Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 88. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 659  —  88. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.


Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Ingólfsson og Estrid Brekkan frá utanríkisráðuneyti og Stefán Pálsson og Ragnar Hjálmarsson frá Vinafélagi Vestur-Sahara. Umsagnir bárust nefndinni frá utanríkisráðuneyti, Vinafélagi Vestur-Sahara og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara verði virtur. Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að alþjóðasamfélagið hafi aldrei viðurkennt innlimun Marokkós á Vestur-Sahara og þess hafi ítrekað verið krafist að Marokkóstjórn viðurkenni sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara, þ.m.t. flóttamanna, og að landsmönnum sjálfum verði leyft að ákvarða framtíð sína. Ísland hafi lagt sig eftir því á vettvangi alþjóðamála að styðja við baráttuna fyrir sjálfsákvörðunarrétti smáþjóða og með því að tala máli íbúa Vestur-Sahara á alþjóðavettvangi gætu íslensk stjórnvöld lagt mikilvægt lóð á vogarskálar friðar og lýðræðis í Norðvestur-Afríku.
    Í umsögn frá utanríkisráðuneyti kemur fram að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi árlega undanfarinn áratug samþykkt einróma ályktanir sem m.a. kveða á um að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara skuli virtur í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og stuðningi lýst við áframhaldandi aðgerðir Sameinuðu þjóðanna til að hlutast til um pólitíska lausn.
    Fram kom í máli gesta á fundum nefndarinnar að áherslu bæri að leggja á það að friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna, sem starfað hefur í Vestur-Sahara frá árinu 1991, fái umboð til að fylgjast með ástandi mannréttinda. Ýmsar alþjóðastofnanir og samtök hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu mannréttinda og mannúðarmála í Vestur-Sahara. Íslensk stjórnvöld hafa stutt breytingar á umboði friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna svo að einnig felist í því eftirlit með mannréttindamálum.
    Ljóst er af umsögnum og máli gesta á fundum nefndarinnar að stefna íslenskra stjórnvalda er í samræmi við fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara. Nefndin lítur svo á að tillagan sé hvatning til utanríkisráðherra um að beita sér með virkum hætti á alþjóðavettvangi fyrir þeirri stefnu sem stjórnvöld aðhyllast nú þegar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Ásmundur Einar Daðason og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. febrúar 2014.



Birgir Ármannsson,


form.


Árni Þór Sigurðsson,     


frsm.


Frosti Sigurjónsson.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Óttarr Proppé.


Silja Dögg Gunnarsdóttir.



Vilhjálmur Bjarnason.