Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1449, 145. löggjafarþing 658. mál: lögreglulög (eftirlit með störfum lögreglu).
Lög nr. 62 10. júní 2016.

Lög um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum (eftirlit með störfum lögreglu).


1. gr.

     VII. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Kærur og kvartanir á hendur lögreglu, orðast svo:
     
     a. (35. gr.)
Eftirlitsnefnd.
     1. Ráðherra skipar nefnd sem hefur eftirlit með störfum lögreglu. Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og er ekki unnt að skjóta ákvörðunum hennar til æðra stjórnvalds.
     2. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Nefndarmenn skulu hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði. Mannréttindaskrifstofa Íslands tilnefnir einn nefndarmann, Lögmannafélag Íslands annan en ráðherra skipar þann þriðja án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt. Nefndarmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn. Formaður ræður starfsmenn eftirlitsnefndar. Ráðherra ákveður laun og önnur starfskjör nefndarmanna.
     
     b. (35. gr. a.)
Hlutverk eftirlitsnefndar.
     1. Hlutverk eftirlitsnefndar er að:
  1. taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans; berist héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara slíkar kærur eða rannsókn er hafin á slíku broti án kæru skal eftirlitsnefnd tilkynnt um það,
  2. taka við kvörtunum vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald; berist slíkar kvartanir til annarra embætta eða stofnana skulu þær framsendar nefndinni án tafar,
  3. taka til athugunar mál þegar maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot,
  4. taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til.

     2. Nefndin skal yfirfara tilkynningar skv. a- og b-lið 1. mgr. og greina hvort um sé að ræða kæru um ætlaða refsiverða háttsemi starfsmanna lögreglu eða kvörtun vegna ætlaðra ámælisverðra starfsaðferða eða framkomu starfsmanna lögreglu í samskiptum við borgarana.
     3. Nefndin skal senda viðeigandi embætti kæru eða kvörtun til meðferðar. Ef athugun eða skoðun nefndarinnar á grundvelli c- og d-liðar 1. mgr. gefur tilefni til skal nefndin senda viðkomandi embætti erindi til meðferðar, eftir atvikum í formi kæru.
     4. Nefndin skal fylgjast með meðferð viðkomandi embættis á erindum sem stafa frá henni og embætti sem fá til meðferðar kærur og kvartanir sem heyra undir nefndina skulu tilkynna henni um niðurstöður þeirra. Nefndin skal einnig senda viðeigandi embætti eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum athugasemdir sínar við afgreiðslu einstakra mála eða tilmæli um aðrar aðgerðir ef henni þykir tilefni til þess.
     5. Ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjórum, þ.m.t. ríkislögreglustjóra, er skylt að afhenda nefndinni þær upplýsingar sem hún þarf til að sinna starfsskyldum sínum.
     6. Nefndin er bundin þagnarskyldu um efni gagna og upplýsingar sem hún fær frá ákæruvalds- og löggæsluembættum á sama hátt og starfsmenn þessara embætta. Þá gilda sömu reglur um upplýsingagjöf og afhendingu gagna frá nefndinni og frá þessum embættum.
     7. Ráðherra setur nánari reglur um starfsemi nefndarinnar, þar á meðal um tímafresti, eftirfylgni mála og birtingu upplýsinga.
     
     c. (35. gr. b.)
Meðferð kæru á hendur starfsmanni lögreglu.
     1. Héraðssaksóknari rannsakar kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans. Hið sama á við ef eftirlitsnefnd telur þörf á að taka til rannsóknar atvik þegar maður lætur lífið, hann verður fyrir stórfelldu líkamstjóni eða lífi manns er hætta búin, í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot.
     2. Ríkissaksóknari fer með rannsókn skv. 1. mgr. ef rannsókn beinist að lögreglumanni sem starfar hjá héraðssaksóknara eða öðrum starfsmanni hans sem fer með lögregluvald. Við meðferð slíkra mála getur ríkissaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær. Lögreglu ber að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn mála samkvæmt þessari málsgrein eftir því sem óskað er.
     3. Héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari skal taka ákvörðun um hvort hefja skuli rannsókn eða vísa kæru frá svo fljótt sem verða má, þó eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku kæru. Um málsmeðferð fer eftir lögum um meðferð sakamála.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.