Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 900  —  113. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjálmar Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands, Eirík Jónsson prófessor, Halldóru Þorsteinsdóttur og Elfu Ýri Gylfadóttur frá fjölmiðlanefnd og Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Nefndinni bárust umsagnir frá Blaðamannafélagi Íslands, fjölmiðlanefnd, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Persónuvernd.
    Með tillögunni er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að láta fara fram endurskoðun á XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs í því skyni að meiðyrðalöggjöf uppfylli skilyrði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og ákvæðinu hefur verið beitt í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu og að ráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á XXV. kafla almennra hegningarlaga á 149. löggjafarþingi.
    Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt þeirrar skoðunar að endurskoðun XXV. kafla laganna væri nauðsynleg og tímabær. Samhljómur var um markmið og tilgang þingsályktunartillögunnar.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram ábending um að í kjölfar þess að Alþingi samþykkti þingsályktun nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis var stýrihópur skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra 23. febrúar 2015. Stýrihópnum var ætlað að leiða vinnu ráðuneytisins við greiningu og úttekt á lagaumhverfinu hér á landi og erlendis með tilliti til efnis þingsályktunarinnar með hliðsjón af þjóðréttarlegum skuldbindingum og var honum ætlað að leggja til eða undirbúa jafnóðum nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf ef stýrihópurinn teldi þær tillögur falla vel að tilgangi þingsályktunarinnar. Stýrihópurinn lagði fram tillögur að lagafrumvörpum sem varða m.a. ærumeiðingar, hatursáróður, gagnageymd og ábyrgð hýsingaraðila. Stýrihópurinn hefur nú lokið störfum.
    Á fundum nefndarinnar kom jafnframt fram að á þessu ári hefði forsætisráðherra skipað nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Nefndin var skipuð eftir að þingsályktunartillaga þessi hafði verið lögð fram og mælt verið fyrir henni. Nefnd forsætisráðherra hefur m.a. það verkefni að fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp sem stýrihópur mennta- og menningarmálaráðherra skilaði af sér eða hlutaðist til um að yrðu samin og að meta hverjar aðrar lagabreytingar kunni að vera æskilegar á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis.
    Fyrir nefndinni kom fram ábending um að efni þessarar þingsályktunar gæti vel fallið að verkefnum þeim sem nefnd forsætisráðherra er falið. Í því samhengi telur nefndin það geta verið heppilegt að nefnd forsætisráðherra verði falið að taka til endurskoðunar XXV. kafla almennra hegningarlaga þar sem það kann að skarast við það starf sem þegar er hafið.
    Í ljósi þess að ekki er skýrt kveðið á um það í skipunarbréfi hinnar nýju nefndar forsætisráðherra að endurskoða eigi í heild sinni XXV. kafla almennra hegningarlaga með tilliti til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu telur nefndin eðlilegt að slík endurskoðun fari fram á vettvangi hinnar nýju nefndar, m.a. með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem þessi tillaga til þingsályktunar hefur að geyma, auk þeirra umsagna sem nefndinni hafa borist. Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að endurskoðun XXV. kafla laganna verði liður í endurskoðun nefndar forsætisráðherra á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram hjá stýrihópi mennta- og menningarmálaráðherra.
    Að lokum telur nefndin æskilegt að endurskoðunin fari fram á þessum vettvangi þar sem skipan hinnar nýju nefndar er þannig háttað að þar sitja fulltrúar frá forsætisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nefndin telur að með þeim hætti sé m.a. tryggð aðkoma þeirra fagráðuneyta sem málið varðar.
    Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að tryggja að endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga verði jafnframt verkefni nefndar um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis.
    Anna Kolbrún Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 30. apríl 2018.

Páll Magnússon,
form.
Jón Steindór Valdimarsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Willum Þór Þórsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.