Reglur um þingfararkostnað

1. gr.
Álagsgreiðslur.

Álagsgreiðslur á þingfararkaup skulu vera eftirfarandi:

  1. Varaforsetar fá greitt 15% álag á þingfararkaup.
  2. Formenn fastanefnda fá greitt 15% álag á þingfararkaup.
  3. Formenn þingflokka fá greitt 15% álag á þingfararkaup. Fyrsti varaformaður fastanefndar fær 10% álag á þingfararkaup og annar varaformaður 5% álag. 
  4. Heimilt er að greiða formanni sérnefndar skv. 32. gr. þingskapa álag á þingfararkaup, allt að 15%, frá þeim tíma sem hann er kjörinn og til þess tíma er nefndin lýkur störfum.
  5. Varaformaður fastanefndar eða þingflokks fær greitt 15% álag á þingfararkaup þann tíma sem formaður er utan þings og varamaður hans situr á þingi.  
  6. Þeir alþingismenn, sem eru formenn stjórnmálaflokka, sem hlotið hafa a.m.k. þrjá þingmenn kjörna, og eru ekki jafnframt ráðherrar, fá greitt 50% álag á þingfararkaup.

Ekki skal greiða nema eina álagsgreiðslu skv. 2.–6. tölul. 1. mgr.

2. gr.
Húsnæðis- og dvalarkostnaður.

Alþingismaður fyrir kjördæmi utan Reykjavíkurkjördæma og Suðvesturkjördæmis (höfuðborgarsvæðis) fær mánaðarlega greiddar [185.500 kr.] í húsnæðis- og dvalarkostnað. Fjárhæðin er ætluð til að standa undir húsnæðis- og dvalarkostnaði (gistingu, fæði) á höfuðborgarsvæði eða í kjördæminu ef þingmaður á heimili á höfuðborgarsvæði.

Alþingismaður, sem á heimili utan höfuðborgarsvæðis og fær greitt fyrir daglegar ferðir milli heimilis og Reykjavíkur um þingtímann, sbr. 3. mgr. 4. gr., fær aðeins greiddan þriðjung húsnæðis- og dvalarkostnaðar skv. 1. mgr., [68.800 kr.] mánaðarlega.

Haldi alþingismaður, sem á aðalheimili utan höfuðborgarsvæðis, annað heimili í Reykjavík getur hann óskað eftir að fá greitt álag, 40%, á fjárhæð skv. 1. mgr., [74.200 kr.]. Með „aðalheimili“ þingmanns samkvæmt þessari mgr. er átt við skráð íbúðarhúsnæði sem er aðsetur þingmannsins í kjördæminu og hann á eða hefur á leigu, hefur kostnað af allt árið og nýtir til búsetu.

Alþingismaður, sem hefur tímabundnar tekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis síns í kjördæmi eða notar það fyrir uppkomin börn sín eða ættingja, á ekki rétt á greiðslu skv. 2. mgr.

Verði breytingar á högum þingmanns sem varða greiðslu skv. 2. mgr. skal hann tilkynna skrifstofunni um þær.

3. gr.
Ferðakostnaður í kjördæmi.

Alþingismaður fær mánaðarlega greiddar [41.500 kr.] í fastan ferðakostnað. Skal fjárhæðin standa undir ferðakostnaði í næsta nágrenni heimilis eða starfsstöðvar, auk dvalarkostnaðar á ferðalögum í kjördæmi. Með „starfsstöð“ er átt við hvers konar aðstöðu sem þingmaður hefur í kjördæmi sínu, aðra en heimili, sbr. 3. mgr. 2. gr.

Endurgreiða skal ferðakostnað innan kjördæmis fyrir ferðir á fundi eða samkomur sem þingmaður boðar til eða hann er boðaður á, enda sé vegalengd á fundarstað a.m.k. 15 km (önnur leiðin) frá heimili eða starfsstöð.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að endurgreiða gistikostnað í eigin kjördæmi (gistinótt) þegar sérstaklega stendur á. 

4. gr.
Ferðir milli heimilis og Reykjavíkur.

Endurgreiddur skal kostnaður alþingismanns við ferðir milli heimilis eða starfsstöðvar og Reykjavíkur.

Njóti alþingismaður húsnæðis og dvalarkostnaðar skv. 1. mgr. 2. gr. skal heimilt að endurgreiða allt að einni ferð á viku á þingtímanum samkvæmt þessari grein.

Þingmaður, sem býr utan höfuðborgarsvæðis og fer milli heimilis og Alþingis daglega um þingtímann, á rétt á að fá endurgreiddar allar slíkar ferðir, enda fær hann þá einungis þriðjung húsnæðis- og dvalarkostnaðar, sbr. 2. mgr. 2. gr.

Endurgreiða skal þingmanni aðrar ferðir á fundi sem hann er boðaður á í Reykjavík vegna þingmannsstarfa meðan hann dvelst á heimili sínu.

5. gr.
Fundaferðir.

Endurgreiða skal alþingismanni kostnað við ferðir í önnur kjördæmi en eigið á fundi sem hann boðar eða er boðaður á starfa sinna vegna. Sama á við um ferðir þingmanns meðan hann dvelst í Reykjavík á þingtíma, eða dvelst þar í erindum Alþingis utan þingtíma, ef hann þarf að fara í sérstaka fundaferð í eigið kjördæmi.

6. gr.
Tilhögun á greiðslu ferðakostnaðar.

 Velja skal hagkvæmasta ferðamáta þegar því verður við komið. Skrifstofan getur að undangengnu útboði eða samningum sett nánari reglur um við hvaða aðila skuli skipta, t.d. varðandi leiguakstur eða bílaleigubifreiðar.

Þegar alþingismaður ekur eigin bifreið skal greiða km-gjald samkvæmt reglum ferðakostnaðarnefndar og skal ávallt miða við stystu leið á milli staða. Færa skal akstursbók, sem skrifstofan lætur í té, til stuðnings endurgreiðslu fyrir akstur eigin bifreiðar og tilgreina tilefni ferðar.

Þegar alþingismaður notar einkabifreið til aksturs milli staða þar sem kostur er á flugi skal hann að jafnaði fá greitt sem nemur flugfari fyrir ferðina.

Alþingismanni er að jafnaði heimilt að fá bílaleigubifreið til afnota til fundaferða utan 15-km viðmiðunar skv. 3. gr. Skrifstofan setur nánari reglur um fyrirkomulagið.

Ef áætla má að alþingismaður þurfi í starfi sínu að aka meira en svarar 15.000 km á ári á eigin bifreið skal skrifstofan láta honum í té bílaleigubifreið til afnota, sbr. 1. mgr. Mörk hámarksaksturs á eigin bifreið geta þó komið til endurskoðunar á grundvelli verðþróunar eða útboðs, en forsætisnefnd skal samþykkja slíka breytingu. Óski alþingismaður eigi að síður að nota eigin bifreið falla greiðslur niður þegar 15.000 km-markinu er náð, svo og heimild til að nota bílaleigubíl. Alþingi greiðir allan rekstrarkostnað bílaleigubifreiðar, en skrifstofan getur sett nánari vinnureglur um hann, sbr. 10. mgr.

Alþingismaður, sem heldur tvö heimili og ferðast að jafnaði í hverri viku til og frá heimili í kjördæmi, á rétt á að fá bílaleigubifreið til afnota um þingtímann til að nota í Reykjavík. Þingmaðurinn greiðir þá eldsneytiskostnað.

Þegar þingmaður ferðast með flugvélum skal auk fargjalds greitt fyrir leigubíl til og frá flugvelli samkvæmt reikningi þegar við á. Sama á við um annan ferðamáta, svo sem þegar ferðast er með ferju eða áætlunarbifreiðum.

Þingmaðurinn skal leggja út fyrir ferðakostnaði en skrifstofan getur sett reglur sem heimila skuldfærslu. Það gildir m.a. um bílaleigubifreiðir í langtímanotkun.

Alþingismaður, sem fær greiddan ferðakostnað skv. þessum reglum, eða endurgreiddan kostnað, skal ávallt greina frá tilefni ferðar í akstursbók, svo sem heimferð, fundi, samkomu o.s.frv. Enn fremur skulu fylgja með önnur staðfestingargögn, svo sem auglýsing um fund, fundarboð, tölvupóstur og annað slíkt, og getur skrifstofan sett nánari vinnureglur um þau.           

Skrifstofa Alþingis skal láta alþingismanni, sem notar bílaleigubifreið, í té almenna skilmála um notkun hennar, þar á meðal um skráningu aksturs, tímabundinn akstur annarra við sérstakar aðstæður, takmörkuð einkaafnot og um tryggingar.  

6. gr. a.
Ferðakostnaður í aðdraganda kosninga.

Réttur þingmanns, sem sækist eftir endurkjöri, til endurgreiðslu ferðakostnaðar í kjördæmi, sbr. 3. gr., vegna ferða milli heimilis og Reykjavíkur, sbr. 4. gr., og ferða í önnur kjördæmi (fundaferðir), sbr. 5. gr., fellur niður þegar sex vikur eru til kjördags eða þegar þing hefur verið rofið. Frá sama tíma fellur niður heimild þingmanns skv. 4. mgr. 6. gr. til þess að nýta bílaleigubifreið til ferða skv. 3. gr. og 5. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að endurgreiða þingmanni ferðakostnað skv. 3.–5. gr. þegar um er að ræða viðburði eða ferðir á vegum Alþingis eða þegar þing er enn að störfum og þingmaður tekur þátt í störfum þess með því að sækja þingfundi eða nefndarfundi.

7. gr.
Skrifstofukostnaður.

Leggja skal alþingismanni til skrifstofu og almennan skrifstofubúnað og greiða kostnað af því.

Endurgreiða skal alþingismanni eðlilegan kostnað við farsíma.

Skrifstofan lætur alþingismanni í té tölvu til afnota ásamt tilheyrandi fylgibúnaði.

8. gr.
Starfskostnaður.

Alþingismaður á rétt á að fá endurgreiddan kostnað sem hlýst af starfi hans gegn framvísun reikninga.  Hámark slíkrar greiðslu er [664.800] kr. á ári hverju.

Alþingismaður getur einnig valið að fá greiddan starfskostnað sem fasta mánaðarlega fjárhæð, [55.400 kr.], og þá dregst staðgreiðsla af fjárhæðinni. Ef þingmaður fær fasta mánaðarlega greiðslu getur hann framvísað reikningum fyrir greiddum starfskostnaði og  koma samþykktir reikningar þá til lækkunar á skattstofni við næstu mánaðarútborgun starfskostnaðar. Ef fjárhæðin er hærri en sem nemur mánaðarlegum starfskostnaði kemur mismunurinn til lækkunar í næsta mánuði eða á næstu mánuðum þar á eftir.

Reikningar þurfa að berast skrifstofu fyrir 20. hvers mánaðar ef taka á tillit til þeirra við næstu útborgun starfskostnaðar.

Eftirfarandi kostnaður alþingismanns skal endurgreiddur:

  1. Fundir, ráðstefnur, námskeið o.fl.:
    1. Fundir sem alþingismaður stendur fyrir (fundaraðstaða, auglýsingar, kaffi og meðlæti).
    2. Fundir, ráðstefnur, námskeið og fyrirlestrar sem alþingismaður sækir vegna starfa sinna og hann þarf að greiða fyrir (fundar , námskeiðs eða ráðstefnugjöld).
    3. Ráðstefnur, fundir og námskeið er þingmaður sækir erlendis (ferðakostnaður, þátttökugjald) enda hafi kostnaðaráætlun áður verið kynnt skrifstofunni og hún samþykkt hana.
  2. Bækur, fréttablöð, tímarit og ritföng:
    1. Fagbækur, fréttablöð og tímarit sem þingmaður kaupir vegna starfs síns.
    2. Ritföng til nota utan skrifstofunnar.
  3. Póstburðargjöld og sími:
    1. Póstburðargjöld fyrir útsendingar ef þingmaður kýs að nota ekki póstþjónustu skrifstofunnar.
    2. Símakostnaður í tengslum við sérstök starfstengd verkefni  sem Alþingi greiðir ekki.
  4. Móttaka gesta, blóm og gjafir:

    Móttaka gesta, blóm og gjafir í tengslum við starf alþingismanns. Tilefni útgjalda þarf að vera umfram það sem telja má til almennrar venju. Að hámarki má endurgreiða [6.000 kr.] í hverri gjöf. Endurgreiðslur skulu ekki vera hærri en [25.000 kr.] á mánuði að jafnaði.

  5. Leigubifreiðar:
    Endurgreiða má kostnað við leigubifreiðar innan lands í tengslum við störf þingmanns.
  6. Annað
    1. Framlög og styrkir til stjórnmálaflokka.
    2. Sérfræðiaðstoð og gerð kynningarefnis, svo og ýmis kostnaður við vinnuaðstöðu á heimili eða starfsstöð þingmanns. Hámark fyrir vinnuaðstöðu er [180.000 kr.].

9. gr.
Varamenn.

Varamaður skal fá greitt þingfararkaup frá þeim degi sem tilkynnt er á þingfundi eða á vef um að hann taki sæti á Alþingi og til þess tíma að tilkynnt er um að aðalmaður taki sæti á ný. Greiðsla til varamanns fellur þó niður við þingfrestun og upphaf hefðbundinna þinghléa (jólahlés, páskahlés) samkvæmt starfsáætlun nema forföll aðalmanns séu vegna veikinda og vari samfellt svo lengi á sama þingi að varamaður sitji áfram við framhald þingstarfa.

Þingfararkaup varamanns skal greitt sem hlutfall eftir lengd þingsetu.Endurgreiða skal varamanni ferða- og dvalarkostnað í Reykjavík.Eftir fjögurra vikna setu á Alþingi skal varaþingmaður , auk þingfararkaups, fá hlutfallslega fastar greiðslur þingfararkostnaðar sem aðalmaður á rétt á, þó ekki álag á húsnæðis- og dvalarkostnað. Heimilt er að greiða dvalarkostnað í Reykjavík en þá fellur niður greiðsla húsnæðis- og dvalarkostnaðar.

Greiða skal alþingismanni sem víkur af þingi og tekur inn varamann, án þess að eiga rétt til greiðslna á meðan, þingfararkaup og fastar greiðslur fyrir þá daga sem hann er í erindum Alþingis erlendis, þ.e. fundadaga og ferðadaga.

10. gr.
Fæðingarorlof.

Um fæðingar- og foreldraorlof alþingismanns fer samkvæmt almennum lögum.

Þingmaður, sem heldur tvö heimili og fær álag á húsnæðis- og dvalarkostnað, heldur þó álagsgreiðslum meðan á orlofi stendur.

Greiðslur til varamanns í fæðingarorlofi aðalmanns skulu hefjast um leið og orlof hefst, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 10. gr.

Alþingismenn eiga rétt á fæðingarstyrk eftir sömu reglum og embættismenn njóta skv. ákvörðun kjararáðs.

11. gr.
Greiðslur í forföllum.

Til forfalla samkvæmt þessari grein telst fjarvera alþingismanns vegna slyss eða veikinda maka eða barns. Skulu þeir njóta sama réttar til greiðslu og gildir um starfsmenn ríkisins á hverjum tíma.

Í forföllum skv. þessari grein heldur þingmaður sömu föstu greiðslum og skv. 11. gr.

12. gr.
Slysatryggingar og endurgreiðslur.

Alþingismenn skulu slysatryggðir allan sólarhringinn við dauða eða vegna varanlegrar örorku. Um trygginguna gilda bótafjárhæðir og tryggingaskilmálar eftir því hvort alþingismaður verður fyrir slysi í starfieða utan starfs. Um skilmála trygginga þessara gilda reglur nr. 30/1990 og nr. 31/1990. Um bótafjárhæðir fer samkvæmt sömu reglum og gildir um embættismenn samkvæmt reglum kjararáðs um starfskjör.

Alþingismenn skulu eiga rétt á hliðstæðri endurgreiðslu útgjalda og styrkja sem embættismenn njóta samkvæmt ákvörðun kjararáðs um almenn starfskjör embættismanna.

13. gr.
Ferðakostnaður erlendis.

Á ferðum alþingismanns erlendis á vegum Alþingis er greiddur hótelkostnaður samkvæmt reikningi og 50% dagpeninga skv. reglum ferðakostnaðarnefndar.

14. gr.
Persónuuppbót.

Alþingismenn skulu fá greidda persónuuppbót 1. júní og 1. desember ár hvert. Upphæð persónuuppbótarinnar er sama upphæð og orlofsuppbót og persónuuppbót Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) í hvert sinn.

15. gr.
Endurskoðun fjárhæða og gildistími.

Forsætisnefnd skal endurskoða fjárhæðir samkvæmt reglum þessum árlega með tilliti til verðlagsbreytinga og ef sérstakt tilefni er til. Skrifstofa Alþingis getur sett nánari vinnureglur um framkvæmd reglna þessara. 

 

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 19. desember 2007, breytt 18. apríl 2013, 23. september 2014, 10. október 2016, 31. janúar 2017, 22. febrúar 2018, 29. apríl 2019, 12. apríl 2021, 16. ágúst 2021, 25. febrúar 2022, 16. janúar 2023 og 19. janúar 2024).