Hvers vegna endurskoðun kosningalaga?

Þau ákvæði kosningalaga sem lúta að undirbúningi og framkvæmd kosninga hér á landi hafa í raun lítið breyst um áratugaskeið. Má þar nefna að mörg ákvæði laga um kosningar til Alþingis eru nær eins og fyrir stofnun lýðveldisins. Helstu breytingar, sem gerðar hafa verið á kosningalöggjöfinni síðustu ár, ná til ákvæða, sem bundin eru í stjórnarskrá, svo sem um kosningarrétt og kjörgengi, kjördæmaskipan, vægi atkvæða og úthlutun þingsæta. Aftur á móti hafa litlar breytingar orðið á ákvæðum er lúta að kjörstjórnum, allri tilhögun við framboð stjórnmálasamtaka, réttindum og skyldum umboðsmanna stjórnmálasamtaka, meðferð kjörgagna og atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjördag.

Vegna tíðra kosninga á undanförnum árum hefur þeim sem að framkvæmd þeirra hafa komið orðið æ ljósari þörf til breytinga. Kjörbréfanefnd Alþingis hefur bent á að huga bæri að almennri endurskoðun laga um kosningar til Alþingis og hefur það sama komið fram hjá landskjörstjórn, sem telur einnig að stefna beri að setningu nýrrar heildarlaga um kosningar. Enn fremur hafa borist athugasemdir og ábendingar frá sérfræðinganefnd ÖSE við kosningalöggjöfina hér á landi og framkvæmd við alþingiskosningar árið 2009, 2013 og 2017. Fyrir Hæstarétti hefur reynt á kosningalöggjöfina vegna stjórnlagaþings og forsetakjörs og umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér úrlausnir vegna málsmeðferðarreglna yfirkjörstjórna. Eftir ákvarðanir Hæstaréttar og úrlausnir umboðsmanns Alþingis hafa vaknað spurningar um gildissvið kosningalaga gagnvart upplýsingalögum, stjórnsýslulögum og lögum um umboðsmann Alþingis. Þá hefur verið bent á að annars staðar á Norðurlöndunum hafa verið tekin upp ákvæði í kosningalög sem heimila að beitt sé nýjustu tækni til að auðvelda alla framkvæmd kosninga, t.d. rafræn eyðublöð og form við ýmsar umsóknir í kosningaferlinu. Í því sambandi hafa enn fremur verið tekin upp ákvæði í löggjöf sumra nágrannalanda okkar sem heimila notkun rafrænnar kjörskrár, t.d. þannig að sveitarfélög hafi val um að nota rafræna kjörskrá eða kjörskrá á pappír eða hvort tveggja samtímis.

Í ágúst 2016 lauk vinnuhópur um endurskoðun kosningalaga, sem forseti Alþingis hafði skipað, störfum. Vinna hópsins beindist að samræmdum lagabótum við framkvæmd laga um kosningar til Alþingis. Leitast var við að gera framkvæmd skilvirkari, skýra betur hlutverk þeirra stofnana sem að kosningum koma og endurskoða ákvæði kosningalaga sem valdið hafa réttaróvissu vegna ágreinings um túlkun þeirra. Fyrir liggur skýrsla vinnuhópsins, ásamt frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi til kynningar 5. september 2016, án þess þó að vera tekið á dagskrá.

Í október 2018 skipaði forseti Alþingis starfshóp til að fara yfir tillögur vinnuhópsins og frumvarpið með tilliti til hagkvæmni og skilvirkni. Jafnhliða skal starfshópurinn kanna kosti þess að setja heildarlöggjöf um framkvæmd allra almennra kosninga, er taki til kosninga til Alþingis, kosninga til sveitarstjórna, framboðs og kjörs forseta Íslands og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Loks skal starfshópurinn skoða eftir því sem tími og aðstæður leyfa kosti rafrænnar kjörskrár. Miðað er við að starfshópurinn skili tillögum sínum í formi lagafrumvarps 1. desember 2019.