Íslandsdeild þings Vestur-Evrópusambandsins

Þátttöku Alþingis á Þingi öryggis- og varnarmála í Evrópu (VES-þinginu) var hætt árið 2011.

Þing öryggis- og varnarmála í Evrópu

(VES-þingið, Assembly of WEU - The Interparliamentary European Security and Defence Assembly)

Vestur-Evrópusambandið (VES) var varnarbandalag Evrópuríkja sem stofnað var árið 1954. Bandalagið byggðist á Brussel-samningnum svokallaða frá árinu 1948 um sameiginlegar varnir aðildarríkjanna og samstarf þeirra um efnahags-, félags- og menningarmál. Full aðildarríki sambandsins voru alls 10 talsins, þ.e. Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. VES-þingið var sett á laggirnar með Parísarsáttmálanum árið 1954. Sambandsaðild (e. affiliate member) áttu átta ný ESB-ríki, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Aukaaðild (e. associate member) að þinginu áttu þau þrjú evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, þ.e. Ísland, Noregur og Tyrkland. Sambandsaukaaðild (e. affiliate associate member) að VES-þinginu áttu Búlgaría og Rúmenía. Áheyrnaraðild (e. observer countries) áttu þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum, Austurríki, Finnland, Írland og Svíþjóð, auk Danmerkur. Þá höfðu tvö ný ESB-ríki stöðuna sambandsáheyrnaraðili (e. affiliate observer countries), þ.e. Kýpur og Malta. Króatía hafði samstarfssamning (e. affiliate associate partner country) við VES-þingið og fulltrúar þjóðþinga Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Makedóníu, Serbíu og Svartfjallalands höfðu stöðu sérlegra gesta (e. special guests). Loks höfðu fulltrúar rússneska þingsins og úkraínska þingsins stöðu fastagesta (e. permanent guests).

Markmið VES var að tryggja varnir Evrópuríkja samkvæmt V-lið Brussel-samningsins (stofnsamnings VES). Starfsemi og umræður á VES-þinginu mátti greina í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi var þingið vettvangur þingmannavíddar Vestur-Evrópusambandsins og skv. 9. gr. endurskoðaða Brussel-sáttmálans frá 1954 var VES-þingið ráðherraráði VES innan handar og ráðgefandi. VES-þingið hafði eftirlit með framkvæmd sameiginlegra varnarskuldbindinga sem kveðið var á um í 5. gr. sáttmálans. Í öðru lagi hafði VES-þingið það hlutverk, í kjölfar yfirtöku Evrópusambandsins á verkefnum VES árið 2000, að vera tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu og vettvangur þinglegrar meðferðar á sameiginlegri stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Í þriðja lagi fjallaði VES-þingið um milliríkjasamstarf Evrópuríkja á sviði hergagnaframleiðslu og rannsókna- og þróunarstarfs í hergögnum.

Á VES-þinginu sátu 370 fulltrúar. Það var samráðsvettvangur þjóðþinga aðildarríkjanna í öryggismálum og kom saman tvisvar á ári, í júní og desember. Fjöldi fulltrúa fór eftir stærð þjóða og hafði Ísland sem aukaaðildarríki þrjá fulltrúa. Aukaaðilar gátu samkvæmt reglum þingsins tekið virkan þátt í störfum þess. Ísland fékk aukaaðild að VES árið 1992 og var hún formlega staðfest í mars 1995. Aukaaðildin tryggði íslenskum fulltrúum tillögurétt, fullt málfrelsi á þingfundum og rétt til að taka þátt í kosningu framkvæmdastjórnar. Í flestum tilfellum tryggði aukaaðildin atkvæðis- og tillögurétt í nefndarstarfi.

Innan þingsins störfuðu sex málefnanefndir auk forsætisnefndar og stjórnarnefndar. Málefnanefndirnar skiluðu skýrslum sem voru ræddar og ályktað um á þingfundum. Hlutverk þingsins var því að álykta, skora á og beina fyrirspurnum til ráðherraráðs VES. Þingið gat einnig beint tilmælum eða fyrirspurnum til þjóðþinga, fjölþjóðastofnana og ríkisstjórna. Skjöl þingsins voru gefin út á ensku og frönsku en umræður fóru fram á tungumálum aðildarríkjanna. Aðsetur VES-þingsins var í París.

Þróunin í átt að sjálfstæðum hernaðarmætti ESB, gerði það að verkum að hlutverk VES í öryggis- og varnarmálum álfunnar varð nokkru minna en áður í ljósi þess að stofnanir öryggis- og varnarmála álfunnar færðust á ábyrgð ESB. Þrátt fyrir umfangsmiklar stofnana- og skipulagsbreytingar í Evrópu á undanförnum árum var VES-þingið lengi vel eina evrópska þingmannasamkundan sem gaf þjóðkjörnum þingmönnum færi á að fylgjast með og ræða sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar.

Ársskýrslur