Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 190  —  185. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2015 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur flugrekenda frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 28/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur flugrekenda frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008.
    Reglugerð (ESB) nr. 452/2014 inniheldur ítarlegar reglur um flugrekendur frá þriðja landi, sem starfrækja loftför sem skráð eru í þriðja landi eða í aðildarríki sem hefur falið þriðja landi lögbundið öryggiseftirlit og er notað af flugrekanda frá þriðja landi til flugs til Bandalagsins, innan þess eða frá því. Með reglugerðinni er Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) veitt heimild til að meta flugöryggi flugrekenda frá þriðja landi í stað þess að flugmálayfirvöld í hverju ríki fyrir sig þurfi að leggja sjálfstætt mat á flugöryggi viðkomandi.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem hér um ræðir er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en jafnframt getur Alþingi heimilað stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES- samningnum en þar sem hún kallaði á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir og 7. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið beri að aflétta með þingsályktun, er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur flugrekenda frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008.
    Reglugerð (EB) nr. 216/2008, um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu var felld inn í EES-samninginn í desember 2011 og öðlaðist gildi 1. mars 2013. Hún mælir fyrir um reglur sem gilda um rekstraraðila í þriðja landi sem stunda flutningaflug innan þess svæðis eða út fyrir það svæði sem samningurinn um alþjóðaflugmál frá 1944 (Chicago-samningurinn) gildir um. Með reglugerðinni var verksvið Flugöryggisstofnunar Evrópu aukið svo það næði til flugrekstrar og starfrækslu loftfara, mats á flugöryggislegum forsendum í upprunaríki flugrekenda í þriðja landi, útgáfu skírteina áhafna, heimilda til rekstrar flugþjálfunar og kennslu, fluglæknasetra og vottunar flugþjálfa.
    Með reglugerð (ESB) nr. 452/2014 er umsóknarferli fyrir flugrekendur frá þriðja landi einfaldað og gert skilvirkara. Reglugerðin inniheldur ítarlegar reglur um flugrekendur frá þriðja landi sem starfrækja loftför sem skráð eru í þriðja landi eða í aðildarríki sem hefur falið þriðja ríki lögbundið öryggiseftirlit og er notað af flugrekanda í flutningaflugi frá þriðja landi til Bandalagsins, innan þess eða frá því. Flugöryggisstofnun Evrópu er heimilað að gefa út heimildir til flugrekenda í þriðju ríkjum út frá flugöryggislegum forsendum og verður afgreiðsla þeirra miðlæg fyrir EES-svæðið í stað þess að flugmálayfirvöld í hverju ríki fyrir sig þurfi að leggja sjálfstætt mat á flugöryggi viðkomandi. Eftir sem áður gefa ríkin hvert um sig heimildir til flugs innan viðkomandi ríkis eða til þess og frá því, að því tilskildu að heimild Flugöryggisstofnunar Evrópu sé þegar fyrir hendi.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Þegar hafa verið gerðar breytingar á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, sem skapa lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðarinnar með stjórnvaldsfyrirmælum. Bætt var við ákvæði sem heimilar ráðherra að setja reglugerðir til að innleiða EES-gerðir sem varða verkefni á sviði Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA), sem rúmast innan reglugerðar um stofnun EASA, og sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Þingsályktunartillaga þessi er engu að síður lögð fram þar sem lög nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, kveða, sem fyrr sagði, á um að stjórnskipulegum fyrirvara beri að aflétta með þingsályktun.
    Gert er ráð fyrir því að innleiðing gerðarinnar hafi jákvæð áhrif á stjórnsýslu og stuðli að auknu flugöryggi.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR
nr. 28/2015

frá 25. febrúar 2015

um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn

SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)          Fella ber inn í EES-samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur flugrekenda frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008 ( 1 ).

2)          XIII. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi bætist við á eftir lið 66nf (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 965/2012) í XIII. viðauka við EES-samninginn:

„66ng.     32014 R 0452: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur flugrekenda frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008 (Stjtíð. ESB L 133, 6.5.2014, bls. 12).

                Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                Orðin „Eftirlitsstofnun EFTA“ bætist við á eftir orðinu „framkvæmdastjórnina“ í a- lið 110. gr. 2. viðauka.“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti reglugerðar (ESB) nr. 452/2014, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 26. febrúar 2015, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins hafi borist ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 25. febrúar 2015.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

formaður.



Fylgiskjal II.


Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 452/2014 frá 29. apríl 2014 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur flugrekenda frá þriðja landi samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008.

www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s0190-f_II.pdf

Neðanmálsgrein: 1
(1) Stjtíð. ESB L 133, 6.5.2014, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 2
(*) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.