Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 329. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1021  —  329. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu.


Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergdísi Ellertsdóttur og Ragnar Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti og Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands. Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu sem undirritaður var í Þrándheimi 24. júní 2013. Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu sem undirritaður var sama dag.
    Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að fríverslunarsamningurinn við Bosníu og Hersegóvínu kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða að loknu 3–5 ára aðlögunartímabili. Fríverslunarsamningurinn inniheldur auk ákvæða um vöruviðskipti ákvæði um fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Samningurinn við Bosníu og Hersegóvínu er af svokallaðri fyrstu kynslóð fríverslunarsamninga þar sem ekki er samið sérstaklega um þjónustuviðskipti en samningsaðilarnir stefna að því að ná fram í áföngum auknu frelsi fyrir þjónustuviðskipti.
    Þá kemur fram í athugasemdum við tillöguna að landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Bosníu og Hersegóvínu er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Bosníu og Hersegóvínu. Verslun með óunnar landbúnaðarvörur fellur undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Bosnía og Hersegóvína mun m.a. fella niður tolla á heilum og hálfum lambaskrokkum og lækka tolla á öðrum lambakjötsafurðum. Landbúnaðarsamningurinn öðlast gildi sama dag og fríverslunarsamningurinn.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Þór Sigurðsson, Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Óttarr Proppé voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 2014.


Birgir Ármannsson,


form.


Silja Dögg Gunnarsdóttir, frsm.


Ásmundur Einar Daðason.



Vilhjálmur Bjarnason.


Össur Skarphéðinsson.