Tillögur til þingsályktunar

Leiðbeiningar og dæmi

Almennt

Þingsályktanir eru samþykktir Alþingis og viljayfirlýsingar þingsins. Með þeim getur Alþingi lýst stefnu sinni eða ákvörðunum án þess að setja lög. Þær fela oft í sér áskorun á ríkisstjórnina um að sjá um framkvæmd verkefnis, undirbúa löggjöf eða rannsaka tiltekið mál. Þannig getur þingsályktun falið í sér pólitíska stefnumörkun og upphaf að undirbúningi málefnis sem síðar verður lagt fyrir þingið í formi lagafrumvarps. Þá getur þingsályktun falið í sér formlega ákvörðun um tiltekið málefni sem tengist ekki löggjafarstarfi en fellur undir verkefni þingsins samkvæmt lögum eða stjórnarskrá að taka ákvörðun um. Loks þarf samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem
stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við en aflétting hans er almennt gerð með þingsályktun.

Þingsályktunartillögur eru ræddar við tvær umræður nema tillögur um vantraust á ríkisstjórn eða ráðherra og tillögur til frestunar á fundum Alþingis sem eru ræddar og afgreiddar við eina umræðu. Til þeirra þarf ekki atbeina forseta Íslands. Þær hafa ekki lagagildi og geta ekki komið í stað laga þar sem þau eru nauðsynleg. Þær verða því að þoka að því leyti sem þær eru ósamþýðanlegar settum lögum en
geta þó skipt máli sem réttarheimild.

Nokkur atriði til athugunar við gerð tillagna

  1. Texti í tillögugreininni sé ályktunarhæfur.
  2. Viðtengingarháttur sé notaður.
  3. Skorað sé á réttan ráðherra (á einkum við í tillögum þingmanna).
  4. Alþingi kýs nefnd, ráðherra getur hins vegar skipað nefnd.
  5. Nefndir úti í bæ geta ekki lagt fram skýrslu á Alþingi en ráðherra getur það og þingnefndir.
  6. Tímasetningar séu raunhæfar.
  7. Stafliðir eða töluliðir séu notaðir þegar talin eru upp atriði til að auðvelt sé að gera breytingartillögu við textann.
  8. Allur rökstuðningur og skýringar eiga heima í greinargerð en ekki í sjálfri tillögugreininni.
  9. Um stórar tillögur, stefnur, aðgerðaáætlanir og framkvæmdaáætlanir gildir sama og um minni tillögur.
  10. Hægt er leggja fram þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun.


Nánar um einstök atriði

Um 1. tölul. Texti í tillögugreininni sé ályktunarhæfur.

Í 1. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis segir um tillögur til þingsályktunar: „Tillögur til þingsályktunar skulu vera í ályktunarformi. Skal prenta þær og útbýta þeim meðal þingmanna á þingfundi. Tillögu til þingsályktunar skal að jafnaði fylgja greinargerð með skýringu á efni hennar. Umræða má eigi fara fram
fyrr en í fyrsta lagi tveimur nóttum eftir að tillögunni var útbýtt.“

Tillögutextinn (tillögugreinin) þarf að vera skýr og „í ályktunarformi“ og það verður að vera hægt að gera breytingartillögur við hann með auðveldu móti. Því er gott að hafa kaflanúmer, töluliði og stafliði sem hægt er að vísa í.

Þingsályktun á að fjalla um það sem á að gera samkvæmt vilja þingsins, ekki hvernig og af hverju það er mikilvægt; gildishlaðinn texti á sem sagt ekki heima í tillögutextanum. Þar mega ekki vera skýringar eða staðreyndaupptalning. Allt slíkt á heima í greinargerð sem á að fylgja tillögum samkvæmt þingsköpum. Allar skýringar og hugleiðingar eiga heima þar.

Það þarf að vera hægt að fara eftir ályktunum.

Þingsályktanasafn er á vef Alþingis og nær þar aftur til haustsins 1983 (106. löggjafarþings).

Um 2. tölul. Viðtengingarháttur sé notaður.

Dæmi:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að setja á fót starfshóp sem undirbúi endurskoðun laga um lögheimili, nr. 21/1990, með það að markmiði að hjónum verði gert fært að eiga lögheimili hvort á sínum staðnum, hvort heldur er þegar bæði hafa bækistöð innan lands eða þegar annað hefur bækistöð erlendis. Einnig verði lagðar til breytingar á öðrum lögum sem þarf að breyta til að markmiðinu verði náð. Ráðherra leggi fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um lögheimili, byggt á tillögum starfshópsins, eigi síðar en 30. mars 2017.

Um 3. tölul. Skorað sé á réttan ráðherra (á einkum við í tillögum þingmanna).

Dæmi:

  • Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að móta stefnu og innleiða verklagsreglur…
  • Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sérfræðinga sem meti kosti og galla þess að …


Um 4. tölul. Alþingi kýs nefnd, ráðherra getur hins vegar skipað nefnd.

Dæmi:

  • Alþingi ályktar að kjósa nefnd, skipaða fulltrúum allra þingflokka, til að …
  • Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að setja á fót starfshóp sem undirbúi endurskoðun laga um…
  • Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni …
  • Ráðherra skipi starfshóp sem geri tillögur að stefnu og verklagsreglum …

Um 5. tölul. Nefndir úti í bæ geta ekki lagt fram skýrslu á Alþingi en ráðherra getur það og þingnefndir.

Dæmi:

  • Ráðherra leggi árlega fram skýrslu um vinnu starfshópsins þar sem gerð verði grein fyrir vinnu starfshópsins …
  • Ráðherra skili þinginu skýrslu um niðurstöður starfshópsins eigi síðar en …
  • Heilbrigðisráðherra upplýsi Alþingi um framgang verkefnisins á haustþingi 2014 og skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps
  • Starfshópurinn skili ráðherra skýrslu fyrir árslok 2016 sem ráðherra kynni fyrir Alþingi.
  • Forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar, flytji Alþingi munnlega
    skýrslu um framgang byggðaáætlunar eigi síðar en fyrir lok árs 2015.


Um 6. tölul. Tímasetningar séu raunhæfar.

Dæmi:

  • Ráðherra leggi fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um lögheimili, byggt á tillögum starfshópsins, eigi síðar en
  • Alþingi ályktar að kjósa nefnd, skipaða fulltrúum allra þingflokka, til að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Nefndin ljúki störfum innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.


Um 7. tölul. Stafliðir eða töluliðir séu notaðir þegar talin eru upp atriði til að auðvelt sé að gera breytingartillögu við textann.

Dæmi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á fót loftslagsráð sem hafi það
meginhlutverk að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á
Íslandi. Ráðið hafi m.a. eftirtalin verkefni:

  1. að fylgjast með þróun loftslagsmála og beina að eigin frumkvæði tilmælum og ráðleggingum um markmið og leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til stjórnvalda og annarra aðila, svo sem opinberra stofnana, eftir því sem tilefni þykir til,
  2. að fylgjast með eftirfylgni við löggjöf um losun gróðurhúsalofttegunda,
  3. að veita ráðgjöf um rannsóknarþörf og viðbrögð á þeim sviðum sem mestu varða fyrir það verkefni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þar á meðal um mannvirkjagerð, skipulag byggðar, samgöngur, atvinnuhætti og ástand og þróun lífríkis …


Um 8. tölul. Allur rökstuðningur og skýringar eiga heima í greinargerð en ekki í sjálfri tillögugreininni.

Alþingi ályktar ekki um staðreyndir eða rökstuðning fyrir því sem einhverjum er falið að gera. Í tillögugrein ályktar Alþingi að eitthvað verði gert, einhverjum falið að gera eitthvað eða skorað á einhvern að gera eitthvað, t.d.: Alþingi ályktar að eftirfarandi siðferðileg gildi skuli höfð að leiðarljósi …; eða: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp …; eða: Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa …

Rök fyrir tillögunni, upptalning staðreynda, frekari útskýringar á verkefni og nánari útfærsla á framkvæmd þess á ekki heima í tillögugrein heldur í greinargerð.

Dæmi úr greinargerð:

  • Nauðsynlegt er að stefnumótun fyrir heilbrigðiskerfið hvíli á traustum siðferðilegum grunni …
  • Það er því mikilvægt að í vinnu starfshópsins verði horft til þess hvernig samstarf …
  • Mikilvægt er að í starfshópnum verði einstaklingar sem þekkja ítarlega til starfsemi …
  • Eðlilegt er að Alþingi minnist …
  • Það er því nauðsynlegt að meta umfang þessa vanda …

Um 9. tölul. Um stórar tillögur, stefnur, aðgerðaáætlanir og framkvæmdaáætlanir gildir sama og um minni tillögur.

Undanfarin ár hefur færst í vöxt að lagðar séu fram tillögur um stefnu í tilteknum málaflokkum eða tillögur með aðgerða- eða framkvæmdaáætlunum, oft viðamiklum. Þar þarf að gæta sömu atriða og í minni tillögum.

Dæmi:


Um 10. tölul. Hægt er leggja fram þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun.

Stöku sinnum þarf að breyta þingsályktun sem er í gildi og unnið er eftir. Dæmi um það er breyting á þingsályktun um siðareglur fyrir alþingismenn. Henni var breytt með þingsályktun nr. 18/148:

Alþingi ályktar, með vísan til 88. gr. þingskapa, að eftirfarandi breytingar verði gerðar á siðareglum fyrir alþingismenn, sbr. þingsályktun Alþingis 16. mars 2016, nr. 23/145:

  1. Á eftir c-lið 1. mgr. 5. gr. siðareglnanna komi nýr stafliður, svohljóðandi:
    leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.
  2. Orðin „sem hafa setið samfellt í fjórar vikur“ í 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. siðareglnanna falli brott.
  3. Á eftir 7. gr. siðareglnanna komi ný grein, svohljóðandi:
    Þingmenn skulu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.

Skrifstofa Alþingis, nóvember 2020