Leiðbeiningar fyrir gesti á nefndarfundum

Algengt er að nefndir fái aðila utan þingsins, sérfræðinga og hagsmunaaðila, á fundi sína. Tilgangurinn er að fræðast af þeim um málefni sem til umræðu er auk þess sem hagsmunaaðilum er gefinn kostur á að kynna sjónarmið sín.

Smiðja, ný skrifstofubygging Alþingis að Tjarnargötu 9, hýsir nú fastanefndir þingsins. Fundarherbergi fastanefnda eru á 1. hæð og verður inngangur gesta frá Tjarnargötu fyrst um sinn. Gestum sem nefndirnar boða á sinn fund er vísað til biðstofu og síðan kalla nefndarritarar gesti inn á fundi.

Á fundi

Gestir skulu kynna sig og tiltaka fullt nafn og starfsheiti þegar þeir koma inn á fundinn. Venja er að formaður nefndar gefi gestum kost á að hafa stutta framsögu um málið sem til umræðu er.

Vakin er athygli á því að nefndastarf fastanefnda Alþingis er rafrænt. Vilji gestir koma gögnum á framfæri til nefndarmanna þarf að senda þau tímanlega á rafrænu formi á netfangið nefndasvid@althingi.is

Eftir framsögu gesta geta nefndarmenn borið fram spurningar til gesta. Meginreglan er að spurningum nefndarmanna er safnað saman og fá gestir tækifæri til að svara þeim þegar allir nefndarmenn hafa komið spurningum sínum á framfæri. Ekki er gert ráð fyrir að gestir á nefndarfundum beri fram spurningar til nefndarmanna.

Fundartími með gestum er að öllu jöfnu ekki lengri en 20 mínútur og eru gestir beðnir að virða þau tímamörk.

Óski gestir aðstoðar er þeim bent á að snúa sér til starfsmanns í móttöku á 1. hæð.

Sérfræðingar

Starfsfólk ráðuneyta og stofnana sem unnið hafa að samningu stjórnarfrumvarpa sem liggja fyrir nefnd eða búa yfir sérþekkingu á því sviði sem þingmálið varðar er fengið til að skýra efni þess og svara fyrirspurnum nefndarmanna.

Hagsmunaaðilar

Einnig koma á nefndarfundi fulltrúar samtaka sem hafa beinna hagsmuna að gæta í tengslum við málið og til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina.

Umsagnir

Þau sem boðuð eru á fund nefndar hafa einnig oft fengið þingmál til skriflegrar umsagnar og er algengt að þau séu kölluð á fund þegar umsögn þeirra liggur fyrir og nefndin vill ræða efni hennar nánar við þau. Ef ekki vinnst tími til að senda mál til skriflegrar umsagnar eru aðilar sem málið varðar boðaðir til viðræðna við nefndina.