Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 225  —  222. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um neyðargeðheilbrigðisteymi og fræðslu viðbragðsaðila.


Flm.: Eva Sjöfn Helgadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Dagbjört Hákonardóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Jóhann Páll Jóhannsson, Sigmar Guðmundsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á fót neyðargeðheilbrigðisteymi og tryggja því fjármögnun. Teymið verði skipað heilbrigðisstarfsfólki með sérþekkingu á sviði geðheilbrigðis, vímuefnavanda og skaðaminnkunar. Teyminu verði falið að sinna útköllum úr neyðarnúmerinu 112 í þeim tilvikum þar sem grunur leikur á að einstaklingur eða einstaklingar á vettvangi stríði við geðrænan vanda eða vímuefnavanda. Þá skuli starfsfólk Neyðarlínunnar, sem og lögregla, fá viðeigandi fræðslu til að meta í störfum sínum hvort þörf sé á aðstoð frá heilbrigðisstarfsfólki í útköllum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi til þingsályktunar var lögð fram á 153. löggjafarþingi (318. mál) og er nú lögð fram að nýju óbreytt. Undanfarið hefur umræða um geðheilbrigðismál orðið umfangsmeiri í samfélaginu. Ákall hefur verið eftir auknu aðgengi að faglegri þjónustu, sérstaklega í alvarlegustu tilvikunum. Mikilvægt er að tryggja öryggi bæði notenda þjónustunnar og lögreglu með sérhæfðari aðstoð fyrir alla aðila. Því er mikilvægt að efla samstarf milli geðheilbrigðiskerfisins og lögreglu. Almennt er líklegra að lögregla hafi afskipti af einstaklingum með geðrænan vanda eða vímuefnavanda heldur en heilbrigðisstarfsfólk. Þessir einstaklingar eru oft með fjölþættan vanda sem krefst aðkomu sérfróðra aðila.
    Einstaklingar með geðrænan vanda eru ekki ofbeldisfyllri en gengur og gerist hjá öðrum í samfélaginu. Þeir eru hins vegar tíu sinnum líklegri til að verða fyrir ofbeldi. Þrátt fyrir það er lögregla oftar kölluð út en heilbrigðisstarfsfólk þegar upp koma tilvik vegna einstaklinga með geðrænan vanda, oft vegna vanþekkingar almennra borgara á ástandi þeirra. Lögregluna skortir jafnframt í mörgum tilvikum nauðsynlega sérþekkingu til að takast á við einstaklinga sem glíma við alvarlegan geðrænan vanda, svo sem einstaklinga með geðrofseinkenni. Í öðrum tilvikum getur aðkoma heilbrigðisstarfsfólks einnig verið nauðsynleg þótt ekki sé um eins alvarleg atvik að ræða. Rannsóknir sýna að með snemmtækri íhlutun heilbrigðisstarfsfólks er hægt að fyrirbyggja frekari afbrot eða skaða sem einstaklingar með geðrænan vanda hefðu getað valdið í framhaldinu ef þeir hefðu ekki fengið aðstoð. Eins er mikilvægt að aðgerðir lögreglu og annarra viðbragðsaðila orsaki ekki frekari áföll fyrir einstaklinginn sem á í hlut eða geri jafnvel illt verra. Víða erlendis hafa sérstök neyðargeðheilbrigðisteymi gefið góða raun, bæði fyrir einstaklinga með geð- eða vímuefnavanda og lögregluna og samfélagið í heild. Það er mikilvægt að líta til ríkja sem hafa staðið sig vel og sýnt gott fordæmi á þessu sviði til þess að betrumbæta þjónustuna hérlendis.

Reynsla annarra ríkja.
    Árið 1978 hóf lögreglan í Bresku Kólumbíu í Kanada samstarf við hjúkrunarfræðinga í útköllum er vörðuðu geðrænan vanda. Síðan þá hefur samstarf lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks verið ein af grunnstoðum útkallsþjónustu í fylkinu. Frá árinu 1989 hefur verið starfandi svokallað almannaöryggisteymi í Eugene í Oregon-ríki Bandaríkjanna, sem gengur undir heitinu CAHOOTS. Teymið hefur verið fyrirmynd margra annarra sams konar teyma víðs vegar um Bandaríkin, t.d. STAR-verkefnisins í Denver í Colorado-ríki. Þegar teymið fær útkall vegna einstaklings með geðrænan vanda er sendur læknir og heilbrigðisstarfsmaður á geðheilbrigðissviði á vettvang. Verkefnin eru margvísleg, t.d. krísuíhlutun, velferðarathuganir, útköll vegna misnotkunar vímuefna, sjálfsmorðshættu o.fl. Ef útkallið varðar ofbeldisfullan einstakling er óskað eftir stuðningi frá lögreglu. Árið 2019 var aðeins kallað eftir lögreglu í 150 skiptum af 24.000. Talið er að almannaöryggisteymið í Eugene-borg spari skattgreiðendum 8,5 milljónir bandaríkjadala á ári hverju með því að meðhöndla atvik sem annars hefðu endað á borði lögreglu eða inni á sjúkrahúsum að óþörfu. Í Hamilton í Ontario-fylki í Kanada fækkaði handtökum um 70% eftir að sambærilegu aðgerðateymi var komið á laggirnar árið 2013. Verkefnið gaf svo góða raun að síðan þá hefur verið komið á fót slíkum aðgerðateymum í samstarfi við lögreglu í 90% lögregluumdæma Ontario-fylkis.
    Í Svíþjóð hefur sérstakur geðheilbrigðissjúkrabíll verið rekinn frá árinu 2015. Bíllinn er mannaður af tveimur geðhjúkrunarfræðingum og einum sjúkrabílstjóra með sérþekkingu á fyrstu hjálp og krísustjórnun. Verkefninu var komið á fót í kjölfar ákalls um að fólk með geðrænan vanda fengi viðeigandi aðstoð í neyð, sem og frá lögreglu sem upplifði sig hjálparvana þar sem hana skorti þekkingu, þjálfun og tíma til að eiga við einstaklinga í þessari stöðu. Ef hætta er á að einstaklingurinn geti verið ofbeldisfullur er einnig kölluð til lögregla, en í langflestum tilvikum er íhlutunar hennar ekki þörf. Verkefnið hefur gefið góða raun, bæði er sjúklingum betur sinnt með faglegri þjónustu, en einnig er það léttir fyrir lögregluna að vita að hún getur kallað til sérfróða aðila ef þörf er á.

Þjálfun lögreglu og annarra viðbragðsaðila.
    Neyðargeðheilbrigðisteymi leysir þó ekki eitt og sér allan vanda. Viðbragðsaðilar verða að búa yfir þekkingu til að meta hvort þörf er á að kalla út geðheilbrigðisteymi eða lögreglu, eða bæði. Lögreglan í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada bauð fyrst upp á námskeið til að þjálfa lögreglufólk í að meðhöndla einstaklinga með geðrænan vanda árið 2002. Frá árinu 2018 hefur það verið skylda fyrir lögreglu sem starfar í framlínu. Lögregluumdæmi í Bandaríkjunum hafa nýlega komið á fót verkferlum þar sem lögregla er í ríku samstarfi við heilbrigðisstarfsmenn þegar kemur að útköllum vegna einstaklinga með geðrænan vanda. Heilbrigðisstarfsmenn og sálfræðingar veita lögreglufólki þjálfun í krísuíhlutun svo að það geti metið hvort aðstæður krefjist aðkomu heilbrigðisstarfsfólks. Í Miami-Dade-sýslu í Flórída situr lögreglufólk 40 tíma námskeið undir handleiðslu sérfræðinga á geðheilbrigðissviði. Verkefnið hefur gefið góða raun. Tilefnislausum handtökum og skotárásum hefur fækkað því að lögreglufólkið hefur lært aðrar leiðir til að meðhöndla slíkar aðstæður. Þá hefur aðgerðum lögreglu þar sem beita hefur þurft valdi snarfækkað.
    Einnig er mikilvægt að starfsfólk Neyðarlínunnar hljóti viðhlítandi þjálfun og fræðslu í að meta hvort kalla skuli til lögreglu eða heilbrigðisstarfsfólk þegar þörf er á útkalli. Frá febrúar 2021 hafa þau sem hringt hafa í neyðarsíma Austin í Texas-ríki Bandaríkjanna getað valið hvort þau þiggi aðstoð lögreglu, slökkviliðs eða heilbrigðisstarfsfólks. Starfsfólk neyðarsímans hefur hlotið þjálfun til að meta erindið og framsendir það til viðeigandi viðbragðsaðila. Þar að auki hefur allt lögreglufólk í Austin hlotið þjálfun í krísuíhlutun, en í þeim tilvikum þar sem grunur leikur á að einstaklingur á vettvangi eigi við alvarlegan geðrænan vanda að stríða sendir starfsfólk neyðarsímans einnig út heilbrigðisstarfsfólk með sérhæfingu á geðheilbrigðissviði.

Betra samfélag með bættri þekkingu.
    Þar sem almannaöryggisteymi eða sambærileg teymi með geðheilbrigðisstarfsfólki hafa unnið hefur dregið úr aðkomu lögreglu og þar með handtökum og valdbeitingu. Þegar þessir hópar vinna vel saman, bæði á vettvangi og á bak við tjöldin í krísuíhlutunarþjálfun, hefur það sýnt sig erlendis að fólk með geðsjúkdóma á auðveldara með að fá geðheilbrigðisþjónustu, lögreglan upplifir færri áföll og minni streitu og geðheilbrigðisstarfsmenn hafa tækifæri til að hafa enn meiri áhrif í samfélaginu. Skjólstæðingar teymanna eru líklegri til að fá þá hjálp sem þeir þurfa og lögreglufólk upplifir meira öryggi í starfi þar sem það veit betur hvernig á að bregðast við í aðstæðum sem þessum. Fyrstu gögn hafa sýnt að þessi teymi stuðla að heilbrigðari samfélögum sem eru öruggari og fjárhagslega stöðugri.
    Flutningsfólk þessarar tillögu leggur því eindregið til að ráðherrar hefjist handa við að betrumbæta þjónustu viðbragðsaðila við einstaklinga með geðrænan vanda og/eða vímuefnavanda.