Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 824, 153. löggjafarþing 227. mál: hlutafélög o.fl. (hluthafafundir o.fl.).
Lög nr. 119 28. desember 2022.

Lög um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (hluthafafundir o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995.

1. gr.

     Við 80. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði er heimilt að kveða á um það í samþykktum að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku sína á hluthafafundi innan tiltekins frests fyrir fundinn. Sá frestur skal þó eigi vera lengri en ein vika. Fundarboð skal innihalda upplýsingar um skráningardag. Atkvæðisréttur hluthafa á fundinum fer eftir fjölda hluta á því tímamarki þegar skráningarfresti lýkur.

2. gr.

     Á eftir 2. málsl. 2. mgr. 86. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í samþykktum þess konar félaga er heimilt að kveða á um að frestur til að gera kröfu sé rýmri, en fresturinn telst þó aldrei liðinn fyrr en viku eftir að gögn skv. 4. mgr. 88. gr. hafa verið birt.

3. gr.

     Við 1. mgr. 88. gr. a laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Til aðalfundar í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði skal boða minnst þremur vikum fyrir fund og lengst sex vikum fyrir fund.

4. gr.

     Við 3. mgr. 108. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Að ári liðnu frá afskráningu er hlutafélagaskrá heimilt að gera þá kröfu að bú hlutafélags verði tekið til skipta í samræmi við 109. gr., enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik.

II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994.

5. gr.

     Við 3. mgr. 83. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi: Að ári liðnu frá afskráningu er hlutafélagaskrá heimilt að gera þá kröfu að bú einkahlutafélags verði tekið til skipta í samræmi við 84. gr., enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik.

III. KAFLI
Breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.

6. gr.

     Í stað orðanna „VIII. kafla“ í 2. málsl. 66. gr. b laganna kemur: viðeigandi reikningsskilastaðla.

7. gr.

     4. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna orðast svo: Ársreikningum og samstæðureikningum skal skilað rafrænt til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur.

8. gr.

     Við 1. mgr. 121. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki er unnt að skjóta ákvörðun ársreikningaskrár um að krefjast skipta á búi félags til æðra stjórnvalds.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 7. gr. kemur til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2022 eða síðar.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2022.