Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 395  —  383. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið), nr. 191/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi), nr. 17/2023 frá 3. febrúar 2023 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og nr. 50/2023 frá 17. mars 2023 um breytingu á V. viðauka (Frjáls för launþega) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar:
     1.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
     2.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 frá 17. apríl 2019 um móttökuaðstöðu í höfnum til afhendingar úrgangs frá skipum, um breytingu á tilskipun 2010/65/ESB og um niðurfellingu tilskipunar 2000/59/EB.
     3.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2023 frá 3. febrúar 2023 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og fella inn í samninginn framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/369 frá 1. mars 2021 um að koma á nauðsynlegum tækniforskriftum og verklagsreglum fyrir samtengingarkerfi miðlægra skráa sem um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849.
     4.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023 frá 17. mars 2023 um breytingu á V. viðauka (Frjáls för launþega) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1157 frá 20. júní 2019 um að efla öryggi kennivottorða borgara Sambandsins og dvalarskjala sem gefin eru út til handa borgurum Sambandsins og aðstandendum þeirra sem nýta sér réttinn til frjálsrar farar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á fjórum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar (fylgiskjöl I–VIII).

2. Ákvörðun nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XI. viðauka við EES- samninginn (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið).
    Ákvörðun nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn fellir inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
    Með tilskipuninni er eldri tilskipun 2003/98/EB endurútgefin með breytingum í samræmi við auknar kröfur og tækniframfarir á sviði endurnota opinberra gagna. Markmið tilskipunarinnar er að setja lágmarksreglur um endurnot opinberra upplýsinga til að örva stafræna nýsköpun, einkum hvað varðar gervigreind, og fullnýta þau tækifæri sem felast í upplýsingum frá hinu opinbera fyrir evrópskt hagkerfi og samfélag. Yfirvöld og aðrir opinberir aðilar láta safna, framleiða, fjölfalda og dreifa margvíslegum upplýsingum á ýmsum sviðum við störf sín og við veitingu þjónustu í almannaþágu. Slíkar upplýsingar eru til að mynda á sviði félagsmála, stjórnmála, efnahagsmála, lögfræði, landafræði, umhverfismála, veðurs, jarðvísinda, ferðamála, viðskipta, einkaleyfa og menntamála. Notkun slíkra gagna í öðrum tilgangi telst endurnotkun. Um er að ræða yfirgripsmikið, fjölbreytt og verðmætt safn heimilda sem geta leitt til ávinnings fyrir samfélagið. Að láta þessar upplýsingar í té, þ.m.t. kvik gögn (e. dynamic data), á rafrænu formi sem er almennt notað gerir borgurum og lögaðilum kleift að finna nýjar leiðir til að nýta upplýsingarnar og skapa nýjar og nýskapandi vörur og þjónustu.
    Byggt er á þeirri meginreglu að flest opinber gögn eigi að vera unnt að endurnota, bæði í hagnaðarskyni og öðrum tilgangi. Tilskipunin mælir fyrir um skyldu aðildarríkjanna til að gera öll gögn, sem til eru, endurnotanleg nema aðgangur að þeim sé takmarkaður eða útilokaður samkvæmt landsreglum um aðgang að gögnum eða með fyrirvara um aðrar undantekningar sem mælt er fyrir um í tilskipuninni. Tilskipunin byggist á því fyrirkomulagi um aðgang sem fyrir er í aðildarríkjunum og hefur ekki áhrif á innlendar reglur um aðgang að gögnum. Hún gildir ekki í þeim tilvikum þar sem borgarar eða lögaðilar geta, samkvæmt gildandi fyrirkomulagi um aðgang, einungis fengið gögn með því að sýna fram á að þeir hafi sérstakra hagsmuna að gæta. Afgreiða skal beiðnir um endurnot með rafrænum hætti þar sem unnt er og innan eðlilegra tímamarka. Almennt er óheimilt að veita einkaleyfi til endurnota. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er falið að skilgreina lista af gagnasettum sem aðildarríki Evrópusambandsins skuli gera aðgengileg á véllæsilegu formi og án endurgjalds. Kvik gögn skulu að meginstefnu vera aðgengileg til endurnotkunar um leið og þeim hefur verið safnað, ef það leiðir ekki til óhóflegrar fyrirhafnar. Endurnot opinberra upplýsinga skulu að meginstefnu vera gjaldfrjáls. Þó er unnt að innheimta jaðarkostnað (e. marginal costs) í ákveðnum tilvikum en skilyrði fyrir því eru þrengd frá því sem áður gilti. Rannsóknargögn sem fjármögnuð eru með opinberum sjóðum skulu vera aðgengileg. Loks er gildissvið reglnanna víkkað út til að ná yfir fyrirtæki í eigu hins opinbera að svo miklu leyti sem þau ákveða að gera gögn aðgengileg til endurnotkunar.
    Upptaka fyrrgreindar gerðar í EES-samninginn og innleiðing hennar hér á landi kallar á lagabreytingar. Gert er ráð fyrir að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi á þessu löggjafarþingi fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um endurnot opinberra upplýsinga, nr. 45/2018.
    Unnið er að kostnaðarmati við innleiðingu og nánari upplýsingar um kostnað verður að finna í framangreindu frumvarpi. Endurskipuleggja þarf vefsvæði fyrir miðlæga gagnagátt og gera tiltekin gagnasett aðgengileg til endurnotkunar, t.d. í gegnum forritaskil og hefur þegar verið gert ráð fyrir þeim kostnaði að hluta til í fjármálaáætlun. Erfitt er að meta fjárhagslegan ábata af greiðara aðgengi að opinberum upplýsingum en hann getur komið fram í aukinni nýsköpun, þróun nýrrar tækni og betri þjónustu í þágu samfélagsins.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála og gerði nefndin ekki athugasemdir við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn. Einnig var haft samráð við utanríkismálanefnd í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og tilskipunin kynnt nefndinni sérstaklega.

3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn fellir inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 frá 17. apríl 2019 um móttökuaðstöðu í höfnum til afhendingar úrgangs frá skipum, um breytingu á tilskipun 2010/65/ESB og um niðurfellingu tilskipunar 2000/59/EB.
    Hin nýja tilskipun (ESB) 2019/883 felur í sér endurskoðun á tilskipun 2000/59/EB. Tilskipun 2000/59/EB fjallar um skyldur aðildarríkjanna til að sjá um að móttökuaðstaða í höfnum og aðstaða til afhendingar úrgangs frá skipum í höfnum sé viðunandi. Hún innleiðir að hluta reglur MARPOL-samningsins um varnir gegn mengun frá skipum sem gerður er á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og Ísland hefur undirgengist.
    Markmið hinnar nýju tilskipunar (ESB) 2019/883 er að vernda sjávarumhverfið gegn neikvæðum áhrifum af losun úrgangs frá skipum sem nota hafnir á Evrópska efnahagssvæðinu ásamt því að tryggja að skipaumferð gangi snurðulaust fyrir sig með því að bæta aðgengi að og notkun fullnægjandi móttökuaðstöðu í höfnum og afhendingu úrgangs til þeirrar aðstöðu. Skilgreiningar, gildissvið og eyðublöð eru samræmd við þróun MARPOL-samningsins. Tilskipunin tekur til alls úrgangs frá skipum og gildir einnig um úrgang sem safnast í net við veiðar og um veiðarfæri sem eru aflögð, yfirgefin eða töpuð. Gerðar eru ráðstafanir til að tryggja að þessum úrgangi sé skilað til lands í fullnægjandi móttökuaðstöðu í höfnum þar sem úrganginum skal safnað sérstaklega til endurvinnslu. Reglurnar gilda bæði um fiskiskip og tómstundabáta. Stefnt er að því að einfalda ferla um tilkynningarskyldu notenda hafna um úrgang en kröfur um eftirlit eru auknar.
    Upptaka fyrrgreindar gerðar í EES-samninginn og innleiðing hennar hér á landi kallar á lagabreytingar. Fyrirhugað er að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra leggi á þessu löggjafarþingi fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004. Samkvæmt kostnaðarmati, sem unnið var við gerð frumvarpsins, verður kostnaður við innleiðingu gerðarinnar óverulegur.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála og gerði nefndin ekki athugasemdir við upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn. Einnig var haft samráð við utanríkismálanefnd í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og tilskipunin kynnt nefndinni sérstaklega.

4. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2023 frá 3. febrúar 2023 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2023 frá 3. febrúar 2023 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) fellir inn í EES-samninginn framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/369 frá 1. mars 2021 um að koma á nauðsynlegum tækniforskriftum og verklagsreglum fyrir samtengingarkerfi miðlægra skráa sem um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849.
    Með framkvæmdarreglugerðinni eru settar reglur um það hvernig skrár um raunverulega eigendur lögaðila og fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila í EES-ríkjunum verði samtengdar í gegnum miðlægan vettvang (e. European Central Platform) sem settur var á laggirnar með tilskipun (ESB) 2017/1132. Framkvæmdarreglugerðin hefur að geyma forskriftir að tæknilegri útfærslu og verklagsreglum svo að framangreind samtenging geti átt sér stað.
    Markmiðið með reglum tilskipunar (ESB) 2015/849 um aðgengi að upplýsingum um raunverulega eigendur lögaðila og fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila í gegnum samtengingarkerfi er að vinna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í tilskipuninni er kveðið á um að tilgreindir aðilar hafi aðgengi að upplýsingunum eins og nánar er kveðið á um í framangreindum gerðum.
    Gert er ráð fyrir að innleiðing framkvæmdarreglugerðar (ESB) 2021/369 kalli á breytingar á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, og lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Innleiðingin hefur í för með sér tæknilega útfærslu eða breytingar á tölvukerfum hjá ríkisskattstjóra svo að hægt sé að veita upplýsingar úr skrá um raunverulega eigendur samkvæmt lögum nr. 82/2019, í gegnum miðlæga vettvanginn (e. European Central Platform). Menningar- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, á þessu löggjafarþingi til innleiðingar reglugerðarinnar. Gera má ráð fyrir að nokkur kostnaður hljótist af innleiðingu reglugerðarinnar fyrir ríkissjóð vegna framangreindra breytinga en unnið er að kostnaðarmati í tengslum við framlagningu frumvarps til innleiðingar reglnanna. Gert er ráð fyrir að innleiðingin hafi hvorki í för með sér tekjur fyrir ríkissjóð né tekjur eða kostnað fyrir aðra aðila.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku framkvæmdarreglugerðar (ESB) 2021/369 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála og gerði nefndin ekki athugasemdir við upptöku framkvæmdarreglugerðarinnar í EES-samninginn. Einnig var haft samráð við utanríkismálanefnd í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og framkvæmdarreglugerðin kynnt nefndinni sérstaklega.

5. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023 frá 17. mars 2023 um breytingu á V. viðauka (Frjáls för launþega) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023 frá 17. mars 2023 um breytingu á V. viðauka (Frjáls för launþega) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn fellir inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1157 frá 20. júní 2019 um að efla öryggi kennivottorða borgara Sambandsins og dvalarskjala sem gefin eru út til handa borgurum Sambandsins og aðstandendum þeirra sem nýta sér réttinn til frjálsrar farar.
    Reglugerðinni er ætlað að auka öryggi persónuskilríkja og skjala um búsetu og, í því skyni, samræma kröfur til slíkra skilríkja. Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um tæknilegar kröfur sem lúta að sniði skilríkja og lesanleika þeirra auk þess sem skilríkin skulu fela í sér öruggan geymslumiðil þar sem andlitsmynd og tvö fingraför korthafa eru geymd á stafrænu formi. Í reglugerðinni eru enn fremur ákvæði um söfnun lífkennaupplýsinga og öryggi og áreiðanleika þeirra persónuupplýsinga sem unnið er með í tengslum við útgáfu skilríkjanna.
    Ný lög um nafnskírteini voru samþykkt á Alþingi 8. júní sl., sbr. lög nr. 55/2023, og munu öðlast gildi 1. desember nk. Við samningu frumvarps til þeirra laga var horft til skilyrða reglugerðar (ESB) 2019/1157 um að efla öryggi kennivottorða og dvalarskjala og er það mat dómsmálaráðuneytisins að framkvæmdin við útgáfu nafnskírteina frá 1. desember nk. muni uppfylla efniskröfur fyrrgreindrar reglugerðar.
    Haft var samráð við utanríkismálanefnd um upptöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1157 til samræmis við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála og gerði nefndin ekki athugasemdir við upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Einnig var haft samráð við utanríkismálanefnd í aðdraganda fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem umrædd ákvörðun var tekin og reglugerðin kynnt nefndinni sérstaklega.

6. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umræddar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar fela í sér breytingar á EES-samningnum en þar sem þær kalla á lagabreytingar hér á landi voru þær teknar með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðununum felast.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið).

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0395-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0395-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0395-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 frá 17. apríl 2019 um móttökuaðstöðu í höfnum til afhendingar úrgangs frá skipum, um breytingu á tilskipun 2010/65/ESB og um niðurfellingu tilskipunar 2000/59/EB.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0395-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2023 frá 3. febrúar 2023 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0395-f_V.pdf



Fylgiskjal VI.


Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/369 frá 1. mars 2021 um að koma á nauðsynlegum tækniforskriftum og verklagsreglum fyrir samtengingarkerfi miðlægra skráa sem um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0395-f_VI.pdf



Fylgiskjal VII.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023 frá 17. mars 2023 um breytingu á V. viðauka (Frjáls för launþega) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0395-f_VII.pdf



Fylgiskjal VIII.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1157 frá 20. júní 2019 um að efla öryggi kennivottorða borgara Sambandsins og dvalarskjala sem gefin eru út til handa borgurum Sambandsins og aðstandendum þeirra sem nýta sér réttinn til frjálsrar farar.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0395-f_VIII.pdf