Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 427  —  66. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem vísað var til hennar 26. janúar sl. og hefur kallað á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins til þess að gera grein fyrir stefnunni og einnig fengið til sín fulltrúa flestra umsagnaraðila. Þeir komu frá Ríkisendurskoðun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands. Fjármálaráð hefur komið á fund nefndarinnar og skilað ítarlegri álitsgerð um stefnuna. Einnig komu fulltrúar Hagstofu Íslands á fund nefndarinnar í kjölfar þess að Hagstofan endurskoðaði þjóðhagspá sína 17. febrúar sl.
    Þingsályktunartillagan byggist á 4. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Þar kemur fram að ríkisstjórn skuli, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu sem ráðherra leggi fram á Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar. Lögin fjalla ítarlega um innihald og grundvöll fjármálastefnunnar. Hún skal byggð á ákveðnum grunngildum um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika og festu í opinberum fjármálum. Hún tekur til fjármála hins opinbera í heild, þ.e. ríkisins og sveitarfélaga. Hún skal ná til umfangs, afkomu og þróunar eigna, skulda og langtímaskuldbindinga hins opinberra í heild og til ekki styttri tíma en fimm ára í senn.
    Stefnan sjálf er lögð fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) og eru öll tölugildi stefnunnar sett fram á því formi. Birt er heildarafkoma og skuldir í heild auk sundurliðunar fyrir ríkissjóð og sveitarfélög og samtölur fyrir opinber fyrirtæki. Lykilþættir stefnunnar eru:
     1.      Að afgangur verði á heildarjöfnuði hins opinbera tímabilið 2017–2022 sem verði a.m.k. 1% af VLF árið 2017, a.m.k. 1,6% af VLF árin 2018 og 2019 en lækki um 0,1% af VLF á hverju ári þar á eftir. Afganginum verði varið til lækkunar skulda.
     2.      Að heildarskuldir hins opinbera verði komnar undir 30% af VLF í árslok 2019 og verði ekki hærri en 26% af VLF í árslok 2022.
     3.      Að öllu óreglulegu og einskiptis fjárstreymi í ríkissjóð, svo sem vegna eignasölu, verði varið til að hraða enn frekar niðurgreiðslu skulda eða til lækkunar á ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum í því skyni að treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði.
     4.      Árleg heildarútgjöld hins opinbera verði ekki umfram 41,5% af VLF á tímabilinu.
    Lykilþættina var líka að finna í fyrri fjármálastefnu sem samþykkt var í ágúst 2016 en nú er gerð krafa um heldur jákvæðari heildarafkomu ríkis og sveitarfélaga. Nýmæli er að kveðið er á um þak á útgjöld ríkissjóðs og það er í samræmi við athugasemdir meiri hluta þeirrar fjárlaganefndar sem fjallaði um fjármálastefnu og fjármálaáætlun í fyrra.

Áframhaldandi hagvöxtur er meginforsenda stefnunnar.
    Meiri hlutinn telur ástæðu til að vekja sérstaka athygli á nokkrum forsendum stefnunnar og þar munar mestu að gert er ráð fyrir áframhaldandi stöðugum hagvexti út spátímabilið samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í nóvember sl. Í spánni var hagvöxtur áætlaður 4,4% á þessu ári og eftir það á bilinu 2,6–3% út spátímann. Gangi hagspáin eftir verður yfirstandandi hagvaxtarskeið a.m.k. áratugur. Innlend eftirspurn, atvinnuvegafjárfestingar og vöxtur ferðaþjónustu eru aðaldrifkraftar vaxtarins um þessar mundir.
    Spáin var endurmetin um miðjan febrúar sl. og þá var því spáð að hagvöxtur ársins 2016 yrði mun meiri en í nóvemberspánni. Óverulegar breytingar voru hins vegar fyrir tímabilið 2017–2022 og hefur meiri hlutinn því ekki tekið tillit til uppfærðrar þjóðhagspár í afgreiðslu sinni.
    Nær allir aðrir mælikvarðar gefa jákvæða mynd af efnahagshorfum. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki, viðskiptakjör hafa batnað og verðbólga er innan viðmiðana Seðlabanka Íslands. Kaupmáttur hefur einnig aukist meira en dæmi eru um á sl. tveimur árum. Á sama tíma hefur fjárfesting aukist en reyndar var hún í algeru lágmarki á fyrstu árunum eftir bankahrunið. Ljóst er að mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf er til staðar, bæði hjá hinu opinbera og hjá fyrirtækjunum.

Nokkur efnahagsleg úrlausnarefni og ábendingar meiri hlutans.
    Þegar horft er til helstu úrlausnarefna á sviði hagstjórnar blasir við að vöxtur ferðaþjónustunnar, sem er orðin stærsta útflutningsgrein landsins með um 40% af útflutningstekjum í fyrra, hefur verið gríðarlega hraður og kröftugur. Það hefur óhjákvæmilega í för með sér ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar í samkeppni um vinnuafl og fjármagn. Það hefur einnig leitt til gengisstyrkingar krónunnar í þeim mæli að haldi hún áfram mun það leiða til frekari veikingar annarra útflutningsgreina og að lokum til halla á viðskiptajöfnuði. Einnig er hætta á að frekari styrking gengisins hafi neikvæð áhrif á komu ferðamanna til landsins á næstu árum. Við svo búið mundi einnig skapast hætta á efnahagssamdrætti og þar með væru forsendur fjármálastefnunnar brostnar.
    Allar stærðir stefnunnar er settar fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en meiri hlutinn vekur athygli á því að þótt slík punktstaða leiði til gagnsæis getur það líka gengið gegn grunngildum stefnunnar að niðurnjörva alla liði hennar. Stefnumörkunin getur þannig orðið of þröng en hún má ekki heldur verða of víð til þess að hún verði marklaus. Hugsanlegt er að setja markmiðin fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tilteknu bili og samhliða því eru sviðsmyndargreiningar nauðsynlegar til þess að meta ríkisfjármálaáhættu. Einn umsagnaraðili bendir t.d. á að ef spá um hagvöxt verður einu prósentustigi lægri en ætlað er leiðir það til hallarekstrar strax árið 2019 og áfram út spátímann.
    Nokkrir umsagnaraðilar telja að ónógt aðhald felist í stefnunni og benda á nauðsyn þess að stefna að meiri afgangi til þess að viðhalda aðhaldsstigi og tryggja að ríkisfjármálastefnan vinni ekki gegn peningamálastefnu Seðlabanka Íslands. Bent er á að jákvæð afkoma grundvallist nær alfarið á þeirri forsendu að hagvöxtur haldi áfram út spátímabilið og það væri lengsta samfellda hagvaxtarskeið í nútímahagsögu landsins.
    Hugtakið sjálfvirk sveiflujöfnun vísar til þess að þegar litið er til hagsveiflunnar eru innbyggðir þættir í tekju- og gjaldaliðum hins opinbera sem auka tekjur á góðæristímum og draga úr útgjöldum. Skattkerfið er þannig að hlutfall skatttekna eykst þegar vel árar og velferðarkerfið er með tengingar sem draga úr útgjöldum á sama tíma. Hvað aðhald snertir skiptir miklu hver afkoman er þegar hvorki þensla né samdráttur er í efnahagslífinu.
    Aðalþungi síðustu fjármálastefnu var að láta sjálfvirka sveiflujafnara vinna sitt verk, halda gjaldahlið stöðugri á meðan aukin efnahagsumsvif ynnu sitt verk og nota afgang til greiðslu skulda. Stefnan nú sýnist óbreytt en bent er á að heldur er slakað á aðhaldi árið 2017 miðað við árið 2016.
    Afkomumarkmið eitt og sér er ekki fullnægjandi mælikvarði á aðhaldsstig opinberra fjármála, jafnvel þó að einnig sé sett þak á heildargjöldin. Í því skyni að auðvelda mat á aðhaldsstiginu er nauðsynlegt að fyrir liggi sundurliðun frumjafnaðar, þ.e. gjöld og tekjur fyrir utan vaxtagjöld og vaxtatekjur.
    Meiri hlutinn telur að við framsetningu fjármálastefnu framtíðarinnar beri að huga að því að áætla þar frumjöfnuð (þ.e. afkomu án vaxtatekna og gjalda) í ríkisfjármálum en ekki eingöngu heildarjöfnuð eins og nú er gert. Þróun frumjafnaðar er mjög mikilvæg vísbending um aðhaldsstig opinberra fjármála. Staða hagsveiflunnar hefur ráðandi áhrif á afkomu hins opinbera. Þegar vel gengur í þjóðarbúskapnum eru skatttekjur tiltölulega meiri en ella og ýmis útgjöld, svo sem vegna atvinnuleysis, minni. Við mat á aðhaldsstigi þarf því að horfa frekar til frumjafnaðar og jafnvel að leiðrétta hann að einhverju leyti fyrir áhrifum hagsveiflunnar.
    Meiri hlutinn bendir á að í stefnunni felst að aðhald er mest árin 2018 og 2019 en mun minna seinni árin þar sem stefnt er að lægri afgangi sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu auk þess sem vaxtagjöldin lækka og því sé svigrúm til að auka rekstrarútgjöld og draga úr frumjöfnuði sem því nemur. Vaxtagjöld eru áætluð 70,2 milljarðar kr. í ár en í lok spátímabilsins eru þau áætluð rúmlega 50 milljarðar kr. Því eru vísbendingar um að slakað verði á aðhaldi á seinni hluta tímabilsins.
    Engu síður telur meiri hlutinn að afkomumarkmiðin eins og þau eru sett fram í ályktuninni séu ágæt málamiðlun milli þeirra þátta sem takast þarf á við á næstu misserum. Þau séu sett fram sem gólf, þ.e. afkoma skuli vera a.m.k. tiltekið hlutfall en megi vera hagstæðari. Vafasamt sé að stíga lengra og gera stífari aðhaldskröfur.
    Samhliða bendir meiri hlutinn á nauðsyn þess að ekki sé vikið frá grunngildum stefnunnar, eins og þau eru sett fram í lögum um opinber fjármál, sem taka til sjálfbærni, varfærni, stöðugleika og festu. Sem dæmi má nefna að ef einskiptistekjum, svo sem vegna stöðugleikaframlaga eða meiri háttar eignasölu, væri varið til varanlegra rekstrarútgjalda, þá væri hvorki gætt að sjálfbærni eða stöðugleika í rekstri.

Afkoma sveitarfélaga.
    Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á að sveitarfélögin vinni innan fjármálareglna sem gilda um þau samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Skuldahlutföll sveitarfélaganna hafa lækkað verulega á síðustu árum. Áfram er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu þeirra. Á móti vegur að sveitarfélögin áætla að verja um 29 milljörðum kr. til fjárfestinga umfram tekjur af gatnagerðargjöldum sem er mun hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjármálastefnunni fyrir ári. Á þjóðhagsreikningagrunni þýðir það að heildarafkoma sveitarfélaganna verður neikvæð um 8 milljarða kr. eða um 0,3% af vergri landsframleiðslu á yfirstandandi ári og því næsta. Sú niðurstaða væri að óbreyttu ekki í samræmi við tillöguna þar sem gert er ráð fyrir jafnvægi í heildarafkomu sveitarfélaga öll árin. Þess ber þó að geta að mikil óvissa fylgir þessum áætlunum, m.a. vegna þess að tilboð verktaka eru oftar en ekki umfram kostnaðaráætlanir auk þess sem skortur er á vinnuafli til frestunar framkvæmda í einhverjum tilfellum.
    Meiri hlutinn bendir á að ósamræmd framsetning á uppgjöri getur kallað fram misræmi á milli fjármálastefnu og uppgjörs sveitarfélaga. Markmið um 0,1% afgang af vergri landsframleiðslu er varfærið og eðlilegt í ljósi þess að í stefnunni í fyrra var ekki gerð krafa um afgang. Það er óumdeilt að hlutverk sveitarfélaga til að ná tökum á opinberum fjármálum er afar mikilvægt og því æskilegt að samhliða ábyrgri markmiðssetningu um afgang hjá ríkinu verði samhliða unnið að því sama hjá sveitarfélögunum. Meiri hlutinn beinir því til samstarfsvettvangs sveitarfélaga og ríkis að samræma eins og kostur er uppgjör og framsetningu fjárhagsupplýsinga.
    Eftir er að ákvarða reikningshaldslega meðferð skuldaviðurkenninga gagnvart lífeyrissjóðnum Brú sem gefnar verða út af sveitarfélögum í tengslum við breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Skuldaregla laga um opinber fjármál byggist á heildarskuldum að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum. Verði niðurstaðan sú að rétt sé að telja skuldaviðurkenningar gagnvart Brú til skulda í skilningi skuldareglunnar þarf að endurskoða skuldahlutfall sveitarfélaga sem mundi þá hækka um 1,6% af vergri landsframleiðslu árið 2017.
    Í 11. gr. laga um opinber fjármál er tiltekið að gera skuli samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga sem nær til markmiða um afkomu og efnahag sveitarfélaga í tengslum við gerð fjármálaáætlunar. Það liggur ekki fyrir enn sem komið er, en verður væntanlega frágengið á næstu dögum.
    Engu að síður leggur meiri hlutinn til að stefnan sé samþykkt óbreytt, enda er brýnt að afgreiða þingsályktun um fjármálastefnu áður en kemur að umfjöllun um fjármálaáætlun fyrir sama tímabil til þess að umræður um ramma einstakra málefnasviða hafi ekki áhrif á heildarfjármál hins opinbera.

Fjárfesting hins opinbera.
    Til þess að stuðla ekki að enn meiri þenslu og styðja við peningamálastefnu Seðlabanka Íslands þarf ríkið að forgangsraða fjárfestingum sínum með þeim hætti að ekki verði hætta á ofþenslu á sama tíma. Til þess eru margar leiðir. Umræða um fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu hefur leitt í ljós mikla þörf fyrir innviðauppbyggingu. Slík uppbygging er líka nauðsynleg til þess að ná fram stærðarhagkvæmni til lengri tíma. Þá er og mikilvægt að stýra framkvæmdum hins opinbera á þá staði sem síður njóta góðs af uppgangi efnahagslífsins. Það er sérstök áskorun við stjórn efnahagsmála hvað íbúar landsins eru fáir og dreifast ójafnt. Stórir landshlutar hafa ekki fundið fyrir þenslu eða miklum efnahagslegum vexti. Frekar hefur verið um samdrátt eða stöðnun að ræða. Umfangsmestu opinberu framkvæmdir næstu ára verða á suðvesturhorni landsins, þ.e. bygging nýs Landspítala og viðamikil stækkun á allri aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Landsvæðaskiptingu þarf að hafa í huga við forgangsröðun fjárfestingarverkefna hins opinbera. Gæta þarf sérstaklega að því að stýra opinberum framkvæmdum í heild þar sem framkvæmdir á vegum opinberra hlutafélaga vega mjög þungt, svo sem á vegum Isavia og Landsnets. Fjárfesting í samgöngukerfinu hefur verið mikið til umfjöllunar og hún er nauðsynleg til þess að efla og bæta samkeppnishæfni einstakra byggða og landsins alls.
    Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að stefnt sé að því að greina áhrif mismunandi fjárfestinga og framkvæmda í einstökum greinum sem og þensluáhrif á landsbyggðina annars vegar og höfuðborgarsvæðið hins vegar.
    Meiri hlutinn leggur einnig áherslu á að gerð verði áætlun til a.m.k. fimm ára um fjárfestingu í innviðum samfélagsins, jafnt hagrænum sem félagslegum. Fjárfesting í innviðum er forsenda þess að hægt sé að standa undir kröfum um góð lífsskilyrði hérlendis sem standist samanburð við það besta sem þekkist í heiminum. Meiri hlutinn telur skynsamlegt að kanna til hlítar möguleika á að fjármagna hagræna innviði í samstarfi við stofnanafjárfesta, svo sem lífeyrissjóði. Mikilvægt er að rammi fjármálastefnunnar komi ekki í veg fyrir nauðsynlega og eðlilega fjárfestingu í innviðum samfélagsins.

Langtímahorfur – lífeyrisskuldbindingar.
    Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er tæpt á því að horfa þurfi til þróunar lýðfræðilegra þátta á næstu áratugum og áhrifa á afkomu, fjárhagsstöðu og skuldbindingar opinberra aðila. Tekið er fram að hægja muni á mannfjölgun og aldurssamsetning breytast þegar eldra fólki fjölgar hlutfallslega meira en fólki á vinnumarkaði.
    Einnig kemur fram að lífeyrisskuldbindingar hins opinbera muni íþyngja ríkisfjármálunum á komandi árum. Áætlað er að ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkis og sveitarfélaga vegna bakábyrgðar nemi samtals um 650 milljörðum kr. eða 27% af vergri landsframleiðslu í árslok 2016.
    Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að stjórnvöld geri sem allra fyrst áætlun til lengri tíma um opinber fjármál, m.a. vegna spár um mannfjöldaþróun, og geri ráð fyrir svigrúmi til að mæta áhrifum af þeirri þróun í áætlanagerðinni. Einnig er nauðsynlegt að auka innborganir vegna ófjármagnaðra skuldbindinga B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til þess að draga úr því höggi sem ríkissjóður verður fyrir eftir nokkur ár þegar sjóður deildarinnar tæmist og ríkissjóður þarf þá að fjármagna um 13 milljarða kr. árlega til viðbótar við hefðbundnar lífeyrishækkanir.

Vaxtagjöld ríkissjóðs.
    Nefndin hefur kynnt sér sérstaklega samsetningu og þróun vaxtagjalda ríkissjóðs. Hún hefur einnig átt fund með fulltrúum lífeyrissjóða þar sem rætt var um hugsanleg áhrif þeirra á vaxtamyndun hérlendis.
    Skuldir ríkissjóðs hafa farið lækkandi síðustu ár. Þær náðu hámarki árið 2012 og námu þá 1.501 milljarði kr. en hafa lækkað um 370 milljarða kr. á fjórum árum. Mældar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru skuldirnar 86% í árslok 2011 en komnar niður í 47,5% í lok sl. árs. Ástæður lækkunarinnar liggja í bættri afkomu ríkissjóðs auk óreglulegra tekna sem hafa nýst til lækkunar skulda. Undir lok árs 2015 voru gerðir samningar við slitabú föllnu bankanna um greiðslu stöðugleikaframlaga í tengslum við undanþágur þeirra frá gjaldeyrishöftunum. Framlögin námu alls 384,2 milljörðum kr. og þar af vega þyngst 184,7 milljarðar kr. í formi hlutafjár í Íslandsbanka sem þar með er alfarið í ríkiseigu.
    Innlendar skuldir eru að stærstum hluta markaðshæf verðbréf eins og ríkisvíxlar, verðtryggð og óverðtryggð ríkisbréf og sérstakur markflokkur skuldabréfa (RIKH 18) sem gefinn var út til að fjármagna framlög og víkjandi lán til fjármálastofnana. Erlendar skuldir samanstanda af tveimur útgáfum, annarri í bandaríkjadölum frá árinu 2012 til tíu ára að fjárhæð 1 milljarður dala og hin frá árinu 2014 til sex ára að fjárhæð 750 millj. evra.
    Endurgreiðslubyrði lána er þung á næstu árum eða til ársins 2022. Þar munar mest um RIKH 18 sem er á gjalddaga 2018. Árin 2020 og 2022 eru erlendu útgáfurnar á gjalddaga. Brýnt er að greiða niður eins og kostur er hluta lánanna og draga þannig úr stærð útistandandi flokka áður en til gjalddaga kemur.
    Stefna í lánamálum miðast við að viðhalda virkum skuldabréfamarkaði þannig að markmiðið er ekki að gera ríkissjóð skuldlausan. Þvert á móti er ætlunin að útistandandi skuldir geti verið á bilinu 350–500 milljarðar kr. í óverðtryggðum ríkisbréfum á hverjum tíma. Einnig er stefnan að halda úti einni eða tveimur viðmiðunum í erlendum lánum á hverjum tíma. Þannig er stefnan að greiða ekki niður allar skuldir ríkissjóðs heldur að skuldsetning ríkisins verði á bilinu 450–600 milljarðar kr. sem er 17–23% af vergri landsframleiðslu miðað við áætlun um þróun landsframleiðslunnar á næstu árum.
    Meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á því að þrátt fyrir að skuldsetning ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sé að lækka og sé minni en hjá mörgum OECD-ríkjum eru vaxtagjöldin mjög há í samanburði við önnur ríki. Ein aðalástæða þess er samsetning skulda en 82% af heildarskuldum eru innlendar skuldir en aðeins 18% eru erlendar. Vaxtastig á Íslandi er mun hærra en víðast hvar erlendis og það skýrir mun á vaxtakostnaði og ekki er einfalt mál að breyta því. Mikill meiri hluti skulda ríkissjóðs ber fasta vexti eða um 80%. Nafnvextir á markaðsútgáfum taka mið af lánstíma og markaðsaðstæðum hverju sinni þegar þær eru fyrst gefnar út. Vaxtastigið ræðst að miklu leyti af framboði og eftirspurn á hverjum tíma. Það að vera með lán á breytilegum vöxtum hefur bæði kosti og galla. Ríkissjóður hefur ekki sett sér nein föst viðmið í þessu sambandi. Mikill meiri hluti erlendra lána er líka á föstum vöxtum og við stýringu á vaxtaáhættu ríkissjóðs á næstu misserum þarf að taka tillit til þessarar stöðu.
    Vextir óverðtryggðra ríkisbréfa eru á bilinu 5–8,75%. Vextir verðtryggðra bréfa eru á bilinu 3–3,8%. Vextir á erlendu útgáfunni í bandaríkjadölum eru 5,875% og vextir á evruláninu eru 2,5%. Bæði erlendu lánin eru með föstum vöxtum og óuppgreiðanleg. Því mundi fylgja mikill kostnaður ef ríkið vildi kaupa bréfin til baka. Vaxtastig erlendis hefur verið lántakendum sérlega hagstætt síðustu misseri og vaxtagjöldin ættu að fara lækkandi á næstu árum, fyrst og fremst vegna niðurgreiðslu skulda, en bætt lánshæfismat ætti einnig að leiða til betri vaxtakjara.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að haldið verði áfram á þeirri braut að lækka skuldir ríkissjóðs jafnframt því sem vaxtagjöldin verða að lækka verulega. Vaxtagjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru komin niður í 1,6% árið 2007 en fóru hæst í 5,3% árið 2009. Í lok tímabils fjármálaáætlunarinnar árið 2022 er gert ráð fyrir að vaxtagjöldin verði um 50 milljarðar kr. og komin aftur niður í 1,6% af vergri landsframleiðslu.

Sala á hlut ríkisins í viðskiptabönkunum.
    Fjármálastefnan tekur ekki til þróunar eigna eins og þó er áskilið. Unnið er að því að búa til stofnefnahagsreikning í samræmi við nýjar reikningsskilareglur sem áskildar eru í lögum um opinber fjármál. Nú þegar liggja þó fyrir upplýsingar fyrir um marga eignaflokka ríkissjóðs, svo sem eignarhluti í fyrirtækjum og hægt hefði verið að birta upplýsingar um þær í stefnunni. Einnig liggja fyrir upplýsingar um eignir sveitarfélaga.
    Einn af veigamestu óvissuliðunum á tímabilinu sem stefnan nær til tengist sölu eigna ríkissjóðs, einkum hlutdeildar þeirra í viðskiptabönkunum. Miðað við bókfært verð nemur hlutur ríkissjóðs í stóru viðskiptabönkunum um 450 milljörðum kr. Ríkið á Íslandsbanka og Landsbankann nánast að fullu en um 13% hlutafjár í Arion banka. Ljóst er að niðurgreiðsla á skuldum ríkisins ræðst að miklu leyti af því hvernig til tekst með sölu þessara eigna.
    Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að ítarleg umræða um framtíðarskipulag og eignarhald viðskiptabankanna fari fram á Alþingi. Svara þarf spurningum eins og hvernig bankarnir verða best undir það búnir að fara í söluferli. Endurskoða þarf efnahagsreikninga þeirra og starfsemi áður en að sölu kemur. Fyrir liggur að eiginfjárstaða bankanna er mjög sterk og eru þeir í reynd offjármagnaðir. Nauðsynlegt er að taka ákvarðanir um hvort ekki sé rétt og skynsamlegt að bankarnir greiði sérstakt framlag til lækkunar á eigin fé til ríkissjóðs áður en til sölu þeirra kemur.
    Vanda verður til undirbúnings sölu á eignarhlutum ríkisins í viðskiptabönkunum og skapa þannig traust á söluferlinu. Meiri hlutinn er ekki með beinar tillögur í þeim efnum en bendir á möguleika á að leita til erlendra aðila um ráðgjöf og umsýslu vegna sölu. Það gæti aukið traust á söluferlinu sjálfu og skapað þann frið um það sem nauðsynlegur er. Fyrir þann tíma þarf að liggja fyrir hvernig ríkisvaldið telur að eignarhaldi bankanna verði best fyrir komið til langs tíma. Hugsanlega þarf að marka ramma um hámarkshlut einstakra hluthafa og takmarka krosseignatengsl eftir því sem frekast er kostur. Koma þarf í veg fyrir óeðlilega og óæskilega hagsmunaárekstra og tengsl. Æskilegt er að leita eftir kjölfestufjárfestum meðal erlendra fjármálafyrirtækja.
    Meiri hlutinn beinir því til efnahags- og viðskiptanefndar að leiða umræður á Alþingi um undirbúning á sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum og framtíðarskipulag fjármálamarkaðar. Markmiðið er að salan fari fram að undangenginni ítarlegri umræðu og opnu og gegnsæju söluferli.

Tölugrunnur stefnunnar.
    Eins og fram hefur komið er stefnan einvörðungu sett fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en nefndin hefur tekið saman fjárhæðir sem búa að baki stefnunni miðað við nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar og eru þær birtar í eftirfarandi töflu. Þar kemur m.a. fram að árlega er heildarafkoma A-hluta hins opinbera í heild áætluð á bilinu 43,8–46,3 milljarðar kr. Langmest af því kemur fram hjá ríkissjóði en afkoma sveitarfélaganna er nær jafnvægi. Skuldir hins opinbera í heild sinni að fyrirtækjum meðtöldum eru áætlaðar 1.519 milljarðar kr. árið 2017 en lækka í 1.453 milljarða kr. árið 2022 eða um 66 milljarða kr.

Útreikningur fjárhæða miðað við hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Í millj. kr. 2017 2018 2019 2020 2021 2022
Hið opinbera, A-hluti
Heildarafkoma 25.750 43.760 46.288 45.780 44.968 43.927
– þ.a. ríkissjóður
25.750 41.025 40.502 39.676 38.544 37.169
– þ.a. sveitarfélög
0 2.735 5.786 6.104 6.424 6.758
Skuldir 952.750 929.900 867.900 854.560 867.240 878.540
– þ.a. ríkissjóður
798.250 765.800 694.320 701.960 706.640 709.590
– þ.a. sveitarfélög
151.925 158.630 159.115 158.704 160.600 168.950
Opinberir aðilar í heild
Heildarafkoma 12.875 43.760 60.753 76.300 77.088 77.717
– þ.a. hið opinbera
25.750 43.760 46.288 45.780 44.968 43.927
– þ.a. fyrirtæki hins opinbera
-12.875 0 14.465 30.520 32.120 33.790
Skuldir 1.519.250 1.504.250 1.446.500 1.434.440 1.445.400 1.452.970
– þ.a. hið opinbera
952.750 929.900 867.900 854.560 867.240 878.540
– þ.a. fyrirtæki hins opinbera
566.500 574.350 578.600 579.880 578.160 574.430

    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 21. mars 2017.

Haraldur Benediktsson,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Theodóra S. Þorsteinsdóttir.
Óli Björn Kárason. Njáll Trausti Friðbertsson.