Nýbygging á Alþingisreit

Nokkrar staðreyndir um nýbyggingu Alþingis

20.10.2023

Senn líður að því að ný skrifstofubygging Alþingis verði tekin í notkun og nú er hafin samkeppni um nafn á húsið.

Það sem flyst yfir í nýja húsið er eftirfarandi: Allar skrifstofur þingmanna, fundarherbergi fastanefnda Alþingis og skrifstofur starfsfólks (eru nú í Austurstræti 8–10, 12a og 14, alls tæplega 4.200 fermetrar), auk eldhúss og matsalar (sem nú eru á annarri hæð Skála). Nýja húsið er, að meðtöldum bílakjallara, um 6.500 fermetrar.

Húsið er klætt sex steintegundum: Reykjavíkurgrágrýti (sem kemur úr grunni nýja Landspítalans), Grindavíkurgrágrýti, hraungrýti, blágrýti, líparít og gabbró. Þessar steintegundir eru einnig í gólfum í fundarsölum á fyrstu hæð.

Fyrir framan húsið, við Vonarstræti, er svokölluð Landnámsgryfja en dýpi hennar markast af hæð jarðvegsins við landnám.

Á fyrstu hæð eru fjögur fundarherbergi fastanefnda, ráðstefnusalur og útsendingasalur auk forsalar og nokkurra rýma til að taka á móti gestum.

Á fyrstu hæð er einnig hellusteinsgryfja en hún mun ramma inn fornan stíg sem fannst þegar grafið var fyrir grunni hússins. Þar verður, auk stígsins, einnig að finna nokkra muni sem fundust við uppgröftinn. Listaverk á 1. hæð er Flækjuloft eftir Þór Vigfússon og fyrir utan, við anddyri, verður verk eftir Kristin E. Hrafnsson.

Á 2. hæð eru rými fyrir starfsfólk en unnið verður í fimm vinnurýmum, alls pláss fyrir átta í hverju rými. Þá verður þar skrifstofa forseta Alþingis (sem nú er í Blöndahlshúsi við Kirkjustræti), fundarherbergi o.fl.

Á 3. og 4. hæð eru skrifstofur þingmanna, fundarherbergi fyrir þingflokka og önnur fundarherbergi. Þá eru þar vinnurými fyrir starfsfólk þingflokka. Alls eru á þessum tveimur hæðum 58 skrifstofur fyrir þingmenn (29+29) og allt að 12 (6+6) herbergi fyrir þingflokka. Nýting rýmanna fer að sjálfsögðu eftir fjölda þingflokka hverju sinni.

Á 5. hæð er matsalur og eldhús. Þá verða þar þrír fundarsalir sem hægt er að nýta fyrir móttökur og fundi.

20230926_111802

 Nýbyggingin séð frá Vonarstræti.