Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 416  —  402. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.


Flm.: Steinunn Þóra Árnadóttir, Orri Páll Jóhannsson, Bjarni Jónsson, Jódís Skúladóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna heildstæða stefnu um daglegar, gjaldfrjálsar, næringarríkar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

Greinargerð.

    Með tillögunni er mennta- og barnamálaráðherra falið að vinna heildstæða stefnu um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Með tillögunni er horft til þess að útvíkka hlutverk matmálstíma í skólum með þeim hætti að hann verði gagnvirkur hluti af námi þar sem nemendur fræðast um mat og mataræði í samræmi við markmið aðalnámskrár grunnskóla í heimilisfræði.
    Sé vel á málum haldið styðja skólamáltíðir við námsárangur barna, næringu, heilsu og almenna vellíðan. Þannig verður matur sem borðaður er í skólanum ekki einungis mikilvægur næringar- og orkugjafi heldur einnig hluti af sjálfbærnikennslu, næringarfræði og lífsleikni.
    Holl og góð næring er grunnþáttur í þroska barna og ungmenna og mikilvæg fyrir vöxt þeirra og þroska. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir stuðla að jafnrétti, þar sem allir nemendur fá hollan og næringarríkan mat óháð stöðu forráðafólks. Matarmenning og viðhorf til matar mótast einnig í grundvallaratriðum á skólaaldri. Því er matur og stuðningur skólanna við mataruppeldi einkar mikilvægur þáttur í þroska nemenda og getur haft afgerandi áhrif á heilsufar til framtíðar.
    Tillöguflytjendum er kunnugt um að nú þegar býður sveitarfélagið Fjarðabyggð upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum og Þingeyjarsveit í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins.

Næring og heilsa.
    Matartími í skólum skiptir máli þegar kemur að bættum matarvenjum og umgengni við mat og matvæli. Matartíma má nýta til að auka þekkingu nemenda og meðvitund um áhrif daglegrar neyslu matvæla. Með góðu og heilnæmu umhverfi og næringarríkum skólamáltíðum er hægt að stuðla að góðum matarvenjum og auka matargleði. Börn eiga, rétt eins og annað fólk, að geta borðað í ró og notið matarins, jafnframt því að kynnast nýjum matvælum og læra að borða heilsusamlega. Of algengt er að matartímar barna í grunnskólum einkennist af tímaskorti og að neyta þurfi matarins í flýti, til að komast í frímínútur. Flýtir og óreiða í matartímum stuðlar ekki að góðum matarvenjum og getur ýtt undir streitu nemenda. Þar geta skólar verið forráðafólki stuðningur við mataruppeldi og stuðlað að bættri líðan nemenda og sambands þeirra við mat.
    Of algengt er að börn þrói með sér slæmt samband við mat sem getur leitt til alvarlegra og langvinnra veikinda sem einkennast af truflunum á mataræði og eru samspil líkamlegra, félagslegra og sálrænna þátta í formi átraskana eða ofþyngdar. Offita barna hefur aukist um allan heim á undanförnum áratugum og er nú orðin alvarlegt heilbrigðisvandamál. Á síðustu árum hafa fréttaskýringarþættirnir Kompás og Kveikur hvor um sig fjallað um þessa þróun. Í þætti Kompáss frá 2019 var greint frá mælingum Heilbrigðistofnunar Vestfjarða sem sýndu að fimmti hver unglingsdrengur á Vestfjörðum var of feitur samkvæmt mælingum á þyngd íslenskra grunnskólabarna. Í þætti Kveiks frá 2021 kom fram að tæpur fimmtungur grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu var yfir kjörþyngd árið 2014 en tæplega fjórðungur sjö árum síðar. Árið 2014 voru 4% barna með offitu, en 5,6% árið 2021. Þá kom einnig fram að hlutfall barna með offitu á landsbyggðinni jókst úr 6,5% í 9,4% á sama tíma. Í þættinum kom einnig fram að fleiri börn en áður leituðu til Landspítala með alvarlega fylgikvilla ofþyngdar, svo sem fitulifur, kæfisvefn og undanfara sykursýki.

Sjálfbærniviðmið.
    Sjálfbærni er einn af grunnþáttum menntunar samkvæmt aðalnámskrá. Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Matmálstíma með hollum og næringarríkum mat má nota sem undirstöðu í kennsluefni um sjálfbærni, svo sem um það hvaðan maturinn kemur, hvernig hann er ræktaður, hvernig vinna má gegn matarsóun og nýta afganga í moltugerð.
    Upplýsingar um framleiðslu og matarsóun eru mikilvægur þáttur í bættum matarvenjum og umgengni við mat og matvæli. Þannig má auka þekkingu nemenda og meðvitund um áhrif daglegrar neyslu tiltekinna fæðutegunda, neyslumynstur, uppruna matvæla (aðfangakeðjuna), heilnæmi og næringarinnihald matar, en þetta eru lykilþættir í því að móta ábyrga neytendur framtíðarinnar ásamt því að kenna börnum að huga að heilsu sinni til langframa.
    Finna má dæmi um verkefni sem unnin hafa verið af grunnskólum landsins til að stuðla að bættri þekkingu nemenda á matvælum og matarsóun og eru að mati tillöguflytjenda í anda þessarar þingsályktunartillögu. Í grunnskólanum á Grenivík hafa ákveðin átaksverkefni sem varða matarsóun verið unnin í tengslum við grænfánaverkefnið. M.a. hafa matarafgangar verið vigtaðir og efnt til keppni á milli hópa um að leifa sem allra minnstum mat samhliða umræðum við nemendur um áhrif matarsóunar, loftslagsáhrif og kostnað sem það hefur í för með sér, ásamt hvatningu til nemenda um að huga sérstaklega vel að því að sóa ekki mat í skólanum og skammta sér minna á diskinn í einu.
    Djúpivogur hefur um nokkurt skeið verið aðili að Cittaslow-hreyfingunni þar sem megináhersla er lögð á að auka lífsgæði fólks með hæglátu og friðsælu hversdagslífi. Samfélög sem taka þátt í Cittaslow-hreyfingunni leggja áherslu á ósvikna framleiðslu, heilnæman mat, heillandi handverkshefðir og umhverfisvernd. Í Djúpavogsskóla fá nemendur fræðslu um staðbundna matarmenningu og hvað megi matbúa úr því sem vex í nærumhverfinu. Nemendur á unglingastigi geta tekið valáfanga í heimilisfræði þar sem áhersla er á matvöru úr héraði, prófað ýmsar uppskriftir og heimsótt aðila sem vinna með staðbundna matarmenningu. Við rekstur skólamötuneytisins er áhersla á að vinna flestan mat frá grunni og fá sem flest hráefni úr héraði, t.d. fisk og grænmeti eftir föngum. Það er vel fylgst með því hvort og hvernig matarafgangar falla til og reynt að bregðast við því með ýmsum hætti, m.a. með tímabundnum verkefnum með nemendum þar sem unnið er að því að bæta þessi mál. Þá er lögð áhersla á að nemendur geti átt gæðastund í hádeginu og notið þess að borða hollan og góðan mat, m.a. með breytingum á stundaskrá.
    Að mati tillöguflytjenda er of algengt að framleiðslu skólamáltíða sé útvistað til fyrirtækja sem ná fram stærðarhagkvæmni á kostnað næringarinnihalds. Flutningsmenn vilja árétta mikilvægi þess að ekki sé gripið til þess að nota unna, ódýrari matvöru til að framleiða skólamáltíðir.

Sjónarmið ungmenna.
    Samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni barna hefur töluvert verið rætt um skólamál og skólamáltíðir á barnaþingum liðinna ára. Áhersla hefur þar verið lögð á að öll börn ættu að fá mat, að hollur og góður matur eigi að vera ódýrari og að boðið sé upp á fjölbreyttara og betra fæði. Sjónarmið dýravelferðar og minni kjötneyslu hafa einnig komið fram í áherslum barnaþinga ásamt áherslu á aðkomu nemenda að fæðisvali. Þá hefur sú hugmynd komið fram að nýta mætti heimilisfræði til að kenna börnum að gera grænkerafæði. Það er von flutningsmanna þessarar tillögu að framkomin sjónarmið á undangengnum barnaþingum endurspeglist í tillögunni. Það er ljóst að nálgun ungmenna á mat og mataræði er marglaga og tekur til heilsu, umhverfis og félagslegra aðstæðna. Það er í samhljómi við markmið tillögunnar um heildstæða stefnu um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
    Þá mætti við stefnumótun horfa til verkefnisins „Schoolfood4change“ sem er fjögurra ára verkefni sem fjármagnað er af Evrópusambandinu og miðar að því að endurskilgreina merkingu þess að borða hollan og sjálfbæran mat í skólum.

Umgjörð skólamáltíða annars staðar á Norðurlöndunum.
    Umgjörð og skipulag skólamáltíða er misjafnt á Norðurlöndunum. Stefnan í Svíþjóð og Finnlandi er að bjóða upp á ókeypis og næringarríkan hádegismat fyrir alla nemendur, á meðan í Noregi og Danmörku er meira um að nemendur komi með eigið nesti. Að einhverju leyti svipar brotakenndu kerfi Danmerkur til þess sem kerfis sem hefur þróast hér á landi.

Finnland.
    Skólamáltíðir eiga sér langa hefð í Finnlandi, í meira en 70 ár hefur þar verið boðið upp á ókeypis máltíðir fyrir alla. Seint á 19. öld var farið að bjóða upp á skólamat fyrir fátæk börn. Árið 1921 var kveðið á um almennt skyldunám í lögum. Svöng börn gátu átt erfitt með að einbeita sér að námi og matur í skólanum var talinn mikilvægt skref í átt að jafnrétti í menntun. Árið 1948 tóku gildi lög um ókeypis máltíðir fyrir alla nemendur. Staðbundum yfirvöldum varð þá skylt að veita nemendum í skólum ókeypis máltíðir.
    Í Finnlandi fá allir nemendur frá leikskólum og upp í framhaldsskóla næringarríka máltíð á hverjum degi, sér að kostnaðarlausu. Ávinningur af skólamat og tengingu matar við menntun og nám hefur fengið almenna viðurkenningu. Skólamáltíðir styðja við námsárangur barna, næringu og heilsu. Menntun hefur alltaf verið talin lykillinn að velgengni finnsku þjóðarinnar og eru ókeypis máltíðir órjúfanlegur hluti þess. Jafnt aðgengi að menntun og ókeypis skólamáltíðir skipa stóran sess í að efla hagvöxt og gera Finnland að þekkingarsamfélagi. Finnar líta á ókeypis menntun og ókeypis skólamáltíðir sem fjárfestingu í mannauði sem stuðli að jöfnum tækifærum fyrir öll finnsk börn.
    Frá árinu 2004 hafa skólamáltíðir verið hluti af aðalnámskrá skóla sem gerir skólamáltíðir hluta af almennu námi. Auk þess að fá næringarríka máltíð á hverjum skóladegi öðlast nemendur matartengda þekkingu og færni. Þau læra um hollt mataræði, matarmenningu og fá tækifæri til að fræðast um umhverfisáhrif matvæla. Á sama tíma læra þau um staðbundin matvæli og matarmenningu. Staðbundnar námskrár og árlegar skólaáætlanir skilgreina meginreglur um skipan matartíma og markmið fyrir skólamáltíðir. Markmiðin fela einnig í sér fræðslu tengda skólamat um heilsu, næringu og borðsiði. Skólamáltíðin á að dekka 30% af daglegri orkuþörf nemenda. Skólamáltíð, samkvæmt matvælaráði finnsku matvælastofnunarinnar, ætti að innihalda heitan rétt, drykk, salat, brauð og álegg. Skólamáltíðakerfið byggist á samvinnu og trausti. Ráðuneyti og stofnanir veita fjármagn og sveitarfélög sjá um innkaup og þjónustu. Einnig eru nemendur hvattir til að taka þátt í skipulagningu skólamáltíða og deila sínu áliti.
    Tæplega 850.000 finnskir nemendur eiga rétt á ókeypis skólamat. Einnig er snarl í boði fyrir þau börn sem taka þátt í skólafrístundum.
    Finnar líta svo á að skólamáltíðir styðji einnig við jafnrétti foreldra þar sem þær auðvelda foreldrum að vinna utan heimilis. Það styðji við jafnrétti kynjanna, atvinnuþátttöku kvenna og þar með hagvöxt.

Svíþjóð.
    Árið 1946 var farið að veita ríkisstyrki til sveitarfélaga svo hægt væri að bjóða upp á ókeypis og næringarríkar máltíðir fyrir alla grunnskólanemendur. Farið var eftir ströngum næringarviðmiðum, máltíðirnar áttu að innihalda tiltekið magn af prótínum, vítamínum, kalki og járni með réttu magni af fitu og áttu að innihalda þriðjung af daglegri orkuþörf nemenda.
    Nú er boðið upp á heita skólamáltíð fyrir alla nemendur á aldrinum 6–16 ára, fimm daga vikunnar en einnig fyrir flesta nemendur á aldrinum 16–19 ára. Skólamáltíðir eru taldar mikilvægar af mörgum ástæðum, svo sem fyrir heilsu nemenda, félagslega vellíðan og aukna námsgetu nemenda. Ókeypis skólamáltíðir eru einnig mikilvægt tæki til að jafna út félagslegan og efnahagslegan mun á heilsu.
    Árið 2011 var gerð lagabreyting um að skólamáltíðir ættu að vera næringarríkar og vera þriðjungur af ráðlögðum dagskammti orku og næringar. Tveimur árum eftir innleiðingu laganna höfðu gæði skólamáltíða í Svíþjóð batnað lítillega. Erfitt er þó að greina áhrif laganna sjálfra frá öðrum áhrifum, þar á meðal áhrifum vöktunar.
    Matvælastofnun Svíþjóðar hefur gefið út ráðleggingar um skólaeldhús, þar á meðal um skammta, gott matarumhverfi og virka þátttöku nemenda. Ráðleggingarnar eru byggðar á norrænum næringarráðleggingum 1 sem hafa verið uppfærðar á átta ára fresti frá árinu 1980, síðast nú í sumar, og eru grundvöllur fyrir Norðurlöndin til að byggja innlend tilmæli á.
    Hádegismaturinn inniheldur oft nokkra valkosti eins og grænmetisrétti og glútenlaust fæði. Salat, brauð, smjör, mjólk og vatn eru einnig á matseðlinum. Máltíðirnar kosta um 6.800 sænskar krónur á nemanda á ári. Kostnaðurinn dugar fyrir hráefni, starfsfólki og dreifingu. Máltíðirnar eru fjármagnaðar með útsvari.
    Undanfarinn áratug hefur áhugi og stuðningur aukist fyrir því að auka gæði matarins. Sveitarfélög bera ábyrgð á skólamatnum, annaðhvort með því að halda sjálf utan um skólamatinn eða kaupa þjónustu. Matvælastofnun gefur út tilmæli um skólamáltíðir, með hliðsjón af hráefni, framreiðslutíma, umhverfi í matmálstímum og hvernig hægt er að virkja nemendur í matseldinni og umsjón með hádegismatnum. Í tilmælunum eru ráðleggingar um umhverfislega sjálfbærni. Með meðvituðu vali og minni matarsóun geti skólamáltíðir stuðlað að minni umhverfisáhrifum og góðum aðstæðum fyrir bæði menn og dýr.

Noregur.
    Það er ekkert almennt fyrirkomulag um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í Noregi og færri en 10% grunnskóla hafa staðbundið fyrirkomulag á skólamáltíðum greiddum af foreldrum (morgunmat og hádegismat). Flestir nemendur í Noregi (96%) ganga í opinbera skóla. Máltíðir borðaðar í skólanum í hádeginu eru 23–29% af fæðu nemenda yfir daginn. Venjulega koma norsk börn og unglingar með nesti að heiman. Það er á ábyrgð foreldra/forráðamanna að sjá um að nemendur taki með sér nesti, sem leiðir til mismunandi næringargæða.

Danmörk.
    Í Danmörku er engin skólamáltíðastefna. Þess í stað er hefð fyrir því að skólamaturinn sé á ábyrgð foreldra og að nemendur komi sjálfir með mat í skólann. Undanfarin 125 ár hefur reglulega verið rætt um innleiðingu skólamáltíða í Danmörku. Áherslurnar hafa verið breytilegar, bæði hvað varðar mat og næringaráherslur en einnig umgjörðina í kringum máltíðir í skólum. Fyrstu 100 árin snerust aðallega um að fæða fátæk börn, á meðan nýjustu verkefnin snúast meira um heilsu- og matvælafræðslu. Aldrei hefur þó verið boðið upp á ókeypis skólamáltíðir fyrir alla nemendur um allt landið, eins og tíðkast í Svíþjóð og Finnlandi.
    Skýrsla sem var gefin út árið 2015 af háskólanum í Árósum sýnir að sumir danskir skólar eru komnir langt með að vinna með hollan mat og matargleði. Litið er á starfið með mat og matarfræðslu í skólum sem eitt heilsueflandi verkefni sem samanstendur af nokkrum þáttum, eins og góðri umgjörð utan um skólamáltíðir, upplýsingagjöf, þátttöku og stuðningi. Sérstaklega er talið mikilvægt að hlusta á lykilfólkið, nemendurna sjálfa. Alls eru 53,5% skóla með skriflega stefnu varðandi mat og skólamáltíðir en 39,1% skóla hefur enga stefnu í þeim málum.
    Í Kaupmannahöfn er verið að skoða hvernig hægt sé að innleiða skólamáltíðir og á sama tíma gera þær hluta af náminu. Kaupmannahöfn tekur þátt í alþjóðlegri tilraun. Sveitarfélagið er hluti af „Schoolfood4change“-verkefninu þar sem markmiðið er að breyta 3.000 skólum í svokallaða matarskóla í 16 borgum í 12 löndum í Evrópu.

Augljós ávinningur.
    Víða er hugað að samfélagslegum ávinningi af daglegum, gjaldfrjálsum, næringarríkum skólamáltíðum. Sérfræðingar sem taka þátt í verkefninu Schoolfood4change hafa t.d. bent á ef stjórnvöld vilji ná tökum á vaxandi offitu barna verði börn í Evrópu að fá að minnsta kosti eina næringarríka skólamáltíð á dag. Þeir benda á að um þriðjungur grunnskólanema í álfunni séu annaðhvort of þungur eða glími við offitu en um fjórðungur eigi á hættu að lifa við fátækt eða félagslega útilokun. 2
    Í skýrslu norskra heilbrigðisyfirvalda um áhrif endurgjaldslausra skólamáltíða kemur m.a. fram að jákvæð áhrif megi greina með tilliti til bættrar næringar, betri námsárangurs og mætingar, lýðheilsu og mataröryggis. Í annarri norskri rannsókn, þar sem m.a. voru könnuð áhrif af ókeypis skólamáltíðum í eitt ár fyrir nemendur, jókst neysla nemenda á hollum mat, sérstaklega meðal nemenda með lægri félagslega og efnahagslega stöðu. Þar kom fram að hugsanlega gætu ókeypis skólamáltíðir dregið úr ójöfnuði í heilsu.
    Hér hefur verið rökstutt hversu mikilvægt það er að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til þess að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku. Börn sem eru vel nærð og sæl hljóta að njóta skólagöngu sinnar betur. Skólamáltíðir eiga að standa öllum börnum til boða, óháð fjárhagsstöðu aðstandenda þeirra. Þau eiga að hafa skýlausan rétt til að njóta þeirrar menntunar sem samfélagið er sammála um að sé forsenda lífs og starfs í lýðræðisþjóðfélagi.
1     island.is/frett/nyjar-norraenar-naeringarradleggingar-2023-mataraedi-sem-studlar-ad-godri
2     www.theguardian.com/world/2023/oct/13/children-should-get-one-healthy-school-meal-a-day-s ay-eu-experts?fbclid=IwAR1v2SiZW4vBEqNjbyTwER0hEB_Is6haBZQcSqDlV3l86OTB2BiQJAsFA4I