Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 458. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Prentað upp.

Þingskjal 1163  —  458. mál.
Umræða.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd
til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hlutinn getur ekki stutt framgang þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í barnavernd af nokkrum ástæðum sem vikið verður að hér á eftir. Taka ber þó fram að minni hlutinn er sammála mörgu því sem fram kemur í framkvæmdaáætluninni enda mikilvægt að unnið sé markvisst að eflingu barnaverndarstarfs í landinu. Minni hlutinn telur þó framkvæmdaáætlun þessa missa marks að mörgu leyti.

Framkvæmdaáætlunin er of seint fram komin.
    Í fyrsta lagi ber að horfa til þess að framkvæmdaáætlunin kemur þremur árum of seint fram en skv. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun í barnavernd til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórnarkosningar voru síðast haldnar vorið 2010 og verða haldnar að ári liðnu, vorið 2014. Að þessu leyti er framkvæmdaáætlunin ekki í samræmi við lög þar sem hún mun aðeins gilda í eitt ár en ekki í fjögur ár eins og barnaverndarlög gera ráð fyrir.

Vankantar á undirbúningi.
    Í öðru lagi telur minni hlutinn að vanda beri betur til verka en gert er að þessu sinni. Af framkvæmdaáætluninni má ekki ráða að haft hafi verið samráð við aðila sem vinna að málaflokknum. Af henni verður hins vegar ráðið að hún sé samin af velferðarráðuneytinu og Barnaverndarstofu einum saman þó svo að starfandi séu fjölmargir aðilar í málaflokknum sem hafa margt gott fram að færa. Af samanburði við tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2020, sem nú er til meðferðar hjá velferðarnefnd Alþingis, má sjá töluverðan mun. Að vinnu heilbrigðisáætlunarinnar komu fjölmargir fagaðilar, haldnir voru fjölmennir fundir þar sem sjónarmið og athugasemdir fagaðila voru könnuð og tekin til greina þar sem ástæða var til. Í heilbrigðisáætluninni eru skýr tímasett markmið með tilgreindum ábyrgðaraðilum og framkvæmdaraðilum og einstök verkefni eru kostnaðargreind eftir því sem við verður komið hverju sinni. Á þetta vantar allt í framkvæmdaáætlun í barnavernd þar sem enga tímaramma fyrir verkefni er að finna og enga kostnaðargreiningu einstakra verkefna eða áætlunarinnar í heild. Fyrir fjárveitingarvaldið er afar erfitt að tryggja nægilegt fjármagn til málaflokksins þegar þau verkefni sem kappkostað er að framkvæma eru ekki kostnaðargreind.

Einstök verkefni áætlunarinnar.
    Í framkvæmdaáætluninni er vikið að einstökum verkefnum sem minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum að eru afar mikilvæg. Margt bendir hins vegar til þess að verkefnin verði ekki að veruleika. Ber þar fyrst að nefna nýja meðferðarstofnun fyrir unglinga á aldrinum 16–18 ára sem glíma við alvarlegan vímuefna- og afbrotavanda. Barnaverndarstofa hefur lagt til að slíkri stofnun verði komið upp þar sem þessi börn eiga í mörgum tilfellum ekki samleið með yngri börnum sem glíma við vímuefnavanda. Þá gæti stofnunin einnig þjónustað þá unglinga sem sæta gæsluvarðhaldi eða hafa hlotið óskilorðsbundna dóma og geta ekki eða vilja ekki afplána dóm á öðrum meðferðarheimilum Barnaverndarstofu eða ekki er talið æskilegt, vegna vanda þeirra, að vista þá með öðrum yngri börnum á slíkum heimilum. Af framkvæmdaáætluninni má ráða að slíkri stofnun verði komið á legg en hins vegar hefur ekkert fjármagn verið veitt til undirbúnings eða reksturs slíkrar stofnunar. Miðað við að áætlunin er aðeins til eins árs er ólíklegt að af framkvæmdum verði og því er hér verið að vekja of miklar væntingar án þess að innistæða sé fyrir þeim.
    Þá er fjallað um tvö tilraunaverkefni. Annars vegar verkefni tengt tilkynningum um heimilisofbeldi þar sem sérfræðingur hefur farið með lögreglu í útköll vegna heimilisofbeldis til að ræða við börn á heimilunum og huga að líðan þeirra. Hins vegar er um að ræða hópmeðferð fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi eða eru beitt líkamlegu ofbeldi. Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt ánægðir með verkefnin og þau hafa gefið góða raun en líkt og fram kemur í umsögn umboðsmanns barna hefur verkefnunum þegar verið hætt vegna fjárskorts og ekki fyrirsjáanlegt að fjármagn fáist til þeirra. Því verður ekki séð að verkefnin eigi heima í framkvæmdaáætlun fyrir árin 2013 og 2014.
    Þá er fjallað um eflingu Barnahúss og aukna þjónustu þess sem allir gestir á fundum nefndarinnar og umsagnaraðilar lýsa mikilli ánægju með og benda jafnframt á að börn alls staðar að af landinu þurfi að eiga möguleika á þjónustu Barnahúss. Ekkert bendir hins vegar til þess að það fjármagn sem þarf til eflingar Barnahúss muni fylgja áætluninni og því verður líklega ekki af þessu þarfa verkefni.

Um gildi ályktana Alþingis.
    Minni hlutinn telur athyglisvert að framkvæmdaáætlunin skuli hafa verið samþykkt af framkvæmdarvaldinu og í ríkisstjórn án þess að nokkrir fjármunir skyldu hafa verið lagðir til þeirra lykilverkefna sem vikið er að hér að framan. Ljóst er að Barnaverndarstofa glímir við mikinn fjárskort, hún var rekin með halla á síðasta ári á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu stofnunarinnar jókst og henni eru ætluð ný verkefni í framkvæmdaáætluninni. Minni hlutanum sýnist því miður að ekki standi til að efna framkvæmdaáætlunina sem er miður en samkvæmt umsögnum eru miklar væntingar bundnar við áætlunina. Alþingi verður að tryggja að ef framkvæmdaáætlun sem þessi er sett fram og samþykkt af Alþingi sé henni fylgt eftir með framkvæmdum en ekki aðeins fögrum orðum. Minni hlutinn telur réttast að framkvæmdaáætluninni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og hún unnin aftur á markvissan hátt og kostnaðargreind þannig að mögulegt sé að vinna eftir henni.

Alþingi, 5. mars 2013.



Birkir Jón Jónsson.