Ferill 187. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 340  —  187. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 143/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Rúnar Guðjónsson frá innanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 143/2015, frá 11. júní 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn þrjár gerðir:
     1.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 168/2013 frá 15. janúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjólum.
     2.      Framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 3/2014 frá 24. október 2013 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 168/2013 að því er varðar kröfur um notkunaröryggi fyrir ökutæki vegna viðurkenningar á ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjólum.
     3.      Framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 44/2014 frá 21. nóvember 2013 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 168/2003 að því er varðar kröfur um smíði ökutækja og almennar kröfur vegna viðurkenningar á ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjólum.
    Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 11. desember 2015. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Markmiðið reglugerðar (ESB) nr. 168/2013 er að styrkja löggjöf og reglur um viðkomandi gerðir ökutækja auk þess að efla samræmingu í ESB-gerðarviðurkenningum bifhjóla. Með reglugerðum (ESB) nr. 3/2014 og (ESB) nr. 44/2014 eru settar fram nánari tæknilegar kröfur og aðferðir við prófun sömu gerða ökutækja, framleiðslu þeirra og markaðseftirlit með þeim.
    Reglugerð (ESB) nr. 168/2013 kemur í stað tilskipunar 2002/24/EB um gerðarviðurkenningu á vélknúnum ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum, og afleiddra gerða hennar frá 1. janúar 2016, í því skyni að laga þær að tækniframförum. Reglugerðin fjallar á heildstæðan hátt um gerðarviðurkenningar þeirra ökutækja sem gerðin gildir um og uppfærir löggjöf um ESB-gerðarviðurkenningar með hliðsjón af meginreglunni um algera samhæfingu. Áhersla er lögð á einfaldar og skýrar reglur og meginregluna um frjálst flæði vöru. Þá er framkvæmdastjórninni falið vald til að skilgreina tæknilegar kröfur í afleiddum gerðum. Í reglugerðinni eru ákvæði um kröfur til framleiðenda og skyldur þeirra og yfirvalda á þessu sviði. Flokkar og undirflokkar bifhjóla eru skilgreindir ítarlegar en í fyrri löggjöf og ákvæði sett á sviði mengunarstaðla og markaðseftirlits. Meginbreytingin felst í því að framleiðendum gefst nú sjálfum færi á að sjá um vottun og útfyllingu skjala. Á móti kemur að verði misferlis vart skulu vera til viðurlög við því. Ríkjunum er þar með gert að setja í eigin löggjöf viðurlög við slíkum brotum. Þannig er aðildarríkjum gert að kveða á um sektir fyrir framleiðendur eða rekstraraðila sem gerast brotlegir við atriði á borð við það að framvísa röngum yfirlýsingum sem leitt geta til innköllunar ökutækja, framvísa fölsuðum prófunarniðurstöðum og að gögnum sem varða tækniupplýsingar er leynt eða neitað er að afhenda þau. Af þessum sökum þarf lagaheimild til að innleiða gerðina á Íslandi.
    Framseldar reglugerðir (ESB) nr. 3/2014 og (ESB) nr. 44/2014 eru settar í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 168/2013 og til nánari útfærslu á henni. Í reglugerð (ESB) nr. 3/2014 eru settar fram tæknilegar kröfur sem gerðar eru til framleiðenda ökutækja í L-flokki og aðferðir við prófun þeirra, íhluta og aðskildra tæknieininga fyrir þau, og markaðseftirlit með þeim. Í reglugerð (ESB) nr. 44/2014 eru settar fram tæknilegar kröfur og aðferðir við prófun á framleiðslu ökutækja og almennar kröfur sem gerðar eru til ökutækja í L-flokki. Þar eru jafnframt settir fram staðlar fyrir tæknilega þjónustu og matsaðferðir. Ökutæki sem falla í L- flokk eru til að mynda vélhjól, pallbílar á þremur hjólum og bifreiðar á fjórum hjólum sem eru innan við 400 kg að þyngd. Þyngd rafknúins ökutækis miðast við eigin þyngd án rafgeymis og þríhjóla ökutæki sem ekki fara hraðar en sem nemur 45 km/klst.
    Innleiðing reglugerðar (ESB) nr. 168/2013 hér á landi kallar á breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum, vegna sektarákvæða í 76. gr. gerðarinnar. Þar sem framseldar reglugerðir (ESB) nr. 3/2014 og nr. 44/2014 eru nánari útfærsla á fyrstnefndu reglugerðinni er lagastoð til innleiðingar þeirra ekki heldur fyrir hendi.
    Gert er ráð fyrir því að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á fyrrgreindum lögum á yfirstandandi þingi. Áhrif af innleiðingu gerðanna hér á landi eru aðeins óbein þar sem þær gerðir ökutækja sem gerðirnar taka til eru ekki framleidd hér.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Elín Hirst, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. október 2015.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Karl Garðarsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Frosti Sigurjónsson. Björn Valur Gíslason.