Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 376  —  191. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu
EES-nefndarinnar nr. 25/2015 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar
reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Rúnar Guðjónsson frá innanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2015, frá 25. febrúar 2015, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2014/58/ESB frá 16. apríl 2014 um að koma á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/23/EB. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 25. ágúst 2015. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Tilskipun 2007/23/EB kom á fót grunnreglum um öryggi skotelda og lagði grunn að kerfi til að rekja þá frá framleiðanda til notanda. Með tilskipun 2014/58/ESB er komið á fót skráningarkerfi því sem rætt er um í tilskipun 2007/23/EB til að rekja skotelda frá framleiðanda til notanda. Rekjanleikakerfinu er ætlað að auka öryggi notenda flugeldavara og almennings með því að auðgreina framleiðendur og innflytjendur slíkra vara. Þá er kveðið á um að flugeldavörur skuli merktar með skráningarnúmeri, vera á tungumáli þess ríkis þar sem þær eru settar á markað og vera CE-merktar, auk frekari krafna er varða merkingar. Skylda er lögð á þá sem annast vottanir að halda skrá yfir framleiðendur allra flugeldavara sem þeir hafa prófað og veitt CE-merkingu.
    Í tilskipuninni eru tilgreindar þær upplýsingar sem þurfa að vera í skránni sem þarf að varðveita í tíu ár að lágmarki, uppfæra reglulega og gera aðgengilegar á vefnum. Þá er framleiðendum og innflytjendum skotelda gert að halda skrá yfir skráningarnúmer skotelda sem þeir framleiða eða flytja inn, ásamt viðskiptaheiti þeirra, tegund og framleiðslustað, í a.m.k. tíu ár eftir að varan hefur verið sett á markað. Ef þeir hætta starfsemi skulu þeir flytja skrárnar til lögbærra yfirvalda. Loks er kveðið á um skyldu þeirra til að veita upplýsingar úr skrám sínum til lögbærra yfirvalda og yfirvalda á sviði markaðseftirlits, að fenginni rökstuddri beiðni.
    Framleiðendur bera kostnað og fyrirhöfn af að halda skrár og merkja vöru. Innflytjendur taka á sig ábyrgð framleiðenda þar sem slíkt fyrirkomulag er. Á Íslandi ber innflytjendum samkvæmt núgildandi lögum að tryggja að vara sem hingað kemur frá ESB sé merkt og vottuð til samræmis við EES-reglur. Vara sem kemur frá löndum utan EES-svæðisins er einnig á ábyrgð innflytjenda, sbr. núgildandi lög um neytendakaup, nr. 48/2003, lög um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991, og lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995.
    Framkvæmdartilskipunin kveður nánar á um framkvæmd tilskipunar 2007/23/EB. Innleiðing þeirrar gerðar kallaði á breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum, sem gerð var með lögum nr. 77 frá 9. júlí 2015. Sú breyting myndar einnig lagastoð fyrir innleiðingu framkvæmdartilskipunar 2014/58/ESB með setningu reglugerðar. Innleiðing framkvæmdarreglugerðarinnar kallar því ekki á lagabreytingar. Áhrif af innleiðingu gerðarinnar hér á landi eru óveruleg þar sem engir skoteldar eru framleiddir hér á landi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi Pírata, lýsir sig samþykka nefndaráliti þessu.
    Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. nóvember 2015.

Hanna Birna Kristjánsdóttir,
form.
Elín Hirst,
frsm.
Vilhjálmur Bjarnason.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Karl Garðarsson. Frosti Sigurjónsson.
Björn Valur Gíslason.