Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 829  —  480. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins
að senda fyrirspurnir til ráðherra.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta vestnorræna samvinnu. Fyrirspurnir verði sendar á skrifstofu Vestnorræna ráðsins sem sendi þær áfram til viðeigandi ráðherra. Ráðherrann svari fyrirspurn fulltrúa í síðasta lagi átta vikum eftir að hafa fengið hana í hendur.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2014 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Vestmannaeyjum 3. september 2014.
    Vestnorræna ráðið vill gjarnan efla samstarfið milli vestnorrænu landanna frekar með því að veita kjörnum fulltrúum ráðsins möguleika á að leggja fram fyrirspurn til ríkisstjórna landanna þriggja.
    Með því að opna fyrir þennan möguleika geta fulltrúar aflað greinargóðra svara við því sem spurt er um og þar með fengið betri möguleika á að fylgjast með eða beina athygli að þeirri vinnu ríkisstjórnanna sem snýr að vestnorrænum málefnum eða samstarfi.
    Á vettvangi Norðurlandaráðs geta kjörnir fulltrúar ráðsins lagt fram fyrirspurn til ríkisstjórna aðildarlandanna skv. 57 gr. í Helsingforssamningnum: „Kjörinn fulltrúi getur beint fyrirspurn til ríkisstjórnar eða ráðherranefndarinnar vegna skýrslu eða greinagerðar sem send hefur verið ráðinu eða um önnur mál sem varða norræna samvinnu.“
    Í ljósi þess að fulltrúar Norðurlandaráðs geta lagt fram fyrirspurn til ríkisstjórna á öllum Norðurlöndum og þar með einnig til ríkisstjórna vestnorrænu landanna þykir Vestnorræna ráðinu eðlilegt að fulltrúar þess hafi sama rétt.
    Fyrirspurnir verði sendar til skrifstofu Vestnorræna ráðsins sem skrái þær og sendi síðan áfram til viðkomandi ráðherra, ásamt því að gera svörin kunngerð á heimasíðu Vestnorræna ráðsins þegar þau liggja fyrir.