Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 652  —  264. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti, Veru Sveinbjörnsdóttur frá innanríkisráðuneyti og Hrafnkel V. Gíslason og Guðmann B. Birgisson frá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016, frá 29. apríl 2016, um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120 frá 25. nóvember 2015 um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð (ESB) nr. 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan Sambandsins, og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 frá 16. desember 2015 um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 29. október 2016. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Framkvæmdarreglugerð (ESB) 2015/2352 kveður á um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala, svokallaðra reikigjalda, í farsíma innan Evrópska efnahagssvæðisins. Gjaldið er innheimt af þeim sem hringir fyrir milligöngu þess fjarskiptafyrirtækis sem hann á viðskipti við í sínu heimalandi. Reglugerðin felur í sér að í júní 2017 muni reikigjöldin falla niður að fullu og gildir þá gjaldskrá þess ríkis sem símtal er hafið í án nokkurra viðbótargjalda.
    Reglugerð (ESB) 2015/2120 fjallar annars vegar um nethlutleysi sem ætlað er að vernda hið opna net og hins vegar alþjóðlegt reiki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðin gerir ráð fyrir að fjarskiptanotendur muni frá júní 2017 greiða samkvæmt gjaldskrá þess ríkis sem símtal er hafið í án nokkurra viðbótargjalda, að því gefnu að um sanngjarna notkun sé að ræða, en Fjarskiptaeftirlitsstofnun Evrópu hefur verið falið að móta tillögur um hvað teljist sanngjörn notkun. Sá þáttur reglugerðarinnar sem varðar alþjóðlegt reiki kallar ekki á lagabreytingar og hefur nú þegar verið innleiddur hér á landi með reglugerð nr. 558/2016 um breytingu á reglugerð nr. 1174/2012 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerð (ESB) 2015/2120 felur í sér hertar reglur um svokallað tæknilegt nethlutleysi, sem m.a. er sprottið af áhyggjum af því að forgangsþjónusta á netinu sem rukkað er fyrir á yfirgjaldsverði geti orðið til þess að rýra gæði hins almenna og opna nets auk þess að valda því að neytendur þurfi almennt að greiða hærra verð til að hafa afnot af nothæfu neti.
    Hugmyndin um nethlutleysi hefur í gildandi Evrópureglum birst í þeirri meginreglu að aðildarríki skuli stuðla að því að notendur geti sótt efni og þjónustu á netinu að eigin vali og að fjarskiptafyrirtæki skuli upplýsa viðskiptavini sína ef gerðar eru ráðstafanir til netmismununar. Reglugerð (ESB) 2015/2120 skyldar fjarskiptafyrirtæki til að virða tæknilegt hlutleysi og bannar mismunun, nema í skýrt afmörkuðum tilfellum. Þá verður venjubundin umferðarstýring, sem almennt hefur verið notast við til að stjórna álagi á netinu, ekki sjálfgefin lengur, svo sem takmarkanir á gagnaflutningshraða og gagnamagni. Auk þess kveður gerðin á um að einungis skuli beita umferðarstýringu í hófi og í takmarkaðan tíma.
Reglugerð (ESB) 2015/2120 er ætlað að bæta hag neytenda og stuðla að aukinni vernd þeirra. Reglugerðinni er ætlað að viðhalda hinu almenna, opna neti með auknum kröfum á hendur fjarskiptafyrirtækjum og minnka kostnað neytenda með afnámi sérstakra reikigjalda. Þá er gert ráð fyrir að reglum um nethlutleysi sé framfylgt með eftirliti og viðurlögum séu þær brotnar.
    Innleiðing reglugerðar (ESB) 2015/2120 kallar á breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Gert er ráð fyrir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra muni leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögunum á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á reglum um nethlutleysi.
    Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 og sá hluti reglugerðar (ESB) 2015/2120 er varðar reiki hafa nú þegar verið innleidd í landsrétt með reglugerð nr. 558/2016 um breytingu á reglugerð nr. 1174/2012 um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 24. apríl 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Smári McCarthy. Steinunn Þóra Árnadóttir. Teitur Björn Einarsson.
Vilhjálmur Bjarnason.