Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 30  —  30. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun heildstæðrar stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir.


Flm.: Sigmar Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að móta heildstæða stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir. Stefnan taki m.a. til forvarna, bráðafíknimóttöku, meðferðarúrræða, eftirfylgni meðferðar, endurhæfingar og skaðaminnkandi úrræða. Í henni skal gera tillögu að aðgerðaáætlun til umbóta á viðeigandi löggjöf.
    Stefnan skal lögð fram eigi síðar en á vorþingi 2024 og gilda til ársins 2030.


Greinargerð.

    Áfengis- og vímuefnavandinn er viðamikið og flókið heilbrigðismál og veldur hann tugum dauðsfalla á Íslandi á hverju ári. Stefna í áfengis- og vímuvörnum var í gildi frá desember 2013 til ársins 2020 en síðan þá hefur Ísland verið stefnulaust í málaflokknum.
    Mikilvægt er að stjórnvöld hafi skýra stefnu í málaflokknum. Skýr stefna er leiðbeinandi fyrir aðgerðir og áætlanir og tengir saman þá aðila sem starfa að áfengis- og vímuefnavörnum og þjónustu við þá sem glíma við fíkn. Með skýrri stefnu má ná betri árangri í forvörnum, bæta skilvirkni og gæði þjónustu og tryggja samþættingu og samfellu fyrir þá einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda. Þannig nýtast betur fjármunir, þekking og mannafli. Með heildstæðri stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir eru send skýr skilaboð til samfélagsins um að vandi og hagsmunir viðkomandi einstaklinga skipti máli á sama tíma og dregið er úr þeim skaða sem vímugjafar valda, þjónusta er bætt og öryggi og heilbrigði almennings er aukið. Með markvissum aðgerðum er unnt að draga úr andlegum, líkamlegum og félagslegum skaða og kostnaði. Gildir það jafnt um einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki og samfélagið allt.
    Síðustu ár hefur notkun ópíóíðalyfja aukist verulega. Áætlað er að allt að 80 manns hafi og muni látast fyrir aldur fram á þessu ári vegna hennar. Vegna þessa er þörfin á virkum bráðameðferðum orðin mjög brýn. Samhliða slíkum meðferðum þarf að tryggja aukna sérhæfða þjónustu á borð við áfalla- og kvíðameðferð og stuðning við aðstandendur. Bið eftir hvers konar meðferðarúrræðum er oft of löng. Þegar fólk er tilbúið til að fara í meðferð en kerfið getur ekki tekið á móti því stóreykst hætta á að það leiðist í neyslu á ný. Þessi staða dregur úr áhrifum meðferðarúrræða, eykur samfélagslegan kostnað og stefnir mannslífum í hættu.
    Flutningsmenn telja ótækt að Ísland sé stefnulaust í þessum stóra og viðkvæma málaflokki og að hagsmunir þeirra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda og aðstandenda þeirra séu þannig látnir afskiptir. Bregðast þarf við vandanum með mannúð að leiðarljósi. Áfengis- og vímuefnavandanum á fyrst og fremst að mæta sem heilbrigðismáli en ekki lögreglumáli enda eru þeir sem við hann glíma oftar en ekki í afar viðkvæmri stöðu félagslega og andlega.
    Lagt er til að heilbrigðisráðherra móti heildstæða stefnu sem byggist á sömu forsendum og stefnan sem var sett 2013 en taki mið af þeim breytingum sem hafa orðið síðan þá, bæði á málaflokknum en líka á þekkingu okkar á meðferðum og skaðaminnkandi úrræðum. Í nýrri stefnu um áfengis- og vímuefnavarnir þarf að skilgreina eftirmeðferðir og tryggja þeim fullnægjandi fjármögnun. Hið sama gildir um langvarandi eftirfylgni og endurhæfingarúrræði, sem og skaðaminnkun og neyslurými. Löggjöf þarf jafnframt að tryggja að notendur þurfi ekki að óttast afskipti lögreglu við að þiggja skaðaminnkandi úrræði. Í stefnunni skal koma fram tímasett aðgerðaáætlun sem felur í sér tillögur að umbótum á viðeigandi löggjöf. Skal stefnan lögð fram eigi síðar en á vorþingi 2024 og gilda til ársins 2030.