Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 306  —  219. mál.
Flutningsmaður.




Tillaga til þingsályktunar


um gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.


Flm.: Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri kostnaðar- og tímaáætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls sem verði aðgengileg til lestrar á nettengdum búnaði og kanni möguleika þess að ná samningum við höfundaréttarhafa um slík afnot stafrænnar endurgerðar ritverka. Starfshópurinn geri grein fyrir kostnaði og möguleikum á að ljúka stafrænni endurgerð íslensks prentmáls á a) 5 árum, b) 10 árum og c) 15 árum. Starfshópurinn ljúki störfum í tæka tíð til þess að ráðherra verði unnt að flytja Alþingi skýrslu um málið og kynna niðurstöður hans fyrir 1. desember 2018.

Greinargerð.

    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að stuðla að því að gerð verði rækileg áætlun um stafvæðingu íslensks prentmáls, einkum bóka, sem hefur náð þeim aldri að það er ekki lengur söluvara á markaði og gerð grein fyrir því hvernig hin stafvæddu rit yrðu gerð aðgengileg fyrir almenning. Með stafvæðingunni yrði stafræn tækni nýtt til að stórauka aðgengi almennings að ritmáli á íslensku og stutt væri við markmið um að efla stöðu íslensks máls í stafrænum heimi.
    Stafræn endurgerð hugverka er mikilvægur þáttur stafvæðingarinnar sem fer nú fram með miklum hraða á mörgum sviðum samfélagsins. Hin stafræna bylting veldur gagngerum breytingum á varðveislu og miðlun hvers konar menningarefnis, svo miklum að jafna má áhrifum hennar til þess þegar prenttækni þróaðist svo að tekið var að prenta bækur í Evrópu á síðmiðöldum.
    Mikilvægi hinnar stafrænu tækni nýtur hvarvetna viðurkenningar og stjórnvöld leggja víðast hvar áherslu á að nýta hana og gera það sem í þeirra valdi stendur til að innleiðing stafrænnar tækni gangi greitt fyrir sig. Þannig hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins markað stefnu um stafrænan innri markað, Digital single market: Bringing down barriers to unlock online opportunities, 1 sem ætlað er að greiða fyrir ýmiss konar starfsemi á netinu í aðildarríkjum sambandsins, þar á meðal á menningarsviðinu, en hvað það varðar hefur framkvæmdastjórnin lagt fram sérstök tilmæli um það hvernig staðið skuli að því að yfirfæra efni á varðveisluhæft stafrænt form og miðla því á netinu. 2 Samstarfsvettvangur evrópskra safna, vefurinn Europeana Collections, sem er að hluta til fjármagnaður af Evrópusambandinu, er dæmi um það hvernig staðið er að stafrænni miðlun menningararfs Evrópulandanna. Íslenskar menningarstofnanir eiga aðild að Europeana Collections og hefur starfsfólk þeirra öðlast reynslu og þekkingu af stafrænni endurgerð, skráningu, varðveislu og hinu stafræna menningarumhverfi í heild í gegnum þetta samstarf.
    Á Norðurlöndum hefur verið mörkuð stefna um stafræna endurgerð menningararfsins sem söfn og aðrar menningarstofnanir starfa eftir. Ekki er á neinn hallað þótt fullyrt sé að Norðmenn hafi náð mestum árangri Norðurlandaþjóða í stafrænni endurgerð prentaðra bóka. Árið 2009 hófst þar í landi tilraunaverkefni á vegum norska þjóðarbókasafnsins, Nasjonalbiblioteket, um stafræna endurgerð prentaðra bóka á norsku sem ber heitið Bokhylla.no eða Bókahillan. Verkefnið þróaðist fljótt af tilraunastigi og hefur leitt til þess að nú er lokið stafrænni endurgerð allra bóka sem gefnar voru út í Noregi fyrir lok ársins 2000 að þýðingum meðtöldum, en að um 4.000 ritum frátöldum, sem rétthafar kusu að halda utan verkefnisins og eru aðeins um 1,5% alls ritakostsins. Þegar endurgerðarverkefninu lauk í upphafi þessa árs höfðu um 270.000 rit fengið stafrænan búning og voru orðin aðgengileg netverjum með lestæki sem bera norska IP-tölu.
    Ein af meginforsendum þess að unnt var að gera norsku þjóðarbókahilluna svo veglega sem raun er á var að víðtækt samkomulag tókst við samtök höfundaréttarhafa, Kopinor, um heimild til að birta ritin í stafrænni endurgerð á vef norska þjóðarbókasafnsins og hefur meginþorri rétthafa kosið að leyfa slíka birtingu.
    Í menningarstefnu íslenskra stjórnvalda, sem samþykkt var árið 2013, er stafrænni menningu haldið sérstaklega fram og markmið sett um að „menningararfur þjóðarinnar verði gerður aðgengilegur á sem flestum sviðum á stafrænu formi“. 3 Tillögur samráðsnefndar um bókaútgáfu sem var að störfum á árinu 2013 bera þess vott að stafræn endurgerð prentaðs máls og almennur endurgjaldslaus aðgangur að rafritunum sé bókaútgefendum og höfundum mjög að skapi þar sem lagt er til í skýrslunni að „öllum almenningi verði án endurgjalds veittur aðgangur að prentarfi Íslendinga, sem ekki er á markaði, í gegnum vefgáttina baekur.is. Þetta verði gert mögulegt með sérstökum samningi við höfundarréttarhafa á svipaðan hátt og gert hefur verið í Noregi“. 4
    Nokkuð hefur enda verið unnið að stafrænni endurgerð menningarefnis hér á landi, þar á meðal prentmáls, og er afrakstur þeirrar starfsemi að finna á vefsvæðum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, baekur.is og timarit.is. Nýleg úttekt á varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi hjá söfnum og menningarstofnunum hér á landi leiddi í ljós að um 70% bóka sem gefnar voru út fyrir 1850 eru þegar komin í stafrænan búning en engar þeirra um 85.000 bóka sem út hafa komið eftir það hafa verið stafvæddar. Af hálfu þeirra sem unnið hafa að stafrænni endurgerð bóka er talið að ástæða sé til að stafvæða um 42.500 rit eða um helming útgefinna bóka. Þegar hafa um 60% dagblaða verið endurgerð stafrænt og hlutfall tímarita er um það bil hið sama. 5
    Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að hvað prentmál varðar liggi nú mest á að hefja stafræna endurgerð bóka á íslensku, sem er nánast öll eftir. Það greiðir að sjálfsögðu fyrir því verkefni að unnt er að nýta reynslu, þekkingu og tækni sem þegar hefur sannað sig í sambærilegum verkefnum hér innan lands eða erlendis. Engu að síður er ljóst að stafvæðing a.m.k. 42.500 rita er verulegt viðfangsefni sem krefst bæði fjár og mannafla. Ávinningurinn með tilliti til varðveislu en þó einkum aðgengis er hins vegar ótvíræður og hlýtur að teljast mikilvægur þáttur í að viðhalda íslenskri menningu með því að greiða ritum sem hana geyma leið inn í hinn stafræna heim.

1     ec.europa.eu/commission/priorities/digital-single-market_en
2     Commission Recommendation of 27 October 2011 on the digitalisation and online accessibility of cultural material and digital preservation.
3     Menningarstefna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Reykjavík 2013, bls. 25.
4     Skýrsla samráðsnefndar um framtíð íslenskrar bókaútgáfu. Reykjavík 2014, bls. 4.
5     Varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi. Staða hjá söfnum og menningarstofnunum landsins. Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Reykjavík 2017, bls. 31–32.