Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 412  —  398. mál.




Beiðni um skýrslu


frá heilbrigðisráðherra um niðurgreiðslu nikótínlyfja.


Frá Jódísi Skúladóttur, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Bjarna Jónssyni, Orra Páli Jóhannssyni, Steinunni Þóru Árnadóttur, Jakobi Frímanni Magnússyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur, Þórarni Inga Péturssyni, Birgi Þórarinssyni, Gísla Rafni Ólafssyni og Þórunni Sveinbjarnardóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um kostnaðar- og ábatagreiningu vegna niðurgreiðslu nikótínlyfja. Í skýrslunni verði m.a. fjallað um:
     a.      áætlaðan fjölda fólks sem reykir, notar tóbak eða aðra vöru sem inniheldur nikótín,
     b.      samsetningu hóps reykingamanna eftir helstu félags- og efnahagsbreytum,
     c.      samfélagslegan kostnað reykinga,
     d.      samanburð á árangri þess að hætta að nota nikótín í formi tóbaks eða annarrar vöru sem inniheldur efnið með og án lyfjameðferðar,
     e.      ábata þess að greiða niður nikótínlyf.

Greinargerð.

    Tóbaksvarnir hafa verið öflugar um áratugaskeið á Íslandi. Mikill árangur hefur náðst í baráttunni og hefur fólki sem reykir fækkað markvisst. Notkun nikótíns hefur breyst og þróast í gegnum árin. Aukin notkun munntóbaks hjá yngra fólki og nýjungar eins og rafrettur og nikótínpúðar hafa haft ákveðið bakslag í för með sér og óljóst hver þróun samsettrar notkunar nikótíns er nú. Markmið laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks.
    Áætla má að efnahagslegir hvatar séu til staðar þegar horft er til álags á heilbrigðiskerfið vegna afleiðinga reykinga. Sömuleiðis eru efnahagslegir hvatar fyrir einstaklinga sem reykja sígarettur miklir.
    Í skýrslu landlæknis Bandaríkjanna (e. Surgeon General) frá 2020 kemur fram að þjóðhagslega hagkvæmt sé að styðja fólk til reykleysis. 1 Stuðningur við reykleysi er sá þáttur tóbaksvarna hér á landi sem hefur komið verst út í evrópskum samanburði þegar litið er til þeirra þátta sem talið er að skili mestum árangri. 2
    Það er dýrt að reykja og því kann það að skjóta skökku við að fólk sem getur leyft sér þann vafasama munað hafi ekki efni á lyfjum og öðrum hjálpartækjum til að hætta að reykja. En staðreyndin er sú að það er oft ekkert mál fyrir fólk að verða sér úti um tóbak frá degi til dags enda til þess að gera lítill peningur í hvert skipti. Hins vegar reynist mörgum erfitt að reiða fram hærri upphæðir til að kaupa lyf sem hjálpa viðkomandi að losna undan reykingunum. Það er þess vegna vert að kanna ábata og kostnað þess að greiða niður nikótínlyf.

1     www.hhs.gov/sites/default/files/2020-cessation-sgr-full-report.pdf
2     www.tobaccocontrolscale.org