Reglur um þinglega meðferð EES-mála

1. gr.
Yfirumsjón og fundir.

Utanríkismálanefnd hefur yfirumsjón með umfjöllun nefnda Alþingis um EES-mál. Nefndin skal halda fundi um EES-mál eftir þörfum. Fastanefndir Alþingis skulu eiga þess kost að fylgjast með ferli þeirra EES-mála sem undir þær heyra.

2. gr.
Aðkoma á undirbúnings- og mótunarstigi.

Áhersla skal lögð á virka þátttöku Alþingis í Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Alþingis á undirbúning og mótun gerða. Leitast skal við að tryggja hagsmuni Íslands eins framarlega í lagasetningarferli Evrópusambandsins og unnt er. 

Utanríkisráðuneytið veitir utanríkismálanefnd upplýsingar um ESB-áætlanir, umræðuskjöl og önnur stefnumótandi skjöl á vettvangi ESB. Utanríkisráðuneyti sendir utanríkismálanefnd reglulega yfirlit yfir helstu mál sem eru í farvegi innan ESB.

Utanríkismálanefnd boðar fulltrúa utanríkisráðuneytisins á fund nefndarinnar til þess að kynna nefndinni þær upplýsingar sem berast samkvæmt þessari grein.

Utanríkisráðherra skal eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti kynna fyrir utanríkismálanefnd þau mál sem efst eru á baugi innan ESB og varða EES-samstarfið.

Utanríkismálanefnd skal upplýsa eftir þörfum fastanefndir Alþingis um þau atriði sem nefndin fær vitneskju um samkvæmt þessari grein og heyra undir verksvið viðkomandi nefndar.

3. gr.
EES-gagnagrunnur.

Alþingismenn skulu hafa aðgang að opnum EES-gagnagrunni í því skyni að auðvelda Alþingi yfirsýn yfir EES-mál.

4. gr.
Forgangsmál Íslands í EES-samstarfinu.

Utanríkisráðherra skal hafa samráð við utanríkismálanefnd um þau mál í lagasetningarferli hjá ESB sem ríkisstjórn Íslands metur sem forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum.

5. gr.
Meðferð ESB-gerða sem háðar eru samþykki Alþingis.

Utanríkisráðuneyti skal senda utanríkismálanefnd yfirlit yfir þær gerðir sem eru til meðferðar í vinnuhópum EFTA og innihalda ákvæði sem ekki taka gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis.

Í yfirlitinu skal tilgreint sérstaklega hverjum eftirtalinna flokka gerð tilheyrir:
a. Gerð varðar stjórnskipuleg álitamál,
b. Íslensk stjórnvöld hyggjast óska eftir efnislegri aðlögun við gerðina, svo sem undanþágum, sérlausnum eða frestun á gildistöku,
c. Gerð krefst ekki aðlögunar.

Falli efni gerðar undir stjórnskipuleg álitaefni, sbr. a-lið 2. mgr., óskar utanríkismálanefnd eftir áliti þeirra fastanefnda Alþingis sem málaflokkurinn heyrir undir. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallar um þann þátt gerðarinnar sem snýr að stjórnskipulegum álitamálum.

Hyggist íslensk stjórnvöld óska eftir efnislegri aðlögun við gerð, sbr. b-lið 2. mgr., getur utanríkismálanefnd óskað eftir áliti þeirra fastanefnda Alþingis sem málaflokkurinn heyrir undir, telji hún þörf á frekara samráði. Óski utanríkismálanefnd ekki álits fastanefnda Alþingis skal utanríkisráðuneyti upplýst um að samráðsferli teljist lokið.

Krefjist gerð ekki aðlögunar, sbr. c-lið 2. mgr., upplýsir utanríkismálanefnd utanríkisráðuneytið um að samráðsferli teljist lokið.

Ef áætlað er að innleiðing gerðar feli í sér verulegan kostnað skal utanríkisráðuneytið upplýsa utanríkismálanefnd sérstaklega um þá gerð, óháð því hvort samþykki Alþingis sé áskilið.

Utanríkismálanefnd eða að lágmarki fjórðungur nefndarmanna getur ávallt óskað eftir áliti fastanefnda Alþingis á tiltekinni gerð.

Utanríkismálanefnd getur boðað fulltrúa utanríkisráðuneytis, eða annarra fagráðuneyta eftir atvikum, á sinn fund, óski hún frekari skýringa á ESB-gerðum. 

Þegar leitað er álits fastanefnda Alþingis hafa þær það hlutverk að skoða gerðina með tilliti til þess hvort efnislegra aðlagana sé þörf eða líta beri til sérstakra hagsmuna Íslands við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.

Þegar álit fastanefnda liggja fyrir fjallar utanríkismálanefnd um gerðina og gerir utanríkisráðherra grein fyrir sjónarmiðum sínum svo hafa megi þau til hliðsjónar við undirbúning og upptöku gerðar í EES-samninginn. Leitast skal við að samráðsferlinu ljúki innan tveggja mánaða frá því utanríkismálanefnd var upplýst um gerðina. 


6. gr.
Upplýsingagjöf og samráð fyrir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni.

Ákvörðun af Íslands hálfu í sameiginlegu EES-nefndinni verður ekki tekin án undangengins samráðs við utanríkismálanefnd ef ákvörðunin kallar á samþykki Alþingis vegna lagabreytinga sem hún hefur í för með sér.

Utanríkisráðuneytið sendir utanríkismálanefnd lista með umfjöllun um þær ESB-gerðir sem ráðgert er að taka upp í EES-samninginn á næsta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 1. mgr., eins fljótt og auðið er. Tilgreina ber hvort óskað hafi verið eftir efnislegum aðlögunum og hvort þær hafi fengist. Listanum fylgi afrit af minnisblöðum til ríkisstjórnarinnar um gerðirnar. Nefndin skal upplýst sérstaklega um þær gerðir sem varða verulega íslenska hagsmuni eða hafa umtalsverðan kostnað í för með sér, óháð því hvort samþykki Alþingis sé áskilið.

Utanríkisráðherra, eða aðrir ráðherrar eftir atvikum, skal að jafnaði fyrir hvern fund í sameiginlegu EES-nefndinni kynna fyrir utanríkismálanefnd þær gerðir sem taka á upp í EES-samninginn. Við sama tækifæri skal jafnframt leitast við að kynna önnur málefni sem ofarlega eru á baugi í EES-samstarfinu.

7. gr.
Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara í formi þingsályktunar.

Samþykki Alþingis þarf til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari  hefur verið gerður við og gildir um þá meðferð eftirfarandi:
a. Stjórnskipulegum fyrirvara við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skal að jafnaði aflétt með þingsályktun. Telji utanríkisráðherra eða aðrir ráðherrar tilefni til að víkja frá því og afla heimildar til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara með því lagafrumvarpi sem fjallar um innleiðingu hlutaðeigandi ESB-gerðar skal ráðherrann hafa um slíkt samráð við utanríkismálanefnd sem getur heimilað slíka málsmeðferð. Komi til þessa skal viðkomandi fastanefnd upplýst um fyrirhugaða málsmeðferð.
b. Framsetning tillagna til þingsályktunar, sem lagðar verða fyrir Alþingi í þessum tilgangi, skal samræmd þannig að efnisatriði, sbr. c-lið, komi skýrt fram í greinargerð  hverrar tillögu fyrir sig.
c. Í greinargerð komi fram, eftir því sem við á: forsaga þess að málið er komið til kasta Alþingis, tilgangur viðkomandi ESB-gerðar, ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, afstaða sem endurspeglast í efnisreglum gerðarinnar og líklegar og nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum, efnahagslegar og stjórnsýslulegar afleiðingar gerðarinnar og tillögur viðkomandi ráðuneytis.
d. Í greinargerð skal að auki vera staðlaður texti um stjórnskipulegan fyrirvara og hvað hann hefur í för með sér.
e. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar ásamt viðkomandi gerð eða gerðum skal að jafnaði birta sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni.

8. gr.
Frágangur lagafrumvarpa um EES-mál.

Hlutaðeigandi ráðuneyti skulu samhliða eða í framhaldi af framlagningu þingsályktunartillögu, sbr. 7. gr., leggja fram nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Lagafrumvörp skulu lögð tímanlega fyrir þingið í því augnamiði að koma í veg fyrir málshöfðun af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í frumvarpi skal vera sérstakt ákvæði sem vísar til þeirrar ESB-gerðar sem verið er að innleiða í íslenskan rétt.

Í greinargerð með viðkomandi lagafrumvarpi skulu eftirfarandi efnisatriði koma fram:
a. Hvort frumvarpið uppfyllir lágmarkskröfur á grundvelli viðkomandi ESB-gerðar og annarra skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum.
b. Að hvaða marki frumvarpið hafi að geyma frávik frá upphaflegu ESB-gerðinni. Sérstaklega skal tilgreint ef gengið er lengra en lágmarksákvæði viðkomandi gerðar kveður á um og skal rökstuðningur fylgja slíkri ákvörðun. Tilgreina ber sérstaklega ef svigrúm er til staðar við innleiðingu. 

Lagafrumvörp til innleiðingar á ESB-gerð skulu að meginstefnu aðeins fela í sér þær breytingar sem nauðsynlegar eru til  að endurspegla þá EES-skuldbindingu sem við á. Varði frumvarp fleiri atriði en innleiðingu gerðar skal í greinargerð tilgreina sérstaklega hvaða greinar frumvarpsins eru til innleiðingar auk þess sem rökstyðja ber hvers vegna talið var nauðsynlegt að víkja frá meginreglu um hrein innleiðingarfumvörp.

9. gr.
Skýrsla utanríkisráðherra um EES-mál.

Utanríkisráðherra skal árlega leggja fyrir Alþingi sérstaka skýrslu um EES-mál og kynna hana. 

10. gr.
Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.

Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES annast samskipti Alþingis við þingmannanefnd EFTA og sameiginlega þingmannanefnd EES. Íslandsdeildin skal reglulega koma á framfæri við utanríkismálanefnd upplýsingum og nauðsynlegum gögnum um það EES-starf sem fram fer.

11. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með stoð í 8., 18., 24. og 37. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, með síðari breytingum, og taka gildi frá og með 1. september 2018.

12. gr.
Endurskoðun.

Reglur þessar skulu endurskoðaðar eftir þörfum, þó ekki sjaldnar en á fimm ára fresti.

(Samþykkt í forsætisnefnd Alþingis í febrúar 1994. Endurskoðað á fundi forsætisnefndar 16. ágúst 2010 og 13. ágúst 2018.)