Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 342  —  190. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 9/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar,
prófanir og vottun) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Rúnar Guðjónsson frá innanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 9/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 167/2013 frá 5. febrúar 2013 um viðurkenningu á og markaðseftirlit með ökutækjum fyrir landbúnað eða skógrækt. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 25. ágúst 2015. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Reglugerð (ESB) nr. 167/2013 hefur það markmið að styrkja reglur og auka samræmingu við setningu EB-gerðarviðurkenninga dráttarvéla þar sem áhersla er lögð á að öryggis- og umhverfissjónarmið verði höfð að leiðarljósi. Reglugerðin einfaldar regluverk svo ekki þurfi stöðugt að uppfæra gildandi löggjöf Sambandsins um tækniforskriftir heldur er vísað til gildandi alþjóðlegra staðla og reglna sem aðgengilegar eru almenningi. Reglugerðin mælir fyrir um grundvallarákvæði um notkunaröryggi, öryggi á vinnustað og vistvænleika og felur framkvæmdastjórn ESB að mæla fyrir um tækniforskriftir í framseldum gerðum. Reglugerð (ESB) nr. 167/2013 kemur, frá 1. janúar 2016, í stað tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/37/EB frá 26. maí 2003 um gerðarviðurkenningu á dráttarvélum fyrir landbúnað eða skógrækt, eftirvögnum þeirra og útskiptanlegum, dregnum tækjum ásamt kerfum þeirra, íhlutum og aðskildum tæknieiningum, og afleiddum gerðum hennar.
    Með reglugerðinni er núgildandi kerfi um gerðaviðurkenningar skipt út fyrir gerðarviðurkenningaraðferð Sambandsins sem byggir á meginreglunni um algjöra samhæfingu auk þess sem tekið er tilhlýðilegt tillit til sjónarmiða sem tengjast kostnaðarávinningi með sérstaka áherslu á lítil eða meðalstór fyrirtæki. Reglugerðin fellir úr gildi allar sértilskipanir en þess í stað eru tilvísanir gerðar í samsvarandi reglugerðir efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu, sem Sambandið hefur samþykkt eða gengist undir, og koma í þeirra stað. Hægt verður að vísa í framseldum gerðum ESB í reglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar, ISO-staðla eða staðla Staðlasamtaka Evrópu/Rafstaðlasamtaka Evrópu sem eru aðgengilegir öllum. Þá er aðildarríkjunum falið að mæla fyrir um reglur og viðurlög við brotum framleiðenda og rekstraraðila gegn ákvæðum reglugerðarinnar.
    Innleiðing reglugerðarinnar kallar á breytingar á umferðarlögum, nr. 50 frá 30. mars 1987, þar sem aðildarríkjum er gert að kveða á um sektir fyrir framleiðendur eða rekstraraðila sem gerast brotlegir við atriði sem eru talin upp í 2. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar. Er um að ræða brot á borð við það að framvísa röngum yfirlýsingum sem leitt geta til innköllunar ökutækja, að framvísa fölsuðum prófunarniðurstöðum og að gögnum sem varða tækniupplýsingar er leynt eða neitað er að afhenda þau.
    Gert er ráð fyrir því að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á fyrrgreindum lögum á yfirstandandi þingi. Þar sem gerðin snýr eingöngu að framleiðendum dráttarvéla er einungis búist við óbeinum áhrifum hér á landi af setningu gerðarinnar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Elín Hirst, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. október 2015.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Karl Garðarsson. Frosti Sigurjónsson. Björn Valur Gíslason.