Ferill 607. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 988  —  607. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stuðning við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að styðja við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2016 sem samþykkt var á aukaársfundi ráðsins í Grindavík 31. janúar 2016.
    Vestnorræna ráðið sótti um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu 27. ágúst 2014. Umsóknin var tekin fyrir á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Iqaluit í Kanada 24. apríl 2015 en þar var ákveðið að fresta ákvörðun um allar umsóknir um áheyrnaraðild til næsta ráðherrafundar ráðsins í Fairbanks í Bandaríkjunum vorið 2017. Umsókn Vestnorræna ráðsins er því enn í ferli og þýðingarmikið að fylgja henni eftir fram til næsta ráðherrafundar. Mikilvægur liður í því er að þjóðþingin þrjú og stjórnvöld landanna vinni á áhrifaríkan hátt að því að umsóknin verði samþykkt.
    Samhliða auknu alþjóðlegu mikilvægi málefna norðurslóða hefur Vestnorræna ráðið lagt sérstaka áherslu á málefni svæðisins síðastliðin ár. Umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu byggist ekki síst á mikilvægi þess að þjóðkjörnir þingmenn norðurslóða hafi möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanatöku sem snertir réttindi og hagsmuni íbúa vestnorræna svæðisins. Með það markmið í huga hefur Vestnorræna ráðið á undanförnum árum beitt sér fyrir aukinni umræðu um lýðræði á norðurslóðum, m.a. með málstofum á Hringborði norðurslóða (e. Arctic Circle) og með því að tileinka þemaráðstefnu ráðsins 30.–31. janúar 2016 málefninu. Áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu mundi veita Vestnorræna ráðinu aðgang að fundum Norðurskautsráðsins auk þátttöku í einstökum vinnuhópum, svo sem vinnuhóp um sjálfbæra þróun svæðisins. Áheyrnaraðildin yrði liður í að styrkja samstarf landanna um málefni norðurslóða og treysta stöðu Vestnorræna ráðsins gagnvart alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins.