Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 266. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1095  —  266. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um ráðstafanir gegn málverkafölsunum.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá bandalagi íslenskra listamanna, Jóhanni Ágústi Hansen og Myndstefi.
    Tillagan felur í sér að settur verði á laggirnar starfshópur sem skipaður verði fulltrúum Listasafns Íslands, Myndstefs, Bandalags íslenskra listamanna, Sambands íslenskra myndlistarmanna, embættis sérstaks saksóknara og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem geri tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og skilgreiningu á ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins. Einnig er lagt til að hið opinbera fái frumkvæðisskyldu til að rannsaka og eftir atvikum kæra málverkafalsanir.
    Árið 2004 skipaði þáverandi menntamálaráðherra starfshóp til að fjalla um þann vanda sem stafar af listaverkafölsunum og viðbrögð við honum. Í tillögum sem starfshópurinn skilaði af sér árið 2005 var bent á ýmsar ráðstafanir sem beita mætti til að gera listaverkafölsurum erfiðara um vik við að selja falsverk. Starfshópurinn taldi best til árangurs að efla rannsóknir á íslenskri listasögu sem og skrásetja upplýsingar um listaverk. Jafnframt benti starfshópurinn á að yfirvöld hefðu ekki neytt allra úrræða, sem tiltæk væru í lögum, til að fást við listaverkafalsara. Haustið 2006 flutti þáverandi viðskiptaráðherra frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunarvinnu, með síðari breytingum (eigendasaga myndverka o.fl.) en frumvarpið náði ekki fram að ganga.
    Markmið þingsályktunartillögunnar er annars vegar að vernda íslenska menningararfleifð gegn málverkafölsunum, þá er lögð áhersla á að embætti sérstaks saksóknara komi að þeirri vinnu þar sem falsanir falla undir efnahagsbrot, og hins vegar að skýra hlutverk og frumkvæðisskyldu stjórnvalda gangvart því að varðveita menningararfinn.
    Þær umsagnir sem bárust um tillöguna voru allar jákvæðar og í þeim var tekið heilshugar undir mikilvægi málsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Páll Valur Björnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2014.


Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Svandís Svavarsdóttir,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Vilhjálmur Árnason.