Ferill 545. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1051  —  545. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017, frá 22. september 2017, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 22. mars 2018. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2014/26/ESB er ætlað að samræma starfshætti rétthafasamtaka með því að setja þeim samræmdar reglur um starfsramma er varðar stjórnskipulag, skipan fjármála, gegnsæi og upplýsingagjöf. Reglunum er ætlað að tryggja þátttöku rétthafa í ákvarðanaferli rétthafasamtaka og upplýsingaflæði til rétthafa, rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og almennings. Reglurnar eiga auk þess að tryggja að rétt sé staðið að umsýslu tekna sem rétthafasamtök innheimta fyrir hönd rétthafa. Réttindi rétthafa skulu þannig vera tilgreind í samþykktum viðkomandi samtaka auk þess sem rétthafar geta valið sér rétthafasamtök án tillits til ríkisborgararéttar og búsetu. Óheimilt er að neita rétthöfum um aðild að rétthafasamtökum og rétthafar munu sjálfir geta veitt leyfi fyrir notkun sem ekki er í hagnaðarskyni. Þá er það jafnframt markmið tilskipunarinnar að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af rétthafasamtökum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu og tilgreinir tilskipunin í því skyni þær kröfur sem rétthafasamtök, sem munu geta veitt slík leyfi, þurfa að uppfylla.
    Við meðferð málsins hjá nefndinni kom fram að sú aðlögun sem allsherjar- og menntamálanefnd og utanríkismálanefnd kölluðu eftir hefði ekki fengist samþykkt af hálfu Evrópusambandsins. Sú aðlögun varðaði tiltekna þætti tilskipunarinnar sem nefndirnar töldu að gætu reynst íslenskum samtökum á þessu sviði íþyngjandi. Íslensk stjórnvöld óskuðu þess í stað eftir tímabundinni aðlögun frá tilskipuninni með þeim hætti að frestað yrði gildistöku íþyngjandi ákvæða hennar um skýrslugerð rétthafasamtaka, þannig að miðað yrði við fjárhagsárið 2019 í stað 2018 í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í ljósi þess hve umræða um upptöku tilskipunarinnar dróst á langinn var aftur á móti ekki lengur þörf á slíkri aðlögun þar sem umræddar kröfur um skýrslugerð rétthafasamtaka munu ekki gilda fyrr en fjárhagsárið 2019. Fram kom í kynningu fulltrúa utanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis að íslensk rétthafasamtök væru vel undirbúin undir þær breytingar sem felast í tilskipuninni.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Gert er ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra muni leggja fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga sem kveði á um samræmdar reglur um stjórnarhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag samtaka höfundarréttar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Inga Sæland sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 30. maí 2018.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, form. Smári McCarthy, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson.
Logi Einarsson.