Ferill 26. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 843  —  26. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og kynnt sér þær umsagnir sem bárust þegar málið var til umfjöllunar á 144. löggjafarþingi (þskj. 397). Tillagan er nú endurflutt óbreytt.
    Efni þingsályktunartillögunnar er að fela innanríkisráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember, dagurinn þegar barnasáttmálinn var samþykktur, verði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins.
    Allir umsagnaraðilar voru jákvæðir gagnvart efni þingsályktunartillögunnar og bentu m.a. á að mikilvægt væri að fræðsla um réttindi barna væri samofin starfi þeirra í skólum landsins. Nefndin tekur heils hugar undir þessi sjónarmið og vísar til þess að einstaklingar þurfi að þekkja réttindi sín til þess að geta notið þeirra og staðið vörð um þau.
    Það er mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að leggja áherslu á kynningu og fræðslu um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og vert sé að nefna að slíkir fræðadagar eru nú þegar viðhafðir, m.a. til fræðslu um íslenska tungu og íslenska náttúru. Það er álit nefndarinnar að mikilvægt sé að auka þekkingu barna á réttindum og skyldum sínum með því að leggja áherslu á kynningu og fræðslu almennt um mannréttindi í samfélaginu og sér í lagi í skólum landsins. Slík fræðsla hlýtur að eiga að vera þáttur í almennu skólastarfi og samtvinnuð því með ýmsum hætti. Tillagan er liður í því að stuðla að mikilvægri kynningu og fræðslu um barnasáttmálann.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. febrúar 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Haraldur Einarsson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Vilhjálmur Árnason.