Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1880  —  37. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Þorsteinsdóttur og Ernu Geirsdóttur frá Sjúkratryggingum Íslands, Stefán Vilbergsson og Emil Thoroddsen frá Öryrkjabandalagi Íslands, Höllu Þorvaldsdóttur frá Krabbameinsfélagi Íslands og Huldu Hjálmarsdóttur frá Krafti – stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein.
    Umsagnir bárust frá Krabbameinsfélagi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands og Sjúkratryggingum Íslands.
    Þá barst nefndinni minnisblað frá Sjúkratryggingum Íslands.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að beita sér fyrir því að krabbameinsmeðferðir verði gjaldfrjálsar. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram athugasemdir þess efnis að þrátt fyrir að kostnaður þeirra sem glíma við krabbamein væri oft íþyngjandi kynni svo einnig að vera um marga aðra langvinna og lífshættulega sjúkdóma. Bent var á að meðferð vegna sykursýki, margra hjartasjúkdóma, langvinnra lungnasjúkdóma, taugasjúkdóma og fleiri sjúkdóma kynnu að vera allt eins íþyngjandi og hafa veruleg áhrif á framfærslugetu einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Þótt ekki væri umdeilt að kostnaður einstaklinga vegna krabbameins og meðferðar vegna þess kynni að vera erfiður hjalli getur það einnig átt við um fleiri sjúkdóma. Þá var sérstaklega vikið að afleiðingum sem meðferðir við langvinnum sjúkdómum, eins og krabbameini, gætu haft á tannheilsu og að kostnaði sem af hlýst. Kom fram að sjúkratryggingastofnunin greiði, samkvæmt gjaldskrá nr. 305/2014, 80% af kostnaði við meðferð sem miðar að því að lagfæra þann skaða sem sjúkdómur eða meðferð hefur valdið sjúklingi. Framangreind gjaldskrá hefur að mestu verið óbreytt frá árinu 2004 og nema fjárhæðir hennar því ekki nema um 20% af raunkostnaði. Sjúkratryggingastofnunin leggur áherslu á að tryggt verði fjármagn til málaflokksins svo að unnt verði að semja um þjónustuna eða uppfæra gjaldskrána miðað við núverandi verðlag.
    Einnig kom sérstaklega til umfjöllunar staða þeirra sem hafa búið lengi við langvinna sjúkdóma og kunna að hafa fullnýtt vinnutengd réttindi sín, m.a. til veikindaorlofs og greiðslna úr sjúkrasjóðum. Sjúklingar þyrftu þannig að búa við fjárhagsáhyggjur sem geta haft alvarleg áhrif á geðheilsu fólks, sem eykur enn á vanda sjúklingsins.
    Markmið tillögunnar er að krabbameinsmeðferðir verði gjaldfrjálsar, en líkt og að framan greinir lúta sömu sjónarmið að því að meðferð við öðrum langvinnum og lífshættulegum sjúkdómum verði einnig gjaldfrjáls. Nefndin telur mikilvægt að undirstrika það markmið að lágmarka eftir fremsta megni kostnað vegna slíkra meðferða. Nefndin leggur til breytingu þess efnis að tillagan taki til fleiri hópa sjúklinga og að metið verði heildstætt með hvaða hætti megi draga úr kostnaði einstaklinga vegna meðferðar þeirra.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
                      Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að meta hvernig megi lágmarka kostnað sjúklinga vegna langvinnra og lífshættulegra sjúkdóma. Ráðherra skili Alþingi skýrslu þar að lútandi eigi síðar en 1. mars 2021.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um ráðstafanir til að lágmarka kostnað vegna krabbameinsmeðferðar og meðferðar við öðrum langvinnum og lífshættulegum sjúkdómum.

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 25. júní 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Anna Kolbrún Árnadóttir,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson.
Ásmundur Friðriksson. Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Halldóra Mogensen. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir.