Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 508  —  467. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (leyfi til prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði).

Frá matvælaráðherra.



1. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra getur, að fenginni umsókn þar um, veitt skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til prófana á nýjum vinnslu- og veiðarfærabúnaði skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, ef búnaðurinn hefur verið settur í skip hér á landi og nauðsynlegt getur talist að prófa virkni hans. Veiðist sjávarafli við prófanir skal hann vera óverulegur og seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla á Íslandi og skal andvirði aflans renna til sjóðs skv. 3. mgr. 1. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992. Slíkar prófanir skulu fara fram undir eftirliti Fiskistofu. Leyfishafi skal greiða allan kostnað sem leiðir af veru eftirlitsmanns Fiskistofu um borð í skipi samkvæmt þessari málsgrein. Ráðherra getur kveðið á um nánari reglur um skilyrði, veitingu leyfa, kostnað og eftirlit vegna prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði í reglugerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem unnið er í matvælaráðuneytinu, kveður á um breytingu á 13. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Lagt er til að ráðherra verði heimilað að veita skipum, sem hafa annars ekki leyfi til að stunda veiðar og vinnslu í fiskveiðilandhelginni, skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til prófana á nýjum vinnslu- og veiðarfærabúnaði sem settur hefur verið í skipin hér á landi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Íslenskir aðilar hafa verið að hanna, setja upp og þjónusta nýjan vinnslu- og veiðarfærabúnað fyrir skip hér á landi. Ekki hefur verið hægt að láta fara fram prófanir á búnaðinum eftir uppsetningu hér við land í erlendum skipum, íslenskum skipum sem selja á til annarra landa og öðrum skipum sem hafa ekki leyfi til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelginni. Það hefur ákveðið óhagræði í för með sér bæði fyrir þjónustuaðila og skipin að ekki sé hægt að athuga hér við land hvort búnaðurinn virki eins og lagt var upp með heldur verði að gera þær prófanir þegar farið hefur verið út úr fiskveiðilandhelginni þar sem þeim fiskiskipum er bannað að setja út veiðarfæri í fiskveiðilandhelginni. Það getur haft neikvæð áhrif á iðngreinina hvað varðar vinnslu- og veiðarfærabúnað að slík heimild sé ekki til staðar.
    Í 13. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, er þegar til staðar ákvæði um veitingu tímabundinna heimilda til veiðitilrauna og annarra vísindalegra rannsókna í fiskveiðilandhelgi Íslands og þurfa þær heimildir ekki að vera bundnar við íslenska aðila. Þessar heimildir ná ekki til prófana á vinnslu- og veiðibúnaði heldur beinast veiðitilraunir og aðrar vísindalegar rannsóknir almennt að sjávardýrum ásamt aðferðum við veiðar á þeim.
    Þar sem um er að ræða heimild til skipa, erlendra eða þeirra sem ekki hafa veiðileyfi og aflamark, til að setja út veiðarfæri í fiskveiðilandhelginni er ekki talið að stjórnsýslufyrirmæli séu nægilegur grundvöllur til að veita slíka heimild þrátt fyrir nokkuð opna reglugerðarheimild í 14. gr. laganna. Rétt er að slík heimild sé skýr í lögum enda um eitt af grundvallaratriðum íslenskrar fiskveiðistjórnar að ræða, um heimild fiskiskipa til að hafast við með veiðarfæri í fiskveiðilandhelginni.
    Rétt er að finna þessari heimild stað í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, en benda verður þó á að heimildin snýr ekki að fiskveiðistjórn í sjálfu sér heldur að hliðargrein fiskveiða sem er í raun þjónustustarfsemi á sviði tækni og nýsköpunar. Mikilvægt er að Ísland sem fiskveiðiþjóð hafi öfluga þjónustustarfsemi sem styður við nýtingu auðlinda úr sjó og að sú starfsemi sé samkeppnishæf við sambærilega starfsemi í öðrum ríkjum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið mælir fyrir um breytingu á 13. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, þar sem ráðherra verði heimilt, að fenginni umsókn, að veita skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til prófana á nýjum vinnslu- og veiðarfærabúnaði skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands hafi búnaðurinn verið settur í skip hér á landi og nauðsynlegt geti talist að prófa virkni hans.
    Mælt er fyrir um að ef sjávarafli veiðist við prófanir skuli hann vera óverulegur og seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði á Íslandi fyrir sjávarafla og andvirði aflans renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins.
    Mælt er fyrir um að slíkar prófanir fari fram undir eftirliti Fiskistofu. Skal leyfishafi greiða allan kostnað sem leiðir af veru eftirlitsmanns Fiskistofu um borð í skipi. Jafnframt geti ráðherra kveðið á um nánari reglur um skilyrði, veitingu leyfa, kostnað og eftirlit vegna prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði í reglugerð.
    Í áformum um lagasetningu var gert ráð fyrir um að heimilt yrði að taka sérstakt gjald fyrir afla sem rynni í ríkissjóð. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að afli sem gæti veiðst en skal vera óverulegur, fari á uppboðsmarkað og andvirði hans renni í ríkissjóð, auk þess sem heimilt verði að taka gjald fyrir eftirlit Fiskistofu. Í áformum var hugsunin sú að eftirlit væri að jafnaði í höndum Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands eða Fiskistofu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftirlit verði á höndum Fiskistofu, enda er um sérstakt leyfi ráðuneytisins að ræða og rétt að Fiskistofa sjái um það.
    Rétt er að árétta þær skyldur skv. 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, að afli skemmist ekki í veiðarfærum og skylt sé að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa, ásamt öðrum ákvæða laganna um umgengni við auðlindina.
    Meginmarkmið málefnasviðsins eru að styrkja sjálfbærni auðlindanýtingar og efla vernd og viðgang viðkvæmra vistkerfa á grunni vistkerfisnálgunar. Draga skuli úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu og auðlindanýtingar og efla hugmyndafræði hringrásar við veiðar, framleiðslu og hámarksnýtingu afurða. Frumvarpið snýr beint að þjónustu við fiskiskip á sviði tækni og nýsköpunar og varðar samkeppnishæfni aðila sem setja upp og þjónusta nýjan vinnslu- og veiðarfærabúnað í fiskiskip.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki er talið að frumvarpið gefi tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.
    Fiskveiðistjórn í fiskveiðilandhelginni fer eftir íslenskum lögum og er í samræmi við þjóðréttarsamninga sem Ísland hefur gert en er ekki hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Sala og þjónusta á tilteknum búnaði og þjónustu við fiskiskip getur þó fallið undir gildissvið EES-samningsins, en ekki ef um er að ræða skilyrði og eiginleika búnaðar sem fella má undir fiskveiðistjórn. Sú heimild ráðherra sem frumvarpið mælir fyrir um er ekki bundin við íslenska aðila og skip. Hún er til þess fallin að styrkja samkeppnishæfni þjónustuaðila með staðfestu á Íslandi sem setja upp og þjónusta nýjan vinnslu- og veiðarfærabúnað fyrir skip hér á landi, einkum erlend skip sem hafa ekki aðrar heimildir til að kasta út veiðarfærum í íslenskri fiskveiðilandhelgi og íslensk skip sem selja á erlendis með nýjum búnaði. Mikilvægt er að í lögum sé skýr heimild ráðherra til að veita þessum skipum skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til að kasta út veiðarfærum í fiskveiðilandhelginni.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 15. ágúst 2023 (mál nr. S-150/2023) og var umsagnarfrestur um áformin til og með 30. ágúst 2023. Þá var helstu hagsmunaaðilum, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Samtökum iðnaðarins (SI), tilkynnt sérstaklega um að áform um lagasetningu væru komin í samráðsgátt og því tækifæri til að senda inn umsögn eða athugasemdir. Þá var ráðuneyti sem fer með háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmál einnig upplýst um málið í samráðsgáttinni.
    Engin umsögn barst í samráðsgáttina. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu hins vegar umsögn beint til ráðuneytisins og hefur sú umsögn verið birt í samráðsgáttinni. Í umsögninni kemur m.a. fram að SFS hafi áður bent á að fjárfestingar séu forsenda framfara í sjávarútvegi eins og öðrum greinum. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi átt í góðu samstarfi við tækni-, hugvits- og iðnfyrirtæki í gegnum tíðina. Afrakstur þess samstarfs felist í lausnum og nýrri tækni sem nú sé flutt út fyrir tugi milljarða á ári. Lykilatriðið sé og verði svigrúm sjávarútvegsfyrirtækjanna til að taka þátt í samstarfi um prófun nýrra lausna í vinnslu- og veiðarfærabúnaði, þ.e. svigrúm til fjárfestinga. Í umsögninni segir jafnframt að þrátt fyrir að í þessum áformum sé ekki verið að leggja til atvinnuveiðar þá liggi fyrir að það muni þurfa aflamark til þessara veiða svo að prófa megi vinnslu- og veiðarfærabúnað. Þannig sé óhjákvæmilegt ef áformin nái fram að ganga að teknar verði heimildir af öðrum og þeim ráðstafað til veiða í þágu prófana á nýjum búnaði. Gera megi ráð fyrir að veiðileyfi vegna prófunar vinnslu- og veiðarfærabúnaðar verði ekki mörg og aflinn því takmarkaður. Í áformunum sé hins vegar hvergi tilgreint hvaða skilyrði þurfi að uppfylla eða hvort einhver takmörk verði á aflamagni þegar slíkar prófanir fari fram. Þá þurfi að skýra betur hvernig eftirlit með þessum veiðum fari fram af hálfu Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslunnar eða Fiskistofu. Þrátt fyrir framangreint sé það mat SFS að um mikilvægt framfaraskref sé að ræða til að efla enn frekar við tækni-, hugvits- og iðnfyrirtæki.
    Tekið er undir með SFS um mikilvægi samstarfs sjávarútvegsfyrirtækja við tækni-, hugvits- og iðnfyrirtæki hér á landi. Gert er ráð fyrir að mögulegur afli sem veiðist við prófanir á vinnslu- og veiðarfærabúnaði verði óverulegur og sé hluti af þekkingaröflun aðila við prófanir á búnaði í fræðsluskyni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja reglugerð, einkum um skilyrði, veitingu leyfa, kostnað og eftirlit vegna prófana. Við útgáfu leyfa verður því kveðið á um fyrrgreind atriði, einkum um takmörk, kostnað og eftirlit. Þá var ákveðið í ljósi þess að um sérstakt leyfi ráðherra er að ræða að fela eingöngu Fiskistofu eftirlit og að ávallt yrði eftirlit með öllum prófunum.
    Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 11. október 2023 í máli nr. S-194/2023 og var umsagnarfrestur um drögin til og með 19. október 2023. Um er að ræða mál sem varðar sérhæfðan hóp aðila og var þess gætt að upplýsa viðkomandi aðila um málið. Helstu hagsmunaaðilum, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Samtökum iðnaðarins (SI), var tilkynnt sérstaklega um að drögin væru komin í samráðsgátt og því tækifæri til að senda inn umsögn eða athugasemdir. Þá var fyrirtæki á Akureyri sem hefur sérstaklega látið sig málið varða og það ráðuneyti sem fer með háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmál einnig upplýst um málið í samráðsgáttinni.
    Ein umsögn barst í samráðsgáttina frá Landhelgisgæslu Íslands. Í umsögninni kemur m.a. fram að breytingartillagan sé til bóta en skerpa þurfi á nokkrum atriðum sem hægt væri að útfæra nánar í reglugerð um leyfisveitingar vegna prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði, einkum er varði skilgreiningu á hvað felist í prófunum, um ráðstafanir til að koma í veg fyrir afla sé slíkt unnt, sbr. markmið prófana, um ákveðin svæði fyrir prófanir, um skyldu til sjálfvirkrar ferilvöktunar skipa og að Fiskistofa upplýsi Landhelgisgæsluna um tímasetningu og staðsetningu eftirlits og Hafrannsóknastofnun um afla. Í frumvarpinu er einmitt gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja reglugerð, einkum um skilyrði, veitingu leyfa, kostnað og eftirlit vegna prófana og því hægt að kveða á um ofangreind atriði í reglugerð.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar heimildir sem geta styrkt samkeppnishæfni fyrirtækja hér á landi sem setja upp og þjónusta nýjan vinnslu- og veiðarfærabúnað fyrir skip hér á landi.
    Verði frumvarpið að lögum kallar það ekki á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Mögulega verða óverulegar aukatekjur af andvirði afla á uppboðsmarkaði, sem fara í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Frumvarpið hefur í för með sér óveruleg afgreiðsluverkefni vegna leyfisveitinga og gjald verður tekið fyrir eftirlit.
    Ekki er talið að frumvarpið hafi sérstök áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Ekki er talið að frumvarpið hafi sérstök áhrif á réttindi og skyldur er varða persónuvernd. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti kynjanna. Þá eru líkur á því að frumvarpið muni hafa jákvæð áhrif á starfsemi og nýsköpun tæknifyrirtækja sem vinna að tæknibúnaði fyrir skip hér á landi.