjármögnun 18 aðgerða að hluta eða í heild. Gert er ráð fyrir að atvinnulífið fjármagni hinar sex aðgerðirnar. Til fjármögnunar á flestum þessara 18 aðgerða sem snúa að ríkissjóði hefur ráðuneytið til þessa nýtt og horfir til þess að nýta áfram hluta af aukinni fjárveitingu til hringrásarhagkerfisins 2021–2025. Kostnaður við sumar aðgerðir var metinn óverulegur og geta þær rúmast innan fjárheimilda þeirra ráðuneyta eða ríkisstofnana sem fara með framkvæmd þeirra. Ein aðgerð í áætluninni er samhljóða aðgerð C.12 í aðgerðaáætlun sem fylgir stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036. Fjármögnun þessarar tilteknu aðgerðar er því sameiginleg málefnasviði umhverfismála og byggðalið fjárlaga. Nauðsynlegt fjármagn af hálfu ríkissjóðs til aðgerðanna í aðgerðaáætluninni hefur því verið tryggt.

     2.      Hver er uppfærð staða þeirra aðgerða sem ráðast átti í vegna aðgerðaáætlunar gegn matarsóun? Svar óskast sundurliðað eftir stöðu hverrar aðgerðar.
Aðgerð 1: Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda gegn matarsóun.
Staða: Í undirbúningi.

    Ráðuneytið og Umhverfisstofnun vinna að undirbúningi.

Aðgerð 2: Reglubundnar mælingar á matarsóun.
Staða: Í framkvæmd.

    Unnið er að yfirstandandi rannsókn og er niðurstaðna að vænta í sumar.

Aðgerð 3: Rannsóknir á orsökum matarsóunar á heimilum.
Staða: Í framkvæmd.
    Niðurstöður síðustu rannsóknar frá árinu 2021 liggja fyrir. Áður höfðu rannsóknir farið fram 2015 og 2017. Umhverfisstofnun mun meta þörf á frekari rannsóknum og útfæra þær þegar niðurstöður samræmdrar mælingar á umfangi matarsóunar liggja fyrir, sbr. aðgerð 2.

Aðgerð 4: Upplýsingamiðlun um matarsóun og matarsóunarverkefni.
Staða: Í framkvæmd.

    Umhverfisstofnun miðlar fréttum, upplýsingum og öðru efni um matarsóun í miðlum sínum og á vefsíðunni Saman gegn sóun. Á vefsíðunni er sömuleiðis að finna yfirlit yfir verkefni sem stuðla að því að minnka matarsóun. Sérfræðingar stofnunarinnar hafa enn fremur veitt fjölmiðlum fjölda viðtala um málefnið.

Aðgerð 5: Bætt menntun um matarsóun og hringrásarhagkerfið.
Staða: Í undirbúningi.

    Ráðuneytið og Umhverfisstofnun vinna að undirbúningi.

Aðgerð 6: Saman gerum við heiminn betri.
Staða: Í framkvæmd.

    Umhverfisstofnun nýtir markvissar leiðir til að miðla fræðsluefni um matarsóun til almennings. Áhersluatriði í samstarfi við atvinnulífið munu skýrast betur þegar áreiðanlegri upplýsingar liggja fyrir um umfang matarsóunar í virðiskeðju matvæla, sbr. aðgerð 2.

Aðgerð 7: Útgáfa leiðbeininga um rétt fyrirkomulag matargjafa.
Staða: Lokið.

    Leiðbeiningarnar eru birtar á vefsíðu Matvælastofnunar.

Aðgerð 8: Nýsköpun, rannsóknir og þróun sem draga úr matarsóun.
Staða: Lokið.

    Upplýsingar um framkvæmdina má finna í lýsingu á aðgerðinni í aðgerðaáætluninni.

Aðgerð 9: Innleiðing hagræns hvata sem dregur úr matarsóun.
Staða: Í framkvæmd.

    Um er að ræða innleiðingu mengunarbótareglunnar við innheimtu á gjöldum fyrir meðhöndlun úrgangs. Viðeigandi lagaákvæði tóku gildi 1. janúar 2023 og sjá sveitarfélög um framkvæmd með lögbundinni innheimtu á gjöldum fyrir meðhöndlun úrgangs. Ráðuneytið, Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa í samstarfi unnið að leiðbeiningum, breytingum á tölvukerfum o.fl. til að styðja við framkvæmdina.

Aðgerð 10: Umbun fyrir matargjafir.
Staða: Í framkvæmd.

    Niðurstöður starfshóps um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála voru birtar í skýrslu á vef Stjórnarráðsins 10. mars 2023. Í kjölfar umfjöllunar um aðgerðina ályktar starfshópurinn að ekki sé þörf á innleiðingu frekari skattalegra hvata í lögum um tekjuskatt fyrir atvinnurekstraraðila vegna matargjafa. Starfshópurinn telur hins vegar rétt að gerð verði breyting á lögum um virðisaukaskatt þar sem skýrt verði kveðið á um að þær gjafir sem hafa verið afskrifaðar vegna galla eða úreldingar og gefnar eru aðilum sem starfa að almannaheill séu undanþegnar virðisaukaskatti að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Starfshópurinn leggur jafnframt til að samhliða fyrirhugaðri heildarendurskoðun á lögum um virðisaukaskatt verði kannað hvort rétt sé að bæta við lögin ákvæði þess efnis að matvöruverslunum, veitingahúsum og slíkum aðilum verði að tilteknum skilyrðum uppfylltum heimilt að undanþiggja frá skattskyldri veltu afhendingu matargjafa til aðila sem starfa að almannaheill þótt þær vörur sem um ræðir séu ekki úreltar, útrunnar eða gallaðar.

Aðgerð 11: Endurskoðun á opinberu matvælaeftirliti.
Staða: Í framkvæmd.

    Í október 2022 skipaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra starfshóp um málefnið. Von er á niðurstöðum starfshópsins áður en langt um líður og þegar tillögur hópsins liggja fyrir verður unnið úr þeim.

Aðgerð 12: Endurskoðun á reglum sem varða nýtingu á afgangshráefni.
Staða: Í undirbúningi.

    Samræma þarf vinnu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og matvælaráðuneytisins vegna aðgerðarinnar, í samstarfi við Matvælastofnun og atvinnulífið. Aðgerðin er í ágætu samræmi við framtíðarsýn og áhersluþætti sem birtast í þingsályktun um matvælastefnu til ársins 2040 sem Alþingi samþykkti á 153. löggjafarþingi (915. mál). Móta verður áætlanir um aðgerðir sem tryggja framkvæmd stefnunnar.

Aðgerð 13: Bætt markaðstenging landbúnaðarframleiðslu.
Staða: Í undirbúningi.

    Verkefnið er hluti af yfirstandandi vinnu við endurskoðun búvörusamninga. Þá kemur það til skoðunar við mótun áætlana um aðgerðir sem kveðið er á um í þingsályktunum um landbúnaðarstefnu og matvælastefnu sem Alþingi samþykkti á 153. löggjafarþingi (914. og 915. mál).

Aðgerð 14: Bætt regluverk um nýtingu lífræns hráefnis.
Staða: Í framkvæmd.

    Stöðuskjal og tillögur að aðgerðum um bætta nýtingu lífrænna efna í landbúnaði og landgræðslu var unnið á vegum matvælaráðuneytis og hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Úrvinnsla umsagna stendur yfir.

Aðgerð 15: Vitundarvakning meðal frumframleiðenda.
Staða: Í framkvæmd.

    Bændasamtök Íslands vinna að verkefnum í samstarfi við Matís sem snúa að nýtingu á hliðarafurðum garðyrkju. Bændasamtökin eiga jafnframt í samtali við aðrar búgreinar um vitundarvakningu. Í áranna rás hafa fjölmörg verkefni verið unnin í sjávarútvegi sem miða að því að fullnýta afurðir. Til að mynda hefur íslenskur sjávarútvegur um árabil verið í forystu í nýtingu á hliðarafurðum hvítfisks.

Aðgerð 16: Vitundarvakning meðal matvælaframleiðenda.
Staða: Í undirbúningi.

    Matvælaráð Samtaka iðnaðarins hefur fjallað um málið og með hvaða hætti hægt er að sporna gegn matarsóun þegar horft er til margvíslegra hliðarafurða hjá framleiðslufyrirtækjum matvæla.

Aðgerð 17: Forgangsverkefni smásala.
Staða: Í undirbúningi.

    Kynningarefni um mögulega matarsóun í verslunum að því er snertir rekstrarkostnað er enn á undirbúningsstigi. Talið er mikilvægt að unnt verði með samræmdum hætti að mæla matarsóun á efnahagslegan mælikvarða áður en hagnýtt kynningarefni verður að veruleika. Hins vegar hafa íslenskar verslanir tekið málið í sínar hendur með innleiðingu stefna um matarsóun. Væntingar standa til að undirbúningi á kynningarefni ljúki seinni hluta ársins og þá verði efnið til reiðu á heimasíðu Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ).

Aðgerð 18: Aukið samræmi við eftirspurn markaðarins við innkaup smásala.
Staða: Í framkvæmd.

    Á tímum sóttvarnaráðstafana urðu töluverðar breytingar á neytendahegðun og verslunarháttum. Ein lykilbreyting endurspeglast í mjög hraðri útbreiðslu sjálfsafgreiðslukassa í verslunum og í aukinni notkun viðskiptavina á þeim. Endurskoðun innkaupaferla er óbeinn fylgifiskur slíkra breytinga og fjárfesting í sjálfvirkum innkaupakerfum er nú orðin fýsilegri. Á sama tíma hafa kerfin þróast mikið, m.a. með tilliti til nýtingar gervigreindar. Forsendur fræðslu um virkni og gagnsemi sjálfvirkra innkaupakerfa hafa því breyst verulega. SVÞ munu halda áfram að fylgjast með þróuninni og standa vonir til þess að aðildarfyrirtæki samtakanna geti miðlað reynslu sinni sín á milli eftir því sem unnt er á komandi vetri.
    Lágvöruverðsverslunin Krónan hefur riðið á vaðið við framsetningu upplýsinga í ætt við norska slagorðið „Best før – ofte god etter“ (ísl. best fyrir síðasta söludag en oft gott eftir hann) með átakinu Síðasti séns sem verslunin hefur m.a. kynnt á vefsíðu sinni og samfélagsmiðlum. Reynsla verslunarinnar gefur til kynna að efnahagsleg skilaboð hafi mjög sterk áhrif í þessu tilliti. Þá virðast neytendur almennt orðnir meðvitaðri um hvenær raunverulega er unnt að neyta vöru að teknu tilliti til geymsluþolsmerkinga.

Aðgerð 19: Allar vörur fari út um réttar dyr smásala.
Staða: Í framkvæmd.

    Innleiðing Databar-strikamerkja með tilliti til hagnýtingar hefur gengið hægar en vonir stóðu til. Væntingar eru hins vegar um að úr rætist samfara aukinni stafvæðingu í verslun.
    Samkvæmt upplýsingum frá heild- og smásöluverslunum virðist sem flestir nýti sér hitaskynjara og sírita hitastigs við flutning enda er notkun slíks búnaðar m.a. áskilin í skilmálum flutningstrygginga. Samfara endurnýjun flutningabifreiða skapast jafnframt aukin tækifæri til notkunar slíks búnaðar.
    Fjölmörg dæmi eru um aðgerðir sem verslanir hafa ráðist í gegn matarsóun sem snerta þessa aðgerð. Til að mynda hafa Samkaup og Hjálpræðisherinn unnið saman gegn matarsóun, Síðasti séns Krónunnar var nefndur að framan, Bónus lækkar verð vegna dagsetningar undir merkjum átaksins Saman gegn matarsóun og það gerir Hagkaup einnig undir merkjum átaksins Minnkum matarsóun. SVÞ fyrirhuga að kalla eftir frekari upplýsingum frá þremur stærstu keðjunum í smásöluverslun um hvað fyrirtækin hafi gert og ætli sér að gera varðandi matarsóun.

Aðgerð 20: Forgangsverkefni veitingamanna.
Staða: Í undirbúningi.

    Samtök ferðaþjónustunnar vinna að undirbúningi.

Aðgerð 21: Uppsetning og rekstur matvælakjarna.
Staða: Í framkvæmd.

    Fyrr í ár undirrituðu ráðuneytið, Vopnafjarðarhreppur og Austurbrú samning um að koma á fót matvælakjarna á Vopnafirði. Um er að ræða fyrsta matvælakjarna sem rís á grundvelli aðgerðaáætlunar gegn matarsóun og stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022–2036.

Aðgerð 22: Opinn markaður með hliðarafurðir.
Staða: Í undirbúningi.

    Ábyrgðaraðilar aðgerðarinnar vinna að undirbúningi.

Aðgerð 23: Matarbankinn.
Staða: Frestað.

    Unnið var að undirbúningi aðgerðarinnar. Samkvæmt rekstraráætlun var fjárþörf til verkefnisins úr ríkissjóði 40 millj. kr. á fyrsta starfsári. Jafnframt var umtalsverð fjárþörf á öðru starfsári. Áður en mögulegt er að veita slíkt fé úr ríkissjóði til verkefnisins er talið nauðsynlegt að tryggja betur þátttöku þeirra aðila sem myndu nýta sér þjónustu matarbankans og um leið skapa traustari grundvöll undir reksturinn til lengri tíma litið. Í ljósi þessa var ákveðið að fresta aðgerðinni.

Aðgerð 24: Matarvagn.
Staða: Frestað.

    Eins og fram kemur í lýsingu á aðgerðinni í aðgerðaáætlun var horft til þess að tengja rekstur matarvagns við rekstur matarbanka, sbr. aðgerð 23, svo sem varðandi aðföng. Í ljósi þess að aðgerð 23 var frestað um óákveðinn tíma hefur þessari aðgerð einnig verið frestað.

     3.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að heimila frekari nýtingu matvæla sem komin eru fram yfir síðasta söludag? Ef svo er, hvernig sér ráðherra fyrir sér að nýta mætti slíkar afurðir?
    Í gildandi reglum er kveðið á um tvær mismunandi merkingar til að gefa til kynna geymsluþol matvæla, sbr. reglugerð nr. 1294/2014, um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Annars vegar er það síðasti notkunardagur og hins vegar merkingin „Best fyrir“, sem gefur til kynna lágmarksgeymsluþol. Um er að ræða nauðsynlegar merkingar til að tryggja öryggi matvæla fyrir neytendur. Reglurnar eru settar í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og eru á forræði matvælaráðherra. Nefna má að í tengslum við áætlun Evrópusambandsins sem nefnist Farm to Fork er unnið að breytingum á reglum sambandsins um merkingar matvæla. Eitt af markmiðum áætlunarinnar er að draga úr matarsóun. Ef til þess kemur að sambandið breyti reglum um geymsluþolsmerkingar í því augnamiði má gera ráð fyrir að Ísland innleiði þær breytingar í kjölfarið.
    Nefna má í þessu sambandi að undanfarin ár hafa Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Kvenfélagasamband Íslands staðið fyrir upplýsingagjöf til neytenda um geymsluþolsmerkingar undir yfirskriftinni Notaðu nefið. Sjálfsagt og eðlilegt er að hvetja verslanir, neytendur og aðra til að dreifa matvælum og nýta þau ef þau eru hæf til neyslu jafnvel þótt lágmarksgeymsluþolstími þeirra sé liðinn. Er þetta gert í því skyni að nýta auðlindir sem best og minnka matarsóun.

     4.      Mætti fjölga hagrænum hvötum til að sporna við matarsóun, svo sem með því að heimila frekari nýtingu matvæla sem komin eru fram yfir síðasta söludag?
    Hagrænir hvatar geta verið öflugt stjórntæki og stjórnvöld ættu ávallt að hafa slíka hvata til skoðunar við mótun stefnu og aðgerða. Til að mynda kemur fram í svari við 2. tölul. að reynsla kaupmanna sýni að lækkun verðs á matvörum í tengslum við geymsluþolsmerkingar hafi áhrif á val neytenda. Í aðgerðaáætluninni er að finna þrjár aðgerðir sem felast með beinum hætti í beitingu hagrænna hvata, m.a. mengunarbótareglunnar, þ.e. aðgerðir 9, 10 og 13. Auk þeirra eru aðgerðir sem snúa að endurskoðun á gildandi reglum sem snerta nýtingu á afgangshráefni og lífræns hráefnis, sem leitt gæti til þess að hvatar myndist til betri nýtingar og verðmætasköpunar úr hráefni sem nú er sóað. Ólíklegt er að reglur um geymsluþolsmerkingar einar og sér komi í veg fyrir aukna nýtingu matvæla. Á grundvelli áætlunarinnar stendur yfir margvísleg vinna sem væntingar eru um að muni sporna gegn matarsóun og auka nýtingu matvæla. Vafalaust má gera enn betur og leita nýrra leiða til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Ekki má heldur gleyma að sóun á neysluhæfum mat er sóun á peningum. Það ætti því að vera fólginn hagrænn hvati í því einfaldlega að hætta að henda mat. Í tengslum við þetta er rétt að geta þess að aðgerðirnar í áætluninni byggjast á tillögum starfshóps sem í sátu fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs, frjálsra félagasamtaka og ungs fólks. Starfshópurinn bjó því yfir breiðri þekkingu á matvælaframleiðslu og matarsóun. Við gerð tillagna að aðgerðum gegn matarsóun horfði starfshópurinn auk þess til aðgerða í öðrum ríkjum og til leiðbeininga Evrópusambandsins um aðgerðir gegn matarsóun frá árinu 2019 og notaði sem fyrirmyndir.

     5.      Hvað líður reglubundnum mælingum á matarsóun og hverjar eru helstu niðurstöður þeirra mælinga? Telur ráðherra að markmið áætlunarinnar um að minnka matarsóun í allri virðiskeðjunni um 30% fyrir árið 2025 og 50% fyrir árið 2030 muni standast?
    Til þessa hefur vantað áreiðanlegar upplýsingar um umfang matarsóunar í allri virðiskeðju matvæla hér á landi. Lykilatriði er að þekkja umfangið til að geta tekið á sóuninni með sem markvissustum hætti og fylgst með árangri sem verður af aðgerðum. Um leið hefur skort á upplýsingar um grunnstöðu matarsóunar til að nota sem viðmið fyrir markmiðin sem vísað er til í fyrirspurninni og ætlunin er að ná árin 2025 og 2030. Tvívegis hefur Umhverfisstofnun gert rannsóknir á matarsóun í allri virðiskeðjunni, árin 2016 og 2019, en í bæði skiptin reyndist erfitt að afla áreiðanlegra gagna um umfang matarsóunar hjá atvinnulífinu. Betur gekk að afla upplýsinga frá heimilum og benda niðurstöður til að sóunin á íslenskum heimilum hafi almennt ekki breyst að magni svo að mælanlegt sé á milli þess sem rannsóknirnar voru gerðar. Haustið 2021 var í ráði að framkvæma næstu mælingu á matarsóun í allri virðiskeðjunni og með því að afla grunnstöðu vegna áðurnefndra markmiða. Þessari mælingu er jafnframt ætlað að verða fyrsta reglubundna mælingin á matarsóun hér á landi sem fylgir samræmdri aðferðafræði sem Evrópusambandið hefur gefið út. Undirbúningur að mælingunni reyndist talsverður og tafðist hún um u.þ.b. ár. Eins og kemur fram í svari við 2. tölul. stendur rannsóknin yfir og er niðurstaðna að vænta sumarið 2023. Það sem er jafnframt ánægjulegt er að útlit er fyrir að nú takist í fyrsta sinn að afla marktækra niðurstaðna um matarsóun í öllum hlekkjum virðiskeðju matvæla.
    Samkvæmt framangreindu er erfitt að fullyrða að töluleg markmið náist þar sem grunnstaða til að miða við liggur ekki enn fyrir og marktæk gögn um matarsóun hjá atvinnulífinu ekki enn tiltæk. Mikilvægt er að fá sem fyrst áreiðanlegar upplýsingar um stöðuna til að geta tekið vel ígrundaðar ákvarðanir um framhaldið og miða aðgerðir að því. Fyrri rannsóknir benda til þess að matarsóun hjá atvinnulífi hér á landi sé líklega sambærileg því sem gerist í öðrum evrópskum ríkjum. Matarsóun verður því á öllum stigum virðiskeðjunnar hér á landi. Við það er ekki hægt að una. Til að breyta því þarf samfélagslegt átak og vitundarvakningu og viðhorfsbreytingu framleiðenda, seljenda og neytenda í þá átt að gera betur og fullnýta öll matvæli og allt hráefni. Markmiðið með aðgerðaáætluninni er að stuðla að þessu. Málefnið er einnig eitt af áherslumálum Evrópusambandsins og er til skoðunar á vettvangi Norðurlandasamstarfs.