Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 636  —  238. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Frumvarpið felur í sér að leggja niður Menntamálastofnun og lögfesta ný heildarlög um nýja stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Tildrög frumvarpsins eru umfangsmikil stefnumótun og endurskoðun á ýmsum lögum í þágu farsældar barna. Markmiðið er jafnframt að draga úr ýmsum hindrunum sem bent var á í rannsókn Ríkisendurskoðunar frá 2021. Heilt yfir virðist vera samstaða meðal hag- og umsagnaraðila um að þörf sé á þeim breytingum sem ráðuneytið leggur til með frumvarpinu. Helst hefur verið gagnrýnt hve seint var farið af stað með endurskoðun menntunar og skólaþjónustu. Mikilvægt er að stjórnvöld leiði málaflokkinn með raunverulegri stefnumótun, í stað þess að bregðast við þegar komið er í óefni. Það eru nokkur atriði sem 1. minni hluti telur að þurfi að koma inn á og halda til haga.

Nauðsyn heildrænnar endurskoðunar menntakerfisins.
    Þrátt fyrir að aðilar séu sammála um nauðsyn þess að koma á fót stofnun með það hlutverk sem Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er ætlað þá hefði verið betri bragur á því að hefja heildarendurskoðun menntakerfisins á öðrum brýnni þáttum. Í umsögn Kennarasambands Íslands er sagt að það skjóti skökku við að ný heildarlög um mennta- og skólaþjónustu séu sett áður en heildarlagarammi um þjónustuna sjálfa er lagður fram. Ný aðalnámskrá tók gildi 1. ágúst 2011. Innleiðing hennar hefur gengið brösuglega þar sem stuðning, fjármagn, yfirsýn og tilhlýðilegan tíma skorti. Það er óásættanleg staða fyrir kennara að þurfa að standa að innleiðingu án yfirsýnar og samræmingar. Án þess er ómögulegt að átta sig á hvort innleiðingin mæti markmiðum aðalnámskrár. Í umsögn Kennarasambandsins segir að verkefnum kennara hafi fjölgað mikið síðastliðin ár sem og allri umsýslu í tengslum við kennslu og umsjón nemenda. Nemendur eru fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir og huga þarf að fjölda nemenda í hverjum bekk, sem og fjölda nemenda á hvern fermetra. Ánægja hagaðila með framlagningu frumvarpsins skýrist m.a. af því aðgerðaleysi sem litað hefur málaflokkinn. Hins vegar heyrast áhyggjur af því að þessi ólestur og skortur á heildarsýn á málaflokkinn verði ekki leystur með nýrri mennta- og þjónustustofnun einni og sér.
    Mikið álag er á kennurum og hætt við að þeir kulni í starfi miðað við núverandi starfsaðstæður. Sérstaklega er mikilvægt að huga að nýjum kennurum fyrsta starfsárið, að þeir fái handleiðslu og nægilegan stuðning. Ekki er síður mikilvægt að taka laun kennara til heildrænnar endurskoðunar í ljósi þess þýðingarmikla hlutverks sem þeir gegna við menntun barna okkar til framtíðar.

Námsgögn og kennsluaðferðir.
    Í frumvarpi því sem lagt var fram á 153. löggjafarþingi (956. mál) var kveðið á um að hin nýja stofnun myndi sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum í margs konar formi. Bæði Félag grunnskólakennara og Kennarasamband Íslands lýstu yfir vonbrigðum í umsögnum sínum vegna þess að í því frumvarpi sem lagt er fram núna virðist hafa verið horfið frá þessu markmiði með óljósara orðalagi. Samtök iðnaðarins og Samtök menntatæknifyrirtækja gerðu einnig athugasemd við að fallið hefði verið frá þessari stefnu. Reifuðu samtökin að ákall væri frá skólasamfélaginu, foreldrum og nemendum um að til væru fjölbreyttari og nútímavæddari námsgögn. Í umsögn Félags íslenskra bókaútgefenda, Samtaka iðnaðarins og Samtaka menntatæknifyrirtækja er einokunarstaða ríkisins við framleiðslu námsgagna harðlega gagnrýnd. Að mati tveggja síðarnefndu samtakanna ná mörg menntatæknifyrirtæki ekki fótfestu hérlendis vegna markaðsráðandi stöðu ríkisins, sem er synd þar sem skortur er á góðu námsefni á íslensku og ítrekað eru viðraðar áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Félag framhaldsskólakennara tekur undir að framboði námsefnis á íslensku sé verulega ábótavant og hafi verið um nokkurt skeið. Í umsögn sinni benti félagið á að það teldist ekki skýrt hvernig stjórnvöld hygðust bæta þá stöðu. Félag grunnskólakennara benti á að kennarar verðu miklum tíma í að útbúa og aðlaga námsefni sjálfir því ekki væri til nothæft námsefni í öllum fögum og lýstu yfir vonbrigðum með að úrbætur námsgagna virtust ekki vera í forgangi. Til að þjóna betur mismunandi þörfum nemenda er nauðsynlegt að bjóða upp á gæðanámsefni á fjölbreyttu formi á íslensku, ekki síst í ljósi síaukinnar tæknivæðingar.
    Kennarasamband Íslands hefur áhyggjur af skorti á samráði milli æðri stofnunar og kennara í ljósi reynslunnar af fyrra fyrirkomulagi. Í umsögn þess er lögð áhersla á að miðstýring auki ekki endilega gæði skólastarfs og að skólar verði að hafa ákveðið frelsi til að velja kennsluaðferðir. Ákjósanlegt væri að stofnunin færi ekki ein með það vald að geta valið hvaða aðferðir verði notaðar eða séu æskilegar. Vísað er til þess að Menntamálastofnun hafi á sínum tíma átt að búa að stuðningi og aðhaldi frá stýrihóp sem raungerðist ekki og varð það til þess að rýra traust milli stofnunarinnar og skólasamfélagsins. Mikilvægt er að tryggja góð tengsl Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu við skólasamfélagið og tryggja lýðræðislegt samráð og aðkomu kennara og barna að ákvörðunartöku.

Réttindi starfsfólks.
    Stéttarfélögin BHM, BSRB og Sameyki hafa lýst yfir áhyggjum af réttindum starfsfólks Menntamálastofnunar. Þegar Námsgagnastofnun, Námsmatsstofnun og í einhverjum tilvikum stöðugildi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti voru sameinuð undir einum hatti Menntamálastofnunar voru öll störf lögð niður en lögfest var að því starfsfólki yrði boðið nýtt starf hjá hinni nýju stofnun. Með þeim hætti var starfsöryggi þess tryggt með jafnræði, meðalhóf og vandaða stjórnsýsluhætti að leiðarljósi. Samkvæmt mennta- og barnamálaráðuneytinu eru verkefni hinnar nýju stofnunar svo eðlisólík þeim störfum sem nú eru til staðar hjá Menntamálastofnun að ekki er hægt að ganga fram með vægari hætti en að leggja niður öll störf og færa ný störf í hefðbundið ráðningarferli.
    Ráðuneytið hefur lýst yfir vilja til þess að taka tillit til áunninna réttinda starfsfólks sem gengur til nýrra starfa, annaðhvort hjá ráðuneytinu eða hjá nýrri stofnun. 1. minni hluti áréttar mikilvægi þess að ráðuneytið standi við þau áform og að réttindi starfsfólks verði tryggð, sem og að staðið verði faglega að ráðningum með hagsmuni starfsfólks, þekkingu þess og stofnanaminni til hliðsjónar.

Menntun framtíðar.
    Menntun er undirstaða framfara. Menntakerfið þarf að mæta þörfum nemenda á fjölbreyttan hátt í síbreytilegu og lýðræðislegu samfélagi. Námið þarf að aðlaga að þörfum nemenda svo að þeir geti menntað sig á eigin forsendum og að þekkingarsköpun sé ávallt höfð að leiðarljósi. Það er grundvallaratriði að börnin okkar verði búin undir heiminn sem tekur á móti þeim eftir skóla. Hlusta ætti á raddir þeirra og efla lýðræðislega þátttöku þeirra í skólastarfinu með tilliti til aldurs og þroska. Nemendur ættu að hafa aðkomu að því hvað þeir læra og hvernig – frá grunnskóla og upp í háskóla. Með þeim hætti mætti fanga áhuga og athygli nemenda betur en gert er í dag, með því að þau upplifi sig sem virka þátttakendur í eigin menntun. Þá er ekki síður mikilvægt að einstaklingar hafi aðgengi að menntun og endurmenntun á öllum skeiðum ævinnar. Við mótun menntastefnu til framtíðar er mikilvægt að horfa til framtíðarsamfélagsins og þeirra öru samfélagsbreytinga sem nú eiga sér stað. Aðferðafræði síðustu aldar dugir ekki til. Hugsa þarf upp á nýtt hvernig við byggjum upp samfélag sem er í stakk búið til að tækla hin fjölmörgu vandamál nútímans sem við stöndum frammi fyrir.
    Byggja þarf upp menntakerfi fyrir sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðinguna og fjórðu iðnbyltinguna. Skapa þarf fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með auknum stuðningi við nýsköpun. Ísland hefur tækifæri til að skipa sér í forystu sem þekkingarsamfélag til framtíðar. Það tækifæri er nauðsynlegt að nýta. 1. minni hluti hvetur ráðuneytið til að klára heildarendurskoðun á málaflokknum sem allra fyrst.

Alþingi, 28. nóvember 2023.

Halldóra Mogensen, frsm.