Ferill 508. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 620  —  508. mál.
Áheyrnarfulltrúi.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Fannar Jónasson, bæjarstjóra Grindavíkurbæjar, Guðmund Björgvin Helgason ríkisendurskoðanda og gesti frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum ferðaþjónustunnar, Alþýðusambandi Íslands, VR, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Vinnumálastofnun, Ríkisendurskoðun sem og Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmann.
    Nefndinni bárust tvær umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu er lagt til að veita tímabundinn stuðning upp að ákveðnu hámarki til greiðslu launa starfsfólks vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Markmið frumvarpsins er jafnframt að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Frumvarpið er hluti af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við þeirri óvissu sem ríkir í kjölfar jarðhræringa á Reykjanesskaga og er lagt fram í ljósi alvarlegs ástands í Grindavíkurbæ. Frumvarpið var samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, Vinnumálastofnun, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins.
    Frumvarpinu er ætlað að gilda um stuðning til greiðslu launa vegna starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Fyrir liggur að ríki og Grindavíkurbær munu áfram greiða starfsfólki sínu í Grindavík laun.
    Að mati nefndarinnar felur frumvarpið í sér mikilvægt skref í þá átt að tryggja launagreiðslur til þeirra einstaklinga sem búa við mikla óvissu vegna náttúruhamfara sem eiga sér stað í Grindavíkurbæ. Jafnframt telur nefndin mikilvægt að stutt verði við að ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks verði viðhaldið í ljósi þeirrar óvissu sem uppi er. Þá voru umsagnaraðilar og gestir sem mættu á fund nefndarinnar almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og lýstu yfir stuðningi við það.

Viðmiðunartímabil stuðnings við einstaklinga (1. mgr. 8. gr.).
    Þegar stuðningur er greiddur einstaklingum á grundvelli 2. mgr. 5. gr. eða 6. gr. skal skv. 1. mgr. 8. gr. taka mið af meðallaunum viðkomandi og/eða meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af, eftir því sem við á, á tímabilinu frá ágúst til október 2023. Hér er vísað til stuðnings sem greiddur er til starfsfólks sem hefur ekki fengið greidd laun, svo sem vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda, eða stuðnings sem greiddur er sjálfstætt starfandi einstaklingum.
    Við umfjöllun nefndarinnar var því velt upp hvort það tímabil sem miðað væri við kynni í einhverjum tilfellum að gefa ranga mynd af raunverulegum tekjum fólks með hliðsjón af því að einhverjir kynnu að vera með lægri tekjur yfir sumarmánuðina, svo sem vegna orlofs. Í því sambandi kom fram að miklu máli skipti um skilvirkni úrræðisins að framkvæmdin væri eins einföld og kostur væri á. Þá kemur einnig fram í greinargerð með frumvarpinu að gengið sé út frá því að Vinnumálastofnun sé heimilt að taka tillit til aðstæðna þar sem starfsfólk hafi ekki átt rétt á launagreiðslu nema að hluta á framangreindu tímabili og reikna út meðallaun viðkomandi á grundvelli þeirra mánaða sem hlutaðeigandi starfsfólk fékk greidd laun. Nefndin leggur áherslu á að Vinnumálastofnun taki tillit til aðstæðna gefi tímabilið ranga mynd af tekjum fólks.

Vinnuframlag starfsfólks.
    Nefndin fjallaði um mögulegar afleiðingar þess að atvinnurekandi kalli eftir eða krefjist vinnuframlags frá starfsfólki sem greiddur er stuðningur vegna. Í því sambandi áréttar nefndin að með frumvarpinu er ekki ætlunin að breyta forsendum þess samningssambands sem er grundvöllur launagreiðslnanna. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að greiðsla stuðnings komi til vegna tímabils þar sem vinnuframlag er innt af hendi, enda er gert ráð fyrir að stuðningur sé greiddur í hlutfalli við það tímabil sem einstaklingur gat ekki sinnt starfi sínu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Bendir nefndin því á að með frumvarpinu er ekki girt fyrir að atvinnurekandi kalli eftir vinnuframlagi starfsfólks. Ekki er gert ráð fyrir stuðningi úr ríkissjóði vegna þess vinnuframlags sem innt er af hendi.

Tryggingagjald.
    Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að frumvarpið tæki ekki til þeirra launatengdu gjalda sem atvinnurekanda ber að standa straum af, utan þeirra 11,5% sem kveðið er á um að greiða skuli vegna mótframlags launagreiðanda í ríkissjóð. Þannig kynni skyldan til að greiða tryggingagjald vegna þess starfsfólks sem getur ekki gegnt störfum sínum að reynast fyrirtækjum á svæðinu íþyngjandi og hafa áhrif á ákvarðanir einhverra fyrirtækja um hversu lengi þau treysti sér að greiða laun þess. Nefndin tekur fram að frumvarpinu er aðeins ætlað að gilda um tímabundinn stuðning til greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Þannig er brugðist við óvissuástandi sem ekki er vitað hvað varir lengi og áhersla verður áfram lögð á að fylgjast með framvindu mála og grípa inn í verði þess þörf að styðja frekar við atvinnurekendur og starfsfólk.

Kjarasamningsbundin réttindi starfsfólks.
    Nefndin fjallaði um kjarasamningsbundin réttindi starfsfólks sem falla undir gildissvið frumvarpsins og áréttar að starfsfólk haldi öllum áunnum réttindum sínum sem kjarasamningar kveða á um. Bent er á að eitt af markmiðum fyrirhugaðra laga sé að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks. Nefndin bendir á að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að um greiðslur launa atvinnurekanda eða um stuðning vegna tekjutaps starfsfólks fari með öðrum hætti en að um hefðbundin laun sé að ræða. Líta verði þannig á að starfsfólki sé heimilt að viðhalda aðild sinni að stéttarfélagi á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Telur nefndin að frumvarpið hafi því ekki áhrif á áunnin, kjarasamningsbundin réttindi starfsfólks.

Ósamrýmanlegar greiðslur (11. gr).
    Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að skilyrði um stuðning teljist ekki uppfyllt njóti starfsfólk eða sjálfstætt starfandi einstaklingur greiðslna samkvæmt öðrum lögum eða kjarasamningum sem ætlaðar eru til framfærslu viðkomandi á sama tímabili og greiðslum samkvæmt frumvarpinu, verði það að lögum, er ætlað að ná til. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram álitamál um hvað teldist til ósamrýmanlegra greiðslna. Ábending kom fram um að greiðslur atvinnurekanda til starfsfólks í veikindaleyfi hlytu að teljast til launagreiðslna sem atvinnurekandi verði að standa skil á þrátt fyrir að ekki komi á móti vinnuframlag frá starfsmanni. Með hliðsjón af því væri eðlilegt að atvinnurekandi nyti þess stuðnings sem frumvarpið hefur fram að færa. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið og telur nauðsynlegt að stutt verði við atvinnurekanda til greiðslu launa í veikindaleyfi starfsmanna uppfylli hann önnur skilyrði frumvarpsins. Þá var talsverð umræða í nefndinni um þau tilvik þegar starfsmaður hefur, samhliða því að vera í ráðningarsambandi við atvinnurekanda á Grindavíkursvæðinu, sinnt hlutastörfum utan svæðisins og tækifæri hans að halda því áfram en njóta jafnframt stuðnings sem frumvarpið kveður á um. Nefndin áréttar að mikilvægt er að þessum einstaklingum verði veitt nægjanlegt svigrúm til að bregðast við breyttum aðstæðum og að ekki skuli litið svo á að slíkar greiðslur séu ósamrýmanlegar í skilningi 11. gr. frumvarpsins. Með sömu rökum leggur nefndin áherslu á að tekjur starfsmanna vegna hlutastarfa komi ekki til skerðingar greiðslna sem frumvarpið kveður á um.

Kynning úrræðisins.
    Nefndin telur mikilvægt að samhliða gildistöku þess úrræðis sem frumvarpið mælir fyrir um fari fram kynning á því og að tryggt verði að kynningin nái til þeirra hópa sem úrræðið kemur helst til með að nýtast. Taka þarf sérstakt tillit til þess að starfsmenn fyrirtækja á Grindavíkursvæðinu eru af ýmsu þjóðerni og því verður að tryggja að upplýsingar um úrræðið verði aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku. Nefndin hvetur sérstaklega til þess að Vinnumálastofnun birti upplýsingar um það úrræði sem frumvarpið kveður á um a.m.k. á ensku og pólsku auk íslensku.

Endurskoðun úrræðisins og frekari aðgerðir.
    Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar hefur takmarkaðan gildistíma og stuðningur samkvæmt því rennur út 29. febrúar 2024 skv. 1. gr. Algjör óvissa er um hvernig atburðarásin á Grindavíkursvæðinu þróast og því er erfitt að spá fyrir um framvindu mála. Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að stjórnvöld fylgist áfram náið með framvindunni og grípi til aðgerða til að styðja við bakið á starfsfólki og atvinnurekendum á Grindavíkursvæðinu eins lengi og þörf krefur. Þá telur nefndin nauðsynlegt að fylgst verði með áhrifum þeirra aðgerða sem frumvarpið mælir fyrir um. Þá verði að taka upplýsta ákvörðun áður en úrræðið rennur sitt skeið um það hvort frekari aðgerða sé þörf til þess að vernda afkomu fólks sem getur ekki gegnt störfum sínum vegna hamfaranna.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Guðmundur Ingi Kristinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hann ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara um að tilmæli og áherslur nefndarinnar séu talin nægilega skýrt útfærð í texta og greinargerð frumvarpsins. Þá telur hún rétt að árétta að ekki er um almenna aðgerð að ræða heldur sértæka, sem fylgjast þarf vel með svo að unnt verði að ná til fólks sem fellur utan gildissviðs frumvarpsins.
    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi, var fjarverandi við afgreiðslu málsins en er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 24. nóvember 2023.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, með fyrirvara. Bryndís Haraldsdóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Magnús Árni Skjöld Magnússon. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Óli Björn Kárason.