Ferill 1114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2247  —  1114. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um starfsemi geðheilsuteyma.


     1.      Hversu margir hafa sótt þjónustu hjá geðheilsuteymum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá því að þau tóku til starfa? Svar óskast sundurliðað eftir fjölda þjónustuþega, meðferðarúrræðum og geðheilsuteymum.
    Umfang geðheilbrigðisþjónustu hefur aukist jafnt og þétt í takt við aukna áherslu ríkisstjórnar og heilbrigðisyfirvalda á geðheilbrigðismál. Árið 2022 efldi ráðherra geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslu enn frekar með auknu fjármagni, fjölgun starfsfólks og skipulagsbreytingum til að auka skilvirkni.
    Almennu geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) eru þrjú, þ.e. austur-, suður- og vesturteymi, sem sinna íbúum höfuðborgarsvæðisins. Fyrsta teymið, Geðheilsuteymi austur, hóf starfsemi árið 2017, Geðheilsuteymi vestur hóf starfsemi haustið 2018 og Geðheilsuteymi suður hóf starfsemi árið 2020. Starfsemi teymanna hefur þróast og eflst hratt frá stofnun þeirra og eftirspurn eftir geðþjónustu hefur almennt aukist ár frá ári. Árið 2021 bárust teymunum samtals 907 tilvísanir og 912 tilvísanir á árinu 2022. Á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hafa einnig verið sett á fót almenn geðheilsuteymi og stöðugildum sálfræðinga verið fjölgað.
    Geðheilsuteymin hafa þróað fjölbreytt og þverfaglegt meðferðarframboð til þess að geta sem best mætt þeim fjölbreyttu þörfum sem notendur teymanna hafa. Meðal annars er boðið er upp á einstaklingsviðtöl, lyfjameðferð og samtalsmeðferðir, vitjanir, jafningastuðning, fjölbreytt námskeið og hópmeðferðir. Hvert teymi þjónustar rúmlega 200 manns á ári í virkri meðferð. Í ársskýrslum almennu geðheilsuteyma HH kemur fram að teymin útskrifuðu samanlagt um 170 einstaklinga árið 2020, 307 einstaklinga árið 2021 og 370 einstaklinga árið 2022. Árið 2022 var fjöldi einstaklinga í virkri meðferð á vegum teymanna 688. Meðalmeðferðarlengd var um 9–12 mánuðir en hún er misjöfn eftir þjónustuþörf einstaklingsins.
    Geðheilsuteymin koma að málum mun fleiri einstaklinga en þeirra sem eru í virkri meðferð. Um 15–20% af þeim sem eru í þjónustu teymanna eru í langtímaeftirfylgd til þess að viðhalda árangri og bata úr virkri meðferð. Teymin veita einnig ýmiss konar ráðgjöf eins og t.d. símaráðgjöf geðlækna til heilbrigðisstarfsmanna. Þannig komu geðheilsuteymin samtals að málum 1.692 einstaklinga árið 2022.

     2.      Hversu langur er meðalbiðtími eftir þjónustu geðheilsuteyma og hvað telur ráðherra ásættanlegan biðtíma eftir þjónustu?
    Árið 2016 gaf embætti landlæknis út viðmiðunarmörk varðandi hvað getur talist ásættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu. Viðmið þessi eru sambærileg við viðmið nágrannalanda Íslands. Ásættanlegur biðtími að mati embættis landlæknis eftir skoðun sérfræðings eru 30 dagar og biðtími eftir aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi skal vera innan við 90 dagar frá greiningu.
    Meðalbiðtími eftir þjónustu vorið 2022 var hjá geðheilsuteymis HH austur 17 dagar, hjá geðheilsuteymi HH suður 20 dagar og 98 dagar hjá geðheilsuteymi HH vestur.

     3.      Hversu margir umsækjendur hafa ekki fengið þjónustu hjá geðheilsuteymum eða verið vísað frá? Er ráðherra kunnugt um hvort þeir hafi fengið þjónustu annars staðar?
    Af þeim tilvísunum sem berast til almennu geðheilsuteymanna koma um 40% í þjónustu teymanna. Geðheilsuteymin sinna þeim sem eru 18 ára og eldri og eru í þörf fyrir þverfaglega þjónustu og/eða þétta eftirfylgd. Ef óskað er eftir þjónustu fyrir aðila sem falla utan þessa hóps eða þurfa á sérhæfðari þjónustu að halda en geðheilsuteymin geta veitt í dag er haft samband við þann sem vísar í þjónustuna eða eftir atvikum notendur og bent á viðeigandi meðferðarúrræði. Einnig kemur fyrir að einstaklingar hafa þegið þjónustu annars staðar í heilbrigðiskerfinu þar sem sótt hefur verið um þjónustu á fleiri en einum stað eða að ekki sé þörf fyrir þjónustu geðheilsuteymis. Þannig getur sami einstaklingurinn verið á mörgum biðlistum samtímis. Dæmi um tilvísanir sem er vísað annað eru sérhæfð mál, t.d. einstaklingar með virkan fíknisjúkdóm, einstaklingar með einhverfu og þroskahamlanir eða alvarlegar átraskanir og einstaklingar sem einungis óska eftir viðtali hjá einni fagstétt, t.d. geðlækni eða sálfræðingi, og eru ekki í þörf fyrir þverfaglega þjónustu.

     4.      Hvernig er hlutfallsleg álagsdreifing á mismunandi geðheilsuteymi á höfuðborgarsvæðinu eftir stærð þjónustusvæða þeirra, hvernig eru þau mönnuð og hvert er samstarf þeirra, annars vegar við heilsugæsluna og hins vegar við þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri?
    Geðheilsuteymunum bárust tilvísanir fyrir 912 einstaklinga á síðasta ári. Dreifðust þær nokkuð jafnt milli teymanna þriggja og eins og nefnt var í svari við 3. lið fyrirspurnarinnar er hluta tilvísana vísað í önnur úrræði eftir því hver þjónustuþörfin er. Upptökusvæði almennu geðheilsuteymanna eru svipuð að stærð eða frá 70–80 þúsund manns á hverju svæði.
Alls eru 13 stöðugildi starfsmanna í hverju teymi. Í teymunum starfa m.a. hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, geðlæknar, notendafulltrúar, þjónustufulltrúar, félagsráðgjafar og iðjuþjálfar. Gott og náið samstarf og samvinna er milli teymanna þriggja og hefur verið allt frá stofnun þeirra. Þau vinna eftir sameiginlegu verklagi og hafa sömu inntökuskilyrði. Gott samstarf er á milli almennu heilsugæslunnar og geðheilsuteymanna og samvinna vegna sameiginlegra skjólstæðinga. Geðheilsuteymin taka á móti tilvísunum frá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri og hafa átt í samstarfi við Landspítala um meðferð í þeim tilvikum þegar notendur geðheilsuteymanna hafa þurft á innlögn á sjúkrahús að halda. Geðheilsuteymin vísa einnig í sérhæfð meðferðarúrræði á geðsviði Landspítala þegar það á við.
    Álag er mælt út frá komum og innlögnum skjólstæðinga teymisins á geðdeildir Landspítala og fjölda tilvísana. Út frá því er álag mest hjá geðheilsuteymi HH vestur sem er staðsett í 101 Reykjavík og sinnir póstnúmerum 101–108 og 170.

     5.      Hver eru geðheilsuteymin sem starfa á landsvísu og hvaða hópum þjóna þau? Óskað er eftir tölulegum upplýsingum um fjölda þjónustuþega frá því teymin voru sett á laggirnar.
    Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur á forræði sínu sérhæfð geðheilsuteymi sem starfa á landsvísu. Þau teymi sem sinna fullorðnum á landsvísu eru Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna sem sinnir greiningu og meðferð á ADHD, Geðheilsuteymi fangelsa sem sinnir geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsa og föngum á reynslulausn, Geðheilsuteymi taugaþroskaraskana sem sinnir einstaklingum með þroskahömlun og alvarlegar fatlanir og geðrænan vanda auk þess sem Heilaörvunarmiðstöðin sinnir fólki með meðferðarþrátt þunglyndi. Hvað varðar þjónustu við börn þá tók Geðheilsumiðstöð barna til starfa árið 2022 hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Geðheilsumiðstöð barna starfar á landsvísu og er markmið hennar að efla frekar þjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Geðheilsumiðstöðin sameinaði þjónustu sem Þroska- og hegðunarstöð, Geðheilsuteymið Fjölskylduvernd og meðferðarteymi fyrir börn og unglinga veittu áður.
    Fjölda mála teymanna síðastliðin þrjú ár má sjá í eftirfarandi töflu. Í þeim reitum þar sem ekki eru tölur voru teymi ekki tekin til starfa. Í einhverjum tilvikum fer mál einstaklinga yfir áramót og er þá talið í samtölum beggja ára.

Teymi fyrir fullorðna 2020 2021 2022
Geðheilsuteymi ADHD 4 797
Geðheilsuteymi fangelsa 117 219 220
Geðheilsuteymi taugaþroskaraskana 178 238
Heilaörvunarmiðstöðin 59
117 401 1.314
Teymi fyrir börn og fjölskyldur 2020 2021 2022
Geðheilsumiðstöð barna 979
Geðheilsuteymi fjölskylduvernd 235 382 354
Þroska- og hegðunarmiðstöð 711 959 490
946 1.341 1.823