Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1107  —  494. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fjármálaáætlun ríkisstjórnar er grundvallarályktun enda kemur þar fram forgangsröðun og stefna ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Í því ljósi er fjármálaáætlunin mikil vonbrigði þegar kemur að nauðsynlegri innviðauppbyggingu, auknum jöfnuði og markvissum ríkisrekstri. Fjármálaáætlunin byggist á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram fyrr á árinu en sú stefna fékk algjöra falleinkunn frá nánast öllum sem um hana fjölluðu. Þrátt fyrir að fjármálastefnan væri sögð vera óskýr, óábyrg, ótrúverðug og óraunsæ gerði meiri hluti á þingi engar breytingar á henni.
    Nú þegar fjármálaáætlunin liggur til grundvallar er ljóst að meiri hlutinn ætlar ekki heldur að gera neinar breytingar á henni þrátt fyrir fjölmargar og grafalvarlegar athugasemdir. Fjármálaáætlunin er til fimm ára og inniheldur ríkisútgjöld upp á 4.800 milljarða kr. og hver maður sér að það er ótrúlegt að meiri hlutinn sjái ekki einu sinni ástæðu til hnika til krónu þegar nefndin fær málið til sín. Enn sem fyrr er vinna fjárlaganefndar og Alþingis sjónarspil eitt þar sem framkvæmdarvaldið nær sínu fram og löggjafinn virkar sem stimpilstofnun ráðherranna. Innkoma Vinstri grænna í ríkisstjórn breytir þar engu um. Þótt fjármálaáætlun eigi að heita „þingsályktun“ þá er vandséð hver aðkoma þingsins er að henni fyrir utan almennt spjall þingmanna um áætlunina við hagsmunaaðila á fjölmörgum fundum sem skilar í raun litlu sem engu.
    Í fyrstu fjárlögum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur voru gerðar breytingar upp á heil 2,2% frá fjárlögum síðustu ríkisstjórnar en þau fjárlög höfðu Vinstri græn gagnrýnt hatrammlega þegar þau voru í stjórnarandstöðu. Þá gerði meiri hluti Alþingis engar breytingar á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar í meðförum Alþingis sem þó fékk um 80 ábendingar og athugasemdir frá hagsmunaaðilum. Og nú gerir meiri hlutinn það sama með fjármálaáætlunina, engar breytingar þrátt fyrir fjölmargar athugasemdir.
    Það er einnig athyglisvert að bera saman heildarafkomu hins opinbera samkvæmt þessari fjármálaáætlun, þeirri fyrstu sem Vinstri græn standa að, við þá heildarafkomu hins opinbera samkvæmt fjármálaáætlun sem síðasta ríkisstjórn lagði fram. Þingmenn Vinstri grænna, þar með talið núverandi forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra, gagnrýndu fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar hatrammlega en þegar litið er til fjármálaáætlunar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er munurinn á heildarafkomu hins opinbera milli þessara tveggja fjármálaáætlana einungis 0,2% af landsframleiðslu fyrir árið 2018. Sé litið til áranna 2019, 2020 og 2022 er munurinn 0,3% en er 0,4% fyrir árið 2021.
    Sérstaka vekur athygli í nefndaráliti meiri hlutans að reiknuð prósentuhækkun fjármagns til málefnasviða er iðulega miðuð við árið 2017 en ekki við árið 2018. Með því fær meiri hlutinn, eðli málsins samkvæmt, hærri prósentuhækkun en ella. 2. minni hluti telur réttara og sanngjarnara að miða við árið 2018 enda nær Fjármálaáætlun yfir árin 2019–2023 og eru breytingar frá árinu 2018 en ekki 2017.

Hörð gagnrýni hagsmunaaðila.
    Þar sem fjármálaáætlun er til fimm ára eru allar tölur í henni ansi bólgnar en samanlagt er um að ræða ríkisútgjöld upp á 4.800 milljarða kr. Það verður því að teljast talsvert afrek hjá ríkisstjórnarflokkunum að kynna plagg upp á slíkar upphæðir en uppskera nánast eintóma óánægju hjá hagsmunaaðilum, velferðarsamtökum og stofnunum.
    Öryrkjabandalag Íslands hefur kallað þessa fjármálaáætlun Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins „ávísun á fátækt og eymd“. Formaður Verkalýðsfélags Akraness fer mjög hörðum orðum um þessa áætlun og segir að í henni kristallist veruleikafirring og að skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á málefnum lágtekjufólks sé algjört. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinstri grænna talaði um að fjármálaáætlunin muni auka misskiptinguna. Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir: „Undanfarin ár hefur ASÍ ítrekað gagnrýnt þróun ríkisfjármála og verið þeirra skoðunar að fjármál hins opinbera muni ekki tryggja félagslegan stöðugleika hér á landi. ASÍ hefur í því samhengi áður varað við þensluaukandi aðgerðum hins opinbera, veikingu nauðsynlegra tekjustofna og vanrækslu félagslegra innviða. Það er skoðun ASÍ að með fyrirliggjandi fjármálaáætlun sé haldið áfram á sömu braut, þar sem tekjustofnar séu veiktir frekar sem dragi úr getu stjórnvalda til velferðarumbóta.“ Samtök iðnaðarins lýsta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem „áhyggjuefni“.
    Þá gerði hið sjálfstæða fjármálaráð alvarlegar athugasemdir við áætlunina og bendir m.a. á að sá sveigjanleiki sem boðaður var í fyrri fjármálaáætlun sé nú að mestu leyti horfinn. Fjármálaráð vekur sérstaklega athygli á að tekjustofnar ríkisins eru veiktir og dregið sé úr aðhaldi. Þá segir fjármálaráð í umsögn sinni að sé fjárfesting í innviðum „látin sitja á hakanum er hætt við að það komi á endanum niður á framleiðni og þar með lífskjörunum auk sjálfbærni innviða“ og tekur 2. minni hluti undir þau orð. Þá tekur 2. minni hluti undir áhyggjur Viðskiptaráðs af versnandi samkeppnishæfni Íslands og leggur áherslu á að bæta þurfi framleiðni og hagkvæmni á mörgum sviðum íslensks atvinnulífs.

Helstu gagnrýnisatriði Samfylkingarinnar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar:
     1.      Sett er þak á þá fjármuni sem eiga að renna til barnabóta og vaxtabóta sem er ekki krónu hærra en það sem nú rennur til þessara mikilvægu úrræða velferðarkerfisins.
     2.      Landspítalinn telur sig þurfa um 87 milljarða kr. til viðbótar samanlagt næstu fimm árin og strax á næsta ári um 5,4 milljarða kr. sem er „algjört lágmark“ til að mæta núverandi þörf.
     3.      Fjármunir sem renna til aldraða eru fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeim hópi og enn eru ekki tryggðir nægjanlegir fjármunir til reksturs hjúkrunarheimila.
     4.      Gert er ráð fyrir einungis um 4 milljarða kr. aukningu til öryrkja umfram þá fjármuni sem bætast við vegna fjölgunar í þeim hópi. Slík upphæð er um einn þriðji af því sem afnám svokallaðrar „krónu-á-móti-krónu“ getur kostað fyrir utan aðrar kjarabætur sem öryrkjar hafa verið að kalla eftir. ÖBÍ kallar fjármálaáætlunina „ávísun á fátækt og eymd“.
     5.      Fjármunir sem renna til framhaldsskólana er einungis það fé sem sparaðist vegna styttingar skólastigsins. Því hafði verið lofað á sínum tíma af fyrrverandi ríkisstjórn og getur því tæpast kallast stórsókn í menntamálum eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert.
     6.      Háskólastigið fær minna en helming af því sem var búið að lofa í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.
     7.      Helmingi minna fjármagn rennur til uppbyggingar leiguíbúða en nú.
     8.      Boðuð er skattastefna sem færir þingmanni þrisvar sinnum meiri skattalækkun en það sem kennari fær. Þá er lækkun skatta á banka sett í forgang.
     9.      Framlög til menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála lækka næstu fimm árin.
     10.      Fjárframlög til samgöngumála á tímabilinu ná ekki einu sinni 10 ára meðaltali fjármagns til þessa málaflokks og eru einungis svipuð og þau hafa verið undanfarin fimm ár.
     11.      Samneyslan (neysla hins opinbera) dregst saman næstu fimm árin þrátt fyrir orð forsætisráðherra fyrir nokkrum mánuðum um að samneyslan ætti að aukast vegna innviðauppbyggingar og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar.
     12.      Að lokum eru flestir umsagnaraðilar sammála um að forsendur fjármálaáætlunarinnar séu fullkomlega óraunsæjar en þær byggjast á að hér verði 13 ára samfleytt hagsvaxtarskeið sem hefur aldrei gerst í sögu Íslandsbyggðar. Einnig er gert ráð fyrir óbreyttu raungengi krónunnar næstu fimm árin en raungengið hefur aldrei verið eins sterkt og nú er en við slíkar aðstæður hefur gengið alltaf fallið. Gengi krónunnar hefur bein áhrif á hagvöxt, verðbólgu, vexti, skatttekjur, einkaneyslu o.s.frv.

Fullkomlega óraunsæjar forsendur.
    Fjölmargir, ef ekki allir, hagsmunaaðilar gagnrýndu forsendur fjármálaáætlunarinnar og að markmiði áætlunarinnar um stöðugleika væri ekki fullnægt. Þessar forsendur byggjast á að hér verði 13 ára samfleytt hagvaxtarskeið sem aldrei í sögu Íslandsbyggðar hefur náðst. Venjulega hafa hagvaxtarskeið á Íslandi staðið í 3–5 ár. Þá er gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar næstu fimm árin sem er með ólíkindum í ljósi þess að raungengi íslensku krónunnar hefur aldrei verið eins sterkt og nú er. Við þessar aðstæður hefur gengi krónunnar alltaf gefið eftir.
    Ekkert OECD-ríki hefur upplifað eins miklar sveiflur í raungengi gjaldmiðilsins síns eins og Ísland hefur gert undanfarin 15 ár. Við umfjöllun fjárlaganefndar um gengi krónunnar lýstu forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins því að reka íslenskt fyrirtæki í samkeppni við erlend fyrirtæki þannig að það væri eins og „að búa í harmonikku á sveitaballi“.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að við þessar aðstæður hefur gengi krónunnar ávallt gefið eftir en gerist það þá munu nánast allar forsendur áætlunarinnar bresta. Gengi krónunnar hefur bein áhrif á utanríkisviðskipti, verðbólgu, vexti, einkaneyslu, hagvöxt, kaupmátt, skatttekjur o.s.frv. Einn hagsmunaaðili sem kom fyrir fjárlaganefndina spurði þessarar spurningar: „Á hverju eru menn eiginlega þegar þeir gera ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar?“
    Þótt erfitt sé að spá fyrir um gengi gjaldmiðla þá er ljóst að mati 2. minni hluta að eina spáin sem mun rætast er sú spá að spáin sem fjármálaáætlun byggist á muni ekki rætast.
    Því til viðbótar gerir fjármálaáætlunin ráð fyrir talsverðri ró á vinnumarkaði þar sem gert er ráð fyrir 1,5% kaupmáttaraukningu og verður það að teljast talsvert óraunsæ forsenda miðað við umræðuna í samfélaginu. Launakostnaður vegur mjög þungt í samneyslu. Það vekur athygli að Reykjavíkurborg telur að afkomuhorfur sveitarfélaga séu ofmetnar bæði í fjármálastefnu og í fjármálaáætluninni.
    Hið sjálfstæða fjármálaráð gerði margvíslegar athugasemdir við fjármálaáætlunina og segir í umsögn sinni að ekki megi „mikið út af bregða varðandi áætlaðan vöxt hagkerfisins til að ógna framvindu hennar.“ Þá nefnir ráðið að það þurfi að bæta samspil þjóðhagsspár, fjármálastefnu og áætlanagerðar þannig að þjóðhagsspáin innifeli stefnumörkun stjórnvalda. Ráðið telur að meiri sveigjanleiki í framsetningu tölusettra stefnumiða væri til bóta og að mikilvægt að gerðar séu sviðsmyndir og næmnigreiningar varðandi ýmsa þætti áætlunarinnar. Fjármálaráð hefur þannig kallað eftir því að spáferli sé endurskoðað, skoðaðar séu fleiri sviðsmyndir og að afkoma sé leiðrétt fyrir áhrifum hagsveiflunnar.
    Fjármálaráð bendir einnig á að þeirri spurningu sé ósvarað hvernig hið opinbera eigi að bregðast við ófyrirséðum áföllum. Þá bendir fjármálaráð á að afkoma hins opinbera sé í járnum nær allt tímabilið og við gólf fjármálastefnunnar. Þannig megi lítið út af bregða til að afkoman fari undir þau stefnumið sem stjórnvöld hafa sett sér. Samtök atvinnulífsins taka undir þá skoðun fjármálaráðs að sviðmyndagreining opinbers rekstrar, miðað við mismunandi hagvaxtarforsendur fyrir komandi ár, væri æskileg og myndi auka trúverðugleika fjármálastefnunnar. Þá skortir mat á aðhaldsstigi fjármálastefnunnar sem er gagnrýnisvert að mati Samtaka atvinnulífsins.
    Við vinnu nefndarinnar við fjármálaáætlunin komu einnig fram sterkar vísbendingar um að blikur væru á lofti þegar kemur að einni stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, ferðaþjónustunni. Því gagnrýndu margir hagsmunaaðilar að ekki væri tekið nægilegt tillit til hugsanlegrar breytingar í þeirri atvinnugrein. Forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar töldu að baki áætluninni væri „mjög óraunsæ hagspá“. Þá er ljóst að ytri aðstæður hafa verið íslensku efnahagslífi hagfelldar að undanförnu og er óvarlegt að gera ráð fyrir að svo verði stöðugt áfram.
    Að mati 2. minni hluta er því fjármálaáætlunin pólitísk tálsýn og draumsýn ríkisstjórnarinnar.
    Því telur 2. minni hluti það mjög gagnrýnisvert að byggja fimm ára fjármálaáætlun á svo veikum grunni og í raun á hæpnum forsendum. Í ljósi þess hversu grunnur fjármálaáætlunarinnar er veikur eru grunngildi laganna um varfærni, stöðugleika og sjálfbærni ekki uppfyllt að mati 2. minni hluta.
    Þá gagnrýnir 2. minni hluti að ekki séu ítarlegri sviðsmyndagreiningar ásamt fráviksspám og betur sundurgreindar upplýsingar um einstaka fjárliði. Erfitt er því að gera sér grein fyrir hvernig fari fyrir áætluninni ef raunveruleikinn reynist öðruvísi en ríkisstjórnin vonar.
    Þá getur verið erfitt að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að forgangsraða fjármunum í ákveðin verkefni og jafnframt afar flókið fyrir þá aðila sem eiga að miða sína fjárhagsáætlun við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að finna út hvað sé í vændum. Lög um opinber fjármál voru einmitt sett til að auka festu í stjórn opinberra fjármála, stuðla að góðri hagstjórn og auka gagnsæi en fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 vinnur að þessu leyti á móti því markmiði laganna.

Vond hagstjórn.
    Fjármálaráð gagnrýnir boðaðan áframhaldandi útgjaldavöxt í framhaldi af verulegri útgjaldaaukningu á undanförnum árum og að á sama tíma sé verið að veikja tekjuhliðina og þar af leiðandi minnki aðhald opinberra fjármála.
    Hagstjórnin sem birtist í fjármálaáætluninni er því að mati 2. minni hluta mikið áhyggjuefni. Í áætlunin er boðuð lækkun skatta, sérstaklega á hina efnameiri og banka, á sama tíma og útgjöld ríkisins eru aukin á sumum sviðum þótt loforð um innviðafjárfestingu sé víða svikið. Þetta þrennt fer mjög illa saman að mati 2. minni hluta. Að tryggja aðhald getur ekki einungis þýtt lækkun ríkisútgjalda heldur getur aukið aðhald einnig kallað eftir auknum tekjum ríkisins.
    Á það er víða bent að þessi slæma hagstjórn ríkisstjórnarflokkanna geti aukið ójöfnuð og einnig valdið því að Seðlabankinn neyðist til að hækka vexti. Því mun íslenskur almenningur súpa seyðið af þessari gjaldþrotastefnu ríkisstjórnarinnar sem byggist á brauðmolakenningu og skammsýni.
    Því kallar 2. minni hluti eftir skynsamlegri hagstjórn þar sem tekjugrunnar ríkisins eru tryggðir á sama tíma og nauðsynlegri innviðafjárfestingu er sinnt.

Minni samneysla og áframhaldandi aðhaldskrafa.
    Mjög áhugavert er að skoða þróun samneyslunnar í þessari áætlun en samneysla er neysla hins opinbera og er hluti af landsframleiðslunni. Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að samneyslan minnki lítillega sem hlutfall af landsframleiðslu. Slíkt kemur mjög á óvart sérstaklega í ljósi orða Vinstri grænna undanfarin misseri um að hér bæri að auka samneysluna þar sem þörf væri á mikilli opinberri innviðauppbyggingu. Forsætisráðherra hefur einnig bent á að aukin samneysla væri rökrétt í ljósi breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og gagnrýndi hún sérstaklega síðustu fjármálaáætlun fyrir minni samneyslu. En í fjármálaáætlun þessa sama forsætisráðherra er gert ráð fyrir minni samneyslu næstu árin og er það í samræmi við svik stjórnarflokkanna á fyrirheitum um mikla innviðauppbyggingu hins opinbera.
    Þá kemur fram í fjármálaáætluninni að heildarvöxtur ríkisútgjalda skuli ekki vera meiri en 4,6% á ári að jafnaði. En við meðferð fjárlaganefndar á áætluninni kom einmitt fram í máli forsvarsmanna BHM að það væri mjög erfitt að sjá hvernig hægt væri að standa við loforð um nauðsynlega innviðauppbyggingu á meðan gert væri ráð fyrir sömu eða minni samneyslu og þessum þrönga ramma ríkisútgjalda.
    Þá vekur athygli að í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi aðhaldskröfu á ríkisstofnanir. Í heildina nemur uppsafnað aðhald út tímabilið 56 milljörðum kr. en árin 2019–2021 er meira að segja gerð aðhaldskrafa á sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla. Við meðferð fyrri fjármálaáætlunar gagnrýndu þingmenn Vinstri græna aðhaldskröfu þeirrar áætlunar á þessa grunnþætti samfélagsins

Ekki tekið á misskiptingunni.
    Athygli vekur við lestur á fjármálaáætluninni að lítið er tekið á misskiptingunni í samfélaginu. Núna eiga ríkustu 5% landsmanna næstum jafnmikið af hreinum eignum landsmanna og það sem 95% landsmanna eiga. 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna eiga. Ríkustu 10% landsmanna tók til sín tæpan helming allra hreinna eigna sem urðu til 2016. BSRB bendir í umsögn sinni á að heildarskattbyrði tekjulægstu hópa launafólks hafi aukist langmest samanborið við aðra hópa.
    Fyrir kosningar talaði Vinstrihreyfingin – grænt framboð um að það þyrfti að taka á þessari ótrúlegu misskiptingu í gegnum skattkerfið. Í fjármálaáætlun er það hins vegar ekki gert. Skattastefna sem þjónar best þeim tekjuhæstu virðist vera ofan á í áætluninni en þar er lögð áhersla á lækkun tekjuskatts sem gagnast fyrst og fremst tekjuhærri hópunum en umfjöllun um skattastefnu áætlunar má finna síðan í þessu áliti.
    Til viðbótar á hugsanlega að endurskipuleggja fjármagnstekjuskattskerfið þannig að fjármagnseigendur eiga að fá vernd gegn verðbólgu, vernd sem launafólk nýtur ekki.
    Þá er enn gert ráð fyrir að veiðigjöld séu áfram einungis um 1% af tekjum ríkisins en það eru ekki margir eigendur auðlinda sem myndu sætta sig við að fá aðeins um 1% af tekjum sínum frá meginauðlind sinni en íslenska þjóðin er látin gera það.

Barnabætur hugsaðar sem fátækrastyrkur.
    Ein alvarlegustu pólitísku tíðindin í fjármálaáætluninni er að ekki er gert ráð fyrir neinni viðbót í barnabótakerfið. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa sett þak á barnabætur enda á sama krónutala og nú að fara í barnabætur næstu fimm árin. Þetta er afskaplega sorgleg niðurstaða, sérstaklega í ljósi þess að einn fjórði þeirra sem naut barnabóta síðast þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn er dottinn út úr barnabótakerfinu vegna skerðinga.
    Barnabætur byrja að skerðast langt undir lágmarkstekjum eða við 242.000 kr. á mánuði. Hvers konar hugsun er það að láta barnabætur byrja að skerðast við 242.000 kr. á mánuði? Fyrir örfáum mánuðum felldu ríkisstjórnarflokkarnir tillögu stjórnarandstöðunnar um að láta skerðinguna a.m.k. hefjast við lágmarkslaun sem nú eru 300.000 kr. Hjón með eitt barn fá engar barnabætur séu báðir aðilar með 470.000 kr. í tekjur eða meira og er hæpið að álíta slík hjón hátekjufólk sem eigi ekki skilið að fá neinar barnabætur. Gera má ráð fyrir að hjón með tvö börn, sem bæði hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk, fái saman um 3.000 kr. í barnabætur á mánuði.
    Tekjuskerðingarmörk barnabóta hafa lækkað verulega að raungildi en þau hafa verið óbreytt frá árinu 2013 á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um tæplega 40%. Útgjöld til barnabóta halda því áfram að dragast saman að raungildi eins og undanfarin ár og fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur að fækka. Verulega hefur því dregið úr stuðningi og tekjujöfnunarhlutverki barnabótakerfisins á liðnum árum.
    Hér grundvallast pólitískur skoðanamunur milli Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarflokkanna með Vinstri græn í broddi fylkingar. Samfylkingin lítur ekki á barnabætur sem fátækrastuðning heldur sem mikilvægt stuðningskerfi fyrir barnafjölskyldur til að mæta þeim kostnaði sem þær verða fyrir á því tímabili í lífi sínu.
    Fjölmargir hagsmunaaðilar, svo sem ASÍ og BHM, bentu á nauðsyn þess að hér þyrfti að endurreisa barnabótakerfið og það væri röng hugsun að álíta barnabætur sem „fátækrastuðning“.
    Það er þjóðarskömm hversu mörg börn búa við óviðunandi aðstæður hér á landi en talið er að allt að 6.000 börn líði skort í okkar ríka samfélagi. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Vanda láglaunafólks og einnig fólks með meðaltekjur mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og húsnæðisstuðning. Þrátt fyrir það hefur barnabótakerfið fengið að grotna niður undanfarin ár sem er afskaplega miður, af því að barnabætur eru mjög góð leið til að aðstoða ungar fjölskyldur í landinu.
    Hvergi er að sjá í fjármálaáætluninni að gert sé ráð fyrir fjármagni í lengra fæðingarorlof sem þó er talað um í stjórnarsáttmálanum. 2. minni hluti leggur ríka áherslu á að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði, en einnig að fjármagn til barnabóta verði aukið og tekin verði markviss skref á næstu fimm árum þannig að barnafjölskyldur muni um greiðslurnar til að jafna stöðu þeirra við stöðu þeirra sem ekki eru með börn á framfæri.

Þak sett á vaxtabætur og húsnæðismál sett á hakann.
    Erfiðar aðstæður ríkja á húsnæðismarkaði og mikill fjöldi einstaklinga býr við óviðunandi húsnæðiskjör. Það er mat Íbúðalánasjóðs að um 50 þúsund einstaklingar séu á leigumarkaði og af þeim séu tekjulágir og ungt fólk í meiri hluta. Það er staðreynd að húsnæðiskostnaður er hlutfallslega hátt hlutfall af tekjum þeirra sem minnstar hafa tekjurnar. Sé hins vegar litið til vaxtabótakerfisins þá er staðan enn verri en sú sem sést í barnabótakerfinu því um helmingur þeirra sem nutu vaxtabóta fyrir nokkrum árum gera það ekki lengur. Það kom engin innspýting í vaxtabótakerfið með nýrri ríkisstjórn.
    Því er afar sorgleg niðurstaða að fjármálaáætlunin gerir ekki ráð fyrir krónu til viðbótar í vaxtabótakerfið næstu fimm árin. Á undanförnum árum hefur helmingur þess fólks sem naut vaxtabóta dottið út úr því kerfi vegna skerðinga. Húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið hefur lækkað um 67% að raungildi frá árinu 2013 og heimilum sem fá greiddar vaxtabætur fækkaði um tæplega 16.000 milli áranna 2013 og 2016 og má gera ráð fyrir að þeim haldi áfram að fækka. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að viðmiðunarfjárhæðir og eignamörk í vaxtabótakerfinu verði óbreytt á milli ára en þau hafa rýrnað verulega í samanburði við laun og fasteignaverð á undanförnum árum.
    Það er skemmst frá því að segja að þegar Samfylkingin var síðast í ríkisstjórn voru settir 100 milljarðar kr. í barna- og vaxtabótakerfið á kjörtímabilinu.
    Þá vekur athygli að húsnæðisstuðningur hins opinbera mun beinlínis lækka á gildistíma fjármálaáætlunarinnar. Ríkisstjórnarflokkarnir ætla að setja helmingi minni fjármuni í uppbyggingu á leiguíbúðunum á næstu árum en nú er gert. Slíkt er mjög gagnrýnisvert, sérstaklega í ljósi þess ástands sem nú er á húsnæðismarkaðnum.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að kaflinn um húsnæðismál í þessari fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna sé „rýr að vöxtum“ og er auðvelt að taka undir það.

Aldraðir og öryrkjar þurfa enn að bíða.
    Það hefur lengi verið kallað eftir frekari fjármunum til öryrkja en hins vegar er einungis gert ráð fyrir 4 milljörðum kr. til viðbótar til þessa hóps fyrir utan þá fjármuni sem eiga að mæta fjölgun öryrkja. Stefnt er að afnema hið svokallaða „krónu-á-móti-krónu“ kerfi en slíkt getur kostað allt að 10–14 milljarða kr. og því dugar þessi viðbót ríkisstjórnarflokkana ekki einu sinni fyrir því, hvað þá að bæta aðra þætti gagnvart öryrkjum, svo sem hækkun örorkulífeyris og að draga úr öðrum skerðingum. Samfylkingin leggur til breytingartillögu um að bætur öryrkja hætti að skerðast vegna eigin atvinnutekna þeirra.
    Í umsögn sinni segir ÖBÍ: „Hægt er að lesa út úr fjármálaáætluninni að fjárhagsstaða ríkissjóðs sé mjög góð. Að sama skapi er ekki hægt að sjá að nýta eigi hina góðu fjárhagsstöðu til að bæta stöðu fólks sem býr við kröpp kjör eða fátækt svo sem vegna fötlunar, sjúkdóma, slysa eða atvinnuleysis. Fjármunum ríkisins er ekki forgangsraðað til þeirra sem sárast þurfa á þeim að halda.“ Hér er á ferðinni mikill áfellisdómur yfir Vinstri grænum að mati 2. minni hluta.
    Hið aukna fjármagn til eldri borgara sem finna má í fjármálaáætluninni má fyrst og fremst rekja til fjölgunar í þeim hópi. Það verður því enn brýn þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma og fjármagn skortir til rekstrar þeirra sem fyrir eru þrátt fyrir áform fjármálaáætlunarinnar. Ríkisstjórnin áformar þó að fjölga hjúkrunarrýmum um 550 á gildistíma áætlunarinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að fjármálaáætlun eru þessi rými ekki fjármögnuð nema að takmörkuðu leyti og því ljóst að rýmum fjölgar að óbreyttu ekki nema um 150 á tímabilinu nema til komi aukið fé til rekstrar. Þess utan er orðin knýjandi þörf á að endurbæta eldri rými og breyta í samræmi við auknar og breyttar öryggiskröfur og byggingarreglugerðir.
    Þá er ekki í áætluninni að finna nein áform um að bæta kjör aldraðra sem þiggja ellilífeyri, hvorki hækkun á framfærslu né hækkun frítekjumarks. Þá er ekki að finna áform um afnám tekjutenginga gagnvart maka eða sambúðarfólki. Þá er mikil þörf á að efla Framkvæmdasjóð aldraðra sem hefur ekki þjónað tilgangi sínum lengi.     Í umsögn Samiðnar um fjármálaáætlun segir: „Aukin útgjöld til ellilífeyris á tímabilinu má fyrst og fremst rekja til fjölgunar ellilífeyrisþega. Flestir stjórnmálaflokkar lýstu því yfir fyrir síðustu alþingskosningar að draga þyrfti úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu, en þær eru með því hæsta sem þekkist í löndum sem við berum okkur saman við. Skerðingar vegna viðbótartekna og greiðslna frá lífeyrissjóðum eru um 72% þegar áhrif tekjuskatts og útsvars bætast við 45% skerðingar almannatrygginga. Til að hægt sé að standa við gefin loforð er ljóst að útgjöld þurfa að aukast umfram fjölgun ellilífeyrisþega. Miklar tekjutengingar draga úr vilja fólks til að greiða í lífeyrissjóði og skapa neikvætt viðhorf til þeirra. Mjög brýnt er að tekið verði á þessum órétti sem fyrst.“

Svikin menntasókn.
    Við stöndum frammi fyrir samfélagsbreytingum á næstu áratugum þar sem allt bendir til þess að atvinnulíf muni taka stakkaskiptum. Með aukinni sjálfvæðingu og gervigreind munu mörg störf hverfa, önnur haldast og ný verða til. Eina raunhæfa leiðin til að mæta þessari áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það nýjum veruleika.
    Framhaldsskólastigið fær hins vegar nánast sömu krónutölu næstu fimm árin samkvæmt fjármálaáætluninni. Sú aukning sem rennur til sérhvers framhaldsskólanema er fyrst fremst vegna eldri loforða um að þeir peningar sem „spöruðust“ vegna styttingar framhaldsskólans myndu halda sér í kerfinu. Kennarasambandið bendir á það í umsögn sinni að gengið sé út frá mikilli fækkun ársnemenda í framhaldsskólum til 2020 vegna styttingar námsins í þrjú ár og fækkunar í árgöngum, sem leiðir til hærra framlags á hvern ársnemanda, að óbreyttum fjárframlögum. Ekki sé hins vegar um að ræða raunútgjaldaaukningu til skólastigsins. Því sér 2. minni hluti fá merki um þá „stórsókn“ í menntamálum sem margoft hefur verið lofað. Þegar fjárlög 2018 voru afgreidd fyrir nokkrum mánuðum sögðu forsvarsmenn framhaldsskólanna að skólarnir væru í raun „komnir að þolmörkum“.
    Háskólastigið fær aukið fjármagn en hins vegar fær það minna en helming þess sem var búið að lofa í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar stendur skýrt að ná skuli meðaltalsfjármagni OECD-landa til háskólanna fyrir 2020 en það kostar um 6,7 milljarða kr. En fjármálaáætlunin gerir einungis ráð fyrir tæpum helming af þeim fjármunum árið 2023 og því er þetta loforð einnig svikið.
    Það er einnig athyglisvert að aukningin til háskólastigsins, sem núverandi ríkisstjórnarflokkar stæra sig, af er aðeins minni prósentuhækkun en síðasta ríkisstjórn kynnti í sinni fjármálaáætlun og tók einnig til fimm ára tímabils.
    Þá ber að hafa í huga að fjármagn til uppbyggingar á Húsi íslenskra fræða er innifalið í þeirri aukningu sem háskólastigið fær og er því hæpið að túlka þá fjármuni sem sérstaka innspýtingu í háskólastigið. Það er ekki lengra síðan en í fyrra að núverandi forsætisráðherra lýsti yfir áhyggjum sínum af að hluti af auknum framlögum til háskólanna væri í raun stofnkostnaður en væri „ekki til þess að bæta menntun í landinu“.
    Þá segir í umsögn Samiðnar: „Sé núverandi ríkisstjórn full alvara að efla iðnnám og verk- og starfsnám, eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum, verður að fylgja aukið fjármagn. Haustið 2016 gerðu stjórnvöld samkomulag við aðila vinnumarkaðarins og háskólana um þróun fagháskólanáms. Í fjármálaáætluninni er ekkert að finna um þróun fagháskólanáms og því vaknar sú spurning hvort stjórnvöld ætli ekki að standa við framangreint samkomulag frá 2016 um uppbyggingu fagháskólanáms.“
    Málefnasvið fjármálaáætlunarinnar um menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál mun fá lægri fjárveitingar á gildistíma áætlunarinnar og sýnir það sérkennilega forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna.

Heilbrigðismálin enn vanfjármögnuð.
    Samfylkingin telur mikla þörf á að styðja vel við alhliða uppbyggingu á hinu opinbera heilbrigðiskerfi sem þarf sárlega á því að halda eftir hrunið sem lék samfélagið grátt. Þá vill Samfylkingin huga sérstaklega að mönnun innan heilbrigðiskerfisins og álagi á starfsfólk þess.
    Ríkisstjórnarflokkarnir telja sig vera að uppfylla gefin loforð þegar kemur að heilbrigðismálum. Annað kemur á daginn. Forsvarsmenn Landspítalans (LSH) telja að markmiðin í áætluninni séu ekki fjármögnuð og í raun vanti um 87 milljarða kr. uppsafnað á tímabilinu (að meðaltali 17,4 milljarða kr. á ári í fimm ár). Á föstu verðlagi eru fjárveitingar til LSH enn 2 milljörðum kr. lægri nú en þær voru 2008 þrátt fyrir aukna eftirspurn og flutning stórra verkefna til spítalans.
    Í umsögn LSH kemur fram að „algjört lágmark“ sé að tryggja 5,4 milljarða kr. til viðbótar í reksturinn á næsta ári og mun 2. minni hluti leggja það til sem fyrsta skref til að mæta þörf spítalans.
    Hvað fjárfestingu varðar skortir tæplega 27 milljarða kr. til að endar nái saman ef tillaga stjórnvalda er borin saman við framkvæmdaáætlun spítalans vegna uppbyggingar nýs spítala og fjárfestingarþörf Landspítala.
    Það er því ljóst að það vantar talsvert upp á ríkisstjórnarflokkarnir tryggi nauðsynlegt fé til Landspítalans.
    Ef standa á við markmið um að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt að endurskoða rekstrarlíkan stöðvanna, einkum á landsbyggðinni. Að auki eru málefni heilsugæslunnar sérstakt áskorunarefni í ljósi hins nýja greiðsluþátttökukerfis sem færir heilsugæslustöðvunum enn frekari verkefni sem hliðvörðum inn í heilbrigðiskerfið. Það krefst aukins viðbúnaðar, bæði hvað varðar aðstöðu og skipan fagfólks.
    Samfylkingin telur að greiðsluþátttaka allra sé nú þegar of mikil í heilbrigðisþjónustunni, nýtt kerfi sé vanfjármagnað, þakið of hátt og hætta á að hækkun á kostnaði hjá stórum hluta notenda muni leiða til þess að tekjulægri hópar neiti sér um heilbrigðisþjónustu í enn meira mæli en nú er.
    Samfylkingin vill að stefnt sé að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því í aðdraganda kosninga að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði minnkuð í áföngum. Það er sorgleg staða að í 11. ríkasta landi heims skuli fólk veigra sér við að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna fátæktar.

Samgöngumálin fá bara 41% af þörf.
    Þegar fjármálaáætlunin var kynnt gerðu ríkisstjórnarflokkarnir mikið úr þeirri aukningu sem átti að renna til samgöngumála og talað var um stórsókn, eins og ríkisstjórnarflokkunum er gjarnt að gera. Síðan kemur í ljós að þeir fjármunir sem eiga að renna til samgöngumála á tímabilinu eru einungis í samræmi við fimm ára meðaltalsútgjöld til samgöngumála og eru jafnvel undir 10 ára meðaltalinu. Þá er ljóst að þeir fjármunir sem renna til samgöngumála eru ekki nálægt því að mæta þeirri þörf sem er. Í umsögn Samtaka iðnaðarins segir: „Samgönguráðherra kynnti nýlega að yfir 220 milljarða króna vantaði í viðhald og nýfjárfestingar í vegakerfinu. Því til viðbótar er að falla til árleg viðhaldsþörf upp á 11 ma.kr., þ.e. samtals 55 ma.kr. yfir tímabil framangreindrar fjármálaáætlunar. Samtals eru þetta því yfir 280 milljarðar í viðhald og nýfjárfestingar. Í áætluninni er gert ráð fyrir að samtals fari um 114 ma.kr. í viðhald og nýfjárfestingar í samgöngumálum á tíma áætlunarinnar. Þetta er einungis tæplega 41% af áætlaðri þörf. Það er ekki hægt að kalla það stórátak.“
    Annar minni hluti lýsir miklum vonbrigðum með að ekki sé komin fram samgönguáætlun til samanburðar við þá fjármálaáætlun sem hér er fjallað um. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að hið svokallaða stórátak ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum, sem boðað var í stjórnarsáttmálanum, er langt í frá það sem birtist í fjármálaáætlun. Taka Samtök iðnaðarins í sama streng í umsögn sinni um fjármálaáætlun en álag á samgöngukerfið hefur aukist umtalsvert undanfarin ár.
    Það er sérstök ástæða til að gagnrýna harðlega fyrirhugaða notkun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á fé úr varasjóði gildandi fjárlaga til að fjármagna ákveðin samgönguverkefni. Að mati 2. minni hluta er ekki fullnægt skilyrðum laga um opinber fjármál hvað varðar notkun á varasjóðum. Hér er því sett mjög slæmt fordæmi og grafið undan lögunum.
    Þá vekur 2. minni hluti athygli á því sem nú stendur í fjármálaáætluninni um viðbótarframlag í almenningssamgöngur. Eingöngu er minnst einu sinni á hið mikilvæga verkefni borgarlínu, með þeim orðum að vilji sé til að eiga samstarf við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu og aðrar framkvæmdir á svæðinu. Ekkert fjármagn er áætlað í hið mikilvæga verkefni en aðkoma ríkisins er grunnforsenda þess að af því verði. Þá er slík uppbygging á umferðarþyngsta svæði landsins jafnframt grunnforsenda þess að staðið verði við skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu.

Löggæsla, persónuvernd, umhverfis- og utanríkismál.
    Annar minni hluti lýsir áhyggjum af auknum kostnaði sveitarfélaga og annarra vegna breytinga á persónuverndarlöggjöfinni. Svipaða sögu er að segja um framlög til löggæslunnar í landinu sem munu ekki svara þörf fyrir meiri mannafla í lögreglunni til að mæta auknum ferðamannastraumi og alls kyns nýjum verkefnum. Því ber að fagna að fjármagn skuli veitt í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu en ekki er hægt að halda því fram sú áætlun sé fullfjármögnuð þar sem áætlunin hefur ekki verið kostnaðarmetin að fullu. Töluvert vantar upp á metnað ríkisstjórnarinnar í málefnum fjölmiðlunar og persónuverndar og hvað varðar vernd réttinda einstaklinga eins og má sjá í áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Lítill áhugi virðist á því að bæta stöðu útlendinga og fanga á tímabilinu.
    Sérstaka athygli vekur að í fjármálaáætlun er einungis gert ráð fyrir 10% hækkun kolefnisgjalds árið 2019 og öðrum 10% árið 2020. Þar með yrði hækkunin komin í 71% árið 2020 en í síðustu fjármálaáætlun var gert ráð fyrir að sú hækkun yrði 100%. 2. minni hluti telur að hvorki með þessu né öðrum tilteknum aðgerðum í fjármálaáætlun séu skapaðar forsendur til ná markmiði ríkisstjórnarinnar um 40% samdrátt í losun koldíoxíðs, sem er í samræmi við þátttöku í samstarfi Evrópuþjóða.
    Í fjármálaáætluninni kemur fram að íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum til þróunarsamvinnu. 2. minni hluti tekur heils hugar undir þau markmið en telur útgjaldaáætlun fyrir þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk ófullnægjandi.

Skattastefna hina ríku.
    Margir hafa komið fyrir fjárlaganefnd og bent á að skattalækkanirnar sem reiknað er með í fjármálaáætluninni séu illa ígrundaðar og betra væri að styrkja tekjuöflun ríkisins nú þegar vel árar. Þessa gagnrýni er m.a. að finna í umsögn fjármálaráðs. Meiri hlutinn lætur ekki mikið með þá umsögn og horfir fram hjá þyngstu athugasemdunum. Uppsöfnuð áhrif skattabreytinga fjármálaáætlunarinnar eru um 24,5 milljarða kr. sem að mati 2. minni hluta væri hægt að ráðstafa með sanngjarnari og skynsamlegri hætti en gert er í fjármálaáætluninni.
    Með fjármálaáætlunin er verið að veikja tekjustofna ríkisins og þá með mjög ójöfnum hætti. ASÍ lýsti yfir miklum áhyggjum af því að ríkisvaldið væri ætíð að taka þær kjarabætur sem þó næðust á vinnumarkaðinum vegna stefnu sinnar í skatta- og bótamálum. Nær væri að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins og styðja betur við börn og fólk sem leigir á dýrum og ótryggum leigumarkaði í stað þess að minnka stuðninginn við þessa viðkvæmu hópa.
    Til viðbótar á hugsanlega að endurskipuleggja fjármagnstekjuskattskerfið þannig að fjármagnseigendur fái vernd gegn verðbólgu, vernd sem launafólk býr ekki við.
    Flöt lækkun tekjuskatts, eins og segir á blaðsíðu 15 í fjármálaáætluninni, gagnast best þeim sem hæstar tekjurnar hafa. 1 prósentustigs lækkun á tekjuskatti færir einstaklingi á lágmarkslaunum um þrisvar sinnum lægri upphæð í skattalækkun heldur en milljón-króna-manninum. Þessi lækkun tekjuskatts kostar ríkissjóð um 14 milljarða kr. sem að mati 2. minni hluta væri hægt að ráðstafa betur.
    Samfylkingin vill að tekjuskattur sé þrepaskiptur og gegni því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Þá hefur Samfylkingin viljað endurskoða bilin milli skattþrepa, fjölga skattþrepunum og tryggja sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið. Þá hefur Samfylkingin talað fyrir lækkun tryggingagjalds en þannig væri stutt við uppbyggingu vel launaðra starfa í mannaflsfrekum þekkingargreinum og í alþjóðageiranum.
    Nauðsynlegt er að styrkja tekjustofna sveitarfélaga sem sinna stórum og mikilvægum verkefnum. Stærri hlutur sveitarfélaga í tekjum ríkisins af ferðamönnum væri sanngjarn, enda skilja ferðamenn eftir sig stærri spor en tekjur flestra sveitarfélaga ráða við að bæta og tekjurnar duga sjaldnast heldur til að byggja upp innviði til að fyrirbyggja eyðileggingu vegna álags.
    Þá telur 2. minni hluti það vera sérkennilega forgangsröðun að lækka bankaskattinn svokallaða en sú lækkun kostar um 7,3 milljarða kr.

Aukinn arður af auðlindum til þjóðarinnar.
    Annar minni hluti vill árétta að það er afar mikilvægt að arðurinn af auðlindum landsins nýtist til að bæta lífskjör landsmanna og standa undir fjármögnun öflugs velferðarkerfis. Þar þarf að horfa sérstaklega til þess að ríkið innheimti sanngjarna auðlindarentu í sjávarútvegi. Þá bendir 2. minni hluti á það augljóslega glataða tækifæri sem í þessu málefnasviði liggur til aukinnar tekjuöflunar, en útgerðarfyrirtæki greiða í dag veiðigjald sem er langt undir markaðsverði kvóta. Það má sjá til að mynda af nýafstöðnu útboði Færeyinga á kolmunnakvóta. Gera má ráð fyrir að ef Íslendingar gerðu slíkt hið sama og fengju sambærilegt verð fengi ríkissjóður um 1,5 milljarði kr. meira en hann gerir í dag. Það hljóta því að vera vonbrigði að í fjármálaáætlun er engin áætlun um að sanngjarn hluti auðlindarentunnar renni til þjóðarinnar. Útboð á hluta kvóta gæti nýst til að ákvarða veiðigjöld og gæti verið grundvöllur sáttar um gjaldtöku af greininni.
    Annar minni hluti leggur einnig áherslu á eðlilega gjaldtöku af orkuvinnslu og að innheimtar verði tekjur af ferðamönnum, bæði til þess að standa undir uppbyggingu við ferðamannastaði og öðrum kostnaði vegna komu þeirra, svo sem í heilbrigðiskerfinu, við löggæslu og björgunarstörf og viðhald vega. 2. minni hluti telur löngu tímabært að útfærðar verði leiðir til að fá auknar tekjur af ferðamönnum. Þar sem atvinnugreinin þarf aðlögunartíma og er að ganga í gegnum breytingar skiptir hvert ár máli.
    Til að tryggja sanngjarnan arð af auðlindunum verður t.d. að horfa til útboðs aflaheimilda og álagningar nýrra raforku- eða umhverfisskatta og að auka tekjur af erlendum ferðamönnum. Arðurinn ætti að ganga til sveitarfélaga, í sóknaráætlanir og til heilbrigðiskerfisins og annarrar innviðauppbyggingar sem nýtist landsmönnum öllum.

Breytingartillögur 2. minni hluta við fjármálaáætlun.
    Annar minni hluti leggur til nokkrar breytingartillögur við fjármálaáætlunina sem taka til sérhvers árs í áætluninni. En í ljósi þess að 2. minni hluti leggur ekki fram fullmótaða fjármálaáætlun er ekki um að ræða tæmandi upptalningu á þeim breytingum sem hann myndi gera ef hann legði fram fullmótaða fjármálaáætlun. Hér á eftir sýnir 2. minni hluti einnig hvernig hann sér fyrir sér fjármögnun þessarar breytingartillagna en þær eru að fullu leyti fjármagnaðar.
     1.      Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri (málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta), fjárframlög aukist um 6 milljarða kr.
     2.      Barnabætur (málefnasvið 29 Fjölskyldusvið), fjárframlög aukist um 3 milljarða kr.
     3.      Vaxtabætur (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur), fjárframlög aukist um 2 milljarða kr.
     4.      Framhaldsskólar (málefnasvið 20 Framhaldsskólastig), fjárframlög aukist um 400 millj. kr.
     5.      Háskólar (málefnasvið 21 Háskólastig), fjárframlög aukist um 3 milljarðar kr.
     6.      Samgöngur (málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál), fjárframlög aukist um 1 milljarð kr.
     7.      Aldraðir (málefnasvið 28 Málefni aldraða), fjárframlög aukist um 1,5 milljarð kr.
     8.      Öryrkjar (málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks), fjárframlög aukist um 3 milljarð kr.
     9.      Stofnframlög til almennrar íbúða (málefnasvið 31 Húsnæðisstuðningur), fjárframlög aukist um 1,5 milljarða kr.
     10.      Heilbrigðisþjónusta út á landi með almenna sjúkrahúsþjónustu (málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta), fjárframlög aukist um 500 milljónir kr.
     11.      Heilsugæsla (málefnasvið 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa), fjárframlög aukist um 400 millj. kr.
     12.      Þróunarsamvinna (málefnasvið 4 Utanríkismál), fjárframlög aukist um 900 millj. kr.

Fjármögnun breytingartillagna.
    Séu dregin saman áhrif breytingartillagna 2. minni hluta, eru heildaráhrifin á ríkissjóð rúmlega 23 milljarðar kr. sem hægt er að fjármagna með betri nýtingu tekjustofna ríkisins og annarri forgangsröðun í skattamálum.
    Það er skemmst frá því að segja að fyrirhugaðar skattabreytingar ríkisstjórnarflokkanna sem kynntar eru í fjármálaáætluninni kosta ríkissjóð um 24,5 milljarð kr.
    Þessar tillögur 2. minni hluta mætti fjármagna með tvenns konar hætti. Annars vegar með því að hætta við eða breyta þeim skattabreytingum sem boðaðar eru í fjármálaáætluninni og hins vegar með auknum tekjum ríkissjóðs.
    Í fyrsta lagi, sé litið til hugsanlegra breytinga á skattahugmyndum fjármálaáætlunarinnar, kemur í ljós að með því að falla frá 1 prósentustigs lækkun tekjuskatts hefði ríkissjóður um 14 milljörðum kr. meira handa á milli á ári.
    Þá kostar niðurfelling bankaskattsins 7,3 milljarða kr. þegar sú breyting er að fullu komin til framkvæmda.
    Hér er því um ræða 21 milljarð kr. árlega sem þessar tvær skattabreytingar kosta en sú upphæð fer langleiðina að fjármagna útgjaldahugmyndir 2. minni hluta.
    Þá vekur Samfylkingin athygli á því að skattafsláttur í formi samnýtingar skattþrepa sem í raun vinnur gegn jafnrétti kostar um 2,7 milljarða kr. Um 93% af endurgreiðslunni nýtist til hækkunar ráðstöfunartekna karla og hvetur samnýtingin til minni atvinnuþátttöku tekjulægri maka í samsköttun, sem oftast eru konur.
    Hér er því að ræða um samanlagt 24 milljarða kr. sem hægt væri að ráðstafa með öðrum hætti en gert er í fjármálaáætluninni.
    Í öðru lagi kynnir 2. minni hluti hugmyndir um auknar tekjur ríkissjóðs upp á 11–20 milljarða kr. frá því sem finna má í fjármálaáætluninni.
    Það er hins vegar augljóst að Samfylkingin leggur ekki fram fullmótaða fjármálaáætlun eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert. Þess vegna vill 2. minni hluti leggja áherslu á að hefði Samfylkingin verið í ríkisstjórn hefði fjármögnun annarra og fleiri verkefni komið til greina. Þá hefði tekjugrunnur ríkisins verið styrktur samhliða slíkri útgjaldaaukningu en ekki verið veiktur eins og er gert í fyrirliggjandi fjármálaáætlun.
    Annar minni hluti vill þó reifa nokkrar hugmyndir um auknar tekjur fyrir ríkisvaldið sem hefðu komið til greina ef Samfylkingin hefði verið í ríkisstjórn.

Hugsanlegar nýjar tekjur ríkisins:
     1.      Aukin auðlindagjöld.
     2.      Hækkun fjármagnstekjuskatts.
     3.      Auknar tekjur af erlendum ferðamönnum.
     4.      Hækkun kolefnisgjalds.
     5.      Tekjutengdur auðlegðarskattur.
     6.      Hert skatteftirlit.
     7.      Auknar arðgreiðslur úr bönkunum.
    Sé einungis litið til fyrrgreindra hugmynda um auknar tekjur ríkisins væri hægt að auka ríkistekjur um 11–20 milljarða kr. árlega umfram það sem fjármálaáætlun gerir ráð fyrir. Þannig væri hægt að fjármagna nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins.
    Ef þetta er tekið saman, 24 milljarðar kr. sem verða til ráðstöfunar vegna breytinga á fyrirhugaðri lækkun á tekjuskatti og bankaskatti ásamt niðurfellingu samsköttunar og um 11 milljarðar kr. í auknum tekjum vegna framangreindra tekjuleiða (hér er beitt varfærnu mati og ekki stuðst við tekjur af auknum arðgreiðslum úr bönkunum), væri um að ræða samanlagt um 35 milljarða kr. svigrúm fyrir ríkissjóð til að setja í frekari innviðauppbyggingu og aukinn jöfnuð í samfélaginu.
    Framangreindar breytingartillögur 2. minni hluta upp á rúmlega 23 milljarða kr. væru því að fullu fjármagnaðar.

Enn þarf að bíða eftir réttlæti.
    Barnafólk, milli- og lágtekjufólk, sjúklingar, aldraðir og öryrkjar og í raun allur almenningur er því illa svikinn af fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þá eru tekjumöguleikar hins opinbera illa nýttir og bitnar það á nauðsynlegri uppbyggingu innviða í samfélaginu. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna er langt í frá að svara kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í meginstoðum samfélagsins og er órafjarri því sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð lofaði fyrir kosningar.
    Núverandi forsætisráðherra sagði í fyrra: „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti“. Því miður staðfestir fjármálaáætlun forsætisráðherrans að stjórnvöld eru einmitt að gera það.

Sameiginlegar ábendingar fjárlaganefndar.
    Að lokum vekur 2. minni hluti athygli á nokkrum sameiginlegum ábendingum fjárlaganefndar en meiri og minni hlutar nefndarinnar komu sér saman um eftirfarandi texta:

Sameiginlegar ábendingar fjárlaganefndar Alþingis um fjármálaáætlun 2019–2023.
    Fjárlaganefnd vekur athygli á nokkrum þáttum varðandi útgjaldaþróun málefnasviða sem ýmist eru byggðir á athugunum fjárlaganefndar, umsögnum annarra fastanefnda eða á þáttum sem fram hafa komið á fundum með umsagnaraðilum. Ábendingar um uppbyggingu, framsetningu og umfjöllun áætlunarinnar eru eftirfarandi:
     1.      Umfjöllun um fjárfestingar þarf að vera ítarlegri. Nauðsynlegt er að gera ítarlega grein fyrir fjárfestingum, sérstaklega umfangsmestu opinberu fyrirtækjanna, sem hafa mikil áhrif á hagvöxt og afkomumarkmið. Sem dæmi má nefna að fyrirhugaðar fjárfestingar Isavia á allra næstu missirum slaga í helming af allri árlegri fjárfestingu A-hluta ríkisins.
     2.      Brýnt er að leggja enn meiri áherslu á að fara yfir, greina og bregðast við ábendingum fjármálaráðs. Nefndinni er kunnugt um að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur þetta verkefni með höndum en leggja þarf meiri áherslu á það, sérstaklega að útbúa nýtt áætlunarlíkan fyrir þjóðarbúskapinn sem taki meira tillit til ríkisfjármála en núverandi líkan sem útbúið var af Seðlabanka Íslands og er einkum hugsað til að styðja ákvarðanir um peningastefnu. Markmiðið er að tryggja betur samræmi ríkisfjármála- og peningastefnu.
     3.      Bæta þarf við greinargerð áætlunarinnar ýmsum dæmum og sviðsmyndum sem sýni hversu viðkvæm áætlunin er fyrir óvæntum breytingum, t.d. ef hagvöxtur reynist minni en spár gera ráð fyrir vegna gengisbreytinga eða frávika í efnahagslegum þáttum. Greinargerðin er reyndar mun ítarlegri og betri að þessu leyti en sú sem fylgdi fyrri áætlun en enn má gera betur í þessum efnum.
     4.      Einfalda þarf og fækka markmiðum stjórnvalda og þau þarf að kostnaðar- og ábatameta. Tryggja þarf að þau nái utan um meginstefnu fjármálaáætlunar og helstu aðgerðir sem tengjast henni. Gera verður kröfu um að mælikvarðar á árangur markmiða séu skilgreindir og mælanlegir.
     5.      Fastanefndir Alþingis eru stöðugt að móta verklag við úrvinnslu mála sem tengjast lögum um opinber fjármál. Fjármálaáætlun og umfjöllun um hana kallar á meira samstarf milli nefnda en önnur mál. Hluti af því verklagi sem er í mótun snýr að auknu samstarfi milli nefnda sem þyrfti að vera nánara varðandi tölugrunn, ýmsa tölfræði og talnalegan samanburð sem fjárlaganefnd hefur tekið saman en hefur ekki nýst öðrum nefndum sem skyldi. Forgangsraða þarf verkefninu betur af hálfu nefndanna þar sem ætlunin er að öll helstu meginmarkmið og áherslur stjórnvalda komi fram í fjármálaáætlun og öll lagafrumvörp ríkisstjórnar hverju sinni eiga að rúmast innan hennar.
     6.      Við framsetningu áætlunarinnar er mikilvægt að með tekjukaflanum fylgi skýrt samandregið yfirlit um áhrif þeirra breytinga á skattkerfinu sem boðaðar eru á tíma áætlunarinnar. Bent er á mikilvægi þess að fyrir liggi greiningar og mat á hugsanlegum áhrifum skattkerfisbreytinga á lykilstærðir þjóðarbúsins. Einnig þarf að meta áhrif mögulegra breytinga á aðra skattstofna ríkissjóðs, samspil við bótakerfi og tekjudreifingu ólíkra hópa.
     7.      Efla þarf samkeppnis- og verkefnasjóði og styðja við rannsóknir og nýsköpun.
     8.      Enn er óleystur ágreiningur ríkis og þjóðkirkju um fjárhagsleg samskipti þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar þar um og bráðabirgðafjárveitingar í fjáraukalögum. Brýnt er að niðurstaða fáist í málið fyrir fjárlagagerð ársins 2019.
     9.      Tryggja þarf samræmi milli kröfulýsingar sem hjúkrunarheimilum er ætlað að starfa eftir og daggjalda sem fjármagna rekstur þeirra. Áfram verði unnið að því markmiði með nýjum samningum.
     10.      Stefnumörkun um gjaldtöku til að fjármagna uppbyggingu í samgöngum þarf að liggja fyrir sem allra fyrst. Taka þarf tillit til áhrifa af umfangi hugsanlegra einkaframkvæmda á ríkisfjármálaáætlun hverju sinni.
     11.      Tekið er undir með fjármálaráði um að mikilvægt sé að greina hugsanleg áhrif samdráttar í ferðaþjónustu á afkomu hins opinbera. Nú þegar eru vísbendingar um að verulega hafi hægst á vexti í ferðaþjónustu og þróun á fyrstu mánuðum þessa árs benda til þess að víða geti orðið samdráttur.
     12.      Gert er ráð fyrir hækkun framlaga til háskóla og þar er nauðsynlegt að beina sjónum að bættum gæðum háskólastigsins samhliða samanburði útgjalda sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu við OECD-ríkin og önnur ríki Norðurlanda.
     13.      Á þremur málefnasviðum velferðarráðuneytis hefur ekki tekist nægilega vel að stýra útgjöldum fram til þessa. Það á við um örorkumálefni, lyfjakostnað og samninga við lækna utan sjúkrahúsa. Úrlausn þeirra mála hefur ekki haft nægilegan forgang hjá stjórnvöldum. Nefndin bendir á að bara á einu ári, frá 2017 til 2018, hækka rekstrargjöld þessara málefnasviða samtals um 15,6 milljarða kr., eða rúm 13%. Fjárlaganefnd hefur nú þegar kallað eftir ítarlegum gögnum og skýringum á útgjaldaaukningu vegna örorku, m.a. óskað eftir yfirliti um sambærilega þróun í nágrannalöndunum og kallað eftir aðgerðum til úrbóta. Nefndin mun fylgja málinu eftir enda um að ræða eina mestu áskorun ríkisfjármálanna á næstu árum.
     14.      Í þingsályktunartillögunni er ekki greint á milli fjárfestingarútgjalda og rekstrargjalda. Nú er bætt úr þessu með töfluviðauka sem fram kemur á heimasíðu ráðuneytisins en er ekki að finna í áætluninni sjálfri. Fjárlaganefnd leggur til að fjárfestingarútgjöld verði sérgreind framvegis.
     15.      Í þingsályktunartillögunni er viðhaldskostnaður ekki sérgreindur. Í ljósi þess hve viðhald er umfangsmikið í rekstri ríkisins leggur fjárlaganefnd til, þrátt fyrir að upphaflega hafi ekki verið gert ráð fyrir því, að veittar verði upplýsingar um þann kostnað og hvernig hann skiptist milli vegaframkvæmda, húsnæðis og helstu flokka efnislegra eigna.
     16.      Umfjöllunin er ítarlegri en áður, en ýmislegt má bæta, t.d. má tengja umfjöllun enn betur við grunngildin skv. 6. gr. laga um opinber fjármál, en þau eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.
     17.      Svokallað grunndæmi var útbúið sem sýnir framreikning gjalda og tekna miðað við gildandi lög og reglur og felur í sér útgjöld og tekjur óháð ákvörðunum stjórnvalda, svo sem áherslur úr stjórnarsáttmála og áhrif væntanlegra lagabreytinga. Fjárlaganefnd leggur til að grunndæmið verði hluti af framsetningu fjármálaáætlunar.
     18.      Bent er á að fjármálareglur og grunngildi geta rekist á þegar um samdrátt er að ræða í hagkerfinu. Afkomuregla og skuldaregla gætu gengið gegn grunngildi um stöðugleika og óljóst er hvernig beita eigi opinberum fjármálum til aukins stöðugleika við slíkar aðstæður.
     19.      Árangur hefur náðst í að greiða niður skuldir ríkisins. Sú þróun skýrist aðallega af einskiptistekjum og auknum hagvexti frekar en góðri afkomu. Nefndin áréttar mikilvægi þess að haldið verði áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs.
     20.      Bent er á að grunngildin vísa til efnahagslegra atriða fremur en rekstrarlegra álitamála og úrlausnarefna í stefnumótun málefnasviða. Fjármálaráði er því ekki ætlað samkvæmt lögum um opinber fjármál að fjalla um stefnumótun málefnasviða nema að takmörkuðu leyti.

Fylgiskjöl.
    Annar minni hluti minnir á umsagnir annarra þingmanna Samfylkingarinnar í fagnefndum þingsins en þar koma fram fjölmargar gagnlegar ábendingar og gagnrýni á fjármálaáætlunina. Þessi álit fylgja hér sem fylgiskjöl.

Alþingi, 4. júní 2018.

Ágúst Ólafur Ágústsson.




Fylgiskjal I.


Umsögn minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar frá 17. apríl sl. fjallað um málið. Fjárlaganefnd óskaði eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd gæfi umsögn sína um eftirtalin málefnasvið: 02 Dómstólar, 09 Almanna- og réttaröryggi, 10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála, 18 Menning, listir, íþróttir og æskulýðsmál, 19 Fjölmiðlun, 20 Framhaldsskólastig, 21 Háskólastig og 22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.

Almennt um fjármálaáætlun.
    Fjármálaáætlun hefur að geyma stefnu til næstu fimm ára fyrir aðskiljanleg málasvið opinberra fjármála. Þar er leitast við að meta tekjur ríkissjóðs og útgjöld hvers málasviðs. Útgjaldarammar eru ákveðnir og fjármunum síðan skipt í fjárlagafrumvörpum af ráðuneytum niður á málaflokka og stofnanir og einstök viðfangsefni innan þeirra. Fjármálaáætlun er endurskoðuð árlega en með samþykkt fjármálaáætlunar fyrir árin 2019–2023 eru rammar fyrir fjárlagafrumvarp 2019 ákveðnir. Þeim römmum verður því ekki breytt nema verulegar breytingar verði á afkomu ríkissjóðs frá vori 2018 að hausti sama árs. Heildarjöfnuður þarf ávallt að vera jákvæður og árlegur halli má aldrei vera meiri en 2,5% af vergri þjóðarframleiðslu. Um leið og fjármálaráð staðfestir í umsögn sinni að þessi afkomuregla sé uppfyllt í áætluninni tekur ráðið sérstaklega fram að það leggi ekki mat á það hversu líklegt sé að „afkomureglan verði uppfyllt“ við framkvæmd áætlunarinnar.
    Í athugasemdum sínum við þessa áætlun hefur fjármálaráð bent á að sá sveigjanleiki sem boðaður var í fyrri fjármálaáætlun sé nú að mestu leyti horfinn. Það má því lítið út af bregða verði ekki gripið til aðgerða sem auka tekjur ríkissjóðs, en ríkisstjórnin hefur ekki haft uppi slík áform.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru gefin fyrirheit um stórfellda uppbyggingu innviða á sviðum sem lengi hafa verið vanrækt, þar á meðal í mennta- og menningarmálum. Oft hefur verið rætt um „stórsókn í menntamálum“ af fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Í ljósi þess veldur þessi fjármálaáætlun vonbrigðum. Framlög til háskóla munu t.d. ekki ná markmiðum um að ná meðaltali OECD-ríkjanna og síðar Norðurlandanna á tímabilinu eins og lofað var, og innan framlaga til háskóla eru stórar byggingarframkvæmdir við Hús íslenskra fræða og fjárfrek sérverkefni á sviði tungutækni. Til framhaldsskóla verður ekki varið auknu fjármagni nema nokkurn veginn sem svarar því sem sparaðist við styttingu framhaldsskólanna. Framlög til lista og menningar munu beinlínis lækka á tímabilinu.
    Svipaða sögu er að segja um framlög til löggæslunnar í landinu sem munu ekki svara þörf fyrir meiri mannafla í lögreglunni til að mæta auknum ferðamannastraumi og alls kyns nýjum verkefnum. Því ber að fagna að fjármagn skuli veitt í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu en ekki er hægt að halda því fram sú áætlun sé fullfjármögnuð þar sem áætlunin hefur ekki verið kostnaðarmetin að fullu. Töluvert vantar upp á metnað ríkisstjórnarinnar í málefnum fjölmiðlunar, persónuverndar og hvað varðar vernd réttinda einstaklinga. Lítill áhugi virðist á því að bæta stöðu útlendinga og fanga á tímabilinu. Þá missa markmið og áherslur ríkisstjórnarinnar í dómsmálum marks og eru ekki til þess fallin að efla traust á dómstólum.

02 Dómstólar.
    Málefnasvið dómstóla skiptist í fjóra málaflokka, en þeir eru Hæstiréttur, héraðsdómstólar, Landsréttur og dómstólasýslan. Undanfarið ár hafa staðið yfir veigamiklar breytingar á meðferð dómsmála á Íslandi með tilkomu Landsréttar sem áfrýjunardómstóls og dómstólasýslunnar sem stjórnsýslustofnunar. Endurspeglast þessar breytingar í fjárheimildum til málefnasviðsins þar sem útgjöld hafa þróast frá árinu 2016 úr 2.210 millj. kr. í 3.144 millj. kr. árið 2018. Á tímabilinu til 2023 er áætlað að útgjöld muni haldast nokkuð óbreytt en samkvæmt áætlun fyrir árið 2023 munu útgjöld verða 3.114 millj. kr. Sökum þess hve miklar breytingar hafa orðið á hérlendum dómstólum undanfarin missiri er nokkuð erfitt að meta fjárþörf þeirra þar sem reynslu skortir hvað varðar málarekstur í dómskerfinu undir nýju fyrirkomulagi. Í fjármálaáætlun virðist þó höfuðáhersla vera lögð á að auka ekki fjárþörf dómstólanna, þrátt fyrir tvær nýjar stofnanir á því sviði.
    Á málefnasviðinu er að finna tvö markmið. Hið fyrra er að aðgangur að dómstólum sé greiður, málsmeðferð sé skilvirk og réttlát og mannréttindi séu virt, að dómstólar njóti trausts. Mælikvarði á þetta markmið er skilgreindur sem fjöldi mála, tegund og málsmeðferðartími. Ekki eru gefin nein sérstök viðmið til að miða að, en fram kemur að viðmið verði unnin á árinu 2018. Minni hlutinn lýsir vonbrigðum með það að mælikvarðar á markmiðið skuli vera svo óskýrir, og að engin viðmið liggi fyrir. Þannig er ómögulegt að meta hvernig vinnu miðar að þessu markmiði þegar komið verður að endurskoðun fjármálaáætlunar. Svo óskýr stefnumótun verður seint talin vera í samræmi við 1. mgr. 20. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem gerir kröfu um að gerð sé grein fyrir hvernig markmiðum verði náð, ábyrgðarskiptingu, tímasetningum, nýtingu fjármuna og áherslum við innkaup.
    Eina aðgerðin sem tengist framangreindu markmiði um að efla traust á dómstólum er endurnýjun málaskrár héraðsdómstóla. Það er því með öllu óljóst hvernig ríkisstjórnin hyggst ná fram því markmiði að dómstólar njóti trausts. Minni hlutinn telur að slíku markmiði megi einungis ná með því að vandað sé til verka á öllum sviðum, svo sem við stjórnsýslu dómstólanna og skipan dómara. Skipan dómara hefur ekki verið með þeim hætti að það auki traust til dómstólanna.
    Annað markmið sem kemur fram á málefnasviði dómstóla er að öryggi almennings, gagna og upplýsinga sé tryggt. Ástæða er til að fagna þessu markmiði þar sem viðvarandi vandamál hafi verið uppi um öryggi og vernd persónuupplýsinga innan dómstólanna.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að gert er ráð fyrir fjármögnun verkefna varðandi endurnýjun málaskrárkerfa og annarra upplýsingakerfa. Í áætluninni kemur fram að á árinu 2018 var fjárheimild aukin tímabundið um 50 millj. kr. til endurnýjunar á málaskrá héraðsdómstóla, skjalahreinsunar og frágangs skjala, jafnframt að gert sé ráð fyrir að þessi aukning verði gerð varanleg í ramma. Einnig kom fram að Hæstiréttur er að endurnýja sína málaskrá. Þess ber að geta að fjárlög fyrir árið 2018 gerðu einnig ráð fyrir því að lögreglan fengi 40 millj. kr. tímabundið framlag til uppfærslu rannsóknarhugbúnaðar, upplýsinga og gæðastaðla lögreglu. Eins fóru 80 millj. kr. til uppbyggingar upplýsingatæknikerfis fyrir réttarvörslukerfið en þessum 120 millj. kr. var ráðstafað sem hluta þeirra fjármuna sem áætlað var að verja í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu.
    Minni hlutinn telur að fjármögnun viðbótarverkefna dreifist á of langan tíma og á of mörg málefnasvið í ljósi þess hve mikilvægt er að samræma málaskrárkerfi dómstólanna til þess að bæta upplýsingaflæði og þar með réttaröryggi. Minni hlutinn leggur áherslu á að dómstólunum verði tryggðir nægir fjármunir til þess að ljúka þessum umbótum að fullu og hraðar en fjármálaáætlunin gerir nú ráð fyrir.

09 Almanna- og réttaröryggi.
    Starfsemi málefnasviðsins skiptist í fimm málaflokka, þ.e. löggæslu, landhelgi, ákæruvald og réttarvörslu, réttaraðstoð og bætur og fullnustumál.
    Í fjármálaáætluninni kemur fram að meginbreyting á útgjöldum málefnasviðsins snýr að áformum um kaup á þremur nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna en áætlað er að verja samtals 14 milljörðum kr. á tímabilinu til kaupanna. Þá er gert ráð fyrir að verja 3,5 milljörðum kr. til að bregðast við alvarlegum aðfinnslum við landamæravörslu á grundvelli Schengen-úttektar. Þá verða rúmlega 7,5 milljarðar kr. veittir í eflingu löggæslu, landhelgisgæslu og fullnustumál.
    Minni hlutinn telur í meira lagi vafasamt að fyrirliggjandi fjármálaáætlun tryggi að unnt verði að manna nýjar þyrlur með fullnægjandi hætti og að unnt verði að tryggja að flugvél Landhelgisgæslunnar geti sinnt nauðsynlegri þjónustu. Minni hlutinn telur varhugavert að skapa falskt öryggi með kaupum á búnaði sem ekki er hægt að nýta nema að takmörkuðu leyti vegna þess að fé til rekstrar er skorið við nögl.
    Minni hlutinn telur fulla ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum lögreglu. Markmið í málaflokknum í fjármálaáætlun eru þrjú: besta mögulega þjónustustig, hæsta mögulega öryggisstig og traust og heiðarleg lögregla.
    Eitt af viðmiðum fyrir árið 2023 fyrir besta mögulega þjónustustig er að „Útkallsökutæki er laust og mannað til að sinna útkalli í 90% tilvika í forgangsflokkum F1 og F2 …“ Í forgangsflokkum F1 og F2 eru þau útköll þegar forgangsljós eru notuð til að komast á vettvang og er lýst sem svo í skýrslu um skilgreiningu á grunnþjónustu lögreglunnar frá 2009:
    „F1: Lögreglan er send á vettvang með forgangsakstri án tafar. Talin er þörf á lífsbjargandi aðstoð“ og „F2: Lögreglan er send á vettvang með forgangsakstri án tafar. Þörf er á skjótri aðstoð lögreglu svo sem á slysavettvang þar sem sjúkrabifreið er þegar komin á staðinn eða um yfirstandandi afbrot er að ræða.“
    Minni hlutinn telur óásættanlegt að ríkisstjórnin telji 90% árangur í mönnun forgangsútkalla vera viðunandi sem viðmið fyrir málaflokkinn.
    Þriðja markmið málaflokksins snýr að trausti og heiðarleika lögreglu. Aðgerðir og viðmið þar snúa öll að kerfislægum þáttum löggæslu, svo sem störfum eftirlitsnefndar og uppfærslu tölvukerfa. Hvergi er minnst á aukna þjálfun lögreglumanna né aðgerðir til að huga að andlegu heilbrigði og tengslamyndun við nærsamfélagið, en minni hlutinn telur að slíkar aðgerðir mundu gagnast lögreglu meira en miðlægar kerfisbreytingar. Þar að auki er hvergi minnst á undirmönnun lögreglu sem er einn helsti streituvaldur lögreglumanna og orsök fjölmargra mistaka sem hæglega væri hægt að koma í veg fyrir.
    Þrátt fyrir að minnst sé á nýliðunarvanda lögreglu og inntöku nýnema í lögreglunám undir kaflanum „Helstu áskoranir“ og tilkynnt þar að ráðist verði í átak þar að lútandi er hvergi að finna í kaflanum „Markmið, mælikvarðar og aðgerðir“ að nokkurt fé verði veitt til þess að takast á við nýliðunarvandann. Þetta gerir það að verkum að ófaglærðum lögreglumönnum mun fjölga sem eykur enn hættuna á mistökum og dregur úr öryggistilfinningu borgaranna.
    Minni hlutinn tekur undir áhyggjur þeirra sem fara með löggæslu í landinu að fjármálaáætlunin rúmi ekki nauðsynlega fjölgun lögreglumanna, styrkingu sérhæfðra deilda innan lögreglunnar, endurnýjun búnaðar og nauðsynlega þjálfun lögreglu til að takast á við ný verkefni.
    Minni hlutinn fagnar því að fjármálaáætlun geri ráð fyrir verulegum fjármunum til þess að uppfylla aðgerðaáætlun um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. Eftir sem áður hefur minni hlutinn hvergi fengið staðfestar endurteknar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að fjármálaáætlunin feli í sér fullfjármögnun áætlunarinnar. Raunar eru margir þættir áætlunarinnar enn óútfærðir og því liggur ekki fyrir hvað þeir muni kosta. Engin heildstæð kostnaðargreining á aðgerðaáætluninni liggur fyrir og fátt var um svör þegar gestir nefndarinnar voru spurðir um samráð ríkisstjórnarinnar við hagsmunaaðila og þær stofnanir sem áætlunin snertir.
    Minni hlutinn hvetur ríkisstjórnina til dáða í framkvæmd aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrotamála en telur ekki innstæðu fyrir því að staðhæfa að hún sé fullfjármögnuð. Sömuleiðis hvetur minni hlutinn ríkisstjórnina til þess að efla samráð og samstarf við hagsmunahópa og viðkomandi stofnanir til þess að kostnaðarmat og framkvæmd áætlunarinnar verði lokið sem fyrst.
    Minni hlutinn telur að þegar í stað verði að bregðast af fullum þunga við ófremdarástandi sem ríkir í fangelsis- og afplánunarmálum. Markmið ríkisstjórnarinnar fyrir endurhæfingu, meðferðarúrræði, sálgæslu og menntunar- og starfskosti fanga eru óskýr og óútfærð. Heilsugæsla fanga er afgangsstærð og allt of lítið er um úrræði fyrir fanga að afplánun lokinni.
    Það er ekki vansalaust að ekki hafi tekist að koma nýjasta fangelsi landsins á Hólmsheiði í fullan rekstur. Ríkisfjármálaáætlun sýnir fram á talsvert áhugaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart því að koma upp raunverulegri betrunarstefnu á Íslandi, samfélaginu öllu til heilla. Á meðan ekki er hægt að opna fangelsi á Íslandi mun biðlisti þeirra sem bíða óskilorðsbundinnar refsingar halda áfram að lengjast. Nú bíða um 570 manns eftir því að fá að hefja afplánun í kjölfar refsidóma og því til viðbótar bíða 3.052, eða um 0,8% þjóðarinnar, eftir því að hefja afplánun vararefsingar fésekta. Aðeins um 150–170 manns á ári taka út vararefsingu fésekta, annaðhvort með samfélagsþjónustu eða afplánun. Það er morgunljóst að einnig þarf að gera bragarbót í þessum málaflokki af því að enginn hvati er til þess að borga fésektir.

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla.
    Starfsemi málefnasviðsins skiptist í fimm málaflokka, þ.e. persónuvernd, trúmál, sýslumenn, stjórnsýslu dómsmálaráðuneytis og útlendingamál.
    Helsta útgjaldabreyting málefnasviðsins snýr að styrkingu á starfsemi Persónuverndar. Með gildistöku nýrrar Evrópureglugerðar á sviði persónuverndar eru fram undan verulegar breytingar á starfsemi og hlutverki stofnunarinnar.
    Almenna persónuverndarreglugerðin (e. General Data Protection Regulation) er eitt mikilvægasta framfaraskref á sviði persónuverndar um árabil. Um mjög viðamiklar breytingar er að ræða sem felast bæði í auknum réttindum einstaklinga gagnvart aðilum sem halda utan um persónuupplýsingar og verulega auknum rétti þeirra til að tryggja þau réttindi.
    Fyrirséð er að reglugerðin muni taka lagagildi á Íslandi á árinu og því augljóst að sú stofnun sem heldur utan um persónuverndarmál á Íslandi, Persónuvernd, þurfi aukið bolmagn til þess að aðstoða íslenska aðila við að fóta sig í gegnum þessar breytingar og hafa almennt eftirlit með þeim, ekki síst þar sem reglugerðin sjálf kallar eftir auknu almennu eftirliti með stöðu persónuverndarmála.
    Umtalsverð aukning á fjárveitingum til Persónuverndar er fyrirhuguð og er það vel. Hins vegar verður ekki hjá því litið að reglugerðin er tekin seint upp í lög hérlendis og hefur reglugerðin reyndar þegar tekið lagagildi í Evrópusambandinu öllu. Ástæður þeirra tafa eru margvíslegar og verða ekki reifaðar í þessu áliti. Lítil umræða hefur átt sér stað hérlendis miðað við þá sem hefur farið fram í Evrópusambandinu og má gera ráð fyrir því að íslenskir aðilar sem halda utan um persónuupplýsingar séu verr undirbúnir en hinir evrópsku. Til viðbótar þessu lítur út fyrir að frumvarp til laga um persónuupplýsingar og vinnslu persónuupplýsinga sem muni innleiða þessar breytingar á Íslandi muni verða lögfest í nokkrum flýti á Alþingi þar sem það er mjög seint fram komið. Því er staðan sú að íslenska hagkerfið er óundirbúið fyrir þessar miklu breytingar sem verða lögfestar í flýti.
    Því er hætta á enn meiri málaþunga hjá Persónuvernd en áður var talið. Aftur á móti munu fyrstu málin sem berast Persónuvernd eftir lagasetninguna setja tóninn fyrir þá framkvæmd og nálgun sem á eftir kemur. Því er lykilatriði að vandað sé sérstaklega til verka í upphafi og enn fremur að niðurstöður fáist í mál sem fyrst. Sú staða sem nú er uppi gerir bæði markmiðin torveldari en áður.
    Persónuvernd hefur skilað góðu starfi í gegnum tíðina en eins og hjá mörgum stofnunum getur tekið langan tíma að fá niðurstöðu úr málum sem stofnuninni berast. Minni hlutinn telur sérstaklega mikilvægt að fyrstu málin eftir upptöku almennu persónuverndarreglugerðarinnar í landslög verði unnin með það í huga að þau muni slá tóninn til framtíðar, t.d. hvað varðar sektarupphæðir hvers konar, hvernig alvarleiki verði metinn og síðast en ekki síst hvers konar leiðsögn sé mikilvægust hjá íslenskum aðilum og hvar umbóta sé helst þörf, en það liggur ekki enn fyrir. Í ljósi þessarar óvissu er sérstaklega mikilvægt að Persónuvernd hafi bæði burði og næði til þess að fjalla um slík mál af þeirri vandvirkni sem þessi fyrstu mál munu krefjast.
    Minni hlutinn hvetur ríkisstjórnina eindregið til þess að auka fjárframlög til Persónuverndar og styðja þétt við bakið á stofnuninni á þessu mikla breytingaskeiði.
    Rétt er að víkja sérstaklega að málaflokki útlendingamála, en undir þann málaflokk fellur starfsemi Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála. Útlendingastofnun sinnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi þar sem hún annast meðferð umsókna og erinda vegna áritana, dvalarleyfa, brottvísana, veitingar ríkisborgararéttar og umsókna um alþjóðlega vernd. Fjárhagsleg þróun útgjalda til málaflokksins hefur verið á þann veg að árið 2016 voru þau 2.337 millj. kr., árið 2017 voru þau 4.023 millj. kr. samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum en samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2018 verða þau 3.561 millj. kr. Ekki er ljóst hvernig útgjöld munu þróast til málaflokksins næstu ár en ljóst er að áætlað er að heildarútgjöld til málaflokksins muni lækka, þannig að útgjöld fari úr 14.262 millj. kr. samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2018 í 13.508 millj. kr. árið 2023. Má þannig leiða líkur að því að gerð verði krafa um niðurskurð í málaflokknum.
    Tvö markmið eru skilgreind í málaflokknum. Fyrra markmiðið er fagleg og skilvirk málsmeðferð stjórnvalda. Undir því markmiði eru nokkrir mælikvarðar. Hinn fyrsti er að málsmeðferðartími umsókna um dvalarleyfi og ríkisborgararétt styttist í dögum talið. Það er gott markmið og því ber að fagna. Þá er það einnig skilgreint sem markmið að hlutfall tilhæfulausra umsókna frá öruggum löndum lækki verulega, úr 61% árið 2017 í 5% árið 2023. Þetta markmið verður að teljast afar einkennilegt þar sem með þessu setur ríkisstjórn sér það einstaka markmið að fækka umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þá er mjög svo sérstakt hversu lágt markmiðið er, en núverandi staða er rúmlega tólffalt hærri en markmiðið sem stefnt er að. Ekki er að sjá að þær aðgerðir sem nefndar eru í málaflokknum geti með nokkru móti komið til með að stuðla að svo mikilli fækkun umsókna. Minni hlutinn telur markmiðið óraunhæft og hvetur til þess að það verði endurskoðað. Síðara markmið málaflokksins snýr að því að réttindi einstaklinga séu gerð skýr og aðgengileg með greinargóðri upplýsingagjöf stjórnvalda.
    Markmið málaflokksins eru að mestu leyti ágæt en eru ekki til þess fallin að stuðla að bættri stöðu útlendinga hér á landi. Ríkisstjórn Íslands hefur undanfarin ár fengið margvíslega gagnrýni fyrir miður góða málsmeðferð fyrir útlendinga. Þar má m.a. nefna bága og takmarkaða réttaraðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi, takmarkaða möguleika útlendinga til að leita endurskoðunar á málum sínum fyrir kærunefnd útlendingamála og dómstólum, aðgerðir til að koma í veg fyrir frestun réttaráhrifa við kærur útlendinga, takmarkaða aðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd og svo mætti lengi telja. Ljóst er af fjármálaáætlun þessari og markmiðum hennar að ríkisstjórn Íslands hefur ekki áform um að stuðla að bættri stöðu útlendinga hér að landi hvað varðar málsmeðferð þeirra og samskipti við Útlendingastofnun og íslenska ríkið.
    Minni hlutinn harmar áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á réttindum og velferð útlendinga og skorar á hana að breyta um stefnu í átt að mannúðlegri og mannlegri þjónustu við útlendinga.

18 Menning, listir, íþróttir og æskulýðsmál.
    Í greinargerð með fjármálaáætlun segir:
    „Helstu breytingar málefnasviðsins skýrast af áherslum í stjórnarsáttmálanum. Þar má nefna hækkun á framlögum vegna verkefnis um máltækni, eflingu höfuðsafnanna þriggja til að styrkja rekstur sameiginlegra og sértækra verkefna og framlags til að styrkja starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.“
    Í ljósi þessara orða vekur það nokkra athygli að framlög til þessa málefnasviðs eiga að fara lækkandi á tímabilinu, frá 13.987 millj. kr. árið 2019 í 13.529 millj. kr. árið 2023.
    Í greinargerðinni segir enn fremur:
    „Í mennta- og menningarmálum ber hæst verulega aukin framlög til háskólastigsins í samræmi við stjórnarsáttmála. Framlög til háskólanna voru aukin um ríflega 2 ma.kr. í fjárlögum 2018. Gert er ráð fyrir áframhaldandi auknum framlögum út áætlunartímann en alls hækka framlög til sviðsins um ríflega 2,8 ma.kr. í samræmi við markmið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að framlög til háskóla nái meðaltölum OECD. Á sviði menningar og lista verður varið ríflega 750 m.kr. til aðgerðaáætlunar um máltækni á áætlunartímabilinu en áður hefur hátt í 500 m.kr. verið varið til verkefnisins.“
    Þrátt fyrir þessa viðleitni vantar enn nokkuð upp á að framlög til háskóla nái meðaltölum OECD á tímabilinu – hvað þá að Ísland verði þar fyrir ofan miðju eða nálgist önnur ríki Norðurlanda. Máltækniverkefnið er sagt fullfjármagnað. Þar á, eins og hér segir, að verja ríflega 750 millj. kr. til viðbótar við þær tæplega 500 millj. kr. sem áður hefur verið varið til verkefnisins. Þetta eru um 1.250 millj. kr. Kostnaður við verkáætlun um máltækni hefur hins vegar verið áætlaður um 2.700 millj. kr. Þar af er gert ráð fyrir að um 500 millj. kr. komi frá fyrirtækjum og annað eins gegnum markáætlun. Enn virðist því eftir öllum sólarmerkjum að dæma vanta tæplega hálfan milljarð króna upp á að þessi áætlun sé fullfjármögnuð.

Safnamál.
    Í fjármálaáætlun er lýst yfir vilja til þess að styrkja höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands, og er tekið fram að unnið verði sérstaklega að málefnum Náttúruminjasafns á tímabilinu, m.a. með uppsetningu sýningar í Perlunni og undirbúningi að framtíðaruppbyggingu safnsins. Því ber að fagna þó að enn sé ekkert í hendi hvað það varðar enda ekki vansalaust fyrir þjóð sem á svo mikið undir náttúrunni að ekki sé til staðar safn um íslenska náttúru.
    Þjóðminjasafnið ber ábyrgð á 60 stöðum um allt land, í misjöfnu ásigkomulagi, þar sem eru mikil tækifæri en líka krefjandi verkefni sem ekki mega bíða öllu lengur því að menningarverðmæti eru í húfi sem ekki verða endurheimt. Togstreitu hefur gætt milli sveitarstjórna og safnstjóra og tekjustofnar safnanna eru óljósir um leið og þeim eru lagðar ríkar skyldur á herðar um rekstur og viðhald. Mikilvægt er að tryggja fjármagn til viðhalds þessara staða og uppbyggingar, en þess sér ekki stað í fjármálaáætlun að gert sé ráð fyrir því. Í því sambandi er vert að benda á að söfnin víða um land gætu gegnt miklu stærra hlutverki í ferðamannaþjónustu en nú.
    Ekki er fjallað sérstaklega um það mikla fjársvelti sem skólabókasöfn hafa búið við mörg undanfarin ár með þeim afleiðingum að þau hafa ekki getað keypt nýjar eða nýlegar bækur handa nemendum að lesa sem svo aftur hefur bitnað á lestri og jafnvel almennu læsi meðal unglinga.
    Minni hlutinn telur að fjármálaáætlun vitni ekki um nægilegan metnað og framsýni í uppbyggingu og varðveislu menningarverðmæta víða um land.

Menningarstofnanir.
    Ríkið rekur ýmsar menningarstofnanir eða á í samvinnu við aðra aðila um rekstur þeirra og veitir þeim fjárhagslegan stuðning. Stofnanirnar skapa m.a. undirstöðu fyrir aðra menningar- og listastarfsemi í landinu og þjóna landsmönnum öllum auk þess sem sumar þeirra sinna stjórnsýslu á sínu sviði. Í fjármálaáætlun er sett fram það markmið að bæta aðgengi að menningu og listum svo að fleiri landsmenn fái notið þessara gæða, sem er lofsvert. Ekki er þó að sjá útfærslu á þessum áformum.
    Meðal þeirra menningarstofnana sem undir ríkið heyra er Ríkisútvarpið sem seinni árin hefur verið rekið með rekstrarfyrirkomulagi opinbers hlutafélags – er með öðrum orðum hlutafélag þar sem einungis einn aðili á hlut. Að stofnuninni er vikið í kafla um fjölmiðlun og talað um að lögð verði áhersla á að auka framboð á íslensku menningarefni, leiknu efni fyrir börn og fullorðna. Einnig er þar rætt um að auka samframleiðslu með sjálfstæðum framleiðendum og kaup frá þeim. Ekki fer á milli mála mikilvægi stofnunarinnar við þróun og atvinnusköpun í kvikmyndaframleiðslu í landinu og brýnt er að hún hafi styrk til þess að vera slík máttarstoð. Allar breytingar á tekjustofnum stofnunarinnar verður að skoða í þessu ljósi og menningarhlutverks hennar.
    Hvergi er í fjármálaáætlun vikið að því að innan Ríkisútvarpsins er að finna eitt stærsta safn landsins, hljóðritanir á plötum og segulböndum sem ná aftur til ársins 1930 þar sem er að finna ómetanleg menningarleg og söguleg verðmæti. Mjög aðkallandi er að þetta safn komist í stafrænan búning sem fyrst og verði aðgengilegt almenningi á vef stofnunarinnar.
    Minni hlutinn hvetur ríkisstjórnina til þess að finna þessu mikilvæga verkefni pláss í fjármálaáætlun.

Menningarsjóðir.
    Helstu sjóðir málaflokksins eru fornminjasjóður, húsafriðunarsjóður, safnasjóður, myndlistarsjóður, launasjóðir listamanna, Kvikmyndasjóður, útflutningssjóður íslenskrar tónlistar, Bókasafnssjóður höfunda, tónlistarsjóður, hljóðritasjóður, Máltæknisjóður og starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna. Þessir sjóðir hafa skipt sköpum fyrir listalíf hér á landi og skilar fjármagn sem úr þeim rennur sér margfalt til baka, í listaverkum og öðrum verðmætum sem skattleggja má. Þessir sjóðir mynda undirstöðu fyrir allt listalíf í landinu, eða eins og segir í umsögn Bandalags íslenskra listamanna:
    „Stór hópur fjármagnar sín verkefni úr verkefnasjóðum s.s. sviðslistasjóði, tónlistarsjóði eða kvikmyndasjóði og svo eru það starfslaun listamanna sem óhætt er að tala um sem hornstein hins listræna starfs. Stofnanirnar allar og verkefnasjóðir eru á þeim stað í dag að vera á mörkum þess að geta staðið undir skyldum sínum. […] Starfslaunasjóðirnir eru það sem helst brennur á listamönnum, þeir eru grunnurinn að listsköpun í landinu og á meðan við erum svo upptekin í átaksverkefnum til að ná utan um mál sem setið hafa á hakanum, en eru vissulega þörf, sjáum við starfslaunin rýrna. Starfslaunin og verkefnasjóðirnir eru gólfið í menningaruppbyggingunni, þau mynda stöðugleikann og framvindu í starfi listamannanna.“
    Þessir sjóðir hafa hins vegar staðið í stað í níu ár eða jafnvel rýrnað, og kominn er tími til að efla þá á ný.
    Minni hlutinn hvetur ríkisstjórnina til þess að bregðast við áherslum listamanna um eflingu menningarsjóða á landsvísu.
    Minni hlutinn fagnar stofnun máltæknisjóðs. Miklar vonir eru bundnar við sjóðinn í þróun hugbúnaðar sem gerir okkur kleift að halda áfram að notast við íslenska tungu í daglegu lífi okkar þegar fram líða stundir og samskipti okkar við tól og tæki munu sífellt aukast.
    Minni hlutinn ítrekar ábendingar sínar hér að framan um að séð verði til þess að enginn vafi leiki á um fjármögnun áætlunarinnar.

Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Starfsemi í þessum málaflokki fer að mestu fram innan sveitarfélaga og á vettvangi frjálsra félagasamtaka með miklu sjálfboðaliðastarfi. Íþróttastarfsemin í landinu nýtur einnig góðs af fjármagni sem rennur til hennar úr Lottói og Getraunum. Ríkissjóður hleypur undir bagga með umgjörð starfsins, til að mynda með sérstökum afreksmannasjóði sem íþróttamenn geta sótt í séu þeir líklegir til afreka á alþjóðavísu. Í fjármálaáætlun er vikið að áformum um viðræður við Reykjavíkurborg og íþróttahreyfinguna um nýjan þjóðarleikvang í Laugardal. Ekki er farið frekari orðum um það en ljóst er að um mjög fjárfreka framkvæmd gæti orðið að ræða.
    Minni hlutinn hvetur ríkisstjórnina til að tilgreina þennan kostnað í áætluninni og hvort og þá hvernig þessi framkvæmd muni hafa áhrif á fjármögnun annarra hópa og verkefna innan málefnasviðsins.

19 Fjölmiðlun.
    Í fjármálaáætlun kemur fram að breytingar á útgjöldum málefnasviðsins felast í framlögum ríkissjóðs til Ríkisútvarpsins en gert er ráð fyrir að grunnframlög til stofnunarinnar á tímabilinu taki mið af innheimtum tekjum af útvarpsgjaldi og að unnið verði að því að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla á tímabilinu.
    Fram kom fyrir nefndinni að nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi skilaði skýrslu í febrúar 2018. Í henni eru tillögur að aðgerðum en ekki var einhugur meðal nefndarmanna um allar tillögur nefndarinnar. Að mati minni hlutans er hryggilegt að sjá að stefnumótun menntamálaráðherra virðist að stóru leyti verða byggð á umræddri skýrslu en niðurstöður hennar lýsa litlum skilningi á þeim áskorunum sem fjölmiðlar takast á við. Tillögur nefndarinnar snúa einna helst að því að lækka virðisaukaskatt á áskriftargjöld fjölmiðla, heimila áfengisauglýsingar og fjarlægja Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Tillögurnar fela hins vegar ekkert í sér um bætt lagaumhverfi fyrir fjölmiðla gagnvart tíðum málsóknum fyrir meiðyrði, en flestir fjölmiðlar þurfa að hafa sér rekstrarlið til þess að borga málskostnað vegna meiðyrðamála, jafnvel í málum sem þeir vinna fyrir dómstólum. Ekki er lagt til að settur verði á fót rannsóknarblaðamannasjóður eða hrint í framkvæmd skattaívilnunum sem mundu nýtast öllum fjölmiðlum, ekki einungis þeim sem leggja á áskriftargjöld. Allt eru þetta atriði sem sjálfstæðir einkareknir fjölmiðlar hafa sjálfir nefnt að mundi styrkja stöðu þeirra og getu til þess að veita stjórnvöldum virkt aðhald.
    Eins kom fram að í fjármálaáætluninni sé þegar gert ráð fyrir 800 millj. kr. til þessa verkefnis. Ekki liggur fyrir hvernig á að verja þeim fjármunum til þess að bæta starfsumhverfi fjölmiðla.
    Minni hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að fjölmiðlar fái þrifist og að eðlileg samkeppni ríki á þeim markaði. Það er forsenda fyrir opinni og frjálsri umræðu í lýðræðislegu samfélagi. Minni hlutinn telur jafnframt að stefnumörkun um umbætur í rekstrarumhverfi fjölmiðla sé afar óljós. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að leggja neitt mat á hvort þær 800 millj. kr. sem áætlunin gerir ráð fyrir séu fullnægjandi eða ekki. Minni hlutinn leggur áherslu á að ríkisstjórnin geri mun betur í stefnumótun og stuðningi við fjölmiðlun í landinu.

20 Framhaldsskólastig.
    Fram kemur í umsögn Kennarasambands Íslands um fjármálaáætlun að samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hafi opinber útgjöld vegna framhaldsskóla á árunum 1998 til 2016 dregist saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, að raunvirði og á hvern mann, ekki síst eftir hrun, en á árunum 2008–2016 lækkuðu opinber útgjöld til framhaldsskóla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu um 8,1%, að raunvirði 6,6% og 11,1% á hvern mann.
    Í fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 er gert ráð fyrir að þessi framlög verði nokkuð hækkuð, í samræmi við fyrirheit um „stórsókn í menntamálum“. Fyrst og fremst eru þessar hækkanir þó tilkomnar þannig að ekki stendur til að draga það fjármagn út úr rekstri framhaldsskólanna sem sparast við styttingu námstímans eins og áður voru áform um. Kennarasambandið bendir á það í umsögn sinni að gengið sé út frá mikilli fækkun ársnemenda í framhaldsskólum til 2020 vegna styttingar námsins í þrjú ár og fækkunar í árgöngum sem leiðir til hærra framlags á hvern ársnemanda, að óbreyttum fjárframlögum. Ekki sé hins vegar um að ræða raunútgjaldaaukningu til skólastigsins. Ástæða er til að taka undir með Kennarasambandinu þegar sambandið segir vandséð að þessi breyting dugi til þess að byggja upp innviði skóla eftir langvarandi fjársvelti, bæta gæði kennslu og námsframboðs og efla stoðþjónustu. Styttingin hefur einnig bitnað á nemendum, eins og um þjónustu og endurnýjun búnaðar. Ekki síst hefur setið á hakanum gerð námsbóka á öllum skólastigum, svo að tala má um ófremdarástand á því sviði.
    Ekki eru öll kurl komin til grafar með áhrif af styttingu námstíma til stúdentsprófs en brýnt er að gerð verði úttekt á þeirri aðgerð. Hún virðist ekki hafa ekki orðið til þess að minnka brottfall nemenda eins og stefnt var að. Álag á nemendur hefur mjög aukist vegna samþjöppunar í námi og lengri skóladags sem aftur gefur minni tíma til félagslífs og tómstundastarfs. Meta þarf hvaða áhrif styttingin hefur haft á námsframboð, undirbúning fyrir háskólanám, tungumálakunnáttu og stöðu íslenskra framhaldsskólanema samanborið við erlenda jafnaldra þeirra.
    Undir þessum lið er einnig vikið að tónlistarfræðslu, en um hana gilda lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, og taka þau til tónlistarskóla sem reknir eru af sveitarfélögum og annarra sem njóta styrks samkvæmt lögunum. Ríki og sveitarfélög hafa gert samkomulag um fjárhagslegan stuðning ríkisins við tónlistarnám á vegum sveitarfélaga á framhaldsstigi í hljóðfæraleik og mið- og framhaldsstigi í söng. Samkomulagið gildir til 31. desember 2018 og verður því endurskoðað og væntanlega framlengt á þessu ári. Ekkert kemur fram í fjármálaáætlun um það hver áform ríkisstjórnarinnar eru í þeim efnum en brýnt er að standa vörð um – og efla – þessa mikilvægu menntun sem skilað hefur landsmönnum ómetanlegum ánægjustundum og þjóðarbúinu margvíslegum ávinningi.
    Mikil umræða hefur farið fram á undanförnum árum vegna ríkrar tilhneigingar hér á landi til að beina ungu fólki í bóknám fremur en starfsnám. Þetta bar á góma á fundi nefndarinnar með fulltrúum skólameistara. Þar var m.a. bent á að það skjóti skökku við að á sama tíma og veitt sé aukið fjármagn til framhaldsskóla sé ríkið að hækka um 12% húsaleigu sem þessum skólum sé gert að greiða. Aðstaða til starfsnáms og listnáms er sögð bágborin og dýrt að byggja hana upp, og talað var um „eldgamlar tölvudruslur“. Það kom fram á fundi nefndarinnar með fulltrúum skólameistara að miklu máli skipti að laga ímynd starfsnáms og einnig að breyta fyrirkomulagi þess frá því sem nú er. Vinnustaðasjóður er mjög vanfjármagnaður og fer enn minnkandi, en hann gegnir mikilsverðu hlutverki við að hjálpa minni fyrirtækjum við að taka starfsnema. Sú þróun er í hróplegri mótsögn við yfirlýsingar um stórsókn á svið verkmenntunar. Í þessu sambandi var einnig bent á nauðsyn þess að efla starfsráðgjöf á grunn- og framhaldsskólastigi, enda sýni kannanir að margir nemendur sem detta út úr bóknámi hefðu frekar – eftir á að hyggja – viljað hefja starfsnám, og hefðu jafnvel spjarað sig betur þar.
    Stjórnmálamönnum og öðrum verður tíðrætt um fjórðu iðnbyltinguna og þau umskipti og tækifæri sem henni munu fylgja. Eins og málum er háttað á íslenskt skólakerfi langt í land með að búa ungt fólk hér á landi sómasamlega undir hana, sérstaklega hvað varðar framhaldsskólastigið sem ætti þó að gegna þar lykilhlutverki.

21 Háskólastig.
    Það var eindregið loforð flestra stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu þingkosningar – þar á meðal þeirra sem mynda núverandi ríkisstjórn – að framlög til háskólastigsins skyldu ná viðmiðum OECD árið 2020. Samkvæmt þessari fjármálaáætlun stendur til að ná einum þriðja af þessum viðmiðum árið 2023. Það vantar því nokkuð upp á að þessi fyrirheit séu efnd og áfram verða Íslendingar eftirbátar annarra þjóða í framlögum til háskólamenntunar.
    Eins og önnur skólastig hefur háskólastigið búið við langvarandi fjársvelti, ekki síst frá hruni. Þetta ástand hefur haft margvíslegar afleiðingar. Ekki hefur verið hægt að manna stöður eða endurnýja deildir eðlilega. Óeðlilega hátt hlutfall stundakennara og doktorsnema, á mjög lágum launum, hefur annast háskólakennslu og eftir útskrift hefur verið að litlu að hverfa fyrir margt háskólafólk því að ekki hefur verið fjármagn til að stunda rannsóknir við háskólana, eins og æskilegt væri, og stöður hafa ekki losnað. Kennsla í greinum sem ekki eru í beinu sambandi við atvinnulífið hefur átt undir högg að sækja, jafnvel þótt ómögulegt sé að spá fyrir um það hvaða greinar reynist arðbærar og eftirsóknarverðar út frá eftirspurn í atvinnulífinu og hverjar ekki, eins og dæmið um máltækni og málvísindi sýnir vel. Að ógleymdu því að þekkingaröflun hefur gildi í sjálfri sér og rannsóknir geta nýst með margvíslegum hætti á ólíkum sviðum.
    Öflugt háskólasamfélag hér á landi er lykilatriði í því að takast á við áskoranir 21. aldarinnar og nýjan veruleika í gjörbreyttu umhverfi tækni og samskipta. Hér er líka um að ræða byggðastefnu íslensks samfélags á nýrri öld sem einkennist af hreyfanlegu vinnuafli á alþjóðlegum vinnumarkaði. Það er eitt helsta verkefni stjórnvalda að gera Ísland að fýsilegum búsetukosti fyrir ungt og vel menntað fólk sem er forsenda fyrir því að hér þrífist gott og lifandi samfélag.
    Málefni Listaháskóla Íslands eru sérstakt áhyggjuefni og nauðsynlegt að bæta úr því neyðarástandi sem þar er í húsnæðismálum. Í fjármálaáætlun segir á bls. 303 að það sé „stefna stjórnvalda að leita lausna á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands. Vorið 2017 tók til starfa stýrihópur sem vinnur að frumathugun og þarfagreiningu fyrir framtíðarhúsnæði Listaháskólans auk kortlagningar á útboðs- og fjármögnunarleiðum.“ Minni hlutinn telur nauðsynlegt að kveðið sé sterkar að orði þar sem óskýr skilaboð stjórnvalda undanfarin missiri hafa hamlað stefnumótun og framtíðarvinnu skólans. Listaháskóli Íslands er gríðarlega mikilvæg stofnun sem hefur þurft að láta nemendur sína sætta sig við heilsuspillandi og ónothæft húsnæði í áraraðir.
    Minni hlutinn hvetur ríkisstjórnina eindregið til þess að senda skýr skilaboð um að hún takist á hendur þá skuldbindingu að leysa úr húsnæðisvanda Listaháskólans án tafar.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri leik- og grunnskóla, kostnaði, stefnu og skipulagi. Yfirstjórn á þessu stigi er hins vegar í höndum ráðuneytis mennta- og menningarmála sem setur ýmsar reglugerðir, aðalnámskrár og viðmið um frístundastarf fyrir nemendur í yngri árgöngum grunnskóla. Ríkið leggur grunnskólum til námsgögn en frá haustinu 2011 hafa sveitarfélögin borið ábyrgð á að fjármagna og reka námsgagnasjóð. Ríkið styður þróunarstarf gegnum þróunarsjóð námsgagna og Sprotasjóð og er með samning við samtök höfundaréttarfélaga sem heimilar skólum að ljósrita höfundaréttarvarið efni.
    Ljóst er að sveitarfélög eru mjög misjafnlega í stakk búin til að sinna hlutverki sínu. Í umsögn sinni um fjármálaáætlun kveður Kennarasamband Íslands fast að orði og segir: „KÍ leggur fast að Alþingi og stjórnvöldum að endurskoða og stækka tekjustofna sveitarfélaga með það fyrir augum að auka fjárveitingar til leikskóla og grunnskóla í samræmi við aukin verkefni og breyttar áherslur.“
    Minni hlutinn telur mikilvægt að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna þannig að tryggt verði að þau geti sinnt skyldum sínum í samræmi við þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Mikill niðurskurður margra undanfarinna ára hefur bitnað harkalega á þessu skólastigi með þeim afleiðingum að fólk endist illa í starfi og vettvangur sem þarf sárlega á festu, ró og samfellu í starfi að halda einkennist af mikilli starfsmannaveltu og álagi, og háu hlutfalli af ófaglærðu starfsfólki. Afleiðingarnar blasa við í verra menntunarumhverfi sem börnum okkar er búið. Þetta birtist með margvíslegum hætti, m.a. í verra gengi í árlegum PISA-könnunum í lestri og stærðfræði.
    Sérstakt áhyggjuefni er svo staða nemenda af erlendum uppruna í íslensku skólakerfi sem hvorki eiga þess kost að halda almennilega við upprunamáli sínu né að læra íslensku svo vel sé, svo að þeir eru skildir eftir á hálfgerðum berangri hvað varðar nám og þekkingaröflun.
    Almennt hefur lesskilningur minnkað frá aldamótum, samkvæmt PISA-könnunum þó að mishratt sé. Á vegum Menntamálastofnunar hefur verið unnið að svokölluðu læsisverkefni á grundvelli Hvítbókar um umbætur í menntun frá 2014. Enn hefur þetta átak ekki skilað sjáanlegum árangri og kann að vera tímabært að hugsa um þessi mál á nýjan hátt. Í umsögn Kennarasambands Íslands um fjármálaáætlun segir um þetta:
    „KÍ telur að ráðast þurfi í víðtækar aðgerðir á mun fleiri sviðum til að efla læsi en einvörðungu með því að leggja fjármuni til Menntamálastofnunar til að þróa mælitæki fyrir kennara og skóla til að meta læsi og framvindu nemenda í læsi, skima fyrir lestrarerfiðleikum og að veita kennurum, skólum og sveitarfélögum ráðgjöf um aðferðir til að efla læsi, eins og áherslurnar hafa hingað til einkennst af.“
    Kennarasambandið bendir á að í aðgerðaáætlun verkefnahóps mennta- og menningarmálaráðuneytis um eflingu læsis (2015) eru fjölmargar brýnar tillögur sem ekki hafa verið virkjaðar sem snerta sérstaklega menntun tvítyngdra nemenda, menntun og starfsþjálfun verðandi kennara, menntun og starfsþróun starfandi kennara, stuðning við skólastjórnendur til að efla starfsþróun á vettvangi í tengslum við læsi, að allir kennarar vinni með læsi í ólíkum námsgreinum á öllum stigum, að efla fjölbreytt framboð og aðgengi að námsefni, lesefni og bókum við hæfi fyrir nemendur og starfsemi skólabókasafna.
    Kennarasambandið telur mjög brýnt að ráðist verði í aðgerðir á þessum sviðum og tryggum fjármunum þarf að verja til þeirra.
    Minni hlutinn tekur eindregið undir þessi orð Kennarasambandsins og minnir á að hafa verður víðtækt samráð við kennara í þessum efnum því þar býr mesta þekkingin á þeim vanda sem við er að etja.

Kynjuð fjárlagagerð.
    Í fjármálaáætluninni kemur fram að tíu áherslumálefnasvið í kynjaðri fjárlagagerð voru valin miðlægt til þess að vinna með vegna fjármálaáætlunarinnar, m.a. 09 Almanna- og réttaröryggi, 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál og 21 Háskólastig. Kynja- og jafnréttissjónarmið voru tengd við stefnumörkun þeirra til næstu fimm ára. Á næstu árum verður sú vinna dýpkuð og í kjölfarið unnið með öll málefnasviðin sem eru 34 talsins.
    Á fundum nefndarinnar kom fram það sjónarmið að mikilvægt væri að allar aðgerðir í fjármálaáætlun stuðluðu að jafnrétti og réttlátri skiptingu gæða vegna þess að fjármálaáætlun væri eitt helsta stefnumótunartæki ríkisstjórnarinnar. Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við framkvæmd kynjaðrar fjárlagagerðar í fjármálaáætluninni þar sem kynja- og jafnréttissjónarmið væru almennt ekki tengd með skýrum hætti við stefnumörkun málefnasviðanna til næstu fimm ára. Komu fram ábendingar um hvernig mætti ná því markmiði við stefnumörkun áherslumálefnasviðanna, svo sem með því að flétta sjónarhorni kynjajafnréttis inn í stefnumótun og ákvarðanir líkt og kveðið er á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.
    Á fundum nefndarinnar var einnig vakin athygli á því að einungis eitt málefnasvið af tíu bar þess merki að bein tenging hefði verið milli jafnréttissjónarmiða og stefnumótunar á því sviði. Var um að ræða málefnasvið 29 Fjölskyldumál og sneri stefnumótunin að því að hækka hámarksgreiðslu til foreldra í barneignarleyfi. Athugasemdir féllu á fundum nefndarinnar þess efnis að slík aðgerð hagnaðist miklu frekar körlum en konum enda væru þeir oftar tekjuhærri aðilar. Æskilegra hefði verið að fara blandaða leið sem fæli einnig í sér hækkun á lágmarksgreiðslum fæðingarorlofs, t.d. fyrir nema, en sú aðgerð hagnist tekjulágum mæðrum best.
    Minni hlutinn tekur undir þessar ábendingar og telur mikilvægt að þessi þáttur verði tekinn föstum tökum við undirbúning fjárlaga og næstu fjármálaáætlunar. Kynjuð fjárlagagerð er afar mikilvæg aðferð til þess að draga fram áhrif sem ákvarðanir stjórnvalda hafa á stöðu kynjanna. Nægir þar að nefna fyrirkomulag fæðingarorlofs og stefnumörkun í málefnum fjölmennra stétta sem eru mjög kynbundnar. Framsetning kynja- og jafnréttissjónarmiða verða að vera miklu skýrari og skila sér með beinum hætti í markmiðakafla þeirra málefnasviða sem í hlut eiga.

Alþingi, 29. maí 2018.

Anna Kolbrún Árnadóttir,
Guðmundur Andri Thorsson,
Jón Steindór Valdimarsson,
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


Fylgiskjal II.


Umsögn 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Málefnasvið atvinnuveganefndar er nokkuð vítt og þrátt fyrir að vera ef til vill ekki útgjaldafrekustu málaflokkarnir eru þeir býsna mikilvægir enda standa þeir undir stórum hluta tekjuöflunar ríkisins.
    Ljóst er eftir heimsóknir gesta til atvinnuveganefndar og yfirferð nefndarinnar að ekki eru tryggðir fjármunir til að fylgja öllum þeim verkefnum og markmiðum sem sett eru fram í áætluninni. Því er erfitt að gefa markmiðum og aðgerðum jákvæða umsögn þegar þau eru að mestu ófjármögnuð og jafnvel hefur dregið saman í stórum málaflokkum sem heyra undir atvinnuveganefnd. Þetta er sérstaklega óheppilegt með tilliti til mikilvægis þess að fjármálaáætlun endurspegli vöxt samfélagsins næstu árin. Þá hefði verið æskilegt að hafa meiri tíma en gefinn var til að fjalla um áætlunina í þinginu, m.a. með því að veita fastanefndum betri tíma til að fjalla um hana.
    Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur boðað stefnumótun í stórum málaflokkum sem undir nefndina heyra, svo sem orkustefnu, nýsköpunarstefnu, klasastefnu og langtímastefnu um ferðaþjónustu. Vinna við sumar þessar stefnur er hafin og ljóst að klára á flestar þeirra innan þess tímabils sem fjármálaáætlun mun ná til. Ekki er að sjá að öll þessi vinna og verkefni endurspeglist í þeirri fjármálaáætlun sem hér er til umfjöllunar, heldur er frekar dregið úr framlögum til þeirra en hitt. Þá má taka undir umsögn Samtaka iðnaðarins hvað varðar mikilvægi þess að í allri þessari stefnumótunarvinnu verði horft til þess að samræma þær og halda utan um þær í stað þess að vinna þær allar í tómarúmi – möguleg leið væri eins og Samtök iðnaðarins leggja til að vinna atvinnustefnu sem hefði það hlutverk að móta skipulag og samhæfingu milli málaflokka og auka þannig samkeppnishæfni atvinnulífsins. Í öllu falli er mikilvægt að horfa til þess að gæta mjög að samræmi og samhengi þessara stefna, sömuleiðis í samhengi við aðra stefnumótun ríkisins svo sem mótun loftslagsstefnu og menntastefnu.
    Málefnasvið atvinnuveganefndar skipta lykilmáli fyrir efnahagslegan stöðugleika í landinu, stöðugleika sem er mikilvægur fyrir hagkerfið, heimilin og fyrirtækin. Með áframhaldandi stöðugleika má auka samkeppnishæfni atvinnulífsins, auka verðmætasköpun og framleiðni þess. Í þessari fjármálaáætlun er miðað við áframhaldandi stöðugleika í efnahag landsins, nokkuð sem er auðvitað jákvætt og mikilvægt markmið en 2. minni hluti minnir á að yfirleitt er best að vona það besta en búast við því versta en það er því miður ekki gert hér. Þar verður t.d. að gjalda varhug við því að stóla um of á áframhaldandi fjölgun ferðamanna til landsins. Æskilegt hefði verið að sjá raunhæfara mat á stöðunni og einhvers konar næmnigreiningar sem gætu lýst hvernig mögulegt væri að taka á þeim sveiflum sem reynslan sýnir okkur að eru mun líklegri en sá áframhaldandi stöðugleiki sem gert er ráð fyrir í tillögunni.
    Þá bendir fyrsti 2. minni hluti á að krónan gegnir auðvitað stóru hlutverki. Frá upphafi þeirrar efnahagsuppsveiflu sem við erum nú í hefur gengi krónunnar hækkað um nær 50% en því miður hefur verðlagsþróun í landinu ekki notið þeirrar gengishækkunar nema að takmörkuðu leyti og er svo komið að aðföng og þjónusta í landinu er orðin nokkuð kostnaðarsöm, fyrir ferðamenn sem heimsækja landið en ekki síður fyrir þau fyrirtæki sem starfa við útflutning. Æskilegt væri að skoða fyrir alvöru möguleikann á að taka upp evru, nokkuð sem mundi skapa stöðugra umhverfi fyrir útflutningsgreinar en krónan mun nokkurn tíma geta. Þannig eru vísbendingar um að Ísland sé hreinlega að verða of dýrt og eru nú þegar skýr merki um kólnun í ferðaþjónustunni og margt sem bendir til samdráttar. Því væri heppilegra að tillagan gerði ráð fyrir mögulegri niðursveiflu í komu ferðamanna til landsins, sérstaklega þar sem ljóst er að slík niðursveifla getur haft mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs. 2. minni hluti bendir á að jafnvel þó að ferðamönnum fjölgi áfram þarf að gera ráð fyrir að slík fjölgun gæti orðið minni en sú aukning sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun sökum kólnunar í ferðaþjónustunni. Slík fækkun hefur ekkert síður áhrif á áætlanagerðina.

Nýsköpun og tækniþróun, 7. málefnasvið.
    Af þeim málefnasviðum sem heyra undir atvinnuveganefnd er aðeins gert ráð fyrir auknum fjárframlögum til tveggja og er nýsköpun og tækniþróun annað þeirra. Gert er ráð fyrir aukningu upp á 1.094 millj. kr og fagnar 2. minni hluti því að afnema eigi þak á endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar.
    Áhyggjur vekur þó að ekkert er talað um að styrkja samkeppnissjóði eða auka framlög til þeirra. Á síðustu árum hefur Rannís, og þá einkum Tækniþróunarsjóður, verið styrkt mikið sem er mikilvægt. Þá er tekið undir mikilvægi þess að meta árangurinn af starfsemi Tækniþróunarsjóðs og móta aukið hlutverk hans sem og að meta umhverfi nýsköpunar með mótun nýrrar nýsköpunarstefnu. Það verður þó að skoðast í samhengi við allt sem er að gerast í heiminum. Gert er ráð fyrir að þessi vinna fari fram á árunum 2018–2022 sem telja verður nokkuð metnaðarleysi. Fjórða iðnbyltingin er staðreynd og á meðan ríkisstjórnin ætlar að taka sér fjögur ár í að endurskoða og velta fyrir sér hlutunum er hætt við að Ísland missi af lestinni.
    Þótt þetta málaefnasvið láti ef til vill ekki mikið yfir sér er það gríðarmikilvægt fyrir framtíð landsins og það ætti að styrkja enn frekar. Í þessu samhengi bendir 2. minni hluti einnig á mikilvægi þess að horft verði til þessa málefnasviðs við áframhaldandi uppbyggingu menntakerfisins, en þar þarf m.a. að tryggja að aðsókn að iðn- og verknámi aukist á næstu árum en brýnt er að verkleg þekking og kunnátta sé betur samtvinnuð við menntun ef Ísland ætlar sér raunverulega að taka þátt í fjórðu iðnbyltingunni.

Landbúnaður, 12. málefnasvið.
    Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir um landbúnaðarmál að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og að leggja eigi áherslu á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Fyrirliggjandi tillaga hlýtur því að valda landbúnaðargeiranum nokkrum vonbrigðum en ekki er gert ráð fyrir auknum framlögum til málefnasviðsins á tímabilinu 2018–2023, heldur er getið um niðurskurð sem nemur tæpum 700 millj. kr. Þessi niðurskurður hlýtur að teljast óheppilegur, en sjaldan hafa verið jafnmörg sóknarfæri í íslenskri matvælaframleiðslu, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna á síðustu árum, og þess vegna er miður að ekki eigi að styðja við tækifæri til uppbyggingar með myndarlegri hætti.
    Jákvætt er að horfa eigi til heilnæmrar matvælaframleiðslu og aukinnar verðmætasköpunar innan greinarinnar, sem og að huga að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi hennar. Sömuleiðis eru sett fram metnaðarfull markmið um aukna nýsköpun í virðiskeðju matvælaframleiðslu og á m.a. að koma á fót öflugum sjóði sem styrkir nýsköpunar- og þróunarverkefni í matvælaframleiðslu. Ekki er þó að sjá að þessi metnaðarfullu markmið séu fjármögnuð miðað við skert framlög til málaflokksins.
    Annar minni hluti minnir á tækifærin sem geta falist í að snúa frá þeirri stefnu sem beinir bændum inn í miðstýrt framleiðslukerfi takmarkaðra framleiðsluþátta með kvótum og tollum. Heldur ætti að horfa til beingreiðslna og grænna styrkja til að styðja við landbúnað líkt og skilað hefur góðum árangri, til að mynda innan Evrópusambandsins. Núverandi landbúnaðarkerfi er eitt það dýrasta í heimi sem er slæmt fyrir alla sem að því koma, hvort sem er bændur eða skattgreiðendur.
    Fáar atvinnugreinar eru jafnmikilvægar fyrir Íslendinga og landbúnaður. Mikilvægt er að styðja vel við landbúnað, til að mynda með því að endurskoða búvörusamninga með það að markmiði að bæta kjör og aðstæður bænda, en sömuleiðis tryggja neytendum gæði og sanngjarnt verð. Þannig þarf að draga úr samtengingu framleiðslu og stuðnings ríkisins og færa stærri hluta stuðningsins við landbúnað til sjálfbærrar nýtingar landsins. Framangreindu er ekki fyrir að fara í tillögu til fjármálaáætlunar.

Sjávarútvegur og fiskeldi, 13. málefnasvið.
    Líkt og með flest önnur málefnasvið í tillögunni sem heyra undir atvinnuveganefnd er gert ráð fyrir niðurskurði um rétt tæpan kvartmilljarð í framlögum til þessa málefnasviðs.
    Þrátt fyrir nokkuð nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Matvælastofnunar og augljóst hlutverk hennar í að vinna að markmiðum og aðgerðum þessa málefnasviðs er stofnunin varla nefnd á nafn og ekki að sjá þegar horft er á framlög til málaflokksins í heild að verið sé að bregðast við augljósri fjárþörf og þörf á auknum mannafla sem þarf til að stofnunin geti staðið undir þeim verkefnum sem hún á að sinna. Það sama má segja um framlög til annarra stofnana, svo sem Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu, þessara mikilvægu stofnana sem sjá um eftirlit, vöktun og grunnrannsóknir. Ekki er að sjá að brugðist sé við auknum hlutverkum þeirra og mannaflsþörf til að mynda vegna aukins fiskeldis og nauðsynlegra rannsókna vegna hlýnandi loftslags og breytinga á hafstraumum og súrnun sjávar. Þá kom fram hjá fulltrúum Hafrannsóknastofnunar á fundi með nefndinni að komið er að endurnýjun búnaðar og orðin mikil þörf á að fjárfesta í nýju rannsóknaskipi en Bjarni Sæmundsson er orðinn lélegur og í ofanálag einangraður með asbesti. Mikilvægt er að bregðast við þessu.
    Þá bendir 2. minni hluti á það augljóslega glataða tækifæri sem í þessu málefnasviði liggur til aukinnar tekjuöflunar, en útgerðarfyrirtæki greiða í dag veiðigjald sem er langt undir markaðsverði kvóta. Það má sjá til að mynda af nýafstöðnu útboði Færeyinga á kolmunnakvóta. Gera má ráð fyrir að ef Íslendingar gerðu slíkt hið sama og fengju sambærileg verð fengi ríkissjóður um 1,5 milljörðum kr. meira en hann gerir í dag. Það hljóta því að vera vonbrigði að í fjármálaáætlun er engin áætlun um að sanngjarn hluti auðlindarentunnar renni til þjóðarinnar. Útboð á hluta kvóta gæti nýst til að ákvarða veiðigjöld og gæti verið grundvöllur sáttar um gjaldtöku af greininni.

Ferðaþjónusta, 14. málefnasvið.
    Sett eru fram fjölmörg metnaðarfull markmið og aðgerðir á málefnasviðinu sem má fagna, en það skýtur mjög skökku við að draga eigi úr framlögum til þess á sama tíma og gert er ráð fyrir niðurskurði um rúman hálfan milljarð á tímabilinu.
    Verði þessi niðurstaða að raunveruleika er það mjög alvarlegt fyrir ferðaþjónustuna sem í dag er stærsta og mikilvægasta útflutningsgrein landsins, en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu 8,4% árið 2016 í samanburði við 7% hjá sjávarútvegi og 2,5% af framleiðslu málma. Þannig áætlar Hagstofan að heildarútflutningstekjur af erlendum ferðamönnum hafi verið 463 millj. kr. árið 2016 eða um 39% af heildarútflutningstekjum landsins sem er meira en sjávarútvegur og álafurðir skiluðu samanlagt. Þá störfuðu á árinu 2017 rúmlega 27 þúsund manns við ferðaþjónustu. Það er því ljóst að greinin er orðin gríðarlega mikilvæg fyrir efnahag landsins. Greinin er raunar orðin svo fyrirferðarmikil í efnahagslífinu að töluverðar líkur eru á að sveiflur í henni hafi áhrif langt út fyrir ferðaþjónustuna sjálfa. Möguleg áhrif væru aukinn kostnaður vegna atvinnuleysis, versnandi viðskiptajöfnuður, minni skattgreiðslur og útlánatöp ríkisbanka. Þetta þarf að hafa í huga í fjármálaáætlun.
    Fréttir af því að Ísland sé orðið dýrasti áfangastaður heims með um 28% hærra verðlag að meðaltali en önnur Norðurlönd hljóta því að vera áhyggjuefni. Eins og áður var nefnt eru sífellt fleiri merki um kulnun í ferðaþjónustunni að koma fram. Þannig virðist styrking krónunnar vera að skila sér í því að hver ferðamaður skili nú færri krónum og voru útgjöld á hvern ferðamann 16% minni í krónum talið á árinu 2016 en á árinu 2009. Samkeppnishæfni Íslands í ferðaþjónustu hefur minnkað samkvæmt World Economic Forum, en þar er það fyrst og fremst hátt verðlag og skortur á menningarlegri afþreyingu sem dregur úr.
    Líkt og fram kemur í fjármálaáætlun er erfitt að meta raunverulegt umfang ferðaþjónustunnar og tekur 2. minni hluti undir umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um mikilvægi þess að efla hagskýrslugerð um atvinnugreinina samkvæmt alþjóðlegri forskrift.
    Annar minni hluti tekur einnig undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um mikilvægi þess að tryggja að sveitarfélögin fái meira í sinn hlut af þeim tekjum sem hið opinbera fær vegna fjölgunar ferðamanna.
    Í stefnu ríkisstjórnarinnar er talað um mikilvægi aukinnar dreifingar ferðamanna um landið en þess markmiðs gætir ekki nægjanlega mikið í þessari fjármálaáætlun. Á meðan einstakir staðir glíma við allt of marga ferðamenn eru stór svæði vannýtt. Æskilegt væri t.d. að sjá skýrari markmið varðandi uppbyggingu annarra flugvalla en Keflavíkurflugvallar til að tryggja raunverulega dreifingu ferðamanna um landið. Þá er mikilvægt er að hraða stefnumörkun og rannsóknum á málefnasviðinu og verja fjármunum til að mæta þessu.
    Annar minni hluti tekur undir umsögn fjármálaráðs um að auka þurfi gagnsæi í umfjöllun um umfang og áhrif ferðaþjónustunnar, nokkuð sem er erfitt að meta eins og er. Þannig er hugsanlegt, eins og fjármálaráð bendir á, að mælivandi hafi komið í veg fyrir að áhrif ferðaþjónustunnar á efnahagslífið séu að fullu ljós og því mikilvægt að taka saman alla snertifleti hennar við aðra kostnaðarliði í ríkisfjármálum. Þá er ítrekuð fyrri ábending um að mögulega sé gert ráð fyrir of mikilli fjölgun ferðamanna í áætluninni sem gæti haft mikil áhrif á tekjuhlið áætlunarinnar. Ekki er nægjanlega mikið tekið tillit til þessa í áætluninni.
    Þá er mikilvægt að gæta sérstaklega að því að vöxtur ferðaþjónustunnar valdi ekki óbætanlegum umhverfisskaða, enda væri þar með einfaldlega verið að velta vandanum yfir á komandi kynslóðir. Í því samhengi verður að minna á mikilvægi þess að auka framlög til innviðauppbyggingar sem styður bæði við ferðaþjónustuna og landsmenn alla. Draga verður í efa að svokallað stórátak í samgöngumálum standi undir nafni, en í lok tímabilsins mun fjárfestingarhlutfallið fara niður í tæplega 0,6% af landsframleiðslu en á síðustu áratugum hefur hlutfallið aðeins einu sinni farið lægra en það var árið 2012. Þá er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf í kerfinu sömuleiðis sem löngu er tímabært að bregðast við.
    Mikið ákall er eftir uppbyggingu innviða og þjónustu við landsmenn og er ljóst að mikilvægt er að svara því kalli sem greinilega er íbúum landsins mun ofar í huga en mögulegar skattalækkanir. Eins og kemur fram í umsögn fjármálaráðs er útgjaldahlið þessarar áætlunar aukin og tekjuhlið veikt og tekur 2. minni hluti undir að ekki er gengið nógu langt í að afla meiri tekna til að standa undir almennri velferð og meiri jöfnuði í landinu. Mikilvægt er að fjárfesta enn frekar í mikilvægum innviðum eins og bættum samgöngumannvirkjum og sterkara raforkuflutningskerfi og er þá ekki síður verið að greiða niður skuldir. Mikilvægt er að gleyma því ekki að með því að sinna ekki uppbyggingu og endurbótum á innviðum er þar mikil skuldasöfnun þar sem vextirnir eru mun hærri en æskilegt er. Í þessum afborgunum höfum við sannarlega ekki staðið við okkar og er löngu komið að skuldadögum. Þannig snýst þetta í raun um aukið öryggi, aukin lífsgæði og nauðsynlega fjárfestingu til að byggja undir hagvöxt framtíðar sem hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnvalda, hvar í flokki sem þau standa.

Orku- og eldsneytismál, 15. málefnasvið.
    Þegar litið er til orku- og eldsneytismála er ljóst að hér eru sett fram markmið sem flestir geta verið sammála um. Það er því nokkuð hjákátlegt að samhliða þessum metnaðarfullu markmiðum er boðaður niðurskurður á málefnasviðinu upp á 343 millj. kr.
    Þetta vekur nokkrar áhyggjur, einkum þegar horft er til stóraukins hlutverks opinberra aðila í áætluðum orkuskiptum. Raunar vekur enn meiri áhyggjur að markmið áætlunarinnar eru ekki í neinum takti við Parísarsamkomulagið, en samkvæmt markmiðunum er gert ráð fyrir 13% hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2023. Það er því ljóst að hætta verður á háum sektargreiðslum þegar loftslagsmarkmiðin verða samþykkt – nokkuð sem er umtalsvert dýrara fyrir íslenskt samfélag þegar upp er staðið en einfaldlega að standa sig og gera betur en lagt er til í fyrirliggjandi fjármálaáætlun. Þá eru þessi markmið varðandi orkuskipti í samgöngum ekki í neinum takti við ganginn í nýskráningum rafbíla en þar virðist almenningur sem betur fer ganga á undan með góðu fordæmi.
    Þá má í þessu samhengi nefna tækifærin sem gætu falist í uppbyggingu aukinnar nýtingar orkuauðlindar, til að mynda með því að horfa í auknum mæli til fjölbreyttari kosta eins og vindorku þar sem mikil framþróun hefur orðið á undanförnum árum og skapar tækifæri fyrir Ísland til að tryggja enn meiri stöðugleika í raforkuöflun. Þá verður einnig að minnast á tækifærin sem felast í ræktun nýrra skóga, en nauðsynlegt er að horfa til aukinnar kolefnisbindingar samhliða bættri nýtingu orkuauðlinda.
    Hvað varðar önnur markmið á málefnasviðinu í fjármálaáætlun vekur athygli að þrátt fyrir fjölmargar og jákvæðar aðgerðir kemur í ljós þegar betur er rýnt í skjalið að ekki virðist vera mikið á bak við margar aðgerðanna, t.d. að „miðla þekkingu um mikilvægi hugverkaverndar í orkumálum“ og „að greina möguleika á smávirkjunum“ – hvort tveggja hefur annaðhvort þegar verið gert eða er í vinnslu, en áætlunin gerir ráð fyrir að tekin verði fimm ár til viðbótar í það.
    Þá á að vinna mat á endurbótum svæða sem búa við skert afhendingaröryggi og taka fjögur ár í þá vinnu. Æskilegra væri að áætlunin gerði ráð fyrir fleiri raunverulegum aðgerðum sem skila virkilegri framþróun fyrir Íslendinga á tímabilinu sem áætlunin nær til. Aðgerðum og framkvæmdum sem tryggja örugga raforku um land allt, þriggja fasa rafmagn og góð fjarskipti.

Markaðseftirlit og neytendamál, 16. málefnasvið.
    Þetta málefnasvið felur í sér nokkur jákvæð markmið og er þetta raunar annað tveggja málefnasviða þar sem gert er ráð fyrir auknum framlögum, en þó aðeins um 85 millj. kr. – hækkun sem sannarlega mætti vera meiri þegar litið er til þeirra markmiða og aðgerða sem taldar eru upp í áætluninni.
    Sjaldan hefur verið mikilvægara að efla samkeppni hér á landi og tryggja að styrking krónunnar skili sér í vasa neytenda, nokkuð sem ekki er að sjá þegar verðlagsþróun síðustu mánaða er skoðuð. Eitt af markmiðum fjármálaáætlunar undir þessu málefnasviði er að auka traust almennings og fyrirtækja til atvinnulífs og markaðseftirlits, mikilvægt markmið sem taka má undir. Vanda þarf til þeirrar vinnu enda mikilvægt að þetta verði unnið í nánu samstarfi við hagsmunaaðila og þinginu haldið upplýstu.

Alþingi, 21. maí 2018.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.


Fylgiskjal III.


Umsögn 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í fjármálaáætlun á að birta stefnu fyrir málasvið opinberra fjármála til næstu fimm ára og áætla jafnframt tekjur ríkissjóðs og útgjöld hvers málasviðs fyrir sig. Útgjaldarammar eru ákveðnir og ráðuneyti skipta síðan áætluðum fjármunum niður á málaflokka í fjárlagafrumvarpi og á stofnanir og einstök viðfangsefni innan þeirra og birta í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi. Fjármálaáætlun er endurskoðuð árlega en með samþykkt fjármálaáætlunar fyrir árin 2019–2023 eru rammar fyrir fjárlagafrumvarp 2019 ákveðnir. Þeim römmum verður því ekki breytt nema verulegar breytingar verði á afkomu ríkissjóðs frá vori 2018 að hausti sama árs. Auk þess verður fjármálaáætlunin að uppfylla skilyrði fjármálastefnunnar sem gerir kröfu um afkomu á árinu 2019 sem er 1,2% af VLF.
    Fjármálaráð gerir alvarlegar athugasemdir við áætlunina og bendir m.a. á að sá sveigjanleiki sem boðaður var í fyrri fjármálaáætlun sé nú að mestu leyti horfinn. 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur ríka áherslu á að fjárlaganefnd taki tillit til athugasemda og ábendinga fjárlagaráðs og geri breytingar á fjármálaáætluninni í samræmi við þær. Gera þarf breytingar bæði á tekju- og útgjaldahlið áætlunarinnar. Í þessari umsögn er einkum rætt um tekjuhlið áætlunarinnar en auka þarf við tekjur einkum til að skila betri afkomu í góðæri til að undirbúa niðursveifluna en einnig til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum sem ekki er gert ráð fyrir í fjármálaáætluninni.

Skattkerfisbreytingar.
    Þó að erfitt sé að átta sig á orðum ráðherra ríkisstjórnarinnar sem tala ekki einum rómi um fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar má ljóst vera af kaflanum um áherslur í skattamálum, svo sem á bls. 15 í fjármálaáætluninni, að gengið er út frá því að tekjuskattur lækki í neðra skattþrepi um 1 prósentustig. Lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi um 1 prósentustig rýrir tekjur ríkissjóðs um 14 milljarða kr. Í sama kafla stendur þetta: „Samhliða er stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga og bótakerfa, m.a. með það að markmiði að unnt verði að draga úr skattbyrði og koma á fót heildstæðu og einfaldara kerfi, ekki síst í þágu tekjulægri hópa. Þar er horft til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og vegna húsnæðiskostnaðar, með markvissari fjárhagslegum stuðningi við efnaminni heimili.“ Þessi stefna er síðan útfærð með áætluðum fjármunum í fjármálaáætluninni og mikilvægt er að lesa tölur og orð saman svo að ljóst sé hvaða athafnir ríkisstjórnin hyggst láta fylgja orðunum.

Tekjuskattur.
    Fram kemur í greinargerð með fjármálaáætluninni að framtíðarkerfið sem ríkisstjórnin vill koma á verði einfaldara, skilvirkara og gegnsærra en nú. Vísað er í hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2015 og samstarfsvettvangs um aukna hagsæld frá 2016. Báðar hugmyndirnar ganga út á bótakerfi sem sérstaka fátæktaraðstoð og að húsnæðisstuðningur í formi vaxtabóta heyri sögunni til. Einstaklingar fái mismunandi háan persónuafslátt eftir tekjum og vinnuframlagi en skattprósentan verði aðeins ein. Í þessum hugmyndum er ekki gengið út frá tvöföldu hlutverki skattkerfisins, þ.e. tekjuöflunar- og tekjujöfnunarhlutverki þess. Hugmyndirnar miðast við óbreyttar skatttekjur. 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar mælir með því að leitað verði frekar í smiðju annarra norrænna ríkja en til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar breyta á skattkerfi sem standa á undir aukinni velferð.
    Samfylkingin vill að tekjuskattur sé þrepaskiptur og gegni því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla að tekjujöfnun. Við viljum endurskoða bilin milli skattþrepa, fjölga skattþrepunum og tryggja sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.
    Ójöfnuður hvort sem litið er til tekna eða eigna er að aukast hér á landi og nýta þarf skattkerfið til að jafna leikinn. Lesa má úr svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, að um 218 fjölskyldur, sem mynda ríkasta 0,1% landsmanna, áttu 201,3 milljarða kr. í hreinni eign í lok árs 2016. Hópurinn jók hreinar eignir sínar um 14 milljarða kr. á því ári. Ef því væri dreift jafnt væri það svipað því að hver og einn framteljandi hefði aukið hreina eign sína um 67 millj. kr. á árinu 2016, eða um 5,6 millj. kr. á mánuði. Ríkasti tíundi hluti þjóðarinnar tók til sín tæpan helming þeirrar hreinu eignar sem varð til á því ári.
    Fyrsti minni hluti leggur til að fjárlaganefnd geri breytingar á tekjuhlið fjármálaáætlunarinnar sem gera ráð fyrir að skattþrepunum verði fjölgað, persónuafsláttur hækkaður, fjármagnstekjuskattur verði þrepaskiptur og stóreignaskattur lagður á umtalsverðar eignir umfram íbúðarhúsnæði fólks.

Barnabætur.
    Jafnaðarmenn vilja einnig auka vægi barnabóta sem ásamt húsnæðisbótum og persónuafslættinum eru mikilvægustu jöfnunartækin sem stjórnvöld geta beitt.
    Fyrsti minni hluti mótmælir því harðlega að þak sé sett á barnabætur til næstu fimm ára og boðað að þær verði styrkur til fátækra en ekki leið til að jafna stöðu barnafólks við stöðu þeirra sem ekki eru með börn á framfæri. Fjölskyldum sem njóta barnabóta hefur fækkað um rúmlega 12 þúsund frá árinu 2013 þegar hægri menn komust aftur til valda.
    Annars staðar á Norðurlöndum, og reyndar víða í Evrópu, hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings við barnafjölskyldur en hér á landi hefur verið dregið úr vægi barnabóta jafnt og þétt. Þeirri afleitu stefnu á að viðhalda. Upphæðin sem lagt er til að Alþingi samþykki að verja til barnabóta á ári næstu fimm árin er nánast sú sama og Alþingi samþykkti fyrir fimm árum. Helsta niðurstaða nýlegrar skýrslu frá norrænu ráðherranefndinni er að vaxandi ójöfnuð á Norðurlöndum megi skýra með því að bætur hafi ekki hækkað í takt við laun undanfarin ár. Barnabætur hér á landi byrja að skerðast langt undir lágmarkslaunum samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
    Hvergi er að sjá í fjármálaáætluninni að gert sé ráð fyrir fjármagni í lengra fæðingarorlof sem þó er talað um í stjórnarsáttmálanum.
    Fyrsti minni hluti leggur ríka áherslu á að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði, en einnig að fjármagn til barnabóta verði hækkað og tekin verði markviss skref á næstu fimm árum þannig að barnafjölskyldur muni um greiðslurnar til að jafna stöðu þeirra við stöðu þeirra sem ekki eru með börn á framfæri.

Húsnæðisstuðningur.
    Draga á úr húsnæðisstuðningi þannig að undir lok áætlunartímans eru áætlaðir umtalsvert minni fjármunir í stuðninginn en í upphafi tímans. Ekkert er nefnt í húsnæðismálum sem tekur á þeim stóra vanda sem snýr að efnahag en ekki síður að velferð fólksins sem á í erfiðleikum með að eignast eigið heimili eða nær vart endum saman vegna þess hve húsnæðiskostnaður er hár. 1. minni hluti hvetur fjárlaganefnd til að setja fram breytingartillögur sem taka á húsnæðisvandanum. Afleiðingar þess vanda eru ekki aðeins efnahagslegar heldur hafa þær mikil áhrif á velferð þeirra sem eiga í erfiðleikum með að eignast heimili og greiða húsaleigu eða annan húsnæðiskostnað.

Auðlindagjöld.
    Við Íslendingar erum rík af auðlindum og teljum það eina okkar mestu blessun. Við erum þó ekki góð í að innheimta sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlinda. Það á við um fiskveiðiauðlindina en einnig um orkuauðlindir og aðrar náttúruauðlindir. Þótt margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi vantar enn réttlætistilfinninguna fyrir því að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið. Með útboði á aflaheimildum og leigusamningum til ákveðins tíma fengist fullt verð fyrir kvótann. Sanngjarn hlutur auðlindarentunnar frá orkufyrirtækjunum ætti að renna í ríkissjóð og gjaldtaka af ferðamönnum einnig. Eins ríkir af auðlindum og Íslendingar eru getur það ekki verið ásættanlegt að almenningur fái ekki að njóta réttláts hlutar af arðinum sem annars rennur til þeirra sem hafa réttinn til að fénýta auðlindirnar eða geta tekið sér þann rétt vegna stefnuleysis stjórnvalda.

Skattastyrkir.
    Eins og fjármálaráð bendir réttilega á stuðlar fjölbreyttara atvinnulíf að stöðugleika. Í umsögn fjármálaráðs segir: „Fjölbreytt samsetning atvinnuvega getur mildað áhrif áfalla í einstökum greinum á efnahagslífið, sérstaklega í litlum opnum hagkerfum eins og okkar. Ekki er heppilegt að geyma öll eggin í sömu körfu.“ Ferðaþjónustan er á skömmum tíma orðin ein stærsta atvinnugrein landsins. Snöggur samdráttur í þeirri grein hefði mikil áhrif á efnahagslífið eins og snögg fjölgun ferðamanna hefur sannarlega haft á undanförnum árum.
    Fyrsti minni hluti telur skorta raunverulega atvinnustefnu í landinu og bendir á mikilvægi þess að styðja við sprota í atvinnulífinu og hjálpa þeim að vaxa og skila til þjóðarbúsins en jafnframt á mikilvægi þess að hætta stuðningi þegar atvinnugrein þarf ekki lengur á stuðningi að halda eða hefur með stuðningi stjórnvalda rutt öðrum greinum út úr atvinnulífinu. Engin atvinnugrein nýtur eins mikilla skattastyrkja frá hinu opinbera og stærsta atvinnugrein landsins, ferðaþjónustan. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi 2018 eru skattastyrkir til ferðaþjónustunnar metnir á um 26,5 milljarða kr.
    Fyrsti minni hluti telur í ljósi mikilvægis fjölbreytni í atvinnulífinu fyrir stöðugleika í efnahagslífi að stjórnvöld þurfi að beita skattastyrkjum með markvissari hætti.

Skatteftirlit.
    Í greinargerð með fjármálaáætluninni er rætt um að herða þurfi eftirlit með skattskilum og 1. minni hluti tekur undir þau sjónarmið. Hins vegar telur 1. minni hluti að hærri fjárhæð þurfi til þannig að ásættanlegur árangur náist með skattrannsóknum og eftirliti, bæði með skattsvikum innan lands en einnig með þeim sem svíkja undan skatti með því að nota erlend skattaskjól. Sú viðbót sem lögð er til í fjármálaáætluninni til skattrannsókna og eftirlits er tekin til baka á næstu tveimur árum. Þessu þarf að breyta eigi stefna ríkisstjórnarinnar að ná fram að ganga.

Jafnrétti.
    Lengra fæðingarorlof, hærri barnabætur sem fleiri fá notið og húsnæðisstuðningur í takt við þarfir eru mál sem stuðla að jafnari stöðu karla og kvenna. Hins vegar vinnur skattafsláttur í formi samnýtingar skattþrepa gegn jafnrétti ef svo má að orði komast. Greining fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umfangi samnýtingar persónuafsláttar og skattþrepa fyrir tekjuárin 2010–2015 sýnir að úrræðið er algengast meðal tekjuhæstu hjóna/sambýlisfólks og að 93% af endurgreiðslunni nýtist til hækkunar ráðstöfunartekna karla. Samnýtingin hvetur til minni atvinnuþátttöku tekjulægri maka í samsköttun sem oftast eru konur. 1. minni hluti telur að eftir engu sé að bíða og leggur til að heimild til samnýtingar verði lögð niður frá og með 1. janúar 2019. Áætlað umfang skattafsláttarins er um 2,7 milljarðar kr. árið 2018.

Félagsleg undirboð.
    Enginn vafi leikur á því að félagsleg undirboð ógna sjálfum grundvelli velferðarsamfélagsins sem einmitt byggist á afkomuöryggi allra og samstöðu um réttindi og kjör sem gilda fyrir alla. Heilbrigður vinnumarkaður er undirstaða góðra samfélaga og svikin verður að stöðva. Brotastarfsemin beinist einkum að þeim sem eru veikastir fyrir, ungu fólki og erlendum starfsmönnum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.
    Félagsleg undirboð kalla á skýr viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Slík svik á vinnumarkaði hafa alvarlegar fjárhagslegur afleiðingar jafnt sem félagslegar. Viðbrögð stjórnvalda verða að vera í samræmi við alvarleika málsins og gera verður ráð fyrir fjármunum til að verja heilbrigði vinnumarkaðarins hér á landi.

Alþingi, 9. maí 2018.

Oddný G. Harðardóttir.


Fylgiskjal IV.


Umsögn 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Að beiðni fjárlaganefndar hefur umhverfis- og samgöngunefnd fjallað um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023, um málefnasvið 8 Sveitarfélög og byggðamál, málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál og málefnasvið 17 Umhverfismál. 1. minni hluti veitir sérstaka umsögn um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023. Fjallað verður um einstaka þætti með ítarlegri hætti í umræðum um fjármálaáætlun þegar til hennar kemur.

Framsetning fjármálaáætlunar.
    Fyrsti minni hluti tekur undir orð fjölda þeirra er sent hafa inn umsagnir um fjármálaáætlun varðandi það hversu mikilvægt það er að fjármálaáætlun sé gagnsæ og skilmerkilega upp sett. Þá tekur 1. minni hluti undir umsögn Ríkisendurskoðunar sem segir mikilvægi fjármálaáætlunar sjást best á því að hana skuli leggja til grundvallar við fjárlagagerð ríkis og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga á hverju ári. Því sé mikilvægt að kollvarpa ekki þeirri áætlun sem áður hafði verið samþykkt, enda þurfi stofnanir ríkis og sveitarfélög að miða rekstur sinn út frá fjármálaáætlun til lengri tíma en eins árs. Telur 1. minni hluti fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 ekki tryggja nauðsynlega samfellu í ríkisrekstri og telur jafnframt að skorti á skýra tengingu milli fjármálaáætlunar, fjármálastefnu og fjárlaga.
    Þá gagnrýnir 1. minni hluti þann tímaramma sem Alþingi er veittur til vinnu við svo umfangsmikið verk sem fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 er. Um er að ræða eitt mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar og því nauðsynlegt að eftirlitshlutverk þingsins sé ekki skert með ónógum málsmeðferðartíma.

Málefnasvið 8 Sveitarfélög og byggðamál.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir að einungis skuli vera tilgreindur útgjaldarammi málefnasviðs 8 og að ekki sé að finna neinar sundurgreinanlegar upplýsingar einstakra fjárlagaliða. Erfitt er því að gera sér grein fyrir hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að forgangsraða fjármunum í ákveðin verkefni og jafnframt afar flókið fyrir þá aðila sem eiga að miða sína fjárhagsáætlun við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að finna út hvað sé í vændum. Lög um opinber fjármál voru einmitt sett til að auka festu í stjórn opinberra fjármála, stuðla að góðri hagstjórn og auka gagnsæi en fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 vinnur að þessu leyti á móti því markmiði laganna. Framlög til málaflokksins í heild sinni eru mikil og því brýnt að vel sé haldið á málum. Fjármálaáætlun ber þess ekki merki að svo sé. Vert er að benda á að í fjármálaáætlun tekur málefnasviðið sveitarfélög eingöngu til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Skipulagssjóðs. Kemur þetta í veg fyrir að hægt sé að sjá heildræna stefnumörkun stjórnvalda í byggðamálum. Þá hefur stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2019–2024 nýlega verið lögð fram og málið er nýlega komið til nefndar. Hefur umfjöllun um þá áætlun vart hafist í nefndinni. Vænta má samgönguáætlunar í fyrsta lagi næsta haust, en um er að ræða samgönguáætlun til næstu fimm ára. Telur 1. minni hluti að betur hefði farið á því að umræddar áætlanir, sem svo mjög fléttast saman, hefðu verið unnar samhliða svo hægt væri að rýna samfellu og samræmi í þessum mikilvægu og óaðskiljanlegu áætlunum. Hvort tveggja skapar þetta vinnulag ríkisstjórnarinnar ógagnsæi og hættu á misfellum í svo viðamiklum en óaðskiljanlegum málaflokkum sem fjármálaáætlun, samgönguáætlun og byggðaáætlun eru. Er þetta á skjön við þá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem finna má í stefnuskrá hennar að allar þær áætlanir sem eigi að halda til lengri framtíðar þurfi að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum enda ljóst að sá knappi tími sem veittur er til að vinna fjármálaáætlun er síst til þess fallinn að bæta vinnubrögð þingsins.
    Þá er loks nauðsynlegt að benda á hversu lítið er fjallað um sóknaráætlun landshluta í fjármálaáætlun og það hversu mikilvægt það er að aukið fjármagn sé veitt til sóknaráætlana landshluta. Er þar tekið undir álit Sambands íslenskra sveitarfélaga sem skilað hefur umsögn um fjármálaáætlun.

Málefnasvið 11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
    Umfang málefnasviðs 11 skiptist í þrjá flokka, í samgöngur, þá fjarskipti, netöryggi og póstþjónustu og loks stjórnsýslu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
    Undirstofnanir, þ.e. Samgöngustofa, Vegagerðin og rannsóknarnefnd samgönguslysa, hafa ekki skilað inn umsögnum vegna fjármálaáætlunar og því óljóst með afstöðu þeirra.
    Fyrsti minni hluti lýsir miklum vonbrigðum með það að ekki sé komin fram samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar til samanburðar við þá fjármálaáætlun sem hér er fjallað um. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að hið svokallaða stórátak ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum, sem boðað var í stjórnarsáttmálanum, er langt í frá það sem birtist í fjármálaáætlun. Taka Samtök iðnaðarins í sama streng í umsögn sinni um fjármálaáætlun en álag á samgöngukerfið hefur aukist umtalsvert undanfarin ár. Aukinn fjöldi ferðamanna og vanræksla viðhalds og uppbyggingar vegakerfis undanfarinn áratug hefur leitt til þess að nauðsynlegt er að bregðast við af alvöru. Fjölgun slysa í umferðinni er í samræmi við fjölgun ferðamanna á vegum úti og verða stjórnvöld einnig að bregðast við því með auknu öryggi í samgöngum. Af fjármálaáætlun er því miður ekki að sjá að ríkisstjórnin átti sig á alvarleika málsins. Hættur á vegum úti af völdum ófullnægjandi samgöngukerfis er það sem blasir við og því þarf raunverulegt stórátak til að bæta úr. Samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 verða framlög til samgöngumála viðlíka hlutfall af landsframleiðslu og þau hafa verið síðastliðin ár og langt undir þörf. Nauðsynlegt er að ráðast hvort tveggja í viðhald og nýfjárfestingu til að bregðast við þeim uppsafnaða vanda sem skapast hefur með vanrækslu undanfarinna ára. Framlög verða 0,7% af landsframleiðslu á tímabilinu sem er langt undir langtímameðaltali hér á landi, en á fyrsta áratug aldarinnar var hlutfallið 1,1%. Færi betur á því, vegna þeirrar brýnu þarfar sem blasir við, að reynt yrði að nálgast fyrra meðaltal en í stað þess má sjá í fjármálaáætlun að ríkisstjórnin ætlar á síðari hluta tímabils fjármálaáætlunar þvert á móti að lækka framlag niður í 0,6% af landsframleiðslu.

Almenningssamgöngur.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar koma fram áherslur í samgöngu- og umhverfismálum. Þar segir að ríkisstjórnin vilji gera betur en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Kolefnishlutleysi verður náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig segir að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og að stutt verði við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Vegna þessa vekur 1. minni hluti athygli á því sem nú stendur í fjármálaáætlun ríkisstjórnar fyrir árin 2019–2023 þegar kemur að viðbótarframlagi í almenningssamgöngur. Eingöngu er minnst einu sinni á hið gríðarmikilvæga verkefni borgarlínu, með þeim orðum að vilji sé til að eiga samstarf við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu og aðrar framkvæmdir á svæðinu. Ekkert fjármagn er áætlað í hið mikilvæga verkefni en aðkoma ríkisins er grunnforsenda þess að af því verði. Þá er slík uppbygging á umferðarþyngsta svæði landsins jafnframt grunnforsenda þess að staðið verði við skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu.
    Þá saknar 1. minni hluti einnig umfjöllunar í fjármálaáætlun um almenningssamgöngur um land allt enda mikilvægt að mótuð sé skýr afstaða stjórnvalda til samstarfs ríkis og sveitarfélaga um allt land þegar kemur að almenningssamgöngum. Skýrt þarf að vera að fjárframlag aukist til þessa mikilvæga verkefnis til lengri tíma og óvissu verði eytt svo að hægt sé að byggja upp almenningssamgöngur til framtíðar, hvort sem um er að ræða á vegum, í lofti eða á hafi.
    Stærsta einstaka áskorun nútímans í stjórnmálum er að takast á við loftslagsvána. Því telur 1. minni hluti algjört forgangsatriði að huga af festu að uppbyggingu hvers kyns almenningssamgangna um allt land. Lýsir 1. minni hluti vonbrigðum með það hversu lítið er um þetta fjallað í þessu mikilvæga stefnuplaggi sem fjármálaáætlun er.

Fjarskipti netöryggi og póstmál.
    Fyrsti minni hluti fagnar metnaðarfullri áætlun í lagningu ljósleiðara um allt land. Þó væri gott að sjá slíku átaki flýtt enda ekki ætlunin að ljósleiðaravæða lögheimili í dreifbýli svo heitið geti fyrr en í lok tímabils fjármálaáætlunar eða árið 2023. Mikill hraði er í fjarskiptum og óöryggi í netmálum og fjarskiptum almennt stendur uppbyggingu innviða og atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum fyrir þrifum. Þá er vert að benda á að samkvæmt töflum sem finna má í fjármálaáætlun ríkir töluvert mikil óvissa með áætlun þá sem lögð er fram og telur 1. minni hluti mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að koma þessari framkvæmd á rekspöl sem fyrst. Um er að ræða mikilvægt byggða- og jafnréttismál sem ekki þolir frekari töf.

Málefnasvið 17 Umhverfismál.
    Fyrsti minni hluti fagnar þeirri áherslu sem ríkisstjórnin setur á umhverfismál. Framtíðarsýn sú sem greina má í kaflanum um umhverfismál er lofsverð en þar má sjá metnaðarfull markmið í lofslagsmálum, náttúruvernd, sjálfbærni og er varðar náttúruvá svo eitthvað sé nefnt. Þó að einhverja fjáraukningu megi sjá renna til málaflokksins er ljóst að miðað við þau háleitu markmið sem stefnt er að fylgir ekki fjármagn því sem áætlað er að gert verði. Þá er í þessum kafla, sem og annars staðar í fjármálaáætlun, illgreinanlegt til hvers þær auknu fjárheimildir eru ætlaðar. Þannig er erfitt að átta sig á fjármagni næstu fimm ára til einstakra málaflokka, svo sem skógræktar, loftslagsmála, náttúruverndar og innviðauppbyggingar og síðast en ekki síst til stjórnsýslu umhverfismála. Samhliða umfjöllun um fjármálaáætlun hefur umhverfis- og samgöngunefnd fjallað um frumvarp til laga um breytingu á mati á umhverfisáhrifum og hafa fjölmargir gestir mætt fyrir nefndina. Má heyra samhljóm í orðum allra er varðar mikilvægi þess að efla stjórnsýslu umhverfismála því svo virðist sem þar sé flöskuháls sem skapar viðbótartogstreitu milli umhverfisvina og framkvæmdaraðila.
    Þá vekur það athygli 1. minni hluta að um leið og ákveðið er að auka útgjöld til umhverfismála sé tekin ákvörðun um að fara hægar í hækkun kolefnisgjalds en áður var áætlað. Verður að telja það afar misráðið enda um að ræða tekjuöflun ríkissjóðs sem ætla má að sé nauðsynleg til að mæta auknum útgjöldum til málaflokksins. Kolefnisgjaldið var hækkað um 50% 1. janúar 2018 en samkvæmt samþykktri fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 átti að hækka það um 100% á sama tíma. Í fjármálaáætlun 2019–2023 er lagt til að kolefnisgjald verði hækkað um 10% árið 2019 og svo um önnur 10% árið 2020. Gert er ráð fyrir að hvor hækkun um sig skili ríkissjóði um 600 millj. kr. árlega. Verður að telja þetta sérstök skilaboð til samfélagsins á sama tíma og landsmenn verða að taka stærri og ákveðnari skref en nokkru sinni í baráttu sinni gegn útblæstri kolefnis. Rannsóknir hafa sýnt að slíkar álögur sem kolefnisgjald er hafa umtalsverð áhrif til minnkunar á notkun einkabíla og því mikilvægt að ekki sé slegið slöku við þegar kemur að slíku átaki gegn loftslagsvánni.
    Að öðru leyti kveðst 1. minni hluti sig ekki eiga þess kost að fjalla með ítarlegri hætti um umhverfiskafla fjármálaáætlunar vegna þess hve fjárliðir áætlunarinnar eru óskýrir. Ógagnsæi og skortur á fjármálaupplýsingum er of mikill í þessum kafla til þess að hægt sé með fullnægjandi hætti að veita umsögn um málaflokkinn.
    Það er auðvitað með öllu óásættanlegt að búa svo um hnútana að Alþingi verði að skila frá sér umsögn og afgreiðslu á svo óljósu plaggi sem fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 er. Lýsir 1. minni hluti yfir miklum áhyggjum af slíkum vinnubrögðum.

Alþingi, 20. maí 2018.

Helga Vala Helgadóttir.

Fylgiskjal V.


Umsögn minni hluta utanríkismálanefndar.


    Að beiðni fjárlaganefndar hefur utanríkismálanefnd fjallað um 4. kafla tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 sem fjallar um utanríkismál. Minni hlutinn tók ákvörðun um að veita fjárlaganefnd sérstaka umsögn. Þá hefur verið haldinn sameiginlegur fundur með fjárlaganefnd um það sem lýtur að utanríkismálanefnd. Hér fer á eftir umsögn minni hluta um áætlunina.

Framsetning og uppbygging fjármálaáætlunar.
    Áður en farið verður efnislega í efni fjármálaáætlunar er lýtur að utanríkismálum vill minni hlutinn koma á framfæri gagnrýni á þann stutta tíma sem Alþingi er gefinn til vinnslu á þessu mikilvægasta máli hverrar ríkisstjórnar og bendir á þá hættu sem í því getur falist. Að sjálfsögðu verður að virða ríkisstjórn það til vorkunnar að kosið var á óvenjulegum tíma, annað árið í röð, og því skemmri tími til stefnu en ella. Það breytir því þó ekki að vanda verður til verka.
    Framsetning og uppbygging áætlunarinnar er á köflum óskýr og ekki til þess fallin að auðvelda vinnu Alþingis við hana. Óljóst er hvernig fjármunum er varið í einstaka málaflokka, sundurliðun talna er ófullnægjandi og ekki alltaf samræmi í orðum og tölum. Þetta er óboðlegt og vinnur beinlínis gegn einum megintilgangi fjármálaáætlunar, að skýra vel stefnu stjórnvalda og auka gagnsæi við ákvarðanir og ráðstöfun opinbers fjármagns.
    Einnig vill minni hlutinn benda á þá óvissu sem ríkir um þær efnahagslegu og samfélagslegu forsendur sem lagðar eru til grundvallar fjármálaáætluninni eins og kemur fram í vel rökstuddri álitsgerð fjármálaráðs um áætlunina. Ráðið gagnrýnir skort á svigrúmi til að mæta áföllum ef hagspár breytast. Þetta er áhyggjuefni og stjórnvöldum ber að taka umsögnina alvarlega.

Almennt.
    Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem lögð var fram á Alþingi 13. apríl sl. er fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar grundvallarplagg í utanríkisstefnu Íslands. Í kafla fjármálaáætlunar um utanríkismál eru heildarútgjöld ríkissjóðs til utanríkismála birt og á bls. 178 er tekið fram að framlög verði aukin um rúmlega 2,44 milljarða kr. á næstu fimm árum. Aftur á móti er mjög óskýrt í hvað þessir fjármunir eiga nákvæmlega að renna. Fjármálaáætlunin á samkvæmt lögum um opinber fjármál að sýna markmið, mælikvarða og aðgerðir á greinargóðan hátt. Það gerir áætlunin hins vegar ekki nægilega vel.
    Málefnasvið utanríkisráðuneytisins eru fimm og skiptast með eftirfarandi hætti: Utanríkisþjónusta og stjórnsýslu utanríkismála, utanríkisviðskipti, samstarf um öryggis- og varnarmál, þróunarsamvinna og samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs.
    Í skýrslu utanríkisráðherra er fjallað talsvert um sautján heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Aðild að þeim er á forræði utanríkisráðuneytisins. Markmiðin eru algild og taka líka til Vesturlanda.
    Í raun kristallast heimsmarkmiðin í þremur risaáskorunum, baráttu gegn loftslagsvánni, fátækt og ófriði. Þótt vissulega megi sjá þess stað í áætluninni að verið sé að verja auknum fjármunum til að ráðast gegn þeim er þó allt of lítið gert og víðs fjarri þeim markmiðum sem einstakir stjórnarflokkar hafa talað fyrir, stjórnarsáttmálanum, svo ekki sé minnst á þá þætti sem Alþingi sjálft hefur ályktað um, einni röddu.
    Við eigum að ástunda framsækna, opna utanríkispólitík þar sem lögð er höfuðáhersla á samvinnu við aðrar þjóðir. Það er skilvirkasta leiðin að heimsmarkmiðunum. Framlög til utanríkismála verða að endurspegla það.

Loftslagsmál.
    Í stjórnarsáttmálanum kemur fram skýr vilji til hækkunar kolefnisgjalds í því skyni að stuðla að samdrætti koltvísýringslosunar og þar er áhersla lögð á alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Utanríkisráðherra er einn af ábyrgðaraðilum Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál. Gera verður þá kröfu að hann fylgi markmiðum þess eftir við ríkisstjórnarborðið. Þótt sjá megi þess stað í fjármálaáætlun að leggja eigi meiri metnað í baráttu gegn loftslagsógninni er fjarri því nóg að gert.
    Sérstaka athygli vekur að í fjármálaáætlun er einungis gert ráð fyrir 10% hækkun kolefnisgjalds árið 2019 og öðrum 10% árið 2020. Þar með yrði hækkunin komin í 71% árið 2020 en í síðustu fjármálaáætlun, sem lögð var fram af fyrrverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannessyni, var gert ráð fyrir að sú hækkun yrði 100%. Minni hlutinn telur að hvorki með þessu né öðrum tilteknum aðgerðum í fjármálaáætlun sé verið að skapa forsendur til að ná markmiði ríkisstjórnarinnar sem er í samræmi við þátttöku í samstarfi Evrópuþjóða, um 40% samdrátt í losun.
    Alþjóðabankinn, OECD og virtar háskólastofnanir hafa sterklega mælt með hækkun kolefnisgjalds sem lykilaðgerð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Þá má ekki gleyma ágætri skýrslu sem Lilja Alfreðsdóttir ritstýrði fyrir hönd þingmannaráðs NATO sumarið 2017. Ein helsta niðurstaða þeirrar skýrslu var að kolefnisgjald yrði að hækka svo um munaði.
    Minni hlutinn telur, í ljósi mikilvægis málaflokksins, að skýra verði betur hvernig fjármunum sem snúa að skuldbindingum Íslands í umhverfismálum í samræmi við undirritun Parísarsamkomulagsins verði varið og þann hluta framkvæmdar hans sem fellur undir verkefnasvið utanríkisráðuneytisins og varðar ábyrgðarhluta ráðuneytisins í því að samþætta loftslagsmál við utanríkisstefnuna.

Utanríkisviðskipti.
    Í fjármálaáætlun er kveðið á um að bæta skuli aðgengi íslensks atvinnu- og menningarlífs að erlendum mörkuðum, m.a. með fríverslunarsamningum og því að efla samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Auk þess er fjallað um að styrkja kynningar- og markaðsstarf í samvinnu fyrirtækja og hins opinbera og að efla hagsmunagæslu Íslands við mótun EES-löggjafar.
    Á bls. 161 í tillögunni liggja fyrir tölulegar upplýsingar um að hækka eigi framlög til málaflokksins um 66 millj. kr. frá árinu 2017 til 2018. Aftur á móti er engar tölulegar upplýsingar að finna um fjármuni í málaflokkinn eftir það, fram til ársins 2023. Minni hlutinn tekur undir ýmsar þær aðgerðir sem leggja á áherslu á en gagnrýnir að ekki er sýnt með fullnægjandi hætti hvernig á að fjármagna þær næstu ár.

Þróunarsamvinna.
    Þegar kemur að málaflokknum þróunarsamvinna má greina sama stef ógagnsæis og einkennir fjármálaáætlunina.
    Í fjármálaáætluninni fyrir árin 2019–2022 kemur fram að íslensk stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum sínum til þróunarsamvinnu. Minni hlutinn tekur heils hugar undir þau markmið en telur útgjaldaáætlun fyrir þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk ófullnægjandi.
    Framlög til þróunarsamvinnu verða 0,26% af vergum þjóðartekjum árið 2018 samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra og stefnt er að því að þau hækki upp í 0,35% á næstu fimm árum. Þessi framlög eru í ekki í samræmi við stuðning stjórnvalda við markmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7% af vergum þjóðartekjum og ekki í samræmi við siðferðislegur skyldur Íslands til að skara fram úr í þessum málaflokki sem ein af ríkustu þjóðum heims.
    Þróunarsamvinnu má skipta í fjögur meginsvið, mannúðaraðstoð, markaðsstarf, tvíhliða aðstoð og framlög innan lands. Undir framlög innan lands fellur kostnaður við flótta- og hælisleitendur. Hlutfall þessa hluta innan DAC, Þróunarsamvinnustofnunar OECD, er 10,9% á meðan það hlutfall er 36% á Íslandi, það hæsta innan samtakanna. Þótt heimilt sé að telja þetta til þróunarsamvinnu er þetta mjög hátt hlutfall. Þá eru settar mjög strangar reglur um hvað má flokka hér með. Á Íslandi hefur það tíðkast að greina þetta ekki sérstaklega heldur gefa sér að 50% af kostnaði við málaflokkinn falli undir þróunarsamvinnu. Þetta er óásættanlegt. Setja þarf skýrar verklagsreglur sem leiða réttan kostnað í ljós, auk þess sem stefna ætti að því að hlutfall þessa af þróunarsamvinnu lækki, án þess að það bitni á móttöku flóttamanna og hælisleitenda.
    Þörfin fyrir alþjóðlega þróunarsamvinnu hefur sjaldan verið meiri. Tugir milljóna eru á flótta undan stríðsátökum, ofbeldi, fátækt og ekki síst loftslagsvánni – og augljóst er að sá hópur mun stækka mikið næstu árin. Minni hlutinn gagnrýnir metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í málaflokknum og minnir á samþykkta þingsályktun frá árinu 2013 þar sem gert var ráð fyrir að Ísland yrði komið upp í viðmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7% af vergum þjóðartekjum árið 2019.
    Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks trassaði vilja þingsins og framlög voru dregin saman. Sama var uppi á teningnum í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Vegna áherslu Vinstri grænna í þróunarsamvinnumálum var minni hlutinn vongóður um metnaðarfyllri hækkanir í skrefum á áætlunartímanum. Það eru vonbrigði að þær hafi brugðist.

Evrópusamruni.
    EES-samningurinn er mikilvægasti alþjóðaviðskiptasamningur sem Ísland á aðild að. Í einu vetfangi breyttist íslenskur markaður úr 300.000 manna svæði í 300 milljóna manns og síðar 500 milljóna með stækkun Evrópusambandsins. Þá er ótalinn sá ávinningur sem hann færir okkur á öðrum sviðum. Hann ber því að verja af öllu afli. Tekið er undir áherslur sem miða að því að koma fyrr inn í ferlið við innleiðingu reglugerða en varast að tefla honum í tvísýnu með glæfralegri utanríkispólitík.
    Ísland þarf í sjálfu sér að gæta fyllstu hagsmuna gagnvart Bretum við útgöngu úr ESB, en skynsamlegast er að vera í samfloti með EFTA-ríkjunum eftir fremsta mætti.
    Góð samskipti við ESB eru okkur gríðarlega mikilvæg og skynsamlegast er að setja aukið fjármagn í starfsstöðina í Brussel þannig að allar fastanefndir hafi þar starfsmenn en ekki síður að fulltrúi þingsins sjálfs sé þar til staðar. Þó að núverandi ríkisstjórn hafi í stjórnarsáttmála útilokað inngöngu í ESB geta skjótt skipast veður í lofti, eins og dæmin sanna. Ný stjórnvöld gætu ákveðið að kúvenda þeirri afstöðu en alls ekki er ólíklegra að öryggis- og varnarmál, viðskiptahagsmunir, kostnaður af okkar örmynt eða vilji almennings breyti stefnu stjórnarflokkanna.
    Útganga Breta úr Evrópusambandinu er hluti af mestu breytingum í alþjóðastjórnmálum sem verða þessi missirin, enda risastórt pólitískt og efnahagslegt mál sem mun marka þáttaskil í sögu Evrópusamrunans. Á bls. 170 í tillögunni segir: „Málefni útgöngu Breta er eitt helsta forgangsmál utanríkisþjónustunnar og verður það þar til samningar um framtíðartilhögun viðskipta Íslands og Bretlands eru í höfn.“ Minni hlutinn tekur undir mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld undirbúi þetta verkefni sem best, hvort sem átt er við efnahagslega þætti, samfélagslega eða menningarlega. Þrátt fyrir hversu gríðarlega mikilvægt það er að Ísland gæti að framtíðarsamskiptum við Bretland er hvergi að sjá að utanríkisráðuneytið ætli að bæta við fjármunum í hagsmunagæslu á næstu fimm árum.
    Samkvæmt fjármálaáætlun er fyrirséð að starfsemi utanríkisráðuneytisins vegna Brexit muni aukast jöfnum skrefum þar til framtíðarsamningur er í höfn og það muni krefjast mikils af utanríkisráðuneytinu, einstökum sendiskrifstofum og fagráðuneytum.
    Þrátt fyrir þetta er hvergi hægt að finna sérstakar fjárveitingar í þessa starfsemi utanríkisráðuneytisins að öðru leyti og óljóst af fjármálaáætluninni hvernig ráðstafa eigi fjármunum til að sinna þessu verkefni eða hvort eigi að fara í tilfærslu fjármuna til að fjármagna þau.

Öryggis- og varnarmál.
    Samstarf við Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO), virkt samstarf við grannríki og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru meginstoðir í stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Mikilvægt er að treysta það samstarf áfram. Nýjar hættur steðja þó að ríkjum, einnig Íslandi, ekki síst þegar kemur að netógnum. Ísland verður að efla netöryggi í alþjóðlegri samvinnu. Nauðsynlegt er að fylgja eftir stefnu stjórnvalda um net- og upplýsingaöryggi fyrir tímabilið 2015–2026. Til þess þarf þó verulega fjármuni en ekki verður séð á fjármálaáætlun hvort eða yfirhöfuð í hvaða mæli þeir eru tryggðir.

Lokaorð.
    Niðurstaða minni hlutans er sú að ýmislegt gott sé að finna í kafla fjármálaáætlunarinnar um utanríkismál. Þar má helst nefna aukið vægi auðlinda- og umhverfismála, mikilvægt samstarf í sambandi við hafrétt og norðurskautið og eflingu Evrópusamstarfs í gegn um EES, sér í lagi með hliðsjón af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
    Aftur á móti gagnrýnir minni hlutinn framsetningu kaflans í fjármálaáætlun, en afar óskýrt er hvernig fjármunir muni dreifast á mismunandi verkefni og stofnanir. Það er áhyggjuefni og dregur úr trúverðugleika þeirra loforða sem sett eru fram í kaflanum. Minni hlutinn gagnrýnir auk þess metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar varðandi baráttuna við loftslagsbreytingar og framlög til þróunarsamvinnu eins og kemur fram hér að framan. Minni hluti utanríkismálanefndar beinir því til fjárlaganefndar að taka til skoðunar framangreind atriði við vinnslu fjármálaáætlunar fyrir árin 2019–2023.

Alþingi, 18. maí 2018.

Logi Einarsson.


Fylgiskjal VI.


Umsögn minni hluta velferðarnefndar.


    Velferðarnefnd hefur borist beiðni frá fjárlaganefnd um að gefa tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 umsögn. Hér á eftir verður fjallað sérstaklega um hvert málefnasvið sem undir nefndina heyrir en rétt er að víkja fyrst að þinglegri meðferð áætlunarinnar hingað til.
    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal fjármála- og efnahagsráðherra leggja fram fjármálaáætlun eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Stuttu fyrir lok mars tilkynnti fjármála- og efnahagsráðherra forseta Alþingis með einhliða yfirlýsingu að hann hygðist leggja fjármálaáætlunina fram eftir lögbundið tímamark sem er að finna í fyrrgreindri 5. gr. Fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 var svo útbýtt á Alþingi 4. apríl 2018. Þó var að finna í áætluninni galla sem gerðu það að verkum að prenta þurfti hana upp. Af þeim orsökum gat vinna nefndasviðs Alþingis ekki hafist fyrr en að ný útgáfa barst, sem var í kringum 9. apríl. Með þessu hefur tími Alþingis til vinnu við fjármálaáætlun verið þrengdur svo að um munar en hann var þegar af skornum skammti.
    Hvað varðar velferðarnefnd ber að geta þess að undir nefndina heyra þau málefnasvið sem hafa að geyma hvað stærstu útgjaldaliðina í íslenskum ríkisfjármálum. Þar má nefna sjúkrahúsþjónustu og aðra heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, málefni fatlaðs fólks, aldraðra og öryrkja, húsnæðismál og fjölskyldumál. Um er að ræða afar stóra málaflokka sem þarfnast mikillar umræðu og yfirferðar. Tímaskortur við þinglega meðferð áætlunarinnar kann því að koma einna helst niður á velferðarnefnd. Er það miður í ljósi þess að hér er um að ræða fyrstu fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar sem stofnuð var með það að leiðarljósi að efla stórlega uppbyggingu innviða.
    Í íslenskri stjórnskipan er það svo að Alþingi fer með fjárveitingavaldið. Í fjárveitingavaldinu felst að Alþingi setur fjárlög á ári hverju auk þess sem það samþykkir fjármálastefnu og fjármálaáætlun til fleiri ára í senn. Sú fjármálaáætlun sem hér er til umfjöllunar kemur sem tillaga frá fjármála- og efnahagsráðherra, en þarf svo að þola þinglega meðferð. Ef virða á fjárveitingavald Alþingis er nauðsynlegt að tryggt verði að nægur tími sé til þinglegrar meðferðar áætlunarinnar. Að takmarka tíma til umfjöllunar takmarkar möguleika Alþingis til að veita málinu góða meðferð auk þess sem það takmarkar möguleika nefndarmanna og þingmanna á að taka upplýsta ákvörðun um fjármálaáætlunina við atkvæðagreiðslu. Slík framkvæmd kann að vega að þrískiptingu ríkisvalds og færa meira af valdinu í hendur ráðherra á kostnað Alþingis. Minni hlutinn beinir því til fjárlaganefndar að beita sér fyrir því að standa vörð um hlutverk Alþingis sem handhafa fjárveitingavalds.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
    Málefnasvið sjúkrahúsþjónustu hefur að geyma stærsta einstaka útgjaldalið fjármálaáætlunarinnar. Er því afar mikilvægt að umfjöllun um málefnasviðið í fjármálaáætlun sé bæði greinargóð og fagleg. Í áætluninni er gert ráð fyrir að útgjöld til málaflokksins aukist úr 83.177 millj. kr. frá fjárlögum ársins 2017 í 91.840 millj. kr. árið 2018 og 110.387 millj. kr. árið 2023.
    Þau markmið sem koma fram í kaflanum eru bæði góð og skýr og ber að fagna því. Því miður er ekki hægt að segja það sama um þær aðgerðir sem fyrirhugaðar eru. Ekki er skýrt með hvaða hætti þær aðgerðir vinna að markmiðum kaflans. Almennt séð er mikill skortur á gagnsæi í umfjöllun fjármálaáætlunar um Landspítalann og sjúkrahúsþjónustu. Það er bæði skortur á tölulegum upplýsingum hvað varðar fjármögnun aðgerða og einnig hvað varðar markmið áætlunarinnar.
    Í áætluninni er að finna talsverða aukningu á framlögum til málefnasviðs sjúkrahúsþjónustu á tímabilinu sé miðað við samþykkta fjármálaáætlun síðasta árs sem lögð var fram af þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannessyni. Má vel fagna því að auka eigi framlög til sjúkrahúsþjónustu, en undanfarin ár hefur safnast upp mikil þörf á auknum fjárframlögum til heilbrigðismála á Íslandi en sú aukna þörf hefur mest komið fram í framlögum til Landspítalans. Vert er að benda á að önnur sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir hringinn í kringum landið hafa einnig þörf fyrir aukið fjármagn. Meðal birtingarmynda af þessari uppsöfnuðu þörf er að undanfarin missiri hafa biðlistar lengst svo um munar. Biðlistaátak sem komið var á laggirnar 2016 hefur stuðlað að því að stytta biðlista í tilteknar aðgerðir en nauðsynlegt er að halda áfram vinnu við að stytta biðlistana til að tryggja að þeir lengist ekki á ný. Meðal aðgerða í fjármálaáætlun er að halda áfram átaki í tilteknum aðgerðum til að stytta biðlista. Er sú aðgerð bæði góð og mikilvæg.
    Í svo stórum útgjaldalið sem þessum er ámælisvert að ekki sé að finna frekari sundurliðun á útgjaldaliðum. Nefndin hefur ekki fengið aðgang að sundurliðun upphæða sem fram koma í áætluninni þar sem rekstrarkostnaður og stofnkostnaður væri aðskilinn. Þannig er ekki hægt að greina hve mikill hluti kostnaðar er ætlaður til að vinna að byggingu nýs Landspítala sem og að öðrum byggingarframkvæmdum, t.d. byggingu legudeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Því er ekki hægt að greina hve miklu af auknu fjármagni er ætlað að fara til þess að styrkja rekstur sjúkrahúsa. Eðlilegt væri að hægt væri að finna aðgreiningu á rekstrarkostnaði og stofnkostnaði. Þá væri einnig æskilegt að enn frekar væri hægt að greina rekstrarkostnað.
    Þá tekur fjármálaáætlun ekki á miklum mönnunarvanda sem liggur fyrir í sjúkrahúsþjónustu. Núverandi staða er sú að of mikið álag er á starfsfólki sem starfar á sjúkrahúsum. Þannig kom fram í máli gesta nefndarinnar að hér á landi væri allt að tvöfalt álag á lækna og hjúkrunarfólk sé vinnuálag borið saman við sambærilegar sjúkrastofnanir í Svíþjóð. Þá eru fram undan miklar kjaradeilur. Nú þegar er okkur mikill vandi á höndum hvað varðar stöðu ljósmæðra á Landspítalanum. Í stað þess að stefna að verkfalli hafa ljósmæður í miklum mæli sagt upp störfum sínum. Þegar þessi umsögn er rituð hafa á þriðja tug ljósmæðra sagt störfum sínum á Landspítalanum lausum, af þeim u.þ.b. 150 sem þar starfa. Engin lausn er í sjónmáli varðandi kjaradeilu ljósmæðra. Ljóst er að ef ekki er gripið til aðgerða mun mönnunarvandi í sjúkrahúsþjónustu aðeins aukast. Á bls. 320 í áætluninni er að finna aðgerðir sem snúa að því að vinna á umræddum mönnunarvanda en þar má sérstaklega nefna aðgerð nr. 6 um að fjölga fagfólki til að mæta metinni mannaflaþörf. Afar mikilvægt er að unnið sé staðfastlega að því að draga úr mönnunarvanda Landspítalans til lengri tíma.
    Að lokum ber að taka fram varðandi málefnasvið sjúkrahúsþjónustu að undir málefnasviðið heyra nokkrar stéttir sem eru að mestu eða að öllu leyti kvennastéttir. Lög um opinber fjármál gera kröfu um kynjaða fjárlagagerð og jafnrétti í fjármálaáætlun. Minni hlutinn saknar kynjaðrar umfjöllunar í málefnasviði sjúkrahúsþjónustu.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
    Undir málefnasvið heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa fellur heilsugæsla, sérfræðiþjónusta og hjúkrun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun og sjúkraflutningar. Af þessum liðum er heilsugæslan sú stærsta, enda veigamikill þáttur í heilbrigðiskerfi okkar. Í umfjöllun fjármálaáætlunar um heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa er að finna háleit markmið. Þetta á sérstaklega við um heilsugæslu. Sem dæmi má nefna að fyrsta markmiðið sem skilgreint er á bls. 326 er skilvirkari þjónusta fyrir sjúklinga sem leita til heilsugæslu. Það að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað er einnig nefnt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem varpar ljósi á hversu rík áhersla stjórnvalda hlýtur að vera á að ná þessu markmiði. Það veldur því vonbrigðum að mæling á stöðu ársins 2017 liggur ekki fyrir og hefur fyrsta mæling á því hver núverandi staða er ekki farið fram. Þá verður að lýsa því sem svo að talsverður skortur sé á skýrleika um það hvernig unnið skuli að þessu markmiði og öðrum markmiðum varðandi heilsugæslu. Ekki er ljóst hversu mikið fjármagn verður veitt til þessa verkefnis, hver kostnaður við það kann að vera. Þá er ekki ljóst varðandi fyrsta markmiðið hver staðan er núna og ekki er ljóst hvert markmiðið er.
    Þá verður að líta til þess að óljóst er hversu mikið á að veita af fjármunum til þess að styrkja þjónustu heilsugæslunnar. Ljóst er að talsverð þörf er á fjármunum til þess að byggja upp þjónustuna. Þá hefur fjármagn skort til þess að hægt sé að sinna heimahjúkrun. Til þess að hægt sé að efla hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað og að styrkja möguleika hennar til að taka við fráflæði sjúkrahúsanna er nauðsynlegt að framlög til hennar verði aukin á næstu árum. Nauðsynlegt er einnig að huga að húsnæðismálum heilsugæslunnar. Öll aukning á starfsfólki krefst fjárfestinga í fasteignum þar sem ekki er rúm til að bæta við stofum og skrifstofum. Mikilvægt er að hugað verði að því í fjárlagagerð til handa heilsugæslunni.
    Eitt markmiðanna sem falla undir heilsugæslu er að auka aðgengi sjúklinga að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu og ber að fagna því markmiði. Þessu markmiði á að ná með því að fjölga geðheilsuteymum innan heilsugæslunnar en í stað þess að þessi mikilvæga þjónusta komi sem viðbót við það góða starf sem hefur verið unnið hjá frjálsum félagasamtökum á að leggja þjónustu frjálsra félagasamtaka niður til að vega á móti. Það er erfitt að átta sig á því hvernig þessar aðgerðir auka fjölbreytni þegar lögð eru niður úrræði sem mikil þörf er á ef marka má notendur þjónustunnar. Í ljósi vaxandi geðheilbrigðisvanda á Íslandi er brýnt að úrræði sem hafa reynst fólki vel séu áfram nýtt þar til kemur í ljós að ekki sé lengur þörf á þeim. Ný geðheilsuteymi gætu mögulega komið í stað þeirra úrræða sem nú er verið að leggja niður en minni hlutinn telur skynsamlegast að bíða þar til reynsla af nýjum teymum hefur leitt í ljós að öruggt sé að leggja önnur úrræði niður.
    Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun er hluti þessa málaflokks og þjónustan veitt á grundvelli rammasamnings við Sjúkratryggingar Íslands. Augljóst er að fjármagn skortir í þennan málaflokk og einfaldast að rýna í niðurstöður stofnunarinnar í því sambandi.
    Sjúkraflutningar eru skilgreindir sem hluti af grunnþjónustu heilsugæslunnar en með skipulag þeirra fara heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni á grundvelli sérstakra samninga við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Rekstur bifreiða, eignarhald búnaðar og innheimtu hefur RKÍ haft með höndum í áratugi. Núverandi heilbrigðisráðherra hefur kynnt að ekki verði samið lengur við sömu aðila. Þetta er kynnt án þess að gerð hafi verið úttekt eða ábatagreining sem lýtur að þeirri breytingu. Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga er lagt til að sjúkraflutningar færist frá ríki til sveitarfélaga. Ekki er að finna í áætluninni áform um að kanna kosti og galla slíkrar verkaskiptabreytingar.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
    Undir málefnasvið hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu falla m.a. hjúkrunar- og dvalarrými. Er það sá málaflokkur sem einna helst hefur þurft að gera átak í á undanförnum árum. Á bls. 331 kemur fram að nú séu 486 hjúkrunarrými í byggingu eða á framkvæmdaáætlun til ársins 2022, þar af 309 ný hjúkrunarrými. Afar mikilvægt er að vinnu við rýmin ljúki sem fyrst þar sem mikil þörf er á að tryggja öllum sem þurfa hjúkrunarrými. Í fjármálaáætlun sem samþykkt var á 146. löggjafarþingi fyrir árin 2018–2022 var það skilgreint sem markmið að meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými yrði 90 dagar árið 2018. Það markmið náðist ekki og lengdist biðtími árið 2017. Við lok árs var meðalbiðtími 106 dagar. Sýnir það fram á hversu illa stjórnvöldum hefur tekist að vinna á þeim vanda sem er fyrir í málaflokknum og undirstrikar það þörfina fyrir aukin fjárframlög til þess að tryggja megi að þau hjúkrunarrými sem nú eru á áætlun verði tilbúin sem fyrst.
    Hagræðing í heilbrigðiskerfinu hefur á undanförnum árum valdið árekstrum milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin reka um 20 hjúkrunarheimili á daggjöldum frá ríkinu samkvæmt samningum. Rammasamningur milli hjúkrunarheimila og ríkisins var gerður í fyrra sem fól m.a. í sér nokkra hækkun daggjalda. Engu síður greiða mörg sveitarfélög umtalsverða fjármuni með þessum rekstri, eða alls um 1 milljarð kr. á ári. Fjármálaáætlun tekur ekki á þessum brýna vanda.
    Ríkisstjórnin áformar að fjölga hjúkrunarrýmum um 550 á gildistíma áætlunarinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að fjármálaáætlun eru þessi rými ekki fjármögnuð nema að takmörkuðu leyti og því ljóst að rýmum fjölgar ekki að óbreyttu nema um 150 á tímabilinu nema til komi aukið fé til rekstrar. Þess utan er orðin knýjandi þörf á að endurbæta eldri rými og breyta í samræmi við breyttar og auknar öryggiskröfur og byggingarreglugerðir. Ekki liggur fyrir hvort raunhæf áætlun er til um þann þátt en upphæðir sem skilgreindar eru í þau verkefni eru óraunsæjar.
    Undir málefnasviðið fellur einnig málaflokkurinn endurhæfingarþjónusta. Þar undir eru endurhæfingarrými sem eru ætluð fólki óháð aldri sem þarfnast þverfaglegrar endurhæfingar vegna færniskerðingar af völdum veikinda, slysa eða annarra vandamála. Þannig falla undir málefnasviðið framlög til SÁÁ. Afar mikilvægt er að fjárframlög til málaflokksins séu með þeim hætti að aðgengi sé tryggt að fjölbreyttum endurhæfingarúrræðum sem henta mismunandi einstaklingum. Þannig verður að gera þær kröfur til þeirra samninga sem Sjúkratryggingar Íslands gera í þessum málaflokki að hugað sé að því hvernig fjármunir nýtast sem best til að þjóna heildarhagsmunum notenda.

26 Lyf og lækningavörur.
    Undir málefnasviðið falla málaflokkar lyfja, lækningatækja og hjálpartækja. Gert er ráð fyrir að framlög til málefnasviðsins aukist frá 22.509 millj. kr. á fjárlögum ársins 2017 í 27.040 millj. kr. árið 2023. Athygli vekur að undir málaflokk lyfja eru aðeins skilgreind tvö markmið, annars vegar að bæta aðgang allra landsmanna að nauðsynlegum lyfjum og að draga úr mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja í þeim flokkum þar sem notkun er tvöfalt meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Þannig eru tvö helstu markmið í málaflokknum gagnstæð, þ.e. annað snýr að því að takmarka aðgengi að lyfjum en hitt að auka. Sýnir þetta fram á hversu mikilvægt er að gæta að jafnvægi í málaflokknum. Sé það markmið yfirvalda að draga úr misnotkun geð- og verkjalyfja verður að gera það með þeim hætti að komið sé til móts neytendur og þeim hjálpað að draga úr eða hætta neyslu. Markmiðinu verður ekki náð með hertri löggæslu eða eftirliti eins og reynslan hefur sýnt fram á.
    Hjálpartæki eru stöðugt að verða mikilvægari, ekki síst í þeirri umræðu sem sífellt verður fyrirferðarmeiri að einstaklingar búi á eigin heimili og á sínum forsendum lengur en tíðkast hefur. Þetta á ekki síst við um fatlaða einstaklinga sem nú geta notið NPA-samninga og þurfa viðhlítandi stuðningsúrræði.

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks.
    Á málefnasviðinu er að finna nokkra afar mikilvæga málaflokka. Undir málefnasviðið falla m.a. bætur vegna örorku samkvæmt lögum um almannatryggingar og samkvæmt lögum um félagslega aðstoð auk annarra örorkugreiðslna og jöfnunar á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða. Þá heyra málefni fatlaðs fólks undir málefnasviðið.
    Undanfarin ár hefur öryrkjum fjölgað hér á landi. Ein af aðgerðum sem skilgreindar eru í áætluninni er að greina orsakir þess að öryrkjum fjölgar og finna leiðir til að bregðast við þeim. Afar mikilvægt er að þessi greining fari fram og varpi ljósi á ástæður þess að öryrkjum í samfélaginu fjölgar. Læknavísindi nútímans tryggja fólki betri líkamlega heilsu en nokkurn tímann áður en þrátt fyrir það fjölgar öryrkjum nú talsvert. Ljóst er að nokkuð af þessari aukningu má rekja til geðrænna vandamála. Afar mikilvægt er að þegar orsakir fjölgunar öryrkja verði greindar verði kannað ítarlega hver þáttur streitu og kulnunar sé í þeirri fjölgun.
    Fjallað er á bls. 342 um tiltekna áskorun framfærslukerfis almannatrygginga sem er að aukin hætta sé á því, hafi fólk fengið greiddan örorkulífeyri, að það fái slíkar greiðslur til frambúðar, jafnvel þó að starfsgeta batni. Ástæðan fyrir þessu sé að kerfið innihaldi ekki nægilega hvata til atvinnuþátttöku vegna samspils bótakerfis, skattkerfis og launa. Með þessu er vísað til þeirrar staðreyndar að örorkulífeyrisþegar verða í flestum tilfellum fyrir 100% skerðingu vegna tiltekins hluta launa þeirra, þ.e. svonefndri „krónu á móti krónu“ skerðingu. Samkvæmt fjármálaáætlun kemur til álita að skoða hvort rétt sé að lengja þann tíma sem einstaklingar með skerta starfsgetu geta fengið endurhæfingarlífeyri, hugsanlega tengdan aldri. Þá þurfi kerfið að fela í sér hvata til atvinnuþátttöku en jafnframt að vera einfalt og gagnsætt. Þessi skref kynnu öll að vera til góðs en leysa ekki hið raunverulega vandamál sem er tilvist 100% skerðinga. Slíkar skerðingar eru aldrei réttlátar og minni hlutinn telur að öll vinna í málaflokknum ætti að taka mið af afnámi slíkra skerðinga.
    Þessi staða er sérstaklega ámælisverð þar sem sérstök framfærsluuppbót hefur verið afnumin hjá eldri borgurum sem tryggir þeim talsverða kjarabót. Það hefur hins vegar ekki verið gert fyrir öryrkja. Nú er staðan sú að framfærsla öryrkja hækkar um 60.000 kr. á mánuði þegar þeir verða ellilífeyrisþegar. Fyrir velferðarnefnd liggur nú frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem felur í sér afnám á sérstakri framfærsluuppbót fyrir öryrkja. Afgreiðsla á því frumvarpi mundi bæta kjör öryrkja talsvert og koma til móts við sjónarmið um sanngirni og réttlæti.
    Markmið málaflokks bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar, örorkulífeyris, snúa einna helst að kerfislægum breytingum. Þannig er markmiðið ekki að auka tekjur þessa hóps eða að bæta lífskjör þeirra. Minni hlutinn telur það ámælisvert að stefna ekki að því að hækka framfærslu einstaklinga í kerfinu. Framlög til málaflokksins gefa ekki ástæðu til að halda að það sé ætlun ráðherra að auka verulega framfærslu hópsins. Upphæð framfærslu hefur ekki fylgt launaþróun síðastliðinna ára og er því rík krafa um lagfæringu þar á. Hið sama á við um frítekjumark atvinnutekna sem einnig hefur verið ástæða til að hækka.

28 Málefni aldraðra.
    Um er að ræða afar stórt málefnasvið með mikil útgjöld sem hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og halda áfram að vaxa. Undir málefnasviðið heyra ellilífeyrisbætur sem greiðast samkvæmt lögum um almannatryggingar og öldrunarbætur sem greiðast samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, einnig þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur tengdar öldruðum.
    Ljóst er að á málefnasviðinu eru nokkur aðkallandi verkefni. M.a. þarf að efla möguleika aldraðra til atvinnuþátttöku og um leið gefa þeim kost á sveigjanlegum starfslokum. Þetta er eitt af þeim markmiðum sem skilgreind eru í áætluninni. Hins vegar eru mælikvarðar á framgang markmiðsins eingöngu bundnir við frestun lífeyris og hlutfall ellilífeyrisþega með atvinnutekjur. Sveigjanleiki í starfslokum felst þannig aðeins í því að mögulegt sé að fresta starfslokum en ekki flýta þeim. Aukin atvinnuþátttaka aldraðra verður að fara fram með þeim hætti að hún miði að því að auka frelsi þeirra til að taka ákvarðanir um eigin hagi. Með því að leggja alla áherslu á frestun starfsloka og aukna atvinnuþátttöku aldraðra er ekki verið að vinna að raunverulegu frelsi aldraðra á atvinnumarkaði, heldur einungis að aukinni þátttöku þeirra.
    Þá er ekki í áætluninni að finna nein áform um að bæta kjör aldraðra sem þiggja ellilífeyri, hvorki hækkun á framfærslu né hækkun frítekjumarks. Þá er ekki að finna áform um afnám tekjutenginga gagnvart maka eða sambúðarfólki. Þá er mikil þörf á að efla Framkvæmdasjóð aldraðra sem hefur ekki þjónað tilgangi sínum lengi.

29 Fjölskyldumál.
    Málefnasviðið er nokkuð fjölbreytt þar sem undir það heyrir nokkur fjöldi málaflokka. Meðal þeirra málaflokka sem þar eru undir er fæðingarorlof. Eina markmiðið í málaflokknum er að draga úr röskun á tekjuinnkomu foreldra í fæðingarorlofi. Þar er skilgreindur sem mælikvarði á markmiðið hlutfall feðra miðað við mæður sem fullnýta sjálfstæðan rétt í fæðingarorlofi, einnig hlutfall foreldra sem fá hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi. Eru þessi markmið bæði mikilvæg og fagnar nefndin því. Þó eru fleiri þættir sem líta mætti til við tilhögun fæðingarorlofs. Þar má í fyrsta lagi nefna lengingu fæðingarorlofs. Ekki virðist vera á áætluninni að lengja fæðingarorlof þó að fjallað hafi verið um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem undirritaður var seint á síðasta ári. Þá hefur ekki verið horft til þess að rétta hlut barna einstæðra foreldra. Það að börn einstæðra foreldra hafi takmarkaðri rétt til að eyða tíma heima með foreldrum sínum stríðir gegn hugmyndum um jafnræði og réttlæti. Þá bæta hækkanir á fjárhæð hámarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði ekki kjör þeirra fjölskyldna sem minnst hafa í þjóðfélaginu. Þannig njóta foreldrar með lægri tekjur ekki góðs af aðgerðum í málaflokknum.
    Barnabætur hafa undanfarin missiri farið lækkandi. Skerðingarmörk voru hækkuð um 12,5% árið 2017 en þau höfðu þá verið óbreytt frá árinu 2013. Útgjöld til barnabóta hafa þróast með þeim hætti að árið 2015 voru þau 10.331 millj. kr., árið 2016 9.580 millj. kr., árið 2017 10.743 millj. kr. og samkvæmt fjárlögum ársins 2018 verða þau 10.528 millj. kr. Útgjöldin hafa þannig staðið í stað að mestu leyti, stundum lækkað á milli ára en stundum hækkað. Séu framlög leiðrétt fyrir verðlagsþróun má sjá að útgjöld fara lækkandi frá ári til árs. Útgjöld áætlunarinnar eru ekki sundurliðuð á málaflokka og því ekki hægt að sjá hver áætluð þróun útgjalda til barnabóta er. Miðað við þá staðreynd að hækkun frá árinu 2019 til 2023 á útgjöldum til málaflokksins skuli nema 3.020 millj. kr. og fara úr tæpum 35 milljörðum kr. í tæpa 38 milljarða kr. verður að telja ólíklegt að auka eigi verulega framlög til barnabóta. Því fer stuðningur við barnafjölskyldur að öllum líkindum minnkandi á tímabilinu. Barnabætur nýtast best þeim hópi fólks sem hefur hvað lægstar tekjur og er þannig verið að takmarka þann stuðning sem á að veita tekjulágum barnafjölskyldum. Minni hlutinn telur þetta ámælisvert og hvetur fjárlaganefnd og ráðherra til að beita sér fyrir því að bragarbót verði gerð á.
    Í áætluninni er einnig fjallað um mikilvægi þess að jafna tækifæri innflytjenda til félagslegrar þátttöku og virkni í íslensku samfélagi og að samræma móttöku flóttafólks og innflytjenda. Ef horft er til síðustu tveggja ára má sjá að aldrei hafa jafnmargir einstaklingar verið á flótta vegna stríðsátaka í heiminum. Komum flóttafólks til Íslands hefur fjölgað talsvert. Fjallað er um í áætluninni að tryggja þurfi að þjónusta og móttaka flóttafólks sé jöfn og óháð leiðunum sem flóttafólk kemur eftir til landsins. Er þessi umfjöllun í hrópandi ósamræmi við raunverulega framkvæmd Íslands við móttöku flóttafólks, fyrirvaralausa beitingu stjórnvalda á Dyflinnarreglugerðinni og takmörkun á réttarúrræðum hælisleitenda, t.d. með afnámi frírrar þjónustu sjálfstætt starfandi lögmanna við hælisleitendur og lagaákvæðum um að stjórnvaldskærur fresti ekki réttaráhrifum úrskurða um brottvísun hælisleitenda til öruggra landa. Þrátt fyrir að ný ríkisstjórn hafi tekið við á síðasta ári er ekki að sjá nein merki um stefnubreytingu í þessum málaflokki. Því verður að taka allri umfjöllun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í málefnum flóttafólks með miklum fyrirvara.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
    Í málaflokki vinnumála og atvinnuleysis eru skilgreind tvö aðalmarkmið, annars vegar að draga úr langtímaatvinnuleysi og hins vegar að efla stuðningsúrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu til vinnu. Þetta eru góð markmið sem vert er að vinna að en minni hlutinn telur þó að umfjöllunin sé einföld og endurspegli ekki vinnumarkað nútímans. Fjármálaáætlun sem á að gilda til ársins 2023 verður að taka mið af þeim miklu breytingum sem eru fram undan á vinnumarkaði. Sjálfvirknivæðing er þegar farin að gera störf óþörf og sú þróun verður hraðari með hverju árinu. Nauðsynlegt er að stefnumótun næstu ára fari að taka mark af þessari óumflýjanlegu þróun og horft verði til þess að stytta vinnuvikuna sem og að ráðast í breytingar á menntakerfinu til að undirbúa nemendur fyrir breyttan vinnumarkað í framtíðinni.
    Í málaflokki vinnumarkaðarins eru tvö markmið skilgreind, annars vegar að fyrirbyggjandi sáttamiðlun verði innleidd og hins vegar að forvarnastarf innan fyrirtækja á innlendum vinnumarkaði verði aukið á árunum 2019–2023. Afar mikilvægt er að unnið verði að því að auka sátt á íslenskum vinnumarkaði. Takist íslenskum stjórnvöldum ekki að koma til móts við launþega og stéttarfélög verða kjaradeilur komandi missira stjórnvöldum afar þungur róður.

31 Húsnæðisstuðningur.
    Síðan á árinu 2016 hefur verið viðvarandi vandi á íslenskum húsnæðismarkaði. Birtist vandinn einna helst í verðhækkunum á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem orsakast af eftirspurn sem er langtum hærri en framboð. Hækkanir á húsnæðisverði bitna einna helst á leigjendum og ungu fólki sem reynir að kaupa sitt fyrsta íbúðarhúsnæði. Þetta eru þeir hópar sem hafa alla jafna minnst á milli handanna. Samkvæmt fjármálaáætlun eiga framlög að lækka úr 13.393 millj. kr. árið 2017 í 11.727 millj. kr. árið 2023. Um talsverða raunlækkun er að ræða. Þessir fjármunir fara til vaxtabóta, húsnæðisbóta og til uppbyggingar leiguíbúða. Það að framlög til þessara málaflokka skuli lækka er dæmigert fyrir þá stefnu sem síðustu ríkisstjórnir hafa rekið, þ.e. að rétturinn til að eiga eigið húsnæði eða í það minnsta öruggt þak yfir höfuðið sé aðeins til handa þeim efnameiri. Hugmyndafræðin sem byggist á því að markaðurinn leysi þann vanda sem felst í of litlu framboði er sú sem hefur búið til þá stöðu sem nú blasir við, að uppsöfnuð þörf fyrir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu telji hátt í tugþúsundir íbúða. Ljóst er af fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að hún ætlar ekki að grípa til neinna aðgerða til að aflýsa því neyðarástandi sem ríkir á húsnæðismarkaði.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var talsvert fjallað um að grípa ætti til aðgerða til að finna lausnir á húsnæðisvandanum. Þar var m.a. rætt um að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Þetta markmið hefur ratað í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem þriðja markmið málefnasviðsins. Þar eru mælikvarðar fjöldi kaupsamninga um fyrstu kaup og fjöldi einstaklinga á íbúð. Það er einkennandi fyrir tóm loforð stjórnarsáttmálans og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki að engin staða er skráð fyrir árið 2017 í fjölda kaupsamninga um fyrstu kaup, ekkert viðmið er fyrir árið 2019 og ekkert viðmið fyrir árið 2023. Aðgerðir til að svara þessu markmiði er endurskoðun stuðningskerfa með það að markmiði að þau nýtist betur ungu fólki og tekjulágum og stuðningur við fyrstu kaupendur. Þessi markmið eru eins óljós og hugsast getur og miðað við að framlög til málaflokksins eiga að lækka er afar erfitt að taka þau alvarlega. Raunar má segja að allir þeir þættir sem fram koma í stjórnarsáttmála um húsnæðismál séu ólíklegir til að verða að veruleika ef taka á mark á fjármálaáætluninni.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
    Undir málefnasviði lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála er að finna lýðheilsu, forvarnir og eftirlit, jafnréttismál og stjórnsýslu velferðarmála. Samkvæmt áætluninni eiga útgjöld til málaflokksins að lækka úr 8.859 millj. kr. árið 2018 í 8.346 millj. kr. árið 2023. Því á að lækka útgjöld til lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála. Slíkar aðgerðir eru afar óheppilegar þegar nú er þörf sem aldrei fyrr á að vinna áfram að því að bæta lýðheilsu landsmanna.
    Í fjármálaáætlun hafa tvö markmið verið skilgreind þegar kemur að jafnréttismálum, annars vegar að launajafnrétti verði náð og hins vegar að dregið verði markvisst úr ofbeldi í nánum samböndum og kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Þessu verði náð með auknu og efldu samstarfi milli menntakerfisins, réttarvörslukerfisins og velferðarkerfisins.
    Þegar kemur að útfærslu á því hvernig markmiðinu um að launajafnrétti verði náð er áherslan eingöngu á eftirfylgni jafnlaunastaðals sem felur í sér áherslu um að launamun innan vinnustaða verði útrýmt. Hagsmunasamtök launþega hafa endurtekið bent á að megináskorunin þegar kemur að launamun kynjanna er mun fjölþættari og því þarf einnig að vinna í öðrum orsökum launamunar kynjanna.
    Norrænir sérfræðingar í jafnréttismálum hafa ítrekað bent á að það verði að grípa til aðgerða til að ráðast að rótum hverrar ástæðu fyrir sig til að jafna megi stöðu kynjanna. Ekki er fjallað um nein þessara atriða í tillögunni og brýnt að bæta úr því.
    Nær engin umfjöllun er um aðgerðir í tengslum við #metoo-umræðuna í fjármálaáætluninni. Bent er á að kjarni þeirrar byltingar varðar ofbeldi og áreitni gagnvart konum á vinnustöðum. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið nein skref til að stuðla megi að því að útrýma þessum vanda á vinnustöðum fyrir utan skipan starfshóps sem á að meta umfang hans.
    Eitt af mikilvægustu fyrstu skrefum hlýtur að vera að auka framlög til fræðslu, að virða lagaskyldu um að nemendur hljóti jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og að leggja aukið fjármagn í eftirlit hjá Vinnueftirlitinu sem og Jafnréttisstofu.

Lokaorð.
    Minni hlutinn lýsir vonbrigðum sínum með fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Undanfarið hefur verið mikil umræða um að við upplifum nú áður óþekkta hagsæld. Þá var því lýst við myndun ríkisstjórnarinnar seint á síðasta ári að hún stæði fyrir uppbyggingu innviða sem var verkefni sem hafði lengi setið á hakanum. Það út af fyrir sig kann að vekja furðu þar sem stærsti þingflokkurinn sem á aðild að núverandi ríkisstjórn hefur átt aðild að öllum ríkisstjórnum sem hafa verið myndaðar síðan 2013. Það mætti þannig velta því fyrir sér hvaða forsendur eru breyttar nú. Sú fjármálaáætlun sem hér er til umræðu varpar þó ljósi á það að í raun eru forsendurnar lítið breyttar. Í nokkrum málaflokkum er að merkja nokkra aukningu útgjalda frá síðustu fjármálaáætlun, sem ber að fagna, en þegar á allt er litið er ekki í þessari áætlun að finna þá miklu innviðauppbyggingu sem lofað var við myndun ríkisstjórnarinnar.
    Á þessu áður óþekkta hagvaxtarskeiði felast tækifæri sem ber að nýta. Við höfum nú tækifæri til að veita fjármuni í raunverulegar forvarnir. Við getum tekið skref á borð við það að stytta vinnuvikuna, unnið að því að auka hamingju fólks og lyft þeim sem þurfa úr fátækragildru. Við getum afnumið skerðingar og gripið til skilvirkra aðgerða til að útrýma fátækt á Íslandi. Það er skynsamlegasta og besta forvarnastarfið sem er hvað best fallið til að auka hamingju og velsæld Íslendinga. Minni hlutinn mælir með því að litið verði til framangreindra þátta og þessari fjármálaáætlun hafnað.

Alþingi, 9. maí 2017.

Halldóra Mogensen, form.,
Anna Kolbrún Árnadóttir,
Guðjón S. Brjánsson,
Guðmundur Ingi Kristinsson.