Reglur um aðgengi gesta að þingpöllum

Aðgangur að þingpöllum er öllum opinn, en áheyrendur skulu vera kyrrir og hljóðir. Brjóti nokkur því í gegn getur þingvörður eða lögreglumaður vísað honum á braut.

Til þess að koma í veg fyrir að óheimilir hlutir séu hafðir með á þingpalla skulu gestir og farangur þeirra, svo sem yfirhafnir, töskur, innihald vasa og skartgripir skimaðir í málmleitarhliði. Viðmiðunarskrá fyrir hluti sem óheimilt er að hafa á þingpöllum skal vera gestum til sýnis við innkomu í þinghúsið.

Þegar málmleitarhlið er notað má samhliða leita með handleit á slembiúrtaki þeirra gesta sem eru skimaðir. Handleit skal ná til allra gesta sem framkalla viðvörun frá hliðinu. Við handleit má nota handvirkt málmleitartæki.

Leit skal framkvæmd með svo mikilli tillitsemi sem unnt er og hún má aldrei vera víðtækari en nauðsynlegt er. Sá sem sætir leit getur krafist þess að vitni sé tilkvatt. Handleit skal ætíð framkvæmd af einstaklingi af sama kyni.

Sá sem neitar að undirgangast skimun eða að láta leita eða skoða farangur sinn skal synjað um aðgang að þingpöllum.

Gestir sem koma á þingpalla skulu setja töskur og annan handfarangur í vörslu hjá þingvörðum meðan dvalist er á þingpöllum.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 15. ágúst 2014.)