Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1106  —  9. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um tillögu til þingsályktunar um skilyrðislausa grunnframfærslu (borgaralaun).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund dr. Guy Standing í gegnum fjarfundabúnað, Henný Hinz og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Ragnar Þór Ingólfsson frá VR – stéttarfélagi, Albert Sigurðsson frá Íslandsdeild BIEN og Indriða H. Þorláksson. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Barnaheillum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Ísafjarðarbæ, Íslandsdeild BIEN, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Reykjavíkurborg og sveitarfélaginu Vogum.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela félags- og jafnréttismálaráðherra í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem kortleggi leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og stuðla að jöfnum tækifærum.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ólík sjónarmið um það að taka upp skilyrðislausa grunnframfærslu en almennt lýstu umsagnaraðilar sig fylgjandi því að hugmyndin yrði skoðuð gaumgæfilega til að skjóta styrkum stoðum undir umræðu um kosti og galla borgaralauna. Þá var bent á að hinn 23. janúar 2018 hefði Evrópuráðsþingið samþykkt ályktun um skilyrðislausa grunnframfærslu þar sem aðildarríkin eru hvött til að kanna kosti slíkrar grunnframfærslu og ræða endurskoðun á gildandi kerfum.
    Meiri hlutinn telur að full ástæða sé til að greina kosti og galla borgaralauna sem og mögulega útfærslu þeirra í íslensku samhengi. Meiri hlutinn telur hins vegar ekki tímabært að vísa þeirri vinnu í hendur hópi sérfræðinga eins og lagt er til í tillögunni. Málið falli hins vegar vel að verkefnum framtíðarnefndar þingmanna sem forsætisráðherra hefur boðað að skipuð verði innan skamms.
    Meiri hlutinn leggur því til að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að tryggja að úttekt á kostum og göllum skilyrðislausrar grunnframfærslu verði meðal verkefna framtíðarnefndar.

Alþingi, 30. maí 2018.

Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Vilhjálmur Árnason.