Ferill 632. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 942  —  632. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2023.


1. Inngangur.
    Á vettvangi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, árið 2023 var árásarstríð Rússlands í Úkraínu enn í brennidepli, sem og áhrif þess á starfsemi ÖSE og ÖSE-þingsins. Á vetrarfundi ÖSE-þingsins í Vín í febrúar var ár liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu og einkenndist fundurinn af spennu og deilum vegna þátttöku sendinefndar rússneskra þingmanna. Var það í fyrsta skipti frá því stríðið braust út sem rússneskir þingmenn tóku þátt í fundum ÖSE-þingsins en Rússland átti hvorki fulltrúa á ársfundi þingsins í Birmingham í júlí 2022 né á haustfundi þess í Varsjá í nóvember sama ár þar sem bresk og pólsk stjórnvöld neituðu að veita þeim vegabréfsáritanir. Á haustfundinum í Varsjá var lögð fram tillaga reglunefndar um breytingu á starfsreglum ÖSE-þingsins þess efnis að víkja mætti aðildarríki af þinginu fyrir gróf brot gegn ákvæðum Helsinki-lokagerðarinnar sem kveður á um að aðildarríkin virði landamæri hvers annars og vinni að friði, öryggi, lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. Ekki náðist samstaða um tillöguna. Ólíkt breskum og pólskum stjórnvöldum er austurrískum stjórnvöldum lagalega skylt að veita sendinefndum aðildarríkja ÖSE og annarra alþjóðlegra stofnana sem staðsettar eru í Vín vegabréfsáritanir til landsins og því var ekki hægt að meina rússnesku landsdeildinni þátttöku á vetrarfundinum í febrúar 2023 með sama hætti og áður. Í ljósi þessa ákvað úkraínska landsdeildin að sniðganga fundinn en þingmenn hennar komu þó til Vínar og tóku þátt í óformlegum fundum og viðburðum á jaðri vetrarfundarins. Þingmenn annarra ríkja en Rússlands kepptust við að fordæma innrás og stríðsglæpi Rússlands harðlega á sameiginlegum fundi og fundum í málefnanefndum. Þá voru fánar Úkraínu áberandi í fundarsölum og þegar fulltrúar Rússlands og Belarúss tóku til máls gekk stór hluti þátttakenda á dyr.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins í Vancouver um mánaðamótin júní/júlí var stríðið í Úkraínu enn í forgrunni. Endurskoðaðar tillögur reglunefndar um breytingar á starfsreglum ÖSE-þingsins voru lagðar fyrir ársfundinn en aðeins voru teknar til umræðu tillögur um aukið kynjajafnrétti og þær samþykktar. Ekki náðist samstaða varðandi skilyrði til brottvísunar aðildarríkja af ÖSE-þinginu og er staða Rússlands því óbreytt innan þingsins. Áhrif árásarstríðsins á starfsemi ÖSE voru einnig áberandi í umræðum á ársfundinum og deildu þingmenn meðal annars áhyggjum sínum af fjármögnun starfseminnar í ljósi þess að Rússland stæði í veg fyrir samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir næsta starfsár. Að auki bæru níu aðildarríkja ÖSE hitann og þungann af heildarkostnaði og Rússland væri þeirra á meðal með um 6% af heildarfjármagni stofnunarinnar en að stjórnvöld hefðu stöðvað greiðslur til stofnunarinnar á árinu. Þingmenn höfðu einnig áhyggjur af yfirlýsingum Rússlands um að stjórnvöld þar í landi myndu beita sér gegn því að Eistland tæki við formennsku í ÖSE af Norður-Makedóníu í ársbyrjun 2024 og kæmu jafnframt í veg fyrir að hægt yrði að skipa í lykilstöður innan ÖSE, þar á meðal í stöðu framkvæmdastjóra Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODHIR). Á fundinum var stofnaður sérstakur stuðningshópur um málefni Úkraínu sem ætlað er að tryggja að ólöglegt árásarstríð Rússlands verði áfram í brennidepli í allri starfsemi þingsins. Þá var einnig samþykkt ályktun þess efnis að framvegis yrðu fundir ÖSE-þingsins, utan vetrarfundar í Vín, ekki haldnir í ríkjum sem hefðu í hyggju að veita fulltrúum Rússlands vegabréfsáritanir. Alls voru samþykktar 16 aukaályktanir á ársfundinum, m.a. um trúverðugleika ÖSE og ÖSE-þingsins vegna árásarstríðs Rússlands, um brottnám úkraínskra barna af hernumdum svæðum í Úkraínu, um stuðning við lýðræði í Belarús, um kynjaðar afleiðingar átaka, um aukið gyðingahatur á ÖSE-svæðinu, um eðli og aðgerðir Wagner-hópsins og um misnotkun og mansal á konum og börnum frá Úkraínu. Í lok ársfundar var Pia Kauma frá Finnlandi kjörin nýr forseti ÖSE-þingsins.
    Á haustfundi ÖSE-þingsins í Jerevan voru áskoranir ÖSE áfram í brennidepli ásamt umræðu um árásarstríð Rússlands í Úkraínu en Rússland ákvað að senda ekki fulltrúa á fundinn. Hið sama var uppi á teningnum hjá sendinefnd Aserbaísjan en hún sendi frá sér yfirlýsingu í aðdraganda fundar þar sem því var lýst yfir að þau gætu ekki tekið þátt þar sem ekki yrði unnt að tryggja öryggi þeirra, að þeirra mati. Umræða um samskipti Armeníu og Aserbaísjan var fyrirferðarmikil á fundinum og árás Aserbaísjan á Nagorno-Karabakh og mannúðarástandið sem skapaðist þegar 100.000 manns af armenskum uppruna flúðu svæðið yfir landamærin til Armeníu. Þá voru átökin fyrir botni Miðjarðarhafs einnig áberandi og kom samstarfsvettvangur um málefni ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs saman í tengslum við fundinn. Aðilar að honum eru Túnis, Alsír, Marokkó, Ísrael, Jórdanía og Egyptaland auk aðildarríkja ÖSE-þingsins. Á haustfundinum fóru einnig fram sérstakar umræður um spillingu sem grundvallarógn við frið og öryggi og um verndun minnihlutahópa og fórnarlamba afleiðinga átaka.
    Íslandsdeild ÖSE-þingsins tók á móti tveimur fulltrúum ÖSE-þingsins hér á landi á árinu. Margareta Cederfelt, forseti ÖSE-þingsins, sótti Ísland heim í apríl og átti þá fund með fulltrúum deildarinnar um starfsemi og rekstur ÖSE-þingsins, árásarstríð Rússlands í Úkraínu og áhrif þess á hlutverk og starfsemi ÖSE. Þá áttu fulltrúar Íslandsdeildar einnig fund með Mark Pritchard, sérstökum fulltrúa ÖSE-þingsins í málefnum norðurslóða, en hann var hér á landi dagana 6.–8. nóvember til þess að kynna sér ýmis málefni norðurslóða, svo sem öryggismál, rannsóknir, leit og björgun og auðlindastýringu.
2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, starfar á grundvelli Helsinki-lokagerðarinnar (e.  Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Með Helsinki-lokagerðinni skuldbundu aðildarríkin sig til þess að bæta samstarf sín á milli, virða landamæri hvert annars og tryggja mannréttindi íbúa sinna. Helsinki-lokagerðin er hins vegar ekki hefðbundinn sáttmáli í lagalegum skilningi þar sem hún er ekki staðfest af þjóðþingum í löndum þeirra þjóðhöfðingja sem undir hana rituðu. ÖSE er ólík öðrum fjölþjóðlegum stofnunum hvað þetta varðar. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.     Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e.  Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 57 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 323 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og við fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarríkjanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE er þingið hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans. ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið hefur samvinnu við Mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Einnig hefur ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar ef þær hljóta samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram.
    Þessu til viðbótar getur forseti þingsins skipað tímabundið sérlega fulltrúa og stjórnarnefnd tekið ákvörðun um stofnun sérnefndar (e.  ad hoc committee) til að ræða, taka afstöðu til og vera ráðgefandi um aðkallandi málefni eða úrlausnarefni. Einnig eru stofnaðir sérstakir vinnuhópar og þingmannalið (e.  parliamentary team) um ákveðin málefni. Sérnefndir hafa t.d. verið stofnaðar um málefni Abkhasíu, Kósovó, Belarús og fangabúðir Bandaríkjahers í Guantánamo á Kúbu. Starf sérnefndanna hefur oftar en ekki skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi. Í lok árs 2023 voru starfandi sérstakar nefndir eða hópar um fólksflutninga, baráttuna gegn hryðjuverkum og um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins og málefni Úkraínu. Forseti ÖSE-þingsins getur einnig skipað sérlega fulltrúa í tilteknum málum. Í lok árs 2023 voru starfandi sérlegir fulltrúar um gyðingahatur, kynþáttahatur og skort á umburðarlyndi, um málefni norðurslóða, um jafnrétti kynjanna, um loftslagsbreytingar, um vítahring átaka, um baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, um mansal, um baráttu gegn spillingu, um pólitíska fanga, um virkjun ungmenna, um málefni Miðjarðarhafsins, um Suður-Kákasussvæðið, um Suðaustur-Evrópu, um Austur-Evrópu og um Mið-Asíu. 3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Við upphaf árs 2023 áttu eftirfarandi aðalmenn sæti í Íslandsdeild ÖSE-þingsins: Bryndís Haraldsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Ágúst Bjarni Garðarsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Birgir Þórarinsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jóhann Páll Jóhannsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Hinn 23. janúar urðu þær breytingar á Íslandsdeildinni að Birgir Þórarinsson tók sæti Bryndísar Haraldsdóttur sem aðalmaður jafnframt því sem Bryndís tók sæti varamanns. Þá tók Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir sæti Ágústs Bjarna Garðarssonar sem aðalmaður í deildinni en hann sat einnig áfram sem varamaður. Jóhann Páll Jóhannsson tók sæti aðalmanns 18. september af Helgu Völu Helgadóttur sem látið hafði af þingmennsku og varð Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingar, varamaður. Hinn 24. október varð sú breyting gerð að Dagbjört Hákonardóttir, þingflokki Samfylkingar, varð varamaður í stað Loga Einarssonar.
    Birgir Þórarinsson var kosinn formaður Íslandsdeildar ÖSE-þingsins á fundi 1. febrúar. Jóhann Páll Jóhannsson var kosinn varaformaður á fundi deildar þann 15. nóvember.
    Ritari Íslandsdeildar var Auður Örlygsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2023 var eftirfarandi:
     1.      Nefnd um stjórnmál og öryggismál     Birgir Þórarinsson.
     2.      Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál     Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
     3.      Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál     Helga Vala Helgadóttir /Jóhann                              Páll Jóhannsson.
    Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu í tengslum við heimsókn forseta ÖSE-þingsins til landsins, til að undirbúa þátttöku sína á fundum ÖSE-þingsins og eins til þess að kjósa nýjan formann og varaformann eins og að framan er getið. Birgir Þórarinsson stýrði samráðsfundi formanna og varaformanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltslanda á ÖSE-þinginu sem fram fór í Vancouver við upphaf ársfundar ÖSE-þingsins. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir gegndi stöðu varaformanns tengslanets ungra þingmanna á ÖSE-þinginu. Þá sátu fulltrúar Íslandsdeildar einnig nokkra netfundi á árinu, bæði á vegum ÖSE-þingsins en eins að frumkvæði formanna lettnesku og litáísku landsdeildanna þar sem málefni á borð við jafnréttismál, framtíðarkynslóðir, öryggismál og áhrif árásarstríðs Rússlands á starfsemi ÖSE og aðrar alþjóðastofnanir voru rædd. Margareta Cederfelt, þáverandi forseti ÖSE-þingsins, heimsótti Ísland á árinu og átti fund með Íslandsdeild af því tilefni. Mark Pritchard, varaforseti og sérstakur fulltrúi í málefnum norðurslóða, sótti einnig Ísland heim á nýliðnu ári og átti við það tilefni fund með fulltrúum Íslandsdeildar.

4. Fundir ÖSE-þingsins árið 2023.
    Á venjubundnu ári kemur ÖSE-þingið saman til funda þrisvar. Vetrarfundur er haldinn í febrúar, ársfundur í júlí og haustfundur í október en að þessu sinni frestaðist sá síðastnefndi fram í nóvember.
Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vín 23. og 24. febrúar.
    Fundur ÖSE-þingsins var haldinn í Vín venju samkvæmt. Af hálfu Alþingis tóku þátt í fundinum Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, deildarstjóra alþjóðadeildar Alþingis. Helsta umræðuefni fundarins var staða stríðsins í Úkraínu en á fundardögunum var eitt ár liðið frá innrás rússneska hersins (sjá fylgiskjal I).

Heimsókn Margaretu Cederfelt, þáverandi forseta ÖSE-þingsins, til Reykjavíkur 18. apríl.
    Margareta Cederfelt kom hingað til lands í heimsókn í apríl og átti við það tilefni nokkra fundi, þar á meðal með Íslandsdeild ÖSE-þingsins. Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Birgir Þórarinsson, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Helsta umræðuefni fundarins var árásarstríð Rússlands í Úkraínu og áhrif þess á starfsemi ÖSE-þingsins.
Ársfundur ÖSE-þingsins í Vancouver 28. júní til 4. júlí.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Birgir Þórarinsson, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Á ársfundinum var Vancouver-yfirlýsingin samþykkt, sem sett var saman úr ályktunum málefnanefndanna þriggja og aukaályktunum sem lagðar voru fram af einstökum þingmönnum. Meðal áherslumála voru árásarstríð Rússalands í Úkraínu, pólitískir fangar á ÖSE-svæðinu, flóttamannamál, áskoranir á vettvangi ÖSE, örplastsmengun og mansal, svo að dæmi séu tekin. Stjórnarnefnd samþykkti breytingar á starfsreglum ÖSE-þingsins sem fela í sér aukið jafnrétti við skipan í stöður. Við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir starfsárið 2023–2024 var veitt samþykki fyrir aukafjárveitingu vegna endurskoðunar á starfsemi ÖSE-þingsins. Árlegur samráðsfundur formanna landsdeilda Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna fór fram í aðdraganda ársfundar í Vancouver og var fundarstjórn í höndum formanns Íslandsdeildar (sjá fylgiskjal II).

Heimsókn Mark Pritchard, varaforseta og sérstaks fulltrúa ÖSE-þingsins í málefnum norðurslóða, til Íslands 6.–8. nóvember.
    Mark Pritchard, sérstakur fulltrúi ÖSE-þingsins í málefnum norðurslóða, sótti Ísland heim í byrjun nóvember til þess að afla sér upplýsinga um málefni norðurslóða og forgangsmál Íslands á því sviði og á vettvangi ÖSE. Prithcard sat fund með Íslandsdeild miðvikudaginn 8. nóvember. Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Dagbjört Hákonardóttir, varamaður, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Helsta umræðuefni fundarins voru öryggismál á norðurslóðum, loftslagsbreytingar, leit og björgun, rannsóknir og auðlindastjórnun.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Jerevan 18.–20. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sótti fundinn Dagbjört Hákonardóttir, varamaður, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Helsta umfjöllunarefni haustfundarins var mannúðarkrísan sem skapaðist í kjölfar árásar Aserbaísjan á Nagorno-Karabakh, átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, árásarstríð Rússlands í Úkraínu og áhrif þess á starfsemi ÖSE-þingsins (sjá fylgiskjal III).

Alþingi, 25. janúar 2024.

Birgir Þórarinsson,
form.
Jóhann Páll Jóhannsson,
varaform.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.



Fylgiskjal I.


FRÁSÖGN
af vetrarfundi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Vín 23. og 24. febrúar 2023.


    Vetrarfundur ÖSE-þingsins fór að venju fram í Hofburg-höll í Vínarborg. Helsta umfjöllunarefni vetrarfundarins var staða stríðsins í Úkraínu en á fundardögunum var eitt ár liðið frá innrás rússneska hersins. Vetrarfundurinn einkenndist af spennu og deilum vegna þátttöku sendinefndar rússneskra þingmanna. Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, deildarstjóra alþjóðadeildar.
    ÖSE-þingið hefur allt frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu fordæmt hana harðlega sem skýlaust brot á alþjóðalögum sem gangi í berhögg við grunngildi ÖSE á borð við lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. ÖSE-þingið hefur krafist þess að Rússar dragi herlið sitt skilyrðislaust frá Úkraínu og fordæmt voðaverk rússneska hersins gagnvart almennum borgurum og krafist þess að stríðsglæpamenn verði sóttir til saka.
    Rússland er aðili að ÖSE og ÖSE-þinginu og á vettvangi þingsins hafa verið skiptar skoðanir um þá aðild í ljósi innrásarinnar. Á ársfundi ÖSE-þingsins í Birmingham í júlí 2022 var ítarlega fjallað um stöðu Rússlands innan ÖSE og ályktaði ársfundurinn um að gerð skyldi breyting á starfsreglum ÖSE-þingsins í þá veru að víkja mætti aðildarríki sem færi með hernaði gegn öðru aðildarríki af þinginu. Þegar tillaga að slíkri breytingu var lögð fyrir haustfund ÖSE-þingsins í Varsjá í nóvember 2022 náðist ekki samstaða um hana og komu tvö meginsjónarmið fram. Annars vegar það að vera Rússlands í ÖSE-þinginu væri móðgun við þingið og drægi úr trúverðugleika þess. Rússland hefði brotið gegn öllum gildum ÖSE og ekki væri stætt á öðru en að vísa Rússlandi af ÖSE-þinginu. Hitt sjónarmiðið var það að mikilvægt væri að halda opnum boðskiptaleiðum við Rússland og eiga vettvang til samræðna þegar Rússland væri tilbúið að bæta ráð sitt og ganga að samningaborði. Þátttaka Rússlands í ÖSE-þinginu væri hvort sem er óvirk enda hefðu fulltrúar rússneska þingsins hvorki sótt ársfundinn í Birmingham né haustfundinn í Varsjá að ákvörðun breskra og pólskra stjórnvalda sem neituðu að veita rússneskum þátttakendum vegabréfsáritanir. Það var hins vegar ekki uppi á teningnum á vetrarfundinum í Vín en austurrísk stjórnvöld hafa lagaskyldu til að veita sendinefndum aðildarríkja ÖSE og annarra alþjóðlegra stofnana sem staðsettar eru í Vín vegabréfsáritanir til landsins. Rússneska landsdeildin á ÖSE-þinginu sótti því vetrarfundinn en úkraínska landsdeildin sniðgekk hann og gaf það út að úkraínskir þingmenn mundu ekki sitja í sama sal og talsmenn hins ólöglega árásarstríðs. Það sama gerðu fulltrúar litáíska þingsins. Fulltrúar úkraínska þingsins komu þó til Vínar og tóku þátt í óformlegum fundum og viðburðum á jaðri vetrarfundar ÖSE-þingsins.
    Sameiginlegur þingfundur og fundir málefnanefnda ÖSE-þingsins á vetrarfundinum einkenndust af því að þingmenn annarra ríkja en Rússlands kepptust við að fordæma innrás og stríðsglæpi Rússlands harðlega. Margareta Cederfelt, forseti ÖSE-þingsins, hafði fyrir vetrarfundinn gefið það út opinberlega að fyrir að fá að breiða út áróður og lygar í nokkrar mínútur þyrfti sendinefnd Rússlands að borga með því að sitja undir því í fjölda klukkustunda að heyra innrásina fordæmda og að skýrt kæmi í ljós hve einangaðir Rússar væru á alþjóðavettvangi. Fánar Úkraínu voru áberandi í fundarsölum og þegar fulltrúar Rússlands og Belarúss tóku til máls á sameiginlega þingfundinum og á fundum málefnanefndanna þriggja gekk stór hluti þátttakenda á dyr.
    Á fundi nefndar ÖSE-þingsins um lýðræðis- og mannréttindamál var sérstök umræða um mannréttindabrot á átakasvæðum. Kynntar voru skýrslur sem unnar voru um stríðsglæpi fyrstu fjóra mánuði stríðsins í Úkraínu. Skýrslurnar staðfestu alvarleg brot á alþjóðlegum mannréttindalögum, árásir og morð á óbreyttum borgurum, nauðganir og kynferðisbrot gegn konum og stúlkum, og mannrán og nauðungarflutninga fólks til Rússlands. Ítrekað var rætt um stöðu barna og fullyrt að á annan tug þúsunda úkraínskra barna hefði verið rænt og flutt til Rússlands þar sem hluti þeirra hefði verið nauðungarættleiddur til rússneskra fjölskyldna. Markmiðið væri að slíta börnin frá tungumáli sínu og menningu og rjúfa þar með tengsl þeirra við úkraínskt þjóðerni. Fulltrúar bandarísku sendinefndarinnar undirstrikuðu að þarlend stjórnvöld hefðu lýst framferði Rússlands í Úkraínu sem þjóðarmorði og hvöttu þjóðþing aðildarríkja ÖSE-þingsins til að gera slíkt hið sama og tilgreina í því sambandi glæpi rússneska hersins í borginni Maríúpol og brottnám barna þaðan. Marc Perrin de Brichambaut, dómari við alþjóðasakamáladómstólinn, sagði framgöngu Rússa í Úkraínu að öllum líkindum stangast á við alþjóðalög, en undir orðum hans gekk rússneska landsdeildin út úr fundarsalnum.
    Á sameiginlegum þingfundi 24. febrúar flutti Reinhold Lopatka, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins til að koma á þinglegum samræðum vegna Úkraínu (e. parliamentary dialogue), skýrslu sína. Hlutverk fulltrúans var að koma á samræðum á milli Úkraínu og Rússlands, eiga þátt í að draga úr spennu og styðja friðsamlega lausn átakanna. Lopatka sagði erfitt að kalla eftir samræðum í sprengjuregni og að lítill árangur væri af starfinu. Þó hefði hann náð að ræða við átakaaðila um mál á borð við fangaskipti, matvælaöryggi og öryggi kjarnorkuvera í Úkraínu. Í almennri umræðu á þingfundinum var það sameiginlegt stef í máli flestra fulltrúa sem til máls tóku að fordæma innrás Rússlands harðlega, kalla eftir öflugum stuðningi við Úkraínu, krefjast þess að rússneski herinn dragi sig skilyrðislaust frá Úkraínu og að Rússar verði gerðir ábyrgir fyrir stríðsglæpum sínum. Helga Vala Helgadóttir tók þátt í umræðunni á þessum nótum. Hún lagði í ræðu sinni áherslu á að glæpir Rússa væru þjóðarmorð sem yrði að sækja fyrir dómstólum og að rússnesk sendinefnd ætti ekki heima á fundinum. Það væri ekki hægt að ætlast til þess af fulltrúum Úkraínu að þeir sætu í sama sal og iðrunarlausir fulltrúar Rússlands og að það væri skylda ÖSE-þingsins að standa með fórnarlambinu gagnvart árásaraðilanum.
    Í lok vetrarfundarins kom stjórnarnefnd ÖSE-þingsins saman. Aðalgestur stjórnarnefndarinnar var Svetlana Tsíkhanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús. Sendinefnd Belarúss gekk af fundinum í mótmælaskyni við gestinn. Í ræðu sinni sagðist Tsíkhanovskaja vonast til að í framtíðinni gætu þingmenn frá Belarús, kosnir í lýðræðislegum og frjálsum kosningum, tekið sæti á ÖSE-þinginu. Mikilvægt væri að ÖSE-þingið styddi almenning í Belarús í baráttu við einræðisstjórn Lúkasjenkós forseta. Tugir þúsunda stjórnarandstæðinga hefðu verið handteknir í Belarús á síðustu árum og mátt sæta pyndingum og slæmri meðferð í fangelsum sem væru þétt setin af pólitískum föngum. Tsíkhanovskaja hvatti ÖSE-þingið til þess að hafa málefni Belarús áfram á dagskrá og fjalla um ástandið þar á komandi ársfundi í Vancouver í júlí nk. Loks sagði Tsíkhanovskaja almenning í Belarús standa heils hugar með Úkraínumönnum og að Lúkasjenkó forseti væri samsekur Pútín, forseta Rússlands, um stríðsglæpi rússneska hersins í Úkraínu.


Fylgiskjal II.


FRÁSÖGN af ársfundi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Vancouver 28. júní til 4. júlí 2023.

    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Birgir Þórarinsson, formaður, Helga Vala Helgadóttir, varaformaður, og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá ríkjum í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Á ársfundinum var samþykkt Vancouver-yfirlýsingin, sem sett var saman úr ályktunum málefnanefndanna þriggja og aukaályktunum sem lagðar voru fram af einstökum þingmönnum. Meðal áherslumála voru árásarstríð Rússa í Úkraínu, pólitískir fangar á ÖSE-svæðinu, flóttamannamál, áskoranir á vettvangi ÖSE, örplastsmengun og mansal, svo að dæmi séu tekin. Stjórnarnefnd samþykkti breytingar á starfsreglum ÖSE-þingsins sem fela í sér aukið jafnrétti við skipan í stöður. Fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2023–2024 var samþykkt ásamt aukafjárveitingu fyrir endurskoðun á starfsemi ÖSE-þingsins.
    Háttsettir ráðamenn í Kanada settu þingfundinn og í opnunarávörpum var lögð áhersla á samstöðu með Úkraínu, að verja þyrfti lýðræðið gegn einræðisöflum og standa vörð um sameiginleg gildi í fjölbreyttu samfélagi. Til máls tóku Raymonde Gagné, forseti efri deildar kanadíska þingsins, Chris d'Entremont, varaforseti neðri deildar þingsins, og Hedy Fry, formaður kanadísku landsdeildarinnar. Að auki var flutt rafrænt ávarp Justins Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
    Margareta Cederfelt, forseti ÖSE-þingsins, sagði að á þessum tímamótum í samstarfinu, á þrítugasta ársfundi ÖSE-þingsins, skapaði stríðið í Úkraínu gríðarlegar áskoranir fyrir starfsemina. Á sama tíma þyrfti einnig að huga að öðrum áskorunum á borð við loftslagsbreytingar. Mikilvægt skref í rétta átt væri nýstofnuð nefnd á vegum ÖSE-þingsins um aukið samstarf í stuðningi við Úkraínu en henni væri ætlað að tryggja að stríðið yrði áfram í brennidepli í allri starfsemi ÖSE-þingsins. Hún lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að standa við eigin skuldbindingar og halda vinnunni áfram þegar heim væri komið. Þingmenn þyrftu að vera virkir og nýta vettvang ÖSE-þingsins í þágu friðar og stöðugleika. Með samstilltu átaki væri hægt að sigrast á þeim áskorunum sem stofnunin stæði frammi fyrir.
    Í kjölfar opnunarávarpa samþykkti þingið ályktun um trúverðugleika ÖSE og ÖSE-þingsins í ljósi áframhaldandi árásarstríðs Rússlands í Úkraínu.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir ályktanir framsögumanna nefndanna og einnig aukaályktanir á málefnasviði nefndanna. Birgir Þórarinsson tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórnmál og öryggismál. Í ályktun nefndarinnar var áréttað mikilvægi þess að ÖSE-þingið héldi áfram að fordæma harðlega árásarstríð Rússlands í Úkraínu. Spjótum var einnig beint að Belarús og landið tilgreint sem sérstakur vitorðsaðili að stríðinu. Lögð var áhersla á að nýta öryggisinnviði og verkfæri ÖSE til að leiða stríðið til lykta og sýna þannig sjálfstæði og fullveldi Úkraínu viðeigandi virðingu. Í umræðum um skýrsluna beindu þingmenn sjónum að þeim fjölbreyttu aðferðum sem beita þyrfti til að binda enda á árásarstríðið, þ.m.t. að nýta diplómatískar boðleiðir. Þingmenn lýstu áhyggjum af aukinni umræðu og hótunum um beitingu kjarnavopna og flutningi þeirra til Belarúss.
    Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Í ályktun 2. nefndar var lögð áhersla á fjölbreytt málefni á borð við efnahagsöryggi, sjálfbæra efnahagsþróun og endurreisn, verndun norðurslóða og mansal, svo að dæmi séu tekin. Í umræðum beindu þingmenn sjónum að áhrifum stríðsins í Úkraínu á orkuöryggi og mikilvægi þess að auka fjölbreytni í orkuframboði þar sem einsleitt orkuframboð væri ekki einungis óhagkvæmt heldur ógnaði það einnig öryggi. Þá var þörfin fyrir alþjóðleg orkuskipti áréttuð og þau sögð afar mikilvægur liður í baráttunni við loftslagsbreytingar.
    Helga Vala Helgadóttir tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Í ályktun nefndarinnar var sjónum beint að mikilvægi þess að lina þjáningar þeirra sem hafa orðið fyrir áhrifum af stríðsátökum, að því hvernig bregðast megi við dvínandi trausti til pólitískra og lýðræðislegra ferla og að því hvernig standa megi vörð um réttindi minnihlutahópa og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu í samfélaginu. Í ályktuninni var einnig lögð áhersla á þær áskoranir sem gervigreind og aukin tæknivæðing getur haft í för með sér fyrir lýðræði og mannréttindi. Í umræðum um ályktunina beindu þingmenn athyglinni að því flóttafólki sem drukknað hefði í Miðjarðarhafi en bentu jafnframt á nauðsyn þess að fjárfesta í kosningaeftirliti. Lögð var áhersla á þær áskoranir sem blasa við ÖSE, á mannúðarafleiðingar árásarstríðsins í Úkraínu, á stríðsglæpi og á þær ógnir sem steðja að lýðræðinu. Þá lýstu þingmenn einnig áhyggjum af því að grafið væri í auknum mæli undan algildi mannréttinda og áréttuðu að þessi grundvallarréttindi væru óskorðuð og fortakslaus.
    Alls voru samþykktar 16 aukaályktanir á ársfundinum, þar á meðal ályktun um trúverðugleika ÖSE og ÖSE-þingsins vegna árásarstríðs Rússlands, en einnig ályktanir um brottnám úkraínskra barna af hernumdum svæðum í Úkraínu, um stuðning við lýðræði í Belarús, um afleiðingar árásarstríðs Rússlands fyrir konur og börn, um kynjaðar afleiðingar átaka, um eyðileggingu á pólskum gröfum í Belarús, um hlutverk þjóðþinga við að auka aðkomu borgaralegra samtaka að ákvarðanatöku, um aukið gyðingahatur á ÖSE-svæðinu, um hryðjuverkaeðli og aðgerðir Wagner-hópsins, um örplastsmengun, um misnotkun og mansal á konum og börnum frá Úkraínu og um framtíðarkynslóðir.
    Í almennum umræðum vakti Birgir Þórarinsson máls á ástandinu við Latsjín-hliðið, sem tengir héraðið Nagorno-Karabakh við Armeníu. Hann hvatti stjórnvöld í Aserbaísjan til að standa við skuldbindingar um að tryggja frjálsa för fólks til Nagorno-Karabakh og koma þannig í veg fyrir frekara neyðarástand. Þá tók hann til máls í tengslum við ályktun um aukið gyðingahatur á ÖSE-svæðinu og lýsti áhyggjum sínum af stöðu mála. Helga Vala Helgadóttir nýtti málfrelsi sitt í almennum umræðum og talaði fyrir málstað pólitískra fanga og gagnrýndi aðildarríki ÖSE-þingsins vegna máls Julians Assange. Hún kallaði jafnframt eftir því að þingmenn beittu sér gegn framsali Assange til Bandaríkjanna.
    Í lok ársfundar var Pia Kauma frá Finnlandi kjörin nýr forseti ÖSE-þingsins í annarri umferð með 101 atkvæði gegn 68 atkvæðum sem greidd voru Mark Pritchard frá Bretlandi. Greiða þurfti atkvæði að nýju eftir fyrri umferð en þá hlaut Pritchard 70 atkvæði, Kauma 65 og Pere Joan Pons, frambjóðandi frá Spáni, 65 atkvæði. Varpa þurfti hlutkesti um hvort Pons eða Kauma kæmist áfram í síðari umferð atkvæðagreiðslunnar. Einnig var kjörinn nýr gjaldkeri ÖSE-þingsins og þá voru kjörnir þrír varaforsetar og formenn, varaformenn og framsögumenn nefnda. Eftir fundinn verður yfirlýsing ársfundar send til utanríkisráðherra og þjóðþinga aðildarríkjanna í þeirri von að hún hafi áhrif á ákvarðanir ráðherranefndar ÖSE og þar með pólitískar skuldbindingar aðildarríkja.
    Í aðdraganda ársfundar boðaði formaður Íslandsdeildar til fundar formanna og varaformanna landsdeilda NB8-ríkja til að ræða nýjustu framvindu í Rússlandi, tillögur undirnefndar um breytingu á starfsreglum ÖSE-þingsins, endurskoðun á starfsemi þess, samskipti við framkvæmdastjóra þingsins, formennsku í ÖSE, kosningaeftirlit og aukinn stuðning við lýðræðisöfl í Belarús. Landsdeild Úkraínu á ÖSE-þinginu var sérstakur gestur á fundi NB8-hópsins. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir tók virkan þátt í tengslaneti ungra þingmanna, þar sem hún situr einnig í stjórn, en tengslanetið kom reglulega saman meðan á ársfundinum stóð til að ræða fjölbreytt málefni. Samhliða ársfundinum sátu þingmenn Íslandsdeildar vinnuhádegisverð um kynjajafnrétti í tengslum við vopnuð átök og sóttu hliðarviðburð um réttlæti fyrir Úkraínu þar sem frummælendur voru Mark Kersten, Rachel Denber, Roman Avramenko og Oleksandra Matvíjtsjúk. Þá sat Íslandsdeild einnig fund með ræðismanni Íslands í Vancouver, Stefan Glenn Sigurdson.



Fylgiskjal III.


FRÁSÖGN af haustfundi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Jerevan 18.–20. nóvember 2023.


    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sótti fundinn Dagbjört Hákonardóttir, varamaður, auk Auðar Örlygsdóttur, sérfræðings í alþjóðamálum. Dagbjört gegndi stöðu formanns Íslandsdeildar á haustfundinum í fjarveru Birgis Þórarinssonar.
    Alen Simonyan, forseti þjóðþings Armeníu, flutti opnunarávarp þar sem hann lagði áherslu á þær áskoranir sem Armenía stæði frammi fyrir í kjölfar hernaðaraðgerða Aserbaísjans í Nagorno-Karabakh. Hann sagði mikilvægt að halda viðræðum áfram svo að koma mætti á friði á svæðinu til frambúðar. Nú væri sögulegt tækifæri til að finna varanlega lausn á deilum ríkjanna og einarður vilji af hálfu Armeníu til að koma á samskiptum við Tyrkland. Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, talaði á svipuðum nótum í ávarpi sínu. Hann fór yfir friðarferli Armeníu og Aserbaísjans og kynnti nýlegt framtak armenskra stjórnvalda, Krossgötur til friðar, sem felur í sér aukna tengingu Armeníu við nágrannaríki, þ.m.t. Aserbaísjan og Tyrkland, með uppbyggingu samgöngumannvirkja og auknum efnahagstengslum. Hann benti á að samkomulag hefði þegar náðst um grundvallaratriði á borð við friðhelgi yfirráðasvæðis beggja ríkja. Enn væru þó hindranir í veginum, ekki síst vantraust milli ríkjanna tveggja. Í því samhengi vísaði hann til þess að Aserbaísjan fjallaði ekki opinberlega um þann árangur sem náðst hefði og af þeirra hálfu hefðu einnig fallið ummæli þar sem vísað væri til Armeníu sem Vestur-Aserbaísjans. Slíkt mætti túlka sem undirbúning fyrir frekari átök og væri það ekki til þess fallið að auka á traust milli aðila. Í opnunarávarpi sínu minntist Pia Kauma, forseti ÖSE-þingsins, þess að aðildarríki ÖSE hefðu komið saman fyrir hartnær hálfri öld til að rjúfa vítahring eyðileggingar. Mikilvægt væri að minna sig á það þegar hvert neyðarástandið ræki annað án þess að hægt væri að sjá það fyrir. Marghliða samvinna væri áfram lykill að auknu öryggi og stöðugleika en árangur af samvinnu væri háður pólitískum vilja.
    Helga Schmid, framkvæmdastjóri ÖSE, ávarpaði þingið í sérstakri umræðu um ÖSE á umbrotatímum og um hlutverk þingsins við að bregðast við innri og ytri áskorunum. Hún lagði áherslu á að ÖSE gegndi áfram mikilvægu hlutverki við að efla öryggi þrátt fyrir þær áskoranir sem blöstu við stofnuninni. Ritari öryggisráðs Armeníu, Armen Grigoryan, ávarpaði einnig fundinn og greindi frá reynslu Armeníu af lýðræðisvæðingu undanfarinna ára. Hann sagði að miklar breytingar hefðu orðið á stjórnarháttum í landinu og að mikilvægar framfarir hefðu náðst sem gerðu ríkið betur í stakk búið til að bregðast við utanaðkomandi áskorunum. Þetta gæfi góða von um að lýðræði héldist í landinu. Dagbjört Hákonardóttir tók til máls undir þessum lið og vakti athygli á mikilvægi jafnréttis fyrir aukinn frið og stöðugleika í heiminum. Hún beindi athygli að kvennaverkfallinu á Íslandi og sagði að þrátt fyrir að Ísland hefði mælst efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins fjórtán ár í röð hefðu um 100.000 konur og kvár talið nauðsynlegt að krefjast breytinga og fyllt götur borga og bæja í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og vanmati á störfum kvenna 24. október. Hún sagði jafnframt að ÖSE hefði viðurkennt mikilvægi jafnréttis fyrir frið og öryggi. Aukið jafnrétti drægi úr ofbeldi, átökum, öfgahyggju og hryðjuverkum og stuðlaði að auknum pólitískum stöðugleika og bættum stjórnarháttum. Dagbjört hvatti aðildarríki ÖSE til að viðurkenna mikilvægi jafnréttis fyrir aukið öryggi í heiminum og grípa til aðgerða til að tryggja aukið jafnrétti og öryggi á svæðinu. Í umræðum komu fram áhyggjur þingmanna af afleiðingum árásarstríðs Rússlands í Úkraínu fyrir starfsemina; af þeirri stöðu sem upp væri komin varðandi skipan í æðstu stöður innan ÖSE; af formennsku stofnunarinnar frá og með áramótum; og af fjármögnun á starfsemi hennar. Rússland hefur staðið í vegi fyrir öllum helstu ákvörðunum er lúta að áframhaldandi starfsemi stofnunarinnar á næsta ári en ef marka mátti orð Schmid eru vonir bundnar við fund ráðherraráðs ÖSE í Skopje í Norður-Makedóníu 30. nóvember til 1. desember. Þá greindu þingmenn einnig frá áhyggjum af átökum á svæðinu þar sem sérstök áhersla var lögð á hernaðaraðgerðir Aserbaísjans í Nagorno-Karabakh og á neyðarástand sem fylgdi í kjölfar þess að um 100.000 íbúar á svæðinu voru hraktir af heimilum sínum og flúðu yfir landamærin til Armeníu. Hryðjuverk Hamas og árásir Ísraels í kjölfar þeirra voru áberandi í umræðunni. Einnig varð þingmönnum tíðrætt um árásarstríð Rússlands í Úkraínu.
    Á haustfundinum fóru fram tvær aðrar sérstakar umræður. Irene Charalambides, varaforseti og sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins í baráttunni gegn spillingu, stýrði umræðu um spillingu sem grundvallarógn við frið og öryggi. Í umræðum tóku þátt Alexandra Habershon, sérfræðingur hjá Alþjóðabankanum, Mariam Galstyan, meðlimur í spillingarvarnaráði Armeníu, og Konstantine Vardzelashvili frá Mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE. Í umræðum kom fram að spilling væri drifkraftur átaka og að mikilvægt væri að beita alhliða aðgerðum sem næðu einnig til peningaþvættis og skattundanskota. Þá lögðu þingmenn áherslu á að gera þyrfti lagabreytingar til að draga úr spillingu og auka möguleika til að beita viðunandi refsingum við brotum. Lögð var áhersla á að endurskoða þyrfti samskipti stjórnvalda við borgara og bent á mikilvægi aðhalds fjölmiðla og frjálsra félagasamtaka á þessu sviði. Daniela De Ridder, varaforseti, stýrði umræðu um verndun minnihlutahópa og þeirra sem þolað hafa afleiðingar átaka. Fernand de Varennes, fyrrverandi sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna í málefnum minnihlutahópa, og Yeghisheh Kirakosyan, fulltrúi Armeníu á sviði alþjóðaréttar, ávörpuðu fundinn. Í umræðum var lögð áhersla á stöðu flóttafólks í heiminum og nefnd nauðsyn þess að samþykkja löggjöf um inngildingu barna á flótta og að tryggja að viðkvæmir hópar gætu búið við stöðugleika. Þá þyrfti að styrkja viðbrögð alþjóðastofnana við afleiðingum átaka og auka stuðning við þau sem hefðu þolað átök. Samhliða haustfundi fóru fram fundir í tveimur af sérnefndum ÖSE-þingsins, í nefnd um fólksflutninga annars vegar og nefnd gegn hryðjuverkastarfsemi hins vegar. Að auki var haldinn stofnfundur sérstaks stuðningsteymis fyrir málefni Úkraínu (PSTU) sem hleypt var af stokkunum á ársfundi þingsins í Vancouver.
    Þá fór fram fundur á vegum vettvangs um málefni ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs. Aðilar að honum eru Túnis, Alsír, Marokkó, Ísrael, Jórdanía og Egyptaland auk aðildarríkja ÖSE-þingsins. Þar voru átök milli Hamas og Ísraels í brennidepli. Dagbjört Hákonardóttir nýtti vettvanginn til að gera grein fyrir afstöðu Íslands og vekja athygli á nýsamþykktri ályktun Alþingis um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Í ályktuninni var áréttað að koma ætti tafarlaust á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-ströndinni svo að tryggja mætti öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Í ályktuninni kom fram að Alþingi fordæmdi öll ofbeldisverk sem beindust gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefðist þess að alþjóðalögum væri fylgt í einu og öllu, og fordæmdi bæði hryðjuverkaárás Hamas-liða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023 og allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brytu gegn alþjóðlegum mannúðarlögum.
    Tæplega 200 þingmenn frá um 50 löndum tóku þátt í fundinum en landsdeild Aserbaísjans kaus að taka ekki þátt af öryggisástæðum. Þá sendi Rússland ekki fulltrúa á fundinn.


Fylgiskjal IV.


    Yfirlýsingu og ályktanir ársfundar ÖSE-þingsins árið 2023 má finna á eftirfarandi slóð:
www.oscepa.org/en/documents/annual-sessions/2023-vancouver/declaration-29/4744-vancouver-declaration-eng/file