Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1484  —  31. mál.
Nr. 43/145.


Þingsályktun

um sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að gera ráðstafanir til að hægt verði að bjóða þeim sjúklingum sem þurfa og sjálfir velja langtímanotkun á öndunarvél sólarhringsmeðferð á heimili þeirra. Leitað verði úrræða til að bæta aðbúnað og tryggja fullnægjandi aðstoð við daglegt líf sjúklinga sem þurfa víðtæka öndunaraðstoð. Í því skyni verði gripið til eftirfarandi aðgerða:
     1.      Sköpuð verði umgjörð, með sérþjálfuðu starfsfólki, um aðstoð í daglegu lífi á heimili sjúklinga.
     2.      Séð verði til þess að sjúklingum standi til boða samskiptatæki og þjálfun í notkun þeirra án þess að þeir sem þurfa aðstoð við tjáningu þurfi að bíða eftir tækjum eða þjálfun.
     3.      Tryggð verði aðstaða til hvíldarinnlagna sem hafi á að skipa sérþjálfuðu starfsfólki eða komið á fót sérstöku heimili til hvíldarinnlagna reynist það vænlegri kostur.
    Heilbrigðisráðherra skipi undirbúningshóp sem í sitji fulltrúi ráðherra, sem veiti hópnum forustu, fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðherra, fulltrúi Landspítala, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúi samtaka sjúklinga. Hópurinn móti tillögur um skipulag heimaþjónustu, hvernig best sé að tryggja möguleika til hvíldarinnlagna, samskiptatæki og þjálfun í notkun þeirra og hvernig best megi tryggja með samstarfssamningum eða öðrum hætti hnökralausa aðkomu allra þeirra sem koma að þjónustu við sjúklinga sem þurfa víðtæka öndunaraðstoð. Starfshópurinn skili tillögum fyrir 1. febrúar 2017.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.